13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (2720)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Flokkar stjórnarandstöðunnar hafa borið fram till. um vantraust á ríkisstjórnina. Þessi útvarpsumr. er ríkisstj. kærkomið tilefni til þess að gera þjóðinni grein fyrir stefnu sinni og þeim árangri, sem ráðstafanir hennar hafa borið.

Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar óttast ekki opinberar umr. um þjóðmál. Við óttumst ekki dóm reynslunnar um gerðir okkar og enn síður stóryrði andstæðinga okkar. Við höfum bjargfasta sannfæringu um það, að við höfum verið að gera rétt, að við höfum verið að gera það, sem var nauðsynlegt og þjóðinni fyrir beztu. Á sínum tíma mun stefna ríkisstj. verða lögð undir dóm kjósenda. Þá mun þjóðin sjálf votta ríkisstj. traust eða vantraust. Ég hef þá trú á dómgreind Íslendinga, að engin ástæða sé til að kvíða þeim dómi.

Ég mun í þessari ræðu fjalla um efnahagsmál. Að einu leyti eru umr. um þau mál hér á Íslandi mjög frábrugðnar því, sem gerist í nágrannalöndum okkar. Hér er haldið á lofti opinberlega gerólíkum og algerlega ósamrýmanlegum staðhæfingum um staðreyndir í efnahagsmálum. Menn deila um, hvort sannleikurinn sé þessi eða hinn, og þegar greinir á um staðreyndirnar, þá er ekki við því að búast, að ályktanirnar verði hinar sömu. Almenningi er t.d. sagt alveg sitt hvað um jafnmikilvæga staðreynd og það, hvort greiðslujöfnuður þjóðarinnar gagnvart útlöndum sé að batna eða versna, hvort sparnaður sé nú hlutfallslega meiri en áður eða minni, hverja þýðingu vaxtahækkun hafi fyrir útveginn, svo að nokkuð sé nefnt.

Það ætti að mega teljast augljóst mál. að skoðun manna á því, hvort t.d. greiðslujöfnuður haft batnað eða versnað, á ekki að þurfa að fara eftir því, hvort menn eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar. Hér er um staðreynd að ræða, sem hægt er að fá óyggjandi vissu um, ef menn vilja og hafa til að bera þá þekkingu og þann skilning, sem nauðsynlegur er til sannrar vitneskju um þetta atriði eins og önnur.

En hvernig stendur á þessum sífelldu deilum hér um slík atriði sem þessi, samtímis því sem deilur um þessi efni eru orðnar nær óþekktar í nágrannalöndunum, t.d. á hinum Norðurlöndunum? Ég held, að ástæðan sé ekki sú, að Íslendingar, hvorki stjórnmálamenn né þjóðin yfirleitt, séu verr gefnir eða fáfróðari en grannþjóðir okkar né heldur hafi menn hér tilhneigingu til þess að vera óheiðarlegri í málflutningi en annars staðar. Ég held, að skýringin sé annars vegar sú, að töluskýrslur okkar um efnahagsmál hafa til skamms tíma verið mjög ófullkomnar og eru enn ekki orðnar eins ýtarlegar og æskilegt væri, og hins vegar, að menn hafa enn ekki áttað sig á því hér, þótt menn hafi gert það í öllum nágrannalöndunum, að efnahagsmál eru flókin vandamál. sem talsverða þekkingu þarf til að átta sig á, hvað þá tala um og skrifa.

Menn gera sér almennt grein fyrir því, að ekki er unnt að tala eða skrifa um læknisfræði eða eðlisfræði, málfræði eða lögfræði, nema menn hafi aflað sér sérstakrar þekkingar á því, sem um er að ræða. Hins vegar skortir enn skilning á því, að nákvæmlega hið sama á við um efnahagsmál. Blaðamenn telja það auðvitað ekki í sínum verkahring að skrifa t.d. um orsakir sjúkdóma, þar eð þeir vita, að til slíks þarf talsverða sérþekkingu í læknisfræði. En þegar þeir skrifa um greiðslujöfnuð, sparnað, verðbólgu, gengismál o.s.frv., virðist þeim ekki jafnljóst, að einnig hér er þörf sérþekkingar, bæði til þess að skilja sjálfur og geta skýrt fyrir öðrum. Með þessu er ég auðvitað engan veginn að segja, að engir eigi að skrifa eða tala um efnahagsmál aðrir en sérfræðingar. Hitt vildi ég sagt hafa, að nokkur þekking er í þessum efnum eins og öllum öðrum nauðsynleg, og hún þarf að vera meiri en menn virðast almennt hafa gert sér ljóst. Þetta er orðið viðurkennt í löndunum umhverfis okkur. Þess vegna hafa þau losnað við mestan hluta deilnanna um staðreyndirnar, sem enn setja leiðindasvip á opinberar þjóðmálaumræður hér á landi og rugla dómgreind almennings meira en flest annað.

Að vísu er ekki svo að skilja, að okkur hafi ekki undanfarna áratugi farið talsvert fram í þessum efnum, eins og reyndar flestum öðrum. Það eru ekki nema þrír áratugir, síðan aðaldeilur á vettvangi íslenzkra þjóðmála snerust um það, hverju ríkisskuldirnar næmu og hvernig afkoma ríkissjóðs væri í raun og veru. Þetta átti annars vegar rót sína að rekja til ófullkomins ríkisbókhalds og hins vegar til skilningsskorts á atriðum í opinberri reikningsfærslu, sem mönnum mundi nú finnast næsta ótrúlegur. En það er skoðun mín, að á mestan hluta þeirra deilna, sem nú eru háðar um það, hvort afkoma þjóðarbúsins sé að batna eða versna, hvort greiðslujöfnuðurinn sé að verða hagstæðari eða óhagstæðari, hvort sparnaðurinn sé að vaxa eða minnka, muni síðar meir verða litið eins og allir kunnugir líta nú á deilurnar um ríkisskuldirnar og afkomu ríkissjóðs á sínum tíma. Íslendingar eiga nú orðið á að skipa álitlegum hópi sérfróðra manna um efnahagsmál, sem vinna störf á stjórnarskrifstofum, í bönkum og atvinnufyrirtækjum. Meðal þessara manna er ekki sá ágreiningur um staðreyndir, sem stjórnmáladeilurnar mótast svo mjög af. Íslendingar eru og aðilar að alþjóðlegum stofnunum, þar sem fjallað er um efnahagsmál þeirra eins og annarra. Sérfræðingar þeirra komast og alltaf að einni og sömu niðurstöðu. þegar um athuganir á slíkum staðreyndum er að ræða, og birta um þær skýrslur. En stjórnmálamenn og blaðamenn halda samt áfram að deila um þessar sömu staðreyndir og halda að almenningi ólíkum ályktunum út frá hinum ólíku staðhæfingum.

Mér hefur þótt rétt að benda á þessi atriði vegna þess, að þjóðinni er sagt tvennt gerólíkt um það, hvernig ástand íslenzks þjóðarbúskapar hafi verið, þegar ríkisstjórn Hermanns Jónassonar fór frá völdum. Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram, að hér hafi í rauninni allt staðið í blóma og engin ástæða verið til þeirra róttæku ráðstafana, sem fyrsta stjórn Emils Jónssonar og síðan núv. ríkisstj. greip til. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar haldið því fram, að ástandið hafi á ýmsum sviðum verið orðið svo alvarlegt, að stefnubreyting hafi verið algerlega óhjákvæmileg. Við því er ekkert að segja, þótt menn greini á um, hvaða ráðstafanir séu líklegastar til þess að ráða bót á vanda, sem að steðjar. Það er eðlilegt. Grundvallarskoðanamunur í þjóðfélagsmálum getur valdið slíkum ágreiningi. En menn á alls ekki að þurfa að greina á um, hvort um einhvern eða engan vanda sé að ræða. Þetta hefur menn samt greint á um hér, og almenningi er sagt sitt hvað um þetta efni. Þetta á ekki aðeins að vera óþarfi, heldur er það íslenzku stjórnmálalífi til lítils sóma.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um vandann, sem við var að etja í árslok 1958, og aðdraganda hans. Ég skal gæta þess að segja ekki annað og meira en allir sérfróðir menn, sem ég þekki til innlendir og útlendir, hafa verið sammála um.

Allar götur síðan á stríðsárunum hafði verið verðbólga á Íslandi. Verðlag og kaupgjald hafði hækkað á víxl og verðgildi peninga minnkað. Þetta dró úr því, að menn vildu leggja sparifé sitt í banka eða kaupa fyrir það verðbréf, en ýtti mjög undir hvers konar fjárfestingu. Þjóðin notaði árlega meiri gjaldeyri til neyzlu og framkvæmda en hún aflaði sér. Fyrst eftir stríðið notaði hún gjaldeyriseignir þær, sem henni áskotnuðust á stríðsárunum, síðan kom Marshallaðstoðin til skjalanna. og eftir að henni lauk, hafði þjóðin um skeið óvenjulega miklar gjaldeyristekjur af framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Þegar þær minnkuðu á árunum 1955–58, var neyzlunni og framkvæmdunum enn haldið óbreyttum í aðalatriðum, en tekið að ganga á þá litlu gjaldeyrisvarasjóði, sem til voru, og afla erlends lánsfjár, bæði til langs og stutts tíma, til þess að koma í staðinn fyrir þann gjaldeyri. sem áður hafði verið til ráðstöfunar í eigin sjóði, frá Marshallstofnuninni eða vegna varnarliðsframkvæmda.

Í árslok 1958 var svo komið, að greiðslubyrðin af erlendum skuldum vegna skuldbindinga, sem búið var að samþykkja, var orðin hér þyngri en hæfilegt þykir og meiri en átti sér stað víðast hvar í heiminum. Það skiptir ekki höfuðmáli í þessu sambandi, þótt á þessum árum hafi verið unnið í landinu að nytsömum framkvæmdum, sem ykju gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Það var líka unnið mikið að framkvæmdum, sem auka gjaldeyrisöflunina lítið eða ekkert. Aðalatriðið var, að þjóðin var búin að stofna til svo mikilla erlendra skuldbindinga, að greiðslubyrðin vegna þeirra var orðin meiri en samrýmist heilbrigðum búskaparháttum og öryggi í viðskiptum og, að gjaldeyrisvarasjóðurinn var þrotinn. Þess vegna var nauðsynlegt að gera sem fyrst ráðstafanir til þess að draga stórlega úr notkun erlends gjaldeyris, þar eð ógerningur væri að auka gjaldeyristekjurnar með aukningu þjóðarframleiðslunnar skyndilega svo mikið, að unnt yrði með því móti að standa undir hinni vaxandi greiðslubyrði.

Ég endurtek, að ég þekki engan sérfróðan mann, hvorki innlendan né útlendan, sem er ekki í einu og öllu sammála því, sem ég hef nú sagt um ástandið í efnahagsmálum okkar í árslok 1955 og aðdraganda þess. Engu að síður eru til stjórnmálamenn og blöð, sem endurtaka í sífellu, að ástand þjóðarbúskaparins hafi verið ágætt í árslok 1958 og engin ástæða hafi verði til neinna sérstakra ráðstafana. Því til sönnunar er t.d. bent á, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað á árinu 1958. Það er rétt. Skýringin á því er sú, að árið 1958 er eitt hið gjöfulasta til sjós og lands, sem á þessu landi hefur komið. Á fyrri hluta þess árs voru og gerðar víðtækar ráðstafanir til þess að draga úr jafnvægisleysinu innanlands og færa innlent verðlag til samræmis við erlent með stórhækkuðu yfirfærslugjaldi eða óbeinni gengisbreytingu. En síðast á árinu raskaðist jafnvægið aftur vegna mikilla kauphækkana, þótt þær næðu ekki að hafa veruleg áhrif á afkomu ársins. Hagstæð gjaldeyrisafkoma ársins 1958 er því engin sönnun þess, að reka hafi mátt á reiðanum áfram, heldur afleiðing óvenjulegs árferðis og skynsamlegra efnahagsráðstafana á fyrri hluta ársins. En árangur þeirra var einmitt eyðilagður undir lok þess, og hann var eyðilagður svo rækilega, að ríkisstj, sundraðist. Samt er því haldið fram, að vandinn hafi í raun og veru enginn verið, í raun og veru mætti eins halda því fram, að stjórn Hermanns Jónassonar hafi alls ekki klofnað.

Ég vona, að þetta sé nægilegt til þess, að allir, sem á annað borð vilja vita hið sanna og rétta um þessi mál, geri sér þess grein, að við fráför ríkisstj. Hermanns Jónassonar var gífurlegur vandi á höndum í efnahagsmálum þjóðarinnar, og það, sem fyrst og fremst var nauðsynlegt, var að koma á auknu samræmi milli gjaldeyristekna og gjaldeyrisnotkunar þjóðarinnar. Jafnvægisleysið í þjóðarbúskapnum og greiðsluhallinn gagnvart útlöndum var orðinn svo langvinnur og svo mikill að Ísland hafði ekki lengur eðlilegt lánstraust erlendis. Þegar að þessu hefur verið vikið í umr. hér á hinu háa Alþingi, hefur hvað eftir annað verið á móti þessu borið, og hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar ekki viljað við það kannast, að þetta sé rétt.

Ríkisstj. Hermanns Jónassonar tók nokkur stór lán erlendis. Hið fyrsta þegar um fimm mánuðum eftir að hún tók við völdum, hjá Bandaríkjastjórn. Þá gerði hún og samning í apríl 1957 við Bandaríkjastjórn um mjög hagkvæm lán í sambandi við útflutning bandarískra landbúnaðarafurða, svonefnd PL-480 lán, sem Íslendingar hagnýta sér enn þá. En þegar enn var leitað eftir stórláni hjá Bandaríkjastjórn árið 1957, var því hins vegar synjað, fyrst og fremst með þeirri röksemd, að það væri ekki verjandi að lána Íslandi meira fé vegna hins alvarlega halla, sem væri á viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd. Það var sama, hvert ríkisstj. sneri sér. Hún fékk alls staðar sama svarið. Það var ekki hægt að lána Íslandi meira fé. Auknar lántökur leysa ekki þann vanda, sem við er að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar. Áframhaldandi lántökur, án þess að sá vandi sé leystur, stefna fjárhag landsins í voða.

Innan ríkisstj. gat ekki náðst samkomulag um þá stefnubreytingu, sem nauðsynleg hefði verið til þess að komast hjá nýjum erlendum lántökum. Það var ógerningur að auka gjaldeyristekjurnar skyndilega um jafngífurlegar fjárhæðir og nauðsynlegt hefði verið til þess að geta haldið áfram neyzlunni og fjárfestingunni óbreyttri án erlends lánsfjár. Ef komast átti hjá lántökunum, varð að gera annað tveggja eða helzt hvort tveggja: minnka neyzluna og draga úr fjárfestingunni. Alþfl. hefði verið reiðubúinn til slíkra ráðstafana. Alþb. vildi ekki sætta sig við nokkra minnkun neyzlunnar, en lýsti sig fylgjandi samdrætti fjárfestingar. Framsfl. vildi hins vegar ekki draga úr þeirri fjárfestingu. sem nauðsynlegt var að takmarka, en lýsti sig fylgjandi ráðstöfunum til að minnka neyzluna. Hið eina, sem samkomulag gat orðið um, var að reyna að halda bæði neyzlunni og framkvæmdunum áfram, en það var óframkvæmanlegt án þess að fá mikil erlend lán. En þar eð þau fengust ekki með eðlilegum hætti hjá þeim aðilum, sem fram að þessu höfðu lánað Íslendingum, urðu Framsfl. og Alþfl. sammála um að leita aðstoðar Atlantshafsbandalagsins til þess að afla hins erlenda láns.

Þetta var mjög óvenjuleg ráðstöfun. Það þarf engra skýringa við, að til hennar hefði ekki verið gripið, ef ríkisstj. hefði talið nokkurn minnsta möguleika á að fá lán lengur með venjulegum hætti. Atlantshafsbandalagið sendi hingað sérfræðinga í efnahagsmálum sumarið 1957 frá höfuðstöðvum sínum í París. Að lokinni athugun sinni á fjárhagsmálum þjóðarinnar sögðu þeir hið sama og allir innlendir og erlendir sérfræðingar í efnahagsmálum hafa sagt undanfarin ár, að greiðsluhallinn gagnvart útlöndum hafi verið óhæfilega mikill, gengisskráningin óraunhæf og jafnvægisleysi í fjárhagsmálunum innanlands. En þar eð þeir töldu sig verða vara við skilning á þessu hjá þeim valdamönnum, sem þeir ræddu við, og vilja til þess að breyta til, einkum þó ef þjóðinni yrði forðað frá þeim erfiðleikum, sem skyndileg minnkun erlends lánsfjár hefði í för með sér, þá mæltu þeir með því, að Atlantshafsbandalagið greiddi fyrir því, að Íslendingar gætu fengið lán hjá einhverju bandalagsríkjanna. Niðurstaðan varð sú, svo sem kunnugt er, að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Vestur-Þýzkalands veittu sitt hvort lánið fyrir tilmæli Atlantshafsbandalagsins.

Ráð var fyrir því gert, bæði af hálfu lánveitenda og ráðherra þeirra tveggja flokka ríkisstj., sem að öflun lánanna höfðu unnið, að þessi nýju lán gætu veitt svigrúm til þess að framkvæma þær ráðstafanir í efnahagsmálum, sem óhjákvæmilegar voru. Reyndin varð hins vegar sú, að enn skorti samkomulag í ríkisstj. um nægilega víðtækar ráðstafanir, sem gætu gert þjóðarbúið óháð því að þarfnast æ meiri erlendra lána.

Á það reyndi ekki. hvernig farið hefði í þessum efnum, ef stjórninni hefði enzt líf einu ári lengur. Alþfl. hefði ekki tekið þátt í því að leita öðru sinni til Atlantshafsbandalagsins. Hann hefði heldur aldrei samþykkt að leita fyrir sér um stóra lántöku í Sovétríkjunum, eins og stungið var upp á af hálfu Alþb. Til átaka um þessi efni í ríkisstj. kom þó ekki, því að hún sundraðist um haustið, þegar ný verðbólgualda skall yfir og engin samstaða var til innan ríkisstj. um úrræði. Það féll í hlut ríkisstj. Emils Jónssonar að bægja frá bráðasta voðanum og stöðva verðbólguhjólið og síðan þessarar ríkisstj. að leggja nýjan grundvöll að traustu efnahagskerfi, er í kjölfar fórna og átaka tryggir framfarir og vaxandi velmegun.

Með því, sem ég hef nú sagt, hef ég viljað leggja áherzlu á og undirstrika, að þessi ríkisstj. tók við gífurlegum vanda í efnahagsmálum þjóðarinnar, — vanda, sem ríkisstj. Hermanns Jónassonar hafði glímt við og því miður ekki tekizt að leysa, fyrst og fremst vegna djúptæks ágreinings milli Alþb. og Framsfl. En nú láta þessir flokkar ekki aðeins eins og þessi ágreiningur hafi aldrei verið til, heldur virðast þeir einnig vera sammála um, að vandinn hafi heldur aldrei verið til. Þeir virðast alveg vera búnir að gleyma vandamálunum, sem þá greindi svo alvarlega á um, hvernig bregðast ætti við, að ríkisstj., sem þeir áttu aðild að, sundraðist.

Þegar því er haldið fram, að ástand íslenzkra efnahagsmála hafi um áramótin 1958–59 verið þannig, að engin ástæða hafi verið til gagngerðra ráðstafana og stefnubreytingar, er beinlínis verið að fara rangt með staðreyndir. Á því getur enginn flokkur og enginn stjórnmálamaður hagnazt til frambúðar. Hitt er hins vegar ekki óeðlilegt, að mönnum sýnist nokkuð sitt hvað um jafnvíðtækar ráðstafanir og hér var orðið nauðsynlegt að gera, ekki hvað sízt þegar þær snerta bókstaflega hvern einasta mann í landinu. í ríkisstj. Hermanns Jónassonar vildi Alþb. leysa vandann með minnkaðri fjárfestingu. að svo miklu leyti sem ekki væri hægt að halda öllu óbreyttu með áframhaldandi lántökum erlendis. Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að slíkar ráðstafanir einar hefðu aldrei nægt, auk þess sem lántökustefnan var bæði varhugaverð og raunar óframkvæmanleg áfram. En tillögur Alþb. í þeirri ríkisstj. báru þó vott um, að því var þá ljóst, að um vanda var að ræða, þótt það virðist nú gleymt, í þeirri ríkisstj. vildi Framsfl. hins vegar leysa vandann með minnkaðri neyzlu, að svo miklu leyti sem samdráttur yrði á erlendum lántökum. Í því að jafna hallann eingöngu með neyzluminnkun hefði að vísu verið lítil sanngirni, einkum í garð launþega.

Það, sem núv. ríkisstj. hefur gert, er að mæta vandanum með því að gera hvort tveggja: draga úr neyzlu og fjárfestingu samhliða ráðstöfunum til þess að búa þannig að atvinnuvegunum, að framleiðsluaukning verði sem mest, svo að bæði neyzla og fjárfesting geti aftur aukizt sem fyrst og lífskjör batnað sem mest. Ég skal ekki ræða það, í hverju ráðstafanir ríkisstj. voru fólgnar. Það hefur verið gert oft og rækilega. En mig langar til þess að fara um það nokkrum orðum, hvort þær hafi borið góðan eða vondan árangur. Ég ætla að nefna nokkur atriði, sem ég tel taka af öll tvímæli um það, að ástand efnahagsmálanna var á s.l. ári heilbrigðara en verið hefur áður um langt skeið:

1) Allir hafa haft verk að vinna og öll framleiðslutæki hafa verið hagnýtt, án þess að atvinnureksturinn hafi notið bóta eða styrkja af almannafé, af því að gengisskráningin hefur verið rétt, og framleiðslan hefur getað beinzt inn á hagkvæmari brautir en átti sér stað, meðan bóta- og styrkjakerfið var við lýði.

2) Gjaldeyrisstaða bankanna hefur farið batnandi, bæði í frjálsum gjaldeyri og vöruskiptagjaldeyri, og er batinn meiri en svarar minnkun birgða af útflutningsvörum. Þegar ég tala um gjaldeyrisstöðu bankanna, á ég við muninn á allri gjaldeyriseign þeirra og öllum skuldbindingum þeirra, að meðtöldum yfirdráttarskuldunum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington og Evrópusjóðnum í París. Auk bankanna skulda innflytjendur eitthvað í sambandi við gjaldfrest á vörukaupum, og hafa slíkar skuldir eflaust vaxið eitthvað, þar eð þær eru nú leyfðar, en voru það ekki áður. En slíkar skuldir eru áreiðanlega ekki orðnar hærri en þær mega vera og geta verið áfram. Af föstum erlendum lánum var tekið lítið á síðasta ári og miklu minna en nokkurn tíma áður um langt skeið. Afborganir fastra lána námu miklu hærri upphæð en ný föst lán.

3) Miklu meira frjálsræði var á innflutnings- og gjaldeyrisverzluninni en áður hefur átt sér stað um áratuga skeið, og hefur það bæði haft í för með sér aukið vöruval og minnkaða skriffinnsku og þar með þjóðhagslegan sparnað. Viðskipti með gjaldeyri á svörtum markaði eru að mestu leyti úr sögunni.

4) Sparnaður þjóðarinnar hefur vaxið, þar eð þjóðin hefur fengið aukna trú á verðgildi gjaldeyrisins. Útlánaaukning bankanna hefur haldizt í samræmi við aukningu sparifjárins, þannig að ekki hefur verið um verðbólgu að ræða, eins og átt hefur sér stað áður.

5) Ríkisbúskapurinn hefur verið hallalaus.

6) Verðlag hefur að vísu farið hækkandi vegna gengisbreytingarinnar, en hækkunin hefur orðið svo að segja alveg jafnmikil og gert var ráð fyrir. Með víðtækum ráðstöfunum í tryggingamálum og skattamálum hefur hins vegar verið leitazt við að dreifa byrðum óhjákvæmilegra verðhækkana sem réttlátast á borgarana. Verðhækkanatímabilinu er nú lokið, og á þessu ári á engin frekari kjaraskerðing vegna gengisbreytingarinnar að vera nauðsynleg. Hins vegar eru kjarabætur enn torveldar vegna hinnar þungu greiðslubyrði, sem þjóðin verður enn á þessu ári að standa undir, og sömuleiðis vegna þeirrar brýnu nauðsynjar, sem á því er, að þjóðin eignist gildan gjaldeyrisvarasjóð, eins og allar viðskiptaþjóðir okkar eiga.

Þótt allt þetta séu dæmi um jákvæðan árangur af ráðstöfunum ríkisstj., gerðist á s.l. ári ýmislegt annað, sem valdið hefur erfiðleikum, og á ég þar fyrst og fremst við hið gífurlega verðfall á mjöli og lýsi sem og lélega síldarvertíð og aflabrest togaranna í kjölfar mikils tilkostnaðar, en hvort tveggja þetta rýrði þjóðartekjurnar mjög frá því, sem ella hefði orðið. Þótt verðlag fari nú aftur hækkandi. Vantar enn mikið á, að hið fyrra tjón hafi jafnazt. Með sérstakri hliðsjón af þessu, eru þær mikla kauphækkunarkröfur, sem nú eru hafðar uppi, mjög alvarlegar. Eins og málum er nú háttað í íslenzkum kaupgjaldsmálum, yrði ógerningur, enda ekki réttmætt, að einskorða kauphækkun við neinn ákveðinn hóp launþega. Kauphækkunin yrði almenn fyrr en varir, en almenna kauphækkun þolir útflutningsframleiðslan ekki. Hún yrði þá rekin með halla og hlyti smám saman að stöðvast og valda atvinnuleysi, sem ekki yrði bætt úr nema með nýrri gengisbreytingu. Hver er þá bættari með kauphækkun?

Mér virðist því hiklaust, að halda eigi áfram á þeirri braut, sem farin hefur verið. Við erum komnir yfir erfiðasta hjallann. Það væri mikill ábyrgðarhluti að steypa því nú í rúst, sem búið er að byggja upp, einmitt þegar tími hins jákvæða árangurs er að koma. Hallarekstur, atvinnuleysi, uppbætur og gengislækkun á nú allt saman að vera að baki, og ekki á að þurfa að koma til neins slíks framar, ef við kunnum fótum okkar forráð, sýnum gætni og ábyrgðartilfinningu. Það er stefna ríkisstj. að forða þjóðinni frá þeim voða, sem í slíku felst.

Þessi stefna ríkisstj. er skýr og ljós. Það er hins vegar mjög óskýrt og óljóst, hver stefna stjórnarandstöðuflokkanna raunverulega er. Þeir gagnrýna, þeir fjölyrða um, hvað fari aflaga, hvað ekki hafi átt að gera, hvað beri að forðast, en þeir segja sáralítið um, hvað hefði átt að gera eða hvað eigi að gera. Öll stjórnmálastarfsemi þeirra grundvallast á neikvæðri gagnrýni, og gagnrýnin er svo lík hjá andstöðuflokkunum. að undrum sætir. Mönnum þarf ekki að koma þetta á óvart að því er kommúnista snertir. En afstaða Framsfl. í stjórnarandstöðu hefur hins vegar komið mönnum á óvart og valdið miklum vonbrigðum, þegar haft er í huga, að hann hefur verið í stjórn nær óslitið í þrjá áratugi undanfarið. Menn áttu sannarlega von á öðru en því, að í nær engu mætti greina málflutning og afstöðu flokks íslenzkra samvinnumanna frá málflutningi og afstöðu flokks íslenzkra kommúnista, í landhelgismálinu, sem nú er mönnum í fersku minni, gekk ekki hnífurinn á milli framsóknarmanna og kommúnista, í kaupgjaldsmálunum virðist afstaða þeirra hin sama. Þjóðviljinn gerir varla svo ábyrgðarlausa kröfu, að Tíminn taki ekki undir hana. Framsfl. gagnrýnir af engu minni hörku en Alþb. ráðstafanir, sem hann hefur sjálfur haft forgöngu um oftar en einu sinni og gert tillögur um í önnur skipti, svo sem gengisbreytinguna. Hann hefur jafnvel gengið enn lengra en Alþb. í ábyrgðarlausri tillögugerð við afgreiðslu fjárlaga, þótt hann hafi farið lengur með fjármál ríkisins en nokkur annar flokkur í afstöðu sinni til ýmissa stórmála, svo sem endurskoðunar seðlabankalöggjafarinnar, hefur hann verið enn neikvæðari en Alþb. Það má furðulegt teljast, ef Framsfl. hefur ekki öðlazt meiri þroska en svo við að vera í 30 ár í ríkisstj., að hann skuli ekki í einu einasta smáatriði geta verið sammála ríkisstj., sem hann á ekki sjálfur fulltrúa í.

Ég þykist vita, að það muni vera alveg tilgangslaust að beina um það fsp. til Framsfl. eða Alþb., hvað þeir hefðu viljað láta gera í fyrra eða hvað þeir vildu nú láta gera í efnahagsmálunum. En fjórum einföldum spurningum langar mig til að beina til þeirra og fara mjög eindregið fram á það við málsvara þeirra, að þeir svari þeim annað kvöld.

Hin fyrsta er þessi: Ef Framsfl. og Alþb, fengju meiri hluta í næstu kosningum, mundu þeir þá gera tilraun til stjórnarmyndunar einir?

Hin önnur er þessi: Ef þeir mynduðu ríkisstj., mundu þeir keppa að því að halda einu og sama gengi fyrir alla útflutningsframleiðsluna, eða mundu þeir taka aftur upp bótakerfi?

Hin þriðja er: Ef þeir mynduðu ríkisstj., mundu þeir þá keppa að því að viðhalda því viðskiptafrelsi, sem nú hefur verið komið á, eða mundu þeir taka upp aftur þau víðtæku innflutningshöft, sem áður höfðu verið við lýði í nærfellt 30 ár?

Hin fjórða er þessi: Ef þeir mynduðu ríkisstj. mundu þeir segja tafarlaust upp varnarsamningnum við Bandaríkin?

Þetta eru einfaldar spurningar, sem vandalaust er að muna. Flokkar, sem borið hafa fram saman vantraust á ríkisstj., ættu ekki að vera í vandræðum með að svara þessum spurningum. Þeir ættu að vera fegnir því að fá tækifæri til að skýra afstöðu sína.

Ég endurtek, að ég legg mikla áherzlu á að fá ljós og skýr svör við þessum spurningum. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita, hvort flokkarnir, sem gátu ekki unnið saman í stjórn Hermanns Jónassonar, eru nú orðnir reiðubúnir til þess að gera aðra tilraun. Hitt er svo annað mál, hvort þjóðin óskar þess, að slík tilraun sé gerð, og vill veita þeim umboð til þess. Þjóðin á líka heimtingu á að fá að vita, hvort þessir flokkar mundu taka aftur upp bóta- og haftakerfi, og ekki sízt á hún kröfu á vitneskju um, hvort þeir ætla að segja upp varnarsamningnum eða ekki. Þjóðin vill áreiðanlega fá skýrar og ótvíræðar upplýsingar um þessi einföldu meginatriði.

Framsfl. var Alþfl. sammála um það í árslok 1958, að reynslan hefði sýnt, að ekki væri unnt að stjórna landinu með kommúnistum. Er flokkurinn nú, tveim árum síðar, reiðubúinn til þess að taka höndum saman við kommúnista á ný og meira að segja þá eina? Alþb. taldi sig í stjórn Hermanns Jónassonar hafa komist að raun um, að reykvískir launþegar gætu aldrei unað stefnu þeirrar ríkisstj., sem Framsfl. mótaði að verulegu leyti, vegna einstrengingslegrar hagsmunastreitu hans og óbilgirni í samningum. Er Alþb. nú, tveim árum síðar, reiðubúið til þess að reyna að stjórna landinu með Framsfl. einum? Þetta þarf íslenzka þjóðin að fá að vita, og svarið verður að vera hreint og beint, án útúrsnúninga eða hálfyrða. Þessi spil á að vera hægt að leggja á borðið. Ef flutningur þessarar vantrauststillögu yrði til þess, að gleggri vitneskja en áður fengist um raunverulega stefnu og fyrirætlanir stjórnarandstöðunnar, hefur flutningur hennar sannarlega ekki orðið til einskis. Góða nótt.