13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (2721)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Öldum saman varð íslenzka þjóðin að heyja harða baráttu fyrir frelsi sínu og sjálfstæði. Þeirra manna, sem bezt stóðu vörð um málstað Íslands, er jafnan minnzt með aðdáun og virðingu. Það var mikið fagnaðarefni, þegar náð var lokamarki í þeirri baráttu með stofnun lýðveldis. Lýðræðisskipulagið grundvallast á almennum kosningarrétti og að kjósendurnir velji fulltrúa til að fara með löggjafarvaldið. Það er grundvallaratriði. að kjósendurnir geti treyst orðum og yfirlýsingum þeirra fulltrúa, sem kjörnir eru, og að verk stjórnmálaflokkanna séu í samræmi við stefnuyfirlýsingar þeirra. Bregðist þetta, bilar grundvöllur þingræðisins.

Nú eru liðnir 16 mánuðir, síðan kosningar til Alþingis fóru fram. Reynslan af stjórnarathöfnum á þeim skamma tíma hefur leitt í ljós, að fullkomið ósamræmi er milli orða og gerða núv. stjórnarflokka. Yfirlýsingar annars vegar og verk hæstv. ríkisstj. hins vegar bera þessu vitni. Hér gefst ekki tími til að benda á þau fjölmörgu sönnunargögn, sem fyrir hendi eru um þetta, en fáein sýnishorn skulu þó tekin.

Fyrir kosningar lofuðu stjórnmálaflokkarnir almenningi batnandi lífskjörum. Sjálfstæðismenn sögðu: „Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.“ „Leggja þarf inn á nýja braut, sem sneiðir hjá verðbólgu og samdrætti.“ Alþýðuflokksmenn sögðust heimta óbreytt ástand í verðlagsmálum frá því, sem var fyrir kosningar. Þeir sögðust vilja halda atvinnuvegunum gangandi og afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án nýrra byrða á almenning, en leysa vandamál atvinnuveganna með sama hugarfari og á sama hátt og gert hatði verið á árinu 1959. Sá, sem kysi Alþfl. væri að kjósa vinnufrið í landi, afkomuöryggi allra, jafnvægi í sveit og við sjó.

Hvernig er reynslan af verkum ríkisstj.? Í stað þeirrar framfarastefnu, sem sett hefur svip á þjóðlífið um langt skeið vegna forustu Framsfl., hefur verið tekin upp harkaleg samdráttarstefna, þungar fjárhagsbyrðar lagðar á almenning með stórkostlegum verðhækkunum, sem eiga rót sína að rekja til löggjafar, er stjórnarflokkarnir hafa knúið fram, og atvinnuvegum landsmanna bundnir svo þungir baggar, að þeir fá ekki undir risið. Ríkisstj. sjálf hefur ekki komizt hjá því að viðurkenna þetta í verki og beita sér fyrir setningu nýrrar löggjafar um aukin stofnlán til sjávarútvegsins og leita þannig fulltingis Alþingis til að slá stoðum og skáskífum undir þá viðreisnarhöll, sem ríkisstj. taldi sig vera að reisa, svo að sú bygging hrynji ekki til grunna. Stjórnarflokkarnir gáfu fyrirheit um afkomuöryggi allra. Reynslan er sú, að heimatilbúin kreppa með ótrygga atvinnu og vinnustöðvanir í kjölfarinu ógnar nú afkomuöryggi almennings.

Frumskilyrði þess, að jafnvægi í byggð landsins raskist ekki frá því, sem þegar er orðið, er það, að af hálfu ríkisvaldsins sé þess gætt að dreifa fjármagni til framkvæmda, stuðla að því að bæta atvinnuskilyrði í hverri byggð og gera lífskjör fólksins, hvar sem er í landinu, sem jöfnust. Morgunblaðið hefur með stórum fyrirsögnum túlkað stefnu Sjálfstfl. þannig: Fjölþætt atvinnulíf til tryggingar afkomuöryggi og jafnvægi í byggð landsins. — Og fyrir síðustu kosningar töluðu Alþýðuflokksmenn meira að segja um jafnvægi í sveit og við sjó. Nú eru af hálfu stjórnarflokkanna gerðar ráðstafanir til að hleypa ótakmörkuðum fjölda erlendra fiskiskipa inn í landhelgina og láta þau með samþykki íslenzkra stjórnvalda yrja upp fiskimiðin inn að 6 mílum til stórtjóns fyrir sjávarútveginn. En ekkert er jafnáhrifaríkt til að raska jafnvægi í byggð landsins og kippa þannig fótum undan arðgæfum atvinnurekstri víð sjávarsíðuna í heilum landshlutum, og með allri stjórnarstefnunni er unnið kröftuglega gegn jafnvægi í byggð landsins.

Landhelgismálið er þáttur af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og lífshagsmunamál hennar. Fyrir síðustu kosningar hétu allir stjórnmálaflokkarnir þjóðinni því að standa vörð um ótvíræðan rétt hennar í þessu máli.

Fyrir 10 mánuðum flutti hæstv. utanrrh. gervalli þjóðinni þennan boðskap: „Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum og öðru, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland. “

Sjálfstfl. hefur þrem sinnum, síðan landhelgissamningurinn frá 1901 féll úr gildi. samþykkt á landsfundum stefnuyfirlýsingar í landhelgismálinu, þar sem áherzla er lögð á, að það sé stefna Sjálfstfl. að halda óhagganlega á rétti Íslendinga í landhelgismálinu og hvika hvergi frá gerðum samþykktum. Í marzmánuði 1959, þ.e. eftir að samstarf núv. stjórnarflokka hófst, gerði landsfundur sjálfstæðismanna samþykkt um landhelgismálið. Hún er birt í Morgunblaðinu 19. marz 1959. Þar segir svo orðrétt:

„Landsfundurinn lýsir óhagganlegu fylgi sjálfstæðismanna við þá stefnu, sem mörkuð var í landhelgismálinu árið 1948 með setningu laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, og áréttar samþykkt landsfundar 1956 um, að leita beri lags um frekari friðun fiskimiðanna, þangað til viðurkenndur er réttur Íslands til landgrunnsins. Landsfundurinn skorar á alla Íslendinga að sýna þrátt fyrir mistök fyrrv. ríkisstj. algeran einhug í málinu, láta ekki undan síga fyrir erlendu ofbeldi né sætta sig við minni fiskveiðilandhelgi en nú hefur verið ákveðin, heldur sækja fram, þar til lífshagsmunir þjóðarinnar eru tryggðir.“

Mörgum mun finnast ótrúlega breitt bilið milli þeirra orða utanrrh., að hann berjist gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 72 mílna við Ísland, og þeirra verka, sem hann hefur beitt sér fyrir að unnin eru í landhelgismálinu, sem farin eru að bera þann árangur t.d., að í dag bárust þær fréttir frá Austfjörðum, að 20–30 brezkir togarar séu þegar komnir á bátamið Austfirðinga og í gær hafi þrír austfirzkir bátar, sem voru að veiðum 9 mílur suður af Papey, verið hraktir þaðan af brezkum togurum.

Og flestum mun finnast, að sjálfstæðismönnum liggi andvirki nær garði en að túlka sérstaklega þau rök, sem Bretar reyna að færa fram þeim til málsbóta í landhelgismálinu, það sé nærtækara verkefni að gera þjóðinni grein fyrir því, hvort og þá hvernig samningarnir við Breta samrýmast stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. En hið fullkomna ósamræmi, sem er annars vegar milli stefnuyfirlýsingar Sjálfstfl. og hins vegar framkvæmda hans nú í landhelgismálinu, má m.a. greina af þessu:

Lýst er yfir óhagganlegu fylgi sjálfstæðismanna við þá stefnu, sem mörkuð var í landhelgismálinu með setningu l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Í framkvæmd er stefnunni nú haggað ekki minna en svo, að þessi lög eru raunverulega gerð óvirk. Í orði er tekið fram, að leita beri, hvenær sem fært er, lags um frekari friðun fiskimiðanna, á borði afsalað rétti Íslendinga til einhliða ákvörðunar um stækkun landhelginnar og komið í veg fyrir frekari útfærslu hennar nema með samþykki Breta eða úrskurði alþjóðadómstóls. Í orði er skorað á alla Íslendinga að sýna algeran einhug í landhelgismálinu, í verki brotið gegn venju fyrrv. ríkisstjórna um að leita samstarfs milli allra flokka um framkvæmdir í landhelgismálinu. Í þess stað er nú unnið að því með leynd í marga mánuði að semja við Breta um tímabundna skerðingu á fiskveiðilandhelginni og réttindaafsal um aldur og ævi. Síðan reynt að smeygja þessum fjötri á þjóðina á sem skemmstum tíma á Alþingi, eftir að raunverulega er búið að ganga frá málinu gagnvart Bretum, og þannig er farið að, þótt ríkisstj. ylti fyrir fram, að um slíkar ráðstafanir geti aldrei orðið einhugur meðal Íslendinga, og þótt ólíklegt sé, að ríkisstj. hafi meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig í þessu máli. Fyrirheit er gefið að láta ekki undan síga fyrir erlendu ofbeldi og skorað á þjóðina að veita fulltingi til þess að fylgja fram þeirri stefnu. Efndir eru þannig: Samið um undanslátt og afsal réttinda við þá einu þjóð, sem hafði beitt Íslendinga ofbeldi og ekki viðurkennt í verki 12 mílna fiskveiðilandhelgina. Í orði er skorað á alla Íslendinga að sætta sig ekki við minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur, í framkvæmd er brezkum togurum hleypt inn að 6 mílum samkvæmt samþykkt Alþingis og fyrirmælum ríkisstj. og játað, að skip fleiri þjóða muni á eftir koma. Fellt er að láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið. Að síðustu er í stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. áskorun til þjóðarinnar að sækja fram í landhelgismálinu, þar til lífshagsmunir þjóðarinnar eru tryggðir. Í verki er nú meiri hluta á Alþingi beitt til að loka þeirri leið, að afsala einhliða rétti Íslendinga til að stækka landhelgi sína, en þjóðinni ætlað um aldur og ævi að hlíta í því efni úrskurði erlendra aðila.

Þannig er samræmið milli stefnuyfirlýsingar Sjálfstfl. og framkvæmda hans í lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Þekkir nokkur meira öfugmæli? Ríkisstjórn, sem þannig starfar, getur ekki notið trausts þjóðarinnar. Þess vegna er tímabært að samþ. till. þá, sem hér liggur fyrir.