14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í D-deild Alþingistíðinda. (2730)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í þinghaldi þessa vetrar hafa hin pólitísku veður verið fremur stillt. Nota má í þeim efnum sem líkingu allalgenga veðurspá veðurstofunnar: hægviðri og léttskýjað. En fyrir hálfum mánuði breyttist þetta. Hvessti þá skyndilega, og hafa djúpar lægðir verið á ferðinni og allstormasamt.

Alþ. hefur nýlega samþykkt þáltill. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Á meðan till. lá fyrir, hélt stjórnarandstaðan uppi stórfurðulegu málþófi og í ósköpunum, sem gripu stjórnarandstöðuna þegar eftir að tillagan birtist, fluttu nokkrir af forsprökkum hennar vantrauststillögu þá á hæstv. ríkisstj., sem nú er verið að ræða. Vantraustið er því flutt af tilefni landhelgismálsins, og vil ég víkja máli mínu að því.

Aðalspurningin í því máli var: Áttum við að leitast við að ná samkomulagi við Breta eða áttum við ekki að gera það? Við vissum, að hverju við gengum með samkomulaginu, en við vissum ekki, hvað fram undan væri ella. Árekstrar þeir, sem orðið höfðu milli Íslendinga og Breta, meðan Bretar voru með togara sína í landhelgi í vernd herskipa, sýndu ljóslega, að hvenær sem var gat af því hlotizt manntjón. Þetta var mjög mikilvægt atriði. Við, sem álengdar stöndum hættunni, verðum að gera okkur ljósa aðstöðu þeirra manna, sem í eldlínunni standa, og ekki síður aðstandenda þeirra.

Hv. 5. þm. Austf., Páll Þorsteinsson, bar það á ríkisstj. og stuðningslið hennar í umr. um landhelgismálið í s.l. viku og endurtók það enn í gærkvöld, og sama gerði hv. þm. Karl Kristjánsson, að ríkisstj. og þeir flokkar hefðu rofið samstöðu og samstarf stjórnmálaflokkanna um þetta mál. Það er hart að heyra slík brigzl úr munni framsóknarmanna, þegar þeir sjálfir dæmdu sig úr leik í þessu máli með því að vera ekki menn til trúnaðar. Þeir mátu meira að hefja kapphlaup við kommúnista og þá Alþb.-menn til að gera tortryggilegar allar tilraunir til lausnar deilunni. Ég vil segja það hér, að ég hef ekki ætlazt til ábyrgrar afstöðu í þessu máli frá hálfu Alþb., en meginrökin fyrir samningunum við Breta eru þau, að þessi deila var hættuleg samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða. Einmitt þetta er aðalorsök hinnar hatrömmu baráttu þeirra Alþb.-manna gegn öllu samkomulagi. En ég vil jafnframt segja það, að ég hefði vænzt ábyrgrar afstöðu framsóknarmanna til þessa máls, einmitt vegna þessa kjarna. Þá er illa komið þeirra hag, þegar þeir eru orðnir áttalausir í austrænni gjörningaþoku. Skylt er þó að viðurkenna, að ekki eiga allir framsóknarmenn hér óskilið mál. Mjög margir þeirra víðs vegar um land hafa raun af þeirri afstöðu, er flokksforustan og blað þeirra, Tíminn, hefur tekið, og jafnvel í þingliðinu eru til menn, sem eru a.m.k. ofstækislausir í því máli.

Í ræðu, er hv. þm. Jón Skaftason flutti hér á hv. Alþ. um þetta mál, sagði hann, að sumir teldu, að með samkomulaginu væri girt fyrir alla frekari útfærslu landhelginnar, og þetta hafið þið nú heyrt í ræðum hér í gærkvöld um þetta mál. „Undir þetta tek ég ekki,“ sagði hv. þm. Jón Skaftason. Hann tekur ekki undir það, sem verið hefur aðaluppistaðan í málflutningi framsóknarmanna móti samkomulaginu, það, sem sumir hafa leyft sér að kalla, að við værum að selja rétt okkar. „Undir þetta tek ég ekki,“ sagði hv. þm. Jón Skaftason. Og þegar sami hv. þm. var að ræða um alþjóðadómstólinn og þau rök, sem hann skyldi dæma eftir, þá vitnaði Jón Skaftason í þau orð hæstv. forsrh.: „Því að lífsrétturinn og sanngirnin verður okkar megin.“ Hvers vegna að minna á lífsréttinn og sanngirnina? Af því að þar er traust og hald smáþjóðanna, af því að í trúnni á réttinn felst framtíðaröryggið, af því að Sameinuðu þjóðirnar eru samvizka mannkynsins. sem alþjóðadómstóllinn er spegilmynd af. Hv. þm. Jón Skaftason sagði enn fremur: „Það má vera, að í þessu máli sé óþarflega mikil tortryggni.“ Ég hef leyft mér að vitna í þessa ræðu, af því að hún var nokkuð sérstök í hinum annars furðulega málflutningi framsóknarmanna við landhelgisumræðurnar, og ég vil koma þessum tilvitnunum í mál hans til flokkssystkina hans um allt land, af því að ég veit, að Tíminn gerir það ekki. Til þess var mál hans of sanngjarnt.

Það er ríkt í eðli okkar Íslendinga að vilja vera stórir. En okkur missýnist oft um, hvað það er að vera stór. Margra alda örbirgð og ánauð mótaði með þjóðinni vanmáttarkennd og tortryggni. og nú finnst ýmsum, að við smækkum við það að semja við Breta, einu þjóðina, sem beitt hafi okkur valdi í landhelgismálinu. En ég vil spyrja þá, er þannig hugsa: Hvenær eiga og geta deiluaðilar sætzt og samið? Hvernig þarf sú deila að hafa þróazt? Er ekki hægt fyrir þann, er telur, að á sinn hlut hafi verið gengið, að sættast eða semja nema minnka? Hvernig væri þá komið sambúð og samskiptum í stóru og smáu meðal einstaklinga. — á meðal þjóða?

Athugið það, áheyrendur, að það þarf vissa stærð til þess að semja og sættast. Þessi samningur er að mínu viti vottur þess, að við Íslendingar skiljum, hvað það er að vera stór.

Það er reynt að styðja á þá strengi, að svæðin milli 6 og 12 mílna, sem Bretar fái með samkomulaginu að veiða á næstu þrjú árin, séu misjöfn eftir landshlutum að tímalengd og víðáttu. Það er bent á t.d., að út af Vestfjörðum séu 12 mílurnar með öllu friðaðar, en fyrir Norðurlandi og Austurlandi og vestur með suðurströnd séu Bretum heimilaðar veiðar á svo til öllu ytra 6 mílna beltinu lengri eða skemmri tíma. En á bak við þetta stendur heildarmyndin: sú að leysa deiluna, og það vil ég segja, að ef sú tilfinning er fyrir hendi, að lausn fiskveiðideilunnar krefjist misjafnlega mikils þegnskapar af landsbúum, sem að vísu kemur fyrst til fulls í ljós að enduðu samningstímabilinu, þá veit ég, að þjóðin sem heild metur það, metur það við þá, sem mestan þegnskap sýna.

Það er annars alvarlegt mál. þegar reynt er að telja landsfólkinu trú um, að meiri hluti alþm. sé að svíkja þjóð sína. Ég vil þess vegna spyrja ykkur, áheyrendur góðir, og alveg sérstaklega ykkur, sem fylgið Framsfl. að málum: Er líklegt að öllum þeim, sem völdu þessa menn til forustu í málum þjóðarinnar til að gæta hags og heiðurs, hafi svo hrapallega missýnzt? Er ekki nokkuð langt gengið í brigzlum svika, illvilja, ógreindar? Hugleiðið þessi mál, þegar hiti tilfinninganna fer að lækka og ólga blóðsins að sjatna. Og minnizt þessara höfuðatriða málsins: að bæta sambúð vestrænna þjóða, bægja hættu frá sjómönnum okkar eftirleiðis, tryggja með siðmannlegu samkomulagi áframhaldandi útfærslu á fiskveiðilandhelgi okkar.

Eftir að núverandi ríkisstjórn kom til valda, voru gerðar mjög róttækar aðgerðir í efnahagsmálum. Þjóðin var búin að lifa um efni fram um langt árabil. Með efnahagsráðstöfununum var stungið við fótum. Mörgum þótti þær koma harkalega niður, og til eru þeir, sem kenna núverandi ríkisstj, um, að þrengt hefur að um skeið. Hverjum manni má þó vera ljóst, að við urðum að taka afleiðingum fyrri gerða, því að „æ koma mein eftir munuð“. Það er viðurkennt, að við höfðum búið við sæmilegt jafnvægi hér innanlands árin 1950–55 í fjármálum. En með hinu pólitíska verkfalli 1955 var þetta jafnvægi rofið og gjaldmiðillinn, krónan okkar, tók að hríðfalla á ný. Þá flutti hæstv. núv. landbrh., Ingólfur Jónsson, till. um að auka nokkuð niðurgreiðslu á nokkrum vísitöluvörum til þess að stöðva með því verðbólguhjólið og fall krónunnar. Þá var samstjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Þessum till. höfnuðu framsóknarmenn, og síðan rauf Framsfl. stjórnarsamstarfið við Sjálfstfl. Framsóknarmenn rökstuddu það einkum með því, að ekki væri hægt með sjálfstæðismönnum að gera nauðsynlegar ráðstafanir í efnahagsmálum. Þar með hélt skriðan áfram að falla á vinstristjórnarárunum. Krónan lækkaði svo ört, að fallið var raunverulega orðið meira en um helming á 3–4 árum, þegar núv. ríkisstj. tók við.

Fyrir landbúnaðinn hafði þessi þróun slæm áhrif. Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins er byggður þannig upp, að þetta varð til þess, að sífellt stækkaði bilið milli þeirra bænda, sem voru búnir að koma upp fyrir sig lífvænlega stórum búum og höfðu byggt íbúðir og útihús, og hinna, er þetta áttu eftir. Aukin framleiðsla í heild á landbúnaðarvörum mætti að verulegu leyti auknum framleiðslukostnaði. Afleiðingin varð því sú, að þeir bændur, sem höfðu ekki haft bolmagn og aðstöðu að stækka bú sín og byggja, fjarlægðust því meir að geta þetta. Þeir bændur, sem verið hafa að brjótast í framkvæmdum síðustu árin og reyna að stækka bú sín, eru því nú margir hverjir mjög hlaðnir lausaskuldum.

Um síðustu áramót gaf ríkisstj. út bráðabirgðalög um að breyta nokkru af lausum skuldum útvegsins, sem hvíla á útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslustöðvum, í föst lán til margra ára með lægri vöxtum en nú gilda af lausum lánum. Fjárhagserfiðleikar þeirra bænda, sem hlaðnir eru lausaskuldum, hafa einnig verið til athugunar og umræðu hjá ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Það dylst ekki, að hér er um vandamál að ræða, sem greiða verður fram úr með opinberum aðgerðum. Þess vegna tel ég rétt, að það komi fram, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leita eftir því við banka og sparisjóði. að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum.

Mál Búnaðarbankans hafa allmjög verið á dagskrá að undanförnu. Það er kunnugt, að fjárhagserfiðleikar lánasjóða landbúnaðarins eru miklir og þau mál eru ein af hinum stóru óleystu vandamálum, sem hinar „sætu syndir“ verðbólguáranna drógu á eftir sér. Núv. ríkisstj. beitti sér fyrir breytingum á lögum Búnaðarbankans í lok síðasta þings. Nú er bankaráð hans þingkjörið, eins og annarra banka ríkisins, en ekki stílað á það að tryggja Framsfl, völdin þar, eins og áður var. Þessi breyting á yfirstjórn bankans mun valda straumhvörfum til hags fyrir íslenzkan landbúnað. Ekkert er hættulegra landbúnaðinum en einhliða pólitískur blær á banka hans. Nú á hann að bera sama svip og þing þjóðarinnar. Með komu hins nýja bankastjóra, Magnúsar Jónssonar, í bankann um síðustu áramót munu verða þáttaskil í sögu hans. Í þessu felst engin ásökun, ekkert vanmat á þeim bankastjóra, Hilmari Stefánssyni, er þar hefur gegnt störfum. Kjarni málsins er sá, að það er hrein lífsnauðsyn, að í ákvörðunum og starfi slíkrar stofnunnar gæti þess afls, sem samúð hins pólitíska valds býr yfir. Þess vegna er það mín skoðun, — og takið vel eftir því, — að hin nýja skipan á stjórn Búnaðarbankans og skipun Magnúsar Jónssonar í bankastjórastöðuna, þessa samvinnuþýða, viðsýna og raunsæja manns, marki tímamót, sem reynast muni ein hin farsælustu íslenzkum landbúnaði.

Menn verða að skilja, að sú stefnubreyting, sem nú hefur verið gerð til að treysta efnahagslíf landsins, og aðgerðir þær, sem til þess eru nauðsynlegar, þurfa tíma til að ná tilgangi og það krefst ætíð þolinmæði að sigrast á örðugleikum. Sýni þjóðin þessa þolinmæði, bíða okkar batnandi tímar. Vantrauststill. sú, sem hér liggur fyrir, er andvana fædd. Hún er fram borin í fljótræði. Þess vegna missir stjórnarandstaðan marks í þessu máli.