13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (2716)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur, fjær og nær. Ekki er tími til þess í fárra mínútna ræðu að taka til meðferðar nema fátt eitt af misheppnuðum verkum hæstv. núv. ríkisstj. í stað þess mun ég því meira tala um stefnu stjórnarinnar. Stjórnarstefnan er vitanlega uppspretta hinna misheppnuðu stjórnarathafna.

Greinilegt er, að stefna núv. ríkisstjórnar er allt önnur stefna en ríkti hjá þjóðinni síðustu þrjá áratugi og var mjög sigursæl til framfara.

Snorra-Edda geymir margs konar sígilda lífsspeki — oft í dæmisögustíl. Á einum stað segir frá því, að Ása-Þór óð ána Vimur, sem er áa mest. Áður en Ása-Þór lagði út í ána, gyrti hann sig orkugjafanum Megingjörðum, og er Þór kom í miðja ána, þá óx svo mjög áin, að uppi braut á öxl honum. En því meira sem áin óx, því sterklegar óð Þór og kvað um leið til árinnar:

„Veiztu, ef þú vex,

þá vex mér ásmegin

jafnhátt upp sem himinn.“

Af þessari sögn er sprottinn gamli íslenzki talshátturinn „að vaxa með Vimur“.

Stefnan, sem þjóðin fylgdi síðustu þrjá áratugina, var hin hetjulega stefna „að vaxa með Vimur“.

Í upphafi tímabilsins gyrti þjóðin sig megingjörðum bjartsýninnar, efldi sig framfaraáhuga og sjálfstrausti, trausti á kosti Íslands og trú á samtakamátt almennings. Þessi stefna, sem Framsfl. hefur verið frumkvöðull að í íslenzkum stjórnmálum og mun halda áfram að þjóna, varð aflvaki framfara á öllum sviðum þjóðfélagsins í sveit og við sjó. Henni á þjóðin mikið að þakka.

Eldra fólk þekkir umskiptin, sem orðið hafa. Þjóðin leysti sig á þessum árum úr ánauð hinnar sáru fátæktar og óttans við sult og klæðleysi og hóf sig á stig velmegunar og fjölþættra lífsþæginda með svo skjótum hætti, að til tíðinda er talið meðal grannþjóða okkar.

Íhaldsflokkurinn gamli tapaði svo rækilega fyrir þessari stefnu, að hann varð hræddur við sitt eigið nafn og tók upp heitið Sjálfstæðisflokkur og fór að reka tækifærispólitík.

Alþýðuflokkurinn átti fyrrum góðan þátt í því með Framsfl. að vinna að alhliða umbótum og kveða íhaldið niður. Þá skildi hann nafn sitt og vann margt fyrir alþýðuna. En valt er völubeinið. Nú hafa foringjar Alþfl. gefið sjálfum sér í blaði sínu heitið toppkratar, auðvitað til aðgreiningar frá hinum alþýðlegu kjósendum sínum, sem þeir líta á sem lágkrata.

Með myndun núv. ríkisstjórnar urðu tímaskipti. Toppkratarnir vöktu upp gamla íhaldið með því að bæna sig á leiði þess, og nú hefur afturgangan þá á valdi sínu. Í stað alhliða framfarastefnu undanfarinna áratuga tók þessi ríkisstjórn upp samdráttar- og kreppustefnu, felldi gengi krónunnar með grófum hætti, fyrirskipaði hærri útlánsvexti en þekkjast hjá öðrum þjóðum, stytti lánstíma og lét minnka útlánastarfsemi, fyrirskipaði sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga að leggja fé sitt til bindingar í Seðlabankann, hversu mikil þörf sem fyrir það fé er heima fyrir, breytti skatta- og útsvarslöggjöf í ójafnaðarátt, þrengdi kosti almenningssamtaka, svo sem samvinnufélaga og verklýðsfélaga, minnkaði stuðning við framkvæmdir almennings.

Sýnt hafði verið fram á, í þann mund sem núv. stjórnarflokkar tóku völd, að halda mætti kaupmætti launa eins háum og hann var í október 1958, ef meiri hluti fengist til þeirra aðgerða. Nú hafa kjör almennings verið stórkostlega skert frá þeirri viðmiðun með efnahagsráðstöfunum ríkisstj. Alltaf herðir meira og meira að. Ég hef ekki tíma til að rökstyðja þetta með dæmum, enda veit ég, að menn þreifa á þessu daglega hver hjá sér og eigin reyndin er ólygnust.

Vinnustöðvanir á þessu ári hafa verið til stórtjóns fyrir hlutaðeigendur og þjóðarheildina. Ríkisstj. reyndi ekki að leysa þær. Þvert á móti ýtti hún fast á þá, er krafizt var kjarabóta af, að láta ekki undan, þó að hún vissi, að undan yrði að láta að lokum og þjóðartapið af vinnustöðvununum yrði hundruð millj. króna, eins og orðið hefur.

Samdráttarstefna stjórnarinnar dregur úr framförum og framleiðslu og þar með atvinnulífi og þjóðartekjum, skapar hugarfar bölsýninnar, kyrrstöðu, afturför, upplausn og skort. Hún sviptir þjóðina megingjörðum bjartsýninnar og um leið þróttinum til að sækja fram og vaxa með straumnum, sem vaða þarf. Hún veldur lömun þjóðarlíkamans, eins og sjálfstæðismaðurinn, formaður Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sagði réttilega í vetur. Hún er lömunarstefna. Sú ríkisstj., sem hefur með aðgerðum sínum valdið lömun þjóðarlíkamans og heldur áfram á þeirri braut, verðskuldar vantraust. Hún er þjóðinni hættuleg.

Og svo hefur ríkisstj. bætt samningum við Breta í landhelgismálinu ofan á allt annað. Það er eins og álög hvíli á þessum mönnum í stjórnarstólunum.

Vinstri stjórnin færði með reglugerð í krafti einhliða ákvörðunar fiskveiðilandhelgina út í 12 mílur 1. sept. 1958. Þurft hafði að beita Alþfl. hörðu í stjórninni, til þess að hann féllist á þetta. Sjálfstfl., sem var þá í stjórnarandstöðu, en hafði haft fulltrúa í nefnd, sem stjórnin hafði sér til ráðuneytis um málið, vildi ekki bera ábyrgð með hinum á útfærslunni.

Eftir að útfærslan hafði verið ákveðin vorið 1955 og þar til hún kom til framkvæmda um haustið, síendurtók Morgunblaðið ádeilur út af henni, og foringjar Sjálfstfl. létu óánægju í ljós á mannfundum. Bretar fylgdust vel með þessu og birtu það í blöðum sínum sem innlegg fyrir sig til andstöðu gegn útfærslunni.

Þegar landhelgisútfærslan kom til framkvæmda, viku allar þjóðir úr landhelginni nema Bretar, sem héldu áfram veiðum undir vernd herskipa. Töldu Bretar líklegt eftir skrifum og tali foringja í stærsta stjórnmálaflokknum, að Íslendingar mundu láta undan, ef slík harka væri sýnd, og höfðu rökstudda ástæðu til að ætla þetta eftir framkomu sjálfstæðismanna, og sjálfsagt hafa þeir líka haft fréttir af tregðu foringja Alþfl. í málinu. En almenningur á Íslandi reis einhuga gegn aðförum Breta og krafðist þess, að ekki yrði undan þeim látið í neinu, þó að þeir beittu ofbeldi.

Nú fóru stjórnarskipti í hönd. Sjálfstfl. myndaði stjórn Alþfl. í svartasta skammdeginu 1958. Sú stjórn stofnaði til tveggja kosninga 1959. Vorið 1959, áður en gengið var til kosninga, tóku stjórnarflokkarnir þátt í að samþ. ályktun um að víkja aldrei — víkja aldrei — í landhelgismálinu.

Bretar fögnuðu stjórnarskiptunum, en gátu þess í blöðum sínum, að þeir skildu, að stjórnarfl. gætu ekki slakað til í landhelgismálinu fyrir kosningarnar. Í kosningunum sóru frambjóðendur stjórnarflokkanna eins og við hinir að hvika hvergi í þessu máli. Það var eina málið, sem þjóðin var líka einhuga í, enginn hefði náð kosningu, ef hann hefði lýst sig hikandi.

Ekki leið langur tími, frá því að núv. ríkisstjórn var mynduð upp úr kosningunum, þangað til það fréttist, að Bretar leituðu eftir því að semja við hana um eftirgjöf í landhelgismálinu. Vafalaust hefur stjórninni ekki verið þetta geðfellt. En nú kom henni í koll það, sem Morgunblaðið og foringjarnir höfðu sagt sumarið 1958. Með því höfðu þeir gefið Bretanum undir fótinn.

Svo kom að því, að stjórnin léði máls á að semja við Breta. Ekki gaf hún stjórnarandstöðunni neinn kost á að vera með í ráðum, eins og vinstri stjórnin gerði 1958 og ófrávíkjanlega er skylt í þingræðislandi, þegar um svo þýðingarmikið mál er að ræða.

Í upphafi þessa þings sagði stjórnin aðspurð, að hún mundi hafa samráð við Alþ., ef eitthvað markvert gerðist í málinu. Síðast 6. febr. var á utanrrh. enn þá að skilja, að frá alls engu væri að segja.

En 27. febr. er samningnum við Breta kastað inn í þingið á síðdegisfundi fyrirvaralaust. Vitnaðist um þetta leyti af grein í blaði utanrrh., að þessi samningslausn hafði orðið til í London í utanför ráðh. í desember, hann komið með hana heim fyrir jólin og hún verið lögð fyrir þm. stjórnarflokkanna, þegar þeir komu úr jólafríi 15. jan. Sex vikna tími hafði svo gengið fyrir luktum dyrum í að umþótta þingmennina í stjórnarflokkunum. En öllu var haldið á meðan leyndu fyrir nærri helmingi alþingismanna. Þannig var þetta mál gert að myrkraverkum, enda niðurstaðan ekki ljósi samboðin á Íslandi.

Orðalag samningsins er yfirleitt tvírætt af Breta hálfu, en skuldbindandi fyrir Íslendinga. Bretar fá að veiða innan landhelginnar milli 6 og 12 mílna í næstu 3 ár á tilteknum stórum svæðum. í staðinn, segir ríkisstj., fá Íslendingar útfærslu fjögurra tilgreindra grunnlína, rétt eins og Bretar hafi átt grunnlínusvæðaviðbótina. En samkv. lögum og viðurkenndum alþjóðareglum hafði Ísland rétt til grunnlínubreytinganna, hvað sem Bretar hefðu sagt.

Þessi borgun Breta minnir á það, þegar maður einn fyrir mörgum árum kom á bæ og bað húsmóðurina þar að selja sér smjörpund. Hún bauð manninum til baðstofu, og þar beið hann um stund eftir veitingum. Þegar hann fór, afhenti konan honum smjörið, en hann greiddi henni með peningi, sem henni sýndist vera tveggja króna silfurpeningur. Konan var nærsýn, og eftir á, þegar hún fór að athuga peninginn, sá hún, að þetta var svonefndur „lukkupeningur“, sem hún hafði sjálf átt, frá því að hún var barn. Maðurinn hafði stolið honum í baðstofunni og borgað henni svo með honum.

Þannig hefur ríkisstj. á Íslandi einnig látið Bretann leika á sig.

Auk þessa hafði stjórnin ekki manndóm til að færa út grunnlínur til jafnréttis fyrir alla landshluta og sýnir með því hug sinn til dreifbýlisins yfirleitt.

Ísland gat komið fiskveiðilandhelgi sinni út í 12 mílur eingöngu vegna þess, að það notaði einhliða rétt sinn til þess, en engin viðurkennd alþjóðalög eru til, sem banna slíka útfærslu. Um 30 þjóðir hafa nú 12 mílna fiskveiðilandhelgi eða meira, allar í skjóli einhliða réttarins.

Það atriðið, sem er allra alvarlegast og hreint og beint sorglegt við samning ríkisstj. við Breta er, að hún afsalar fyrir hönd Íslands um aldur og ævi réttinum til einhliða útfærslu og skuldbindur Íslendinga óuppsegjanlega til að tilkynna Bretum ævinlega með 6 mánaða fyrirvara, ef Íslendingar áforma að færa út landhelgina, líka að því er grunnlínur snertir, og lofa, ef Bretar krefjast þess, að leggja málið undir úrskurð alþjóðadómstólsins. Þetta hefur engin önnur þjóð í heiminum gert. Ríkisstj. hefur þannig, eins og Hermann Jónasson sagði áðan, afhent Bretum um alla framtíð eina vopnið, sem okkar litlu þjóð hefur dugað í þessum málum.

Hugsið ykkur þá forherðingu og glannaskap þessarar ríkisstj. að gera slíkan samning fyrir land sitt um afsal réttinda, er gilda skal um aldur og ævi. Eftir eru svo auðvitað samningar við þær þjóðir, sem virtu útfærsluna og viku af miðunum. Hver vill láta þær gjalda þess, að þær komu vel fram, um leið og Bretar eru látnir njóta þess, að hafa sýnt ofbeldi?

Samningur þessi við Breta var ræddur hér í Alþingi við 2. umr. samfleytt í 4 daga og mikinn hluta úr þrem nóttum. Aðeins sumir ráðherranna og frsm. n. tóku til máls af hálfu stjórnarliðsins, aðrir menn stjórnarflokkanna þögðu, eins og þeir væru tunguskornir. Við atkvgr. að lokum komu þeir þó upp einsatkvæðisorðunum já og nei. Þeir sögðu fyrirvaralaust nei við öllum úrbótatillögum stjórnarandstöðunnar, en skilyrðislaust já við öllum atriðum samningsins. Enginn skarst úr leik. Þeir greiddu allir atkvæði gegn því að leggja samninginn undir þjóðaratkvæði. Hver maður hlýtur þó að skilja, að sjálfsögð skylda þessara manna, sem höfðu nú tekið afstöðu með því, sem þeir lofuðu fyrir kosningar að vera á móti, var að láta kjósendurna sjálfa ráða endanlega úrslitum. En þeir þorðu það ekki, svo rækilega höfðu þeir verið umþóttaðir –á sex vikna umþóttunartímanum.

Í þessu máli öllu kemur fram mikið hugleysi og ósjálfstæði hjá þeim, sem á málstað Íslands hafi haldið. Hér eftir ætti Sjálfstfl. að nefna sig ósjálfstæðisflokk og foringjar Alþfl. að kalla sig hopkrata. Ég efast þó ekki um, að mönnunum hefur liðið illa sem Íslendingum. En Bretar, sem uppgefnir voru orðnir á því að ræna á Íslandsmiðum undir herskipavernd, hafa lagzt á þá með sívaxandi þunga og tekið þá á orðum þeirra sjálfra frá 1958.

Þessir menn voru ekki gyrtir megingjörðum bjartsýni. Þeim óx ekki ásmegin eins og Þór, því meira sem á reyndi. Þetta eru höfundar lömunarstefnunnar og lamaðir af henni sjálfir. Þeir höfðu aukið skuldir landsins erlendis um hundruð milljóna þrátt fyrir loforð um að minnka þær. Öll járn ósigra í efnahagsmálum stóðu á þeim, og þeim fannst sér lífsnauðsyn á vinsemd og aðstoð að utan.

En ef Bretar hefðu ekki hótað áframhaldandi vopnuðu ofbeldi, hefði þó vafalaust ekkert af samningum orðið. Samningurinn er þess vegna réttnefndur nauðungarsamningur.

Áróðurslið stjórnarflokkanna segir, að við framsóknarmenn séum í sama bát og kommúnistar í þessu máli, og vilja með því vekja tortryggni gagnvart okkur. Það geta þeir ekki. Allir skynibornir menn vita, að rétt mál verður ekki rangt, þótt kommúnistar fylgi því. Við framsóknarmenn börðumst gegn samningi þessum sem nauðungarsamningi. Hann hefur nú tekið gildi og að formi til er hann óuppsegjanlegur. En af því að hann er nauðungarsamningur, hefur hann ekki siðferðilegan bakhjall, eins og samningur, sem gerður er af frjálsum vilja. Vonlaust er því ekki, að sá tími komi. að hnútar hans leysist vegna vaxandi sanngirni í málefnum heimsins. Að því vill Framsfl. vinna að rekja upp hnúta hans og leysa þjóðina af oki hans. Hér hefur þó stórkostlegt slys hent, sem enginn veit, hvort úr tekst að bæta eða hvenær.

Eins og nú er komið, liggur næst fyrir að reyna að koma í veg fyrir, að samningurinn verði framkvæmdur af sama undirlægjuhætti og hugleysi af Íslands hálfu og hann hefur gerður verið. Núverandi ríkisstj. er óhæf til að framkvæma hann. Henni væri meira en trúandi til að rýmka og framlengja veiðileyft Breta innan landhelginnar. Hún á nú þegar að víkja, rjúfa þing og láta þjóðina fá að kjósa. — Verið þið sæl.