14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í D-deild Alþingistíðinda. (2732)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég held, að frekjan og rökleysurnar í ræðu síðasta ræðumanns hæfi betur aumum málstað ríkisstj. en fínar og sléttar ræður sumra ráðherranna. En ég efast um, að stjórnin græði á því að hafa nú loks rekið þessa þm. sína til að tala, sem þögðu allan tímann um landhelgismálið, þegar það var til umr. Þessir þm., sem nú hafa fengið málið, eiga að segja sem kerlingin forðum: „Þagað gat ég þó með sann, þegar hún Skálholtskirkja brann.“ En ég held, að fagurmæli ráðh. séu hættulegri fyrir þjóðina en ofstopi eins og í síðustu ræðu.

Það skortir ekki blíðmælgina hjá hæstv. ráðh., þegar þeir tala frammi fyrir þjóðinni, en því harðvítugri eru verk þeirra gagnvart almenningi í landinu. Það á ekki sízt við um þá hæstv. ráðh., sem fyrst og fremst hafa með viðskipti og fjármál að gera. Með siðfágaðri, silkimjúkri rödd fullvissa þessir herrar íslenzka launþega um, hvílíka umhyggju þeir beri fyrir velferð þeirra, og læða um leið löngum fingrum kaupráns- og gengislækkunarlaganna í vasa hvers láglaunamanns og stela af honum 1000 kr. á mánuði hverjum. Með hátíðlegum prófessorshreimi í röddinni fullvissa þeir landslýðinn um það sem algildan sannleika, að þjóðin hafi lifað um efni fram og þeir fátæku verði því að spara, svo að þeir ríku geti grætt. Á þessum grundvallarósannindum, að þjóðin hafi lifað um efni fram, byggist allt hrófatildur efnahagsstefnu ríkisstj. Ég spyr: Hvernig getur sú þjóð lifað um efni fram, sem leggur ár hvert þriðjung allra tekna sinna til hliðar til fjárfestingar og fær aðeins einn tíunda hluta fjárfestingarinnar að láni erlendis frá? Nei, það er annað, sem að er. Hinu gífurlega fé sem þjóðin leggur til hliðar, er ekki varið rétt, af því að það er ekki heildarstjórn á fjárfestingunni í þágu þjóðarinnar, og einmitt á móti því, að svo verði, berst auðvaldið á Íslandi, stóra og litla íhaldið, með hnúum og hnefum. Öll gífuryrði þessara herra, allt sérfræðingasnakk þeirra er aðeins yfirvarp til þess að reyna að skapa innlendu og erlendu auðvaldi aðstöðu til að féfletta íslenzkan almenning. Hámarkinu nær hræsnin, þegar hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, segir í gær, að allir hagfræðingar ríkisins séu þeim sammála. Það er helzt vandi að sjá til þess! Þessir herrar ráða nú enga hagfræðinga í stöðu nema þá, sem vilja dylja þjóðina þess, sem ríkisstj. vill leyna, og segja í skýrslunum það, sem henni þóknast. Séu staðreyndirnar óþægilegar, er bara breytt skýrslunum, eins og við vísitöluútreikninginn. Og sé hagfræðingur á öðru máli en ræningjarnir í ríkisstj., þá fær hann ekki starf í ríkisbákninu.

Hin fáguðu ósannindi hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, stungu mjög í stúf við hina taumlausu frekju Jóns Þorsteinssonar, hv. 9. landsk. þm. Sá maður hafði brjóstheilindi til að segja, að Alþfl. fordæmdi pólitíska misnotkun verkalýðsfélaga. Einmitt Alþfl. hefur misnotað verkalýðsfélögin svo herfilega, að hann kom á algeru einræði flokksins í Alþýðusambandinu í 12 ár, og þegar hann varð að sleppa einræðisstjórninni 1942 og koma á lýðræði og jafnrétti, þá stálu toppkratarnir Iðnó, Alþýðubrauðgerðinni og Alþýðuhúsinu af verkalýðshreyfingunni með aðferðum, er samsvara þeim, að alþm. gerðu Landsbankann að hlutafélagi og gæfu sjálfum sér hlutabréfin. Þar með er útrætt um þann mann og heilindi hans á vettvangi stjórnmálanna.

Það er ekki nóg með, að öll efnahagsstefna ríkisstj. hafi sýnt sig að vera tóm vitleysa. Við því var alltaf að búast. Hún hafði tekið illa, erlenda auðvaldsstefnu ómelta og hleypt henni inn á íslenzkt efnahagslíf, rétt eins og þegar karakúlhrútunum forðum daga var hleypt á íslenzkan fjárbústofn, enda er þessi karakúlpest ríkisstj. þegar farin að eyða íslenzku efnahagslífi. Það, sem er pólitísk dauðasök þessarar ríkisstj., er, að hún hefur gert sig seka um það, sem er fyrirlitlegast í fari hvers manns, undirlægjuhátt gagnvart þeim voldugu og ríku, kúgun gagnvart þeim fátæku og smáu.

Táknræn fyrir afstöðu þessarar ríkisstjórnar er framkoma hennar annars vegar gagnvart brezka auðvaldinu, hins vegar gagnvart íslenzkum verkalýð.

Brezka auðvaldið hefur alltaf arðsogið íslenzka þjóð með öllum ráðum. Það hefur beitt oss Íslendinga kúgun og ofbeldi, er náði hámarki í hervaldsbeitingu þess í tvö ár í landhelgisdeilunni. Níðingsskapur brezka stórveldisins gagnvart íslendingum vakti fyrirlitningu á brezku hervaldi og samúð með Íslandi um allan heim. En hvað segir svo íslenzka ríkisstj. nú með landhelgissamningnum við þennan brezka innbrotsþjóf, þennan ofbeldissegg? Hún segir: Bróðir minn í NATO, þú þarft ekki að beita mig ofbeldi. Ég skal opna fyrir þér landhelgina. Ég skal aldrei færa út aftur, nema spyrja þig um leyfi. Það eru bara vondir menn, sem eru á móti NATO, sem vilja færa út fiskveiðilandhelgina og svipta þig þínum sögulega rétti. — Og ríkisstj. hneigir sig í auðmýkt fyrir brezka ræningjanum, opnar fyrir honum landhelgina, forðabúr íslenzkra fiskimanna og þjóðarinnar.

En hvernig er þá framkoma þessarar ríkisstj. auðvaldsins við íslenzka verkalýðinn, sem íslenzka auðmannastéttin á allan sinn auð að þakka? Þessi ríkisstjórnarsamsteypa hefur í tvö ár beitt ofbeldi við íslenzka launþega. Hún hefur með þrælalögunum 1. febr. 1959 stolið af launþegunum stórum hluta af samningsbundnu kaupi þeirra. Hún hefur með dýrtíðarflóði rýrt kaupgjaldið æ meir með hverjum mánuði sem liður, svo að nú er kaupmáttur tímakaups orðinn lægri en nokkru sinni á tveim áratugum og 15% lægri en 1945 og atvinnuleysið að halda innreið sína. Verkalýðshreyfingin hefur í tvö ár látið þetta kauprán og kjararýrnun yfir sig ganga án þess að grípa til almennra verkfalla. Verkalýðurinn hefur þolað þyngri búsifjar af þessari ríkisstj. en nokkurri annarri, en samt gefið henni fullan frið í tvö ár. Og hvað segir nú þessi ríkisstj., sem laut brezka ofbeldinu í auðmýkt, við verkalýðinn og aðra launþega? Hún lætur tungumjúka hræsnara sína hér á Alþ. hóta verkalýðnum því undir yfirskini hagfræðinnar, að hækki hann kaupið. Þá lækki hún gengið, m.ö.o. noti ríkisvaldið til nýrra gripdeilda og rána í þágu auðvalds og skuldakónga. Og hún lætur ruddaleg blaðaþý sín hrópa að verkalýðshreyfingunni, að hún sé ofbeldishreyfing, sem ekkert vilji nema verkföll og eyðileggja þjóðfélagið.

Hefur nokkru sinni íslenzk ríkisstj. sýnt lítilmannlegri framkomu gagnvart erlendum auðdrottnum og ofbeldisseggjum annars vegar og gagnvart sínum eigin samlöndum, þeim vinnandi stéttum Íslands, sem allan auðinn skapa, hins vegar? Það er sem þessi ríkisstj. vilji ekkert virða nema vald, helzt ofbeldi. Hún kyssir á brezka hramminn, en slær á friðarhönd íslenzks verkalýðs. Hún einskisvirðir rétt hins vinnandi manns, en hún mun kannske beygja sig, þegar hinar vinnandi stéttir sýna henni, hvert vald þær eru, og sýna það vald í verki í voldugum samtökum.

En þetta framferði gagnvart auðstétt Bretlands annars vegar og vinnandi stéttum Íslands hins vegar er ekki það eina, sem ríkisstj. hefur unnið sér til dómsáfellis. Þessi ríkisstjórn hefur lagzt með öllum þunga yfirstéttarvaldsins á þá félagslegu umbótasókn, á þá efnahagslegu nýsköpunarbaráttu, sem verið hefur undirrót allra framfara á Íslandi á þessari öld. Hún hefur stöðvað íbúðabyggingar almennings, þetta stórkostlega átak alþýðunnar við að húsa landið sitt, þetta þrotlausa starf, sem unnið var myrkranna á milli við að skapa ágæt hús á alþjóðamælikvarða í stað gömlu hreysanna, og nú er ríkisstj. að hjálpa okrurunum til að klófesta þær íbúðir, er þegar voru byggðar af þeim, sem bágust eiga kjörin.

Ríkisstj. hefur stöðvað sjálfsbjargarsókn fólksins um land allt, sem var að endurskapa atvinnulífið fátækum byggðarlögum til framdráttar. Hún hefur hafið aftur eyðingu landsbyggðarinnar eins og á atvinnuleysisárunum fyrir einum áratug. Með drápsklyfjum okurvaxtanna, lánafjötrum bankanna og dýrtíðarfargi gengislækkunarinnar er hún að sliga nýsköpunarþrótt þjóðarinnar. Með ískaldri peningadýrkuninni er hún að drepa þann áhugaeld, sem lyft hafði þjóðinni upp úr örbirgð aldamótanna til bjargálna nútímans. Ríkisstj. einbeitir öllum sínum kröftum að því að koma hér á því alræði peningavaldsins, sem gerir fátæktina aftur að fylgikonu hvers alþýðuheimilis. Meðan þessi ríkisstjórnarsamsteypa lætur legáta sína básúna það út, að þjóðfélagið þoli ekki hærra kaup verkalýðsins, lætur hún bankana taka 100–200 millj. kr. í gróða af atvinnuvegunum, sem ekkert eiga að þola, þverneitar að draga úr gróða vátryggingarfélaganna, skipafélaganna, olíufélaganna og annarra og heldur áfram að berja höfðinu við steininn, þó að það sé sannað, að t.d. áburðarverksmiðjan græði 11 millj. kr. á ári, en borgi aðeins 5 millj. í verkalaun og gæti því bæði stórhækkað kaup og stórlækkað áburð, ef það væri meiningin að reka fyrirtækið með hag almennings fyrir augum. Meðan þessi ríkisstjórnarsamsteypa rænir kaupinu af launþegunum og undirbýr að svipta þá íbúðunum þeirra líka, eys hún milljónum úr ríkissjóði í gæðinga sína, lætur auðhringana, vildarvini síns, flytja úr landi hundruð millj. kr. verðmæti, lætur yfirleitt hvers konar lögbrot viðgangast, ef það bara eru réttir menn, sem fremja þau, og kæfir niður allar rannsóknir á þessu framferði á Alþingi.

Hvert stefnir þessi ríkisstjórn með öllu þessu framferði sínu? Hún stefnir að því að gera alþýðuna aftur arðránshæfa, þannig að voldugir auðmenn geti safnað í gróðahít sína afrakstrinum af vinnu hennar og erfiði. Hún stefnir að því í þágu örfárra auðmanna Íslands og voldugra erlendra auðhringa að beygja íslenzka þjóð undir arðránsok erlends valds, gera Ísland að nýlendu á ný. Í 130 ár höfum við Íslendingar háð frelsisbaráttu vora fyrir því að ráða sjálfir og einir þessu landi og láta landsins börn njóta auðlinda þess og yndis. „Ísland fyrir Íslendinga“ var kjörorð allrar aldarinnar. „Ísland farsælda frón“ var draumsjón baráttunnar. Við höfum unnið mikla sigra, Íslendingar, á þessari öld. En við höfum líka beðið ósigra. Og hvernig stendur á þeim ósigrum? Orsök þeirra er, að sú afturhaldssamsteypa, er nú ræður ríkjum, setur bandalag nýlendukúgaranna, Atlantshafsbandalagið, ofar Íslandi, fórnar hagsmunum Íslendinga fyrir gróðavon og drottnunargirnd auðkónganna. Þess vegna er Ísland nú herstöð Atlantshafsbandalagsins og lífi þjóðarinnar stofnað í voða, ef stríð brýzt út. Þess vegna var landhelgin svikin og brezku ræningjunum hleypt inn á fiskimið Íslendinga og landgrunnið ofurselt alþjóðadómstóli fjandsamlegra stórvelda. Og þess vegna undirbýr ríkisstj. nú að ofurselja amerískum auðhringum orku íslenzkra fossa. Og mennirnir, sem svíkja auðlindir Íslands undir arðránsplóg erlends valds, hóta síðan íslenzkri alþýðu endalausum gengislækkunum, ef hún, sem á þessar auðlindir, gerir kröfur til mannsæmandi lífs. Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. viðskmrh., setti þessa svívirðilegu hótun fram hér í útvarpinu í gærkvöld, með allri þeirri siðfágun í orðalagi. sem vel dresseruðum hirðmanni auðkónganna sæmir, og með öllum þeim níðingsskap gagnvert alþýðu í innihaldinu, sem nýrík yfirstétt, sem klófest hefur ríkisvaldið með svikum, hyggur sig geta boðið íslenzkri alþýðu í skjóli erlends kúgunarvalds. Þetta er takmark þessara erindreka nýlendustefnunnar, að gera Ísland að gróðrarstíu fyrir hervald og auðvald Atlantshafsbandalagsins, að innlima Ísland sem örlítinn hrepp í efnahagskerfi, kreppukerfi auðhringanna. Þetta er orðið úr hugsjóninni um sjálfstæði Íslands, um farsældanna frón hjá þessum mönnum. Það er sá mesti sorgarleikur Íslandssögunnar, sem er að gerast þessi árin.

Kúgaðar þjóðir heimsins hrista nú nýlenduhlekkina og brjóta þá af sér, Ísland gat orðið öllum þessum nýfrjálsu þjóðum hin fegursta fyrirmynd. Ísland gat orðið þeim fyrirmynd um velferð almennings. En nú er kúgunin og fátæktin leidd inn í landið á ný. Ísland gat orðið fyrirmynd um frelsi af klafa erlends auðmagns. En nú er verið að leggja oss hespuna gömlu um háls. Ísland gat orðið fyrirmynd um frið fyrir drápsstöðvum hervelda, en nú á að gera Ísland að Gíbraltar sjóhernaðar. Ísland gat orðið þeim fyrirmynd um samstarf einhuga þjóðar, fagra og farsæla uppbyggingu landsins í þágu eigin barna. En nú er þjóðin klofin í tvennt af harðsvíruðu, síngjörnu afturhaldi, sem gerzt hefur handbendi erlends valds og einskis svífst til að græða. Ísland var fyrirmynd þessara nýfrjálsu landa um yfirráð yfir eigin fiskimiðum. Nú hefur Ísland verið lítillækkað og svikið, landhelgin gerð að undirlægju brezku ræningjanna.

Hverjir valda þessari smán, sem Íslandi er gerð, þessari ógæfu, sem leidd er yfir þjóð vora? Þessu valda mennirnir, sem minnkuðu, mennirnir, sem létu samneytið við erlenda auðvaldið smækka sig og setja nú alla áróðursvél auðvaldsins 3 gang til þess að reyna að smækka þjóðina líka, svo að allt verði við hæfi, til að véla hana og villa henni sýn, meðan þeir eru að minnka landið, selja það undir erlendar herstöðvar, meðan þeir eru að minnka landhelgina, selja hana undir ofbeldið brezka, meðan þeir eru að farga landgrunninu, ofurselja það erlendum dómstóli, meðan þeir eru að farga orku fossanna og leggja þrældómsok erlends auðvalds á herðar íslenzkrar alþýðu.

Harmleikur Íslands er, að þessir menn hafa gerzt handgengnir erlendu valdi, eru fyrst og fremst farnir að hugsa sem hluti úr alþjóðaauðvaldinu, en ekki sem Íslendingar. Auðvald, Atlantshafsbandalagsins er Íslandi í dag það, sem konungsvald Hákonar gamla var oss fyrir réttum 700 árum — 1261.

Íslendingar, nú er allt í hættu, sem oss er kært, velferð alþýðunnar, sjálfstæði þjóðarinnar. Landgrunninu er fargað. Hluti landsins er þegar seldur undir herstöðvar. Orku fossanna á að farga næst. Þegar aðrar þjóðir hrista af sér hlekkina, þá á að leggja á oss Íslendinga nýlendufjötrana á ný. Ef þessi öfugþróun verður ekki stöðvuð, þá vofir glötun yfir öllu, sem íslenzkt er. Það er ekki manngildishugsjón íslenzks þjóðernis, sem vakir nú fyrir valdamönnum vorum. Nei, þeirra mannshugsjón er hinn fágaði hirðmaður auðsins, hinn feiti þjónn hervaldsins. Þess vegna er það nú mikilvægasta verkefni íslenzkra stjórnmála, að hér skapist sú þjóðfylking Íslendinga, sem nær ríkisvaldinu úr helgreipum þessara handbenda auðvaldsins, — þjóðfylking, sem hættir að láta nota ríkisvaldið sem kúgunarvald gagnvart hinum vinnandi stéttum, en gerir það í staðinn að lyftistöng lífskjaranna — sú þjóðfylking, sem nær aftur í hendur Íslendinga landinu og landhelginni, sem nú var ofurseld, gerir Ísland frjálst og farsælt. Verkamenn og bændur, launþegar allir, menntamenn og millistétt og allir þeir atvinnurekendur, sem vilja viðhalda og efla íslenzkt atvinnulíf, þurfa að taka höndum saman um slíka þjóðfylkingu og þá flokka, er hana mynda. Á því veltur nú framtíð Íslands.

Hæstv, viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, spurði hér í gærkvöld, hvaða stefnuskrá sú þjóðfylking Íslendinga, sem nú er í uppsiglingu, mundi framkvæma, þegar hún tæki meiri hluta á Alþingi í næstu kosningum. Ja, Gylfi minn. Hún skyldi nú aldrei framkvæma þá stefnuskrá, sem Alþfl. setti sér fyrir 45 árum, þá stefnu að útrýma fátækt og kúgun af Íslandi og láta vinnandi stéttir landsins njóta auðlinda þess, en Ísland verða frjálst af allri ánauð, þá stefnu, sem toppkratarnir hafa svo herfilega svikið? En mér skildist á spurningunni. að stefnan væri ekki aðalatriðið í augum Gylfa. Það var fyrsta. spurningin, sem kom frá hjartanu, full af kvíða: Ætla þeir að mynda ríkisstj. einir, eða fá toppkratarnir að verða ráðherrar líka? Gylfi minn, hvernig geturðu gert þér vonir um slíkt? Þú sérð nú, að toppkratarnir eru komnir á kaf ofan í íhaldið. Og þann keisaraskurð framkvæmir enginn maður að ná aftur því, sem íhaldið hefur bæði gleypt og melt. En Alþýðuflokksfólkið, það mun verða með, því að þann vinnandi lýð getur auðvaldið aldrei gleypt. Alþýðustéttir Íslends munu sameinast. Það getur engin þjónusta toppkrata við auðvaldið hindrað.

Núverandi ríkisstjórn hefur sagt fólkinu í landinu stríð á hendur og fer nú ránshendi um eigur þess. Þess vegna á stjórnin að falla, en fólkið að sameinast um hagsmuni sína og heill. Þessi ríkisstjórn er handbendi erlends valds í stríði þess við þjóðina og hefur nú svikið hluta af yfirráðasvæði Íslands í hendur þess valds. Þess vegna á stjórnin að falla, en þjóðin að sameinast um að varðveita Ísland fyrir Íslendinga og vinna aftur allt, sem glataðist. — Góða nótt.