13.12.1960
Efri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

130. mál, söluskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. deildi hér nokkuð á Alþfl. áðan og sagði, að hann hefði fyrir síðustu kosningar boðað óbreytt verðlag og óbreytt ástand. Hér er ekki nema hálfur sannleikurinn sagður og tæpast það. Ég hygg, að Alþfl. hafi verið eini flokkurinn, sem í kosningabaráttunni í fyrrahaust benti einmitt á þær hættur, sem væru fram undan. Í ræðu, sem Gylfi Þ. Gíslason hélt í útvarpsumr. þá, benti hann rækilega á, að það gæti ekki gengið áfram sú stefna, að ríkissjóður eða reyndar útflutningssjóður keypti gjaldeyrinn á hærra verði en hann væri seldur aftur. Það var einmitt þetta, sem var kippt í lag með gengisbreytingunni.

Þessi hv. ræðumaður var einnig að ásaka Alþfl. fyrir það, hvernig það gæti samræmzt að telja sig hafa unnið bug á verðbólgunni og standa svo aftur að ráðstöfunum, sem leiddu til allmikillar hækkunar vöruverðs.

Það, sem Alþýðuflokksstjórnin áorkaði á árinu 1959, var fyrst og fremst að eyða innanlands víxláhrifum kaupgjalds og verðlags til hækkunar. Það var það, sem hún gerði fyrst og fremst. Hitt getur náttúrlega enginn ráðið við, og þó að menn séu allir af vilja gerðir til þess að halda verðlagi níðrí og sporna gegn verðbólgu, þá er vitanlega ekki hægt að standa gegn því, að vöruverð hækki, þegar litið er til þess, á hvaða grundvelli vöruverðið hvíldi fyrir gengisbreytinguna. En vöruverðið hér innanlands hvíldi raunverulega á þeim grundvelli, að hluti af vöruverðinu var greiddur niður með lánsfé frá erlendum lánsstofnunum. Slíkt gat auðvitað ekki gengið til lengdar. Þjóðin verður auðvitað, þegar fram líða stundir, að greiða sínar vörur sjálf, en ekki fá þær niðurgreiddar af erlendu lánsfé. Það var þess vegna ekkert brot á þeirri grundvallarstefnu Alþfl. að berjast gegn verðbólgu, þó að það yrði að gera ráðstafanir, sem hefðu þessar óhjákvæmilegu hækkanir í för með sér. Hins vegar kemur svo vitanlega til, þegar þessar hækkanir eru yfirgengnar, að stöðva aftur.

Þá hélt þessi hv. þm. því einnig fram í sambandi við söluskattinn, að það væru barnmargar fjölskyldur, sem borguðu mest. Þetta tel ég ekki vera rétt. Það eru fyrst og fremst þær fjölskyldur, sem eyða mestu, sem borga mest, þ.e.a.s. fjölskyldur efnafólksins og hátekjufólksins. Eins og allir vita, eru bæði innlendar landbúnaðarvörur, sem eru auðvitað mjög mikill hluti neyzlu alls almennings, og einnig kaffi, sykur og hveiti, þetta er allt niðurgreitt, og þetta er auðvitað gert fyrst og fremst í þágu láglaunafólksins og barnmargra fjölskyldna.

Þá spurði þessi hv. þm. einnig, beindi því til okkar Alþfl: manna, hvort Ólafur Thors væri almáttugur. Ég vil nú svara því til, að svo almáttugur er hann ekki, að hann hafi ekki þörf fyrir góða menn í skiprúm. En í þessu sambandi má benda á það, að Tíminn sagði í stórri fyrirsögn, ég held daginn, sem núv. ríkisstj. var mynduð, að Ólafur Thors tæki sæti í henni og væri atkvæðislaus, þannig að ef Ólafur Thors hefur verið almáttugur eftir þessum orðum Tímans, þá hefur Alþfl. tekizt að svipta hann almættinu.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. beindi hér nokkrum orðum til Alþfl. Hann taldi, að það væri út af fyrir sig ekkert við því að segja, þó að Alþfl. hefði skipt um skoðun í skattamálum, hitt væri lakara, að hann tæki nú upp verri skoðun en fyrr. Að vísu held ég, að Alþfl. hafi það að litlu, hvað þessi hv. þm. segir um stefnu hans í skattamálum. Það er fyrst og fremst almenningur í landinu og kjósendurnir, sem dæma um það, hvort þetta sé verri eða betri stefna. Ekki held ég, að þessi hv. þm. eða aðrir beri á móti því, að Alþfl. boðaði þessa breyttu stefnu sína greinilega í kosningabaráttunni, þannig að kjósendur gátu þar dæmt um. Þessar kosningar fóru þannig, að Alþfl. fékk heldur fylgisaukningu, þannig að ekkí benti útkoman úr kosningunum til þess, að kjósendur í landinu teldu flokkinn hafa tekið upp verri stefnu í skattamálum en áður, heldur þvert á móti benti þetta til hins gagnstæða.

Annars tel ég í raun og veru, að kórónan á málflutningi hv. stjórnarandstæðinga hér við þessar umr. um viðaukasöluskattinn sé sú yfirlýsing hv. 1. þm. Norðurl. e., þar sem hann segir, að þeir telji sér ekki skylt að benda á neinar leiðir fyrir ríkissjóð til þess að afla þeirra tekna, sem hann mundi missa í, ef viðaukasöluskatturinn yrði felldur niður, því að ekki heldur stjórnarandstaðan því fram, að ríkissjóður geti án þessara tekna verið. Þeir telja sér hins vegar óskylt að benda hér á úrræði eða neinar leiðir, og er þetta í raun og veru yfirlýsing um það, að stjórnarandstaðan gegni ekki sinni frumskyldu og sé ábyrgðarlaus og ráðalaus.