14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (2729)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mun nú víkja að því í stuttri ræðu, sem mér er efst í huga, þegar til umr. er að lýsa yfir vantrausti á núverandi hæstv. ríkisstj. eða stefnu hennar.

Skal þá fyrst minnzt þess máls, er nú verður öllum umræðuefni. landhelgismálsins og nýorðinna tíðinda í því máli.

Samskipti við aðrar þjóðir eru vandasöm. En mér hefur oft þessa daga orðið hugsað til atburða í íslenzkum stjórnmálum næstu áratugina fyrir og eftir síðustu aldamót. Þá var sú barátta háð fyrir íslenzkum málstað, sem Ýmsum virtist í þann tíð vonlítil. Enn erum við lítil þjóð og vopnlaus, en þá vorum við ekki einu sinni sjálfstætt ríki. Mætir menn af okkar þjóð vildu þiggja það, sem þá var boðið, að Ísland yrði, eins og það var orðað í uppkastinu 1908, „frjálst og sjálfstætt land, sem ekki verður af hendi látið“. Þá voru miklar deilur í landi. Þá féllu oft hörð orð. Þau orð skipta ekki máli nú. Það, sem máli skiptir, er, að deilan stóð um það þá eins og nú, hvað fært væri veikri þjóð og smárri í átökunum við það, sem kalla mátti ofurefli. Það var stigmunur baráttuhugar, sóknarvilja og trúar á styrk íslenzks málstaðar, sem þá skipti íslendingum í stríðandi sveitir. Ég held, að þeir, sem neituðu uppkastinu 1908, hefðu líka verið á móti því að gera þann samning við Breta, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert og nú er orðinn skuldbindandi fyrir Ísland.

Hinn 5. maí 1959 bar það til tíðinda, að allir í þessum sal stóðu saman um að birta fyrir þjóðum heims yfirlýsingu Alþ. í landhelgismálinu. Það var mikilsverð athöfn, því að þetta var í fyrsta og eina sinn, sem Alþ. tjáði einróma vilja sinn og stefnu í sambandi við 12 mílna fiskveiðilandhelgina, og sú yfirlýsing var til þess fallin að eyða misskilningi erlendis. Nú er það boðað af hæstv. ríkisstj., að Ísland, hafi með samningsgerðinni unnið stórsigur í málinu og sé það þjóðinni gleðiefni. Nú ber að gleðjast, fagna og þakka, sagði hæstv. forsrh. í gærkvöld, orðrétt held ég. En er það ekki fremur harmsefni, að það þing og sú þjóð, sem var einhuga fyrir tveimur árum, skuli nú vera sundruð og innbyrðis ósamþykk í þessu máli. af því að knúið hefur verið fram það samningsuppkast, sem a.m.k. mikill hluti þjóðarinnar vill ekki sætta sig við? Er þetta út af fyrir sig tilvinnandi til að losna við þá takmörkuðu veiðiaðstöðu í landhelgi, sem Bretar hafa getað náð til sín með valdi? Er hægt að gleðjast af því að eiga nú að skila aftur fyrst um sinn úti fyrir miklum hluta standlengjunnar 6 af þeim 8 mílum, sem friðaðar voru fyrir útlendingum 1958? Og er það ekki helzt til fljótráðið að afsala okkur nú fyrir fram möguleikum til að framkvæma nýja útfærslu skv. landgrunnslögunum á sama hátt og við gerðum 1958? Var það ekki líka fullmikil bjartsýni hjá hæstv. ríkisstj., ef hún hefur gert sér í hugarlund, að þm. þeir, sem enga aðstöðu fengju, beint eða óbeint, til að fylgjast með samningsgerðinni og meta aðstöðuna jafnóðum, gætu á hana fallizt eftir á í öllum atriðum í máli sem þessu, þegar líkur benda til, að hægt hefði verið að ná betri samningum eða komast af án samninga?

Ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. eigi eftir að komast í kynni við aðrar tilfinningar en gleði, a.m.k. hjá bátaútgerðinni og bátasjómönnunum norðanlands og austan, þegar líða tekur á árið, þegar brezkir og líklega fleiri þjóða togarar, sem skipt hafa hundruðum hér við land, fara að færa sig inn á smábátamiðin innan 12 mílna markanna, ekki á smáblettum í skjóli herskipa, heldur hvarvetna þar sem afla er von, og skafa þar botninn í þrjú ár á veiðitíma bátanna.

Mér er það persónulega vel kunnugt, að í sambandi við smábátaútveginn á austanverðu Norðurlandi hefur gætt vaxandi bjartsýni tvö undanfarin ár, af því að afli hefur glæðzt á grunnmiðum. Margir hafa keypt og látið smíða báta eða eiga þá nú í smíðum. Þeir, sem hér eiga hlut að máli, hafa ekki búizt við, að til þess kæmi, að útlendir togarar fengju á ný aðstöðu til að spilla grunnmiðunum. Og ég sé ekki betur en smábátaútgerðin og hlutaðeigandi byggðarlög eigi fullan rétt á bótum í einhverri mynd fyrir tjón, sem verða kann af þeim ráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar.

Hæstv. ríkisstj. hefur uppgötvað athyglisverða vörn í þessu máli. Í grg. fyrir samningnum, sem var lagður fyrir Alþ., segir svo: „Við ákvörðun veiðiheimilda til Breta hefur verið við það miðað, að sem minnst tjón verði af því fyrir fiskveiðar Íslendinga.“ Í beinu framhaldi af þessari yfirlýsingu er á það bent í grg., að á Norðurlandi, frá Djúpavík til Grenivíkur, hafa ekki borizt á land nema 8.9%a af afla bátaflotans í heild árið 1959, á Austfjörðum aðeins 6,1% og á Norðurlandi frá Grenivík til Þórshafnar aðeins 2.5%. Málfærslan, sem í þessu felst, er sú, að í raun og veru skipti ekki mjög miklu máli, þó að útlendum togurum sé hleypt inn í landhelgina á þessu svæði, að heildina muni ekki miklu. þó að fargað sé lambi hins fátæka manns. Hér er á ferðinni ofur lítill angi af þeim hugsunarhætti, að ekki sé hundrað í hættunni, þó að skertir séu afkomumöguleikar hinna fámennari landshluta, fólksins. sem starfar að því að halda landinu í byggð.

Um þetta leyti fyrir tveimur árum var verið að afráða það hér á hinu háa Alþ. að breyta stjórnarskrá lýðveldisins og svipta gömlu kjördæmin, sem voru undirstaða þingræðisins, sögulegum rétti sínum til að eiga sérstaka fulltrúa á löggjafarsamkomunni og þannig því takmarkaða sjálfstæði innan ríkisheildarinnar, sem í þessu fólst. Að dómi þeirra, sem að þessu stóðu, var byggðavaldið of sterkt. Þeir sögðu, að byggðavaldið stæði fyrir pólitískri fjárfestingu úti um landið, of mikilli dreifingu fjármagnsins og ýmsu öðru, sem væri ópraktískt fyrir þjóðarheildina. Hjó þá margur, er hlífa skyldi. En stjórnarskrárbreytingin hefur nú þegar borið hinn blómlega ávöxt, sem þjóðin hefur haft fyrir augum nú um sinn, núverandi hæstv. ríkisstj. og viðreisnina, sem hún hefur staðið fyrir.

Eitt hefur þessari hæstv. ríkisstj. tekizt svo, að ekki verður um deilt. Henni hefur tekizt að sanna það fyrir þeim, sem að stjórnarskrárbreytingunni stóðu, að skipt hafi verið um stefnu gagnvart uppbyggingu landsbyggðarinnar. Og þeir, sem að þessari uppbyggingu stóðu eða standa víðs vegar um landið, í sveitum og við sjávarsíðuna, finna það dável nú orðið, hvað að þeim snýr.

Teikn eða fyrirboðar hinnar nýju stefnubreytingar gagnvart landsbyggðinni komu glögglega fram á himni stjórnmálanna árið sem Alþfl.-stjórnin fór með völd í skjóli sjálfstæðismanna. Strax um vorið 1959 var sá boðskapur látinn út ganga hér á Alþ., að 10 ára rafvæðingaráætluninni skyldi breytt og felldar niður áætlaðar framkvæmdir á Norðausturlandi. Suðausturlandi og víðar. Enn vofir yfir, að svo verði gert. Sama vorið lét kunnur sjálfstæðismaður í Reykjavík þá skoðun uppi opinberlega, að fækka þyrfti bændum landsins um helming, ef vel ætti að vera. Um haustið komu svo bráðabirgðalögin frægu, sem hlutaðeigandi ráðh. gaf út, eftir að fyrir lá yfirlýsing Sjálfstfl. um, að slíkt yrði ekki látið verða stjórninni að falli. Með þessu stjórnarboði var bændum gert að afhenda hluta af afurðum búa sinna endurgjaldslaust til 15. des. það ár, í þessu tilraunastríði við bændur báru samtök þeirra raunar að lokum hærra hlut að mestu, sem betur fór. Hér er ekki tími til að rekja það lið fyrir lið eða í sögulegri röð, sem síðan hefur borið til tíðinda í tíð núverandi hæstv. ríkisstj, og í sömu átt miðar. En stikla skal á stóru.

Hin almenna samdráttarstefna ríkisstj. kemur að sjálfsögðu tilfinnanlegast niður í þeim landshlutum og þeim byggðarlögum, þar sem uppbyggingarinnar er mest þörf og brýnust, þar, sem stöðvun hennar getur skapað hættu á vonleysi um framtíðina, þar sem engan tíma má missa. Hin almenna vaxtahækkun kemur harðast niður þar, sem menn verða að bíða lengst með framleiðslu sína óselda, þar sem umsetning vara tekur lengstan tíma og þar sem menn verða að kaupa í skuld mikinn hluta úr árinu. Verðhækkunin mikla af völdum gengisbreytingarinnar og söluskattsins kemur að vísu víðar niður, en þó sennilega harðast á bændum, fiskimönnum og öðrum slíkum víðs vegar um land, sem eiga framtíðina í hættu, ef þeir geta ekki haldið atvinnurekstri sínum í horf, og á samtökum þeirra, en á þessum atvinnurekstri byggist afkoma allra vinnandi manna og afkoma byggðarlaganna. Hér er þó fleira á ferðinni en hinar almennu aðgerðir, sem ég nefndi. Á rúmlega einu ári er búið að hækka um þriðjung eða meira vexti hjá öllum þeim stofnunum, sem veita lán til langs tíma, og sums staðar er lánstíminn styttur. Árgreiðsla á algengustu lánum í ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði hefur hækkað um milli 40–50%, ef um jafnhátt lán er að ræða og áður. Þetta er ekki bráðabirgðaráðstöfun, heldur stefnubreyting, þar sem um löng lán er að ræða. Ódýrt fjármagn til að byggja upp landið og efla atvinnulíf byggðarlaganna er ekki á stefnuskrá þeirra, sem nú fara með völdin. Fjármagnið á ekki að byggja upp landið, heldur virðist landið eiga að byggja upp fjármagnið, að þeirra dómi. Nú alveg nýlega er búið að samþ. á Alþ., að lántakendur skuli framvegis bera alla áhættu af gengisbreytingum og skuldum fiskveiðasjóðs. Það hefur ekki þekkzt áður. Munu hér ekki fleiri á eftir fara?

Útgjöld fjárlaganna hafa hækkað um 80% síðan 1958. En framlög ríkisins til hinna opinberu framkvæmda víðs vegar um land hafa ekki hækkað um 80% á þessum tíma. Hæstv. fjmrh. sagði, að þau ættu að standa í stað. Og það er víst meginreglan enn þá. Svo virðist eiga að draga úr stuðningi. sem byggðarlögum hefur verið veittur með ríkisábyrgðum, og láta þau greiða stórar fúlgur í aukagjald fyrir ábyrgðina.

En það er fleira, sem sýnir, að núverandi stjórnarstefna hefur auga á lambi hins fátæka manns. Á árinu sem leið var það eitt helzta sparnaðarsnjallræðið að draga úr strandferðum og lækka ríkisframlag til að eyða refum og minkum. Ekki varð mikið úr þessu, er á reyndi, fremur en öðrum sparnaði, — athyglisvert eigi að síður.

En nú er eins og það sé ekki nóg að gera ráðstafanir til að draga úr dreifingu fjármagns um landið. Hér eftir skal hið dreifða fjármagn dregið saman. Í fyrra var sparisjóðum og innlánsdeildum úti um allt land gert að afhenda Seðlabankanum í Reykjavík hluta af innstæðureikningum sínum á árinu. Nú hafa stjórnarvöldin fært sig upp á skaftið og heimta á þessu ári sinn hluta af öllu innstæðufé þessara sjóða, hvort sem um aukningu er að ræða eða ekki.

Lengi hafði bændum landsins, eftir því sem ég veit bezt, verið nokkurn veginn óhætt að reiða sig á það, að þeir gætu á síðustu mánuðum hvers árs fengið lán skv. gildandi lögum og reglum út á ný íbúðarhús á jörðum og aðrar framkvæmdir á jörðunum, ef þeir höfðu afhent Búnaðarbankanum nauðsynleg skilríki til þess fyrstu daga desembermánaðar. Í fyrra bar svo við, að þetta stóðst ekki. Byggingarsjóðslán voru ekki veitt, fyrr en komið var fram á vor árið eftir, og þá með stórhækkuðum vöxtum. Mikið af ræktunarsjóðslánunum, sem tilheyrðu árinu 1959, lenti líka í háu vöxtunum 1960 og hinum stytta lánstíma. Nú fyrir síðustu áramót var sjóðunum svo naumlega skammtað, að ekki var hægt að afgreiða fyrir áramát lán út á þau skilríki, sem bárust eftir 20. nóv. Þannig beið fjöldi lána fram á árið 1961. Allir, sem til þekkja, vita, hverju það skiptir að geta staðið við greiðsluáætlanir um áramót. Nú hefur af greindum ástæðum skapazt óvissa, sem gerir sitt til þess í viðbót við annað að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum í sveitunum. Spyrji þm. um þessi mál á Alþ., er venjulega svarað skætingi. Núv. hæstv. landbrh. virðist hafa ofnæmi fyrir landbúnaðarmálum. Hann virðist haldinn þeirri firru, að það sé erfiðara fyrir þjóðfélagið nú en áður að halda uppi þeim lánsstofnunum á þessu sviði, sem lög hafa mælt fyrir um í 30 ár. Hann stendur líka á því fastara en fótunum, að bændum hafi, eins og hann sagði nýlega, gengið betur að kvitta reikninga sína, síðan hann tók við í stjórnarráðinu, og það sé Sjálfstfl. að þakka. Svona er þetta dásamlegt í hans augum, að kaupa allt með hækkuðu verði og fá ekki áætluð lán, það geri bændum auðveldara að kvitta reikningana. Um þetta þarf víst ekki að fjölyrða. En minna má á í þessu sambandi, að vaxtahækkunin, bæði hin almenna og hin sérstaka, eru enn alvarlegri fyrir bændur vegna þess, að þeir eiga alltaf undir högg að sækja að fá vaxtaútgjöld búanna tekin í verðlagsgrundvöllinn. Og svo hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að draga úr lánum Seðlabankans út á landbúnaðarafurðir.

En hæstv. ríkisstj. fann líka á sínum tíma eitt ráð enn til að hjálpa bátaútvegsmönnum úti á landi og vinnslustöðvum þeirra til að kvitta sína reikninga. Það var afnám sérbótanna á smáfisk, sérstakar fisktegundir og sumarveiddan fisk. Því var haldið fram, að gengisbreytingin leysti allan vanda á þessu sviði. Sumir segja raunar, að hún hafi engan vanda leyst fyrir sjávarútveginn. Um það ætla ég ekki að dæma. En niðurfall sérbótanna var alvarlegt áfall fyrir mörg sjávarpláss. Jafnvel þótt verðmismunur hafi verið innleiddur, eiga mörg frystihús í vök að verjast vegna niðurfalls sérbótanna, og hefur sums staðar legið við rekstrarstöðvun. Hér er að skapast ískyggilegur vandi fyrir ýmis af þeim byggðarlögum, sem minna mega sín við sjávarsíðuna. Það hjálpar ekki að ýtast á innbyrðis, heldur sameina kraftana um að fá stefnubreytingu og þá leiðréttingu, sem dugir.

Ég minntist á innlánsdeildir kaupfélaganna. En gagnvart samvinnufélögunum og félagsmönnum þeirra er ekki vegið einu sinni, heldur oftar, í sama knérunn. Samdráttarpólitíkin í lánsfjármálum og verðhækkunin kemur yfirleitt mjög hart niður á þeim, eins og ég hef áður vikið að. Svipað er að segja um söluskattinn. Sé einhvers staðar til bæjarstjórnar- eða hreppsnefndarmeirihluti, sem lítur samvinnufélagsskapinn í sínu umdæmi hornauga, er honum með nýrri útsvarslöggjöf gefið tækifæri til að sýna það í verki. Sums staðar dreymir nú forustumenn Sjálfstfl. um að láta klofningshugsjónina rætast. En þess vegna er ég nú að tala um samvinnufélögin í sambandi við byggðarlögin úti um land, að ég veit, að samvinnuskipulagið hefur reynzt mörgum eða jafnvel flestum byggðarlögum ómetanlegur styrkur í framfarasókn þessarar aldar, — þó að þar geti auðvitað misjafnlega til tekizt, — og byggðarlögin þurfa á styrk og möguleikum þessa skipulags að halda í framtíðinni ekki síður en á liðnum tíma. Stjórnarstefna, sem er kærulaus eða fjandsamleg gagnvart samvinnufélögunum, getur jafnazt á við harðindi í heilum landshlutum.

En hvernig hafa svo núverandi valdhafar tekið tillögum, sem nú er hreyft á Alþingi og að því miða að styðja atvinnulíf og framfarir úti um byggðir landsins? Sem svar við þessu ætla ég að rifja upp nokkur mál. sem Framsfl. hefur flutt á þeim vettvangi undanfarið, og hverjar viðtökur þau hafa fengið.

Flutt hefur verið frv. til l. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, lögfesta lágmark atvinnuaukningarfjárins og skipuleggja til frambúðar þá starfsemi, sem hér er um að ræða. Flutt hefur verið frv. um að verja erlendu lánsfé til hafnarframkvæmda með það fyrir augum, að slíkar framkvæmdir geti átt sér stað þar, sem þær þola ekki bið og framtíð byggðarlaga virðist að verulegu leyti undir þeim komin. Hér er um framleiðsluaukandi og gjaldeyrisaflandi framkvæmdir að ræða, a.m.k. óbeint, og notkun erlends fjár því eðlileg, enda til þess stofnað af annarri ríkisstj. þegar á árinu 1958. Flutt hefur verið till. um að athuga möguleika og skipuleggja föst lán til kaupa á verðmiklum veiðarfærum, sem telja má veðhæf. Flutt hefur verið frv. um, að allur benzínskattur renni í vega- og brúasjóð. Hætt er við, að slíkar framkvæmdir dragist stórlega saman, nema þær fái aðskilinn fjárhag, sem svo mætti kalla, og tekjustofn fyrir sig, og er þá benzínskatturinn sjálfsagður. Flutt hefur verið frv. um að létta skuldum af byggingarsjóði sveitabæja og ræktunarsjóði á sama hátt og gert var 1953 og 1957 og rétta þannig við fjárhag þeirra. Flutt hefur verið frv. um, að ræktunarsambönd fái hliðstæðan stuðning og áður til vélakaupa, en lagaákvæði vantar nú um það efni. Flutt hafa verið frumvörp um að skipulagðar verði lánveitingar út á bústofn og vélar og hækkuð verði óafturkræf framlög til íbúðarhúsa í sveitum með tilliti til verðhækkana.

Og nú hygg ég, að ýmsir, sem mál mitt heyra, hugsi sem svo, að ekki sé hér nú fram á neina óhæfu farið og einhvers staðar og einhvern tíma hafi t.d. frambjóðendur Sjálfstfl. nefnt annað eins á kosningafundum og á eitthvað af þessu ætti ríkisstj. að geta fallizt að minnsta kosti. En ekki gerði hún það í fyrra, og ekki hefur hún gert það enn þá á þessu þingi. Sumum þessara máls hefur verið vísað frá, önnur látin sofa í nefnd.

Ég hef þá reynt að draga upp nokkrar skyndimyndir af stjórnarstefnunni, annars vegar hverju hún hefur beitt sér fyrir og hins vegar hverju hún er á móti eða frestar, á meðan frestað verður. Ég held því ekki fram, að þeir, sem nú fara með völd, séu óþjóðhollir menn eða allt hafi þeim illa úr hendi farið. En ég óttast þá stefnu, sem nú er mörkuð í löggjöf og landsstjórn, og alveg sérstaklega þann hugsunarhátt gagnvart uppbyggingunni í byggðum landsins, sem ráðið hefur ríkjum um rúmlega tveggja ára skeið.

Út af umr. í gær vil ég segja þetta: Við hæstv. forsrh., að hann ætti að hafa betra taumhald á afbrýðisemi sinni út af kommúnistum. Þeir dugðu honum vel við að koma Alþfl. á kné fyrir 1940 og við að ryðja stíflum úr farvegi verðbólgunnar á sínum tíma. Hann verður að sætta sig við það, þó að Alþb. hafi í seinni tíð stutt góð mál með Framsfl. Við Jón Þorsteinsson, að hann þarf að gera sér grein fyrir því, að verkalýðsfélögin á Norðurlöndum hafa sjálf komið á tveggja ára samningstíma og lengri og að í frv., sem hann nefndi um vinnulöggjöf, átti að tryggja launþegum launahækkun í samræmi við hækkun þjóðartekna á hverjum tíma. Við hæstv. menntmrh., að ég mælist vinsamlega til þess, að hann afli sér vitneskju um fyrirætlanir Framsfl. í nýbirtri stjórnmálayfirlýsingu frá aðalfundi flokksstjórnarinnar.

Og að lokum þetta: Þegar litið er yfir farinn veg, er ég ekki frá því, að sagt verði um þessa hæstv. ríkisstj., að henni hafi mistekizt að verulegu leyti það, sem hefði getað orðið til nokkurs góðs, ef hún hefði kunnað sér hóf, en tekizt það a.m.k. um stundarsakir, sem síður skyldi, og að nepjan, sem af henni stendur, hafi, eins og sagt var í fyrra, a.m.k. víða komið við gróandann í þjóðlífinu eins og hret á vori. Mál er, að því hreti linni. — Góða nótt.