13.12.1960
Efri deild: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

130. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í fyrri ræðu um þetta mál hef ég svarað þeim aths. flestum, sem fram hafa komið, en auk þess hafa þeir hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) og hv. 9. landsk. þm. (JÞ) ásamt frsm, meiri hl. fjhn. svarað hér svo ýtarlega, að það er örfátt, sem ég þarf við að bæta. En þó er það fyrst og fremst út af nál. á þskj. 199 og framsöguræðu hv. 2. minni hl. fjhn., sem ég tel rétt og óhjákvæmilegt að leiðrétta nokkrar tölur og fullyrðingar.

Þegar söluskattsmálið var til umr. á síðasta þingi og fjárl., skýrði ég frá því, að í meginatriðum væri hér um að ræða breyt. á skattakerfinu, tilflutning þannig, að þessar breyt. ættu að gefa ríkissjóði svipaðar tekjur og aðrir skattstofnar, sem var breytt eða voru afnumdir. Ég skal aðeins rekja þetta hér til þess að rifja það upp fyrir mönnum.

Það var gert ráð fyrir þá, að sú tekjuskattslagabreyting, sem fyrirhuguð var, mundi gefa ríkissjóði 110 millj. kr. minni tekjur en að óbreyttum skattalögum. Þá er að sjálfsögðu miðað við það, að ef hin eldri skattalög hefðu gilt á árinu 1960, þá hefði tekju- og eignarskattur samkvæmt áætlun skattstofunnar í Reykjavík, orðið um það bil 180 millj., en eftir skattalagabreytingarnar var áætlað, að hann yrði um eða rúmlega 70 millj. Það var sem sagt gert ráð fyrir, að tekjuskattslagabreytingin mundi rýra tekjur ríkissjóðs um 110 millj. kr. eða um það bil.

Í annan stað var svo afnám 9% söluskattsins, sem verið hafði í gildi, þannig að 6% höfðu runnið til útflutningssjóðs, en 3% í ríkissjóð. Það var gert ráð fyrir, að hefði þessi skattur staðið áfram á þessu ári, mundi hann hafa gefið um það bil 114 millj. kr.

Samtals eru því þessir tekjustofnar, sem ríkissjóður var annaðhvort sviptur eða voru rýrðir fyrir honum á þessu ári, 224 millj. kr.

Þessar tekjur þurfti ríkissjóður að fá með öðrum hætti, og 3% söluskatturinn og 8% innflutningssöluskatturinn, sem lögleiddir voru á síðasta þingi, áttu að gefa þessa upphæð. Þessi upphæð, 224 millj., var líka sett inn í fjárl. M.ö.o.: þessir nýju söluskattar, 3% söluskatturinn og 8% söluskattur af innflutningi, áttu að veita ríkissjóði þær tekjur, sem hann missti af hinum fyrrgreindu ástæðum, og þessar tölur stóðust á.

Þetta er nauðsynlegt að rifja upp í sambandi við nál. hv. 2. minni hl. fjhn. og framsöguræðu hans, sem var full af ekki aðeins fullyrðingum, heldur miklum stóryrðum í minn garð um rangar tölur í þessu sambandi. Ég vil nú aðeins lítillega líta á þetta dæmi, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) setur upp á bls. 2 í nál. sínu. Og ég verð sannast sagna að lýsa yfir mikilli undrun, að nm. í hv. fjhn, skuli leyfa sér að bera aðrar eins tölur á borð og þær, sem í þessu nál. og framsöguræðu hans getur, og enn meiri undrun yfir því, að síðasti hv. ræðumaður, jafnglöggur maður og hann er, skuli gleypa þessar tölur athugunarlaust, því að ég veit, að hann hefur ekki athugað þær, þegar hann lýsir samþykki sínu eða blessun yfir þeim.

Í fyrsta lagi er í þessu nál. hv. þm. sagt, að tekjuskattur 1959 hafi verið áætlaður 130 millj. Þessi tala er röng. Áætlunin í fjárl. fyrir 1959 er 145 millj. eða 15 millj. hærri, og veit ég ekki, hvaðan í ósköpunum hv. þm. hefur tekið þessa tölu, nema ef vera kynni úr fjárlagafrv., eins og það hefur upphaflega verið lagt fyrir, ég hef ekki kannað það, en a.m.k. er talan röng, því að fjárl. segja 145 millj.

Hins vegar er þess að gæta, þegar verið er að gera samanburð á tekju- og eignarskatti 1959 og væntanlega fyrir 1961, þá er náttúrlega fróðlegt í því sambandi að athuga, hver tekju og eignarskatturinn raunverulega varð á árinu 1959, en ekki eingöngu þá áætlunartölu, sem fyrir tveimur árum var sett inn í fjárl. Og þá liggur það nú fyrir, að tekju- og eignarskattur á því ári, ásamt stríðsgróðaskatti, sem er þar hluti af og er mjög lítil upphæð, nam 185 millj. kr.

M.ö.o.: fyrsta tala hv. þm. er röng. Ef við tökum fjárlagatöluna, skakkar þar 15 millj. Ef við tökum tölu ríkisreiknings, skakkar 55 millj. á þessum eina lið.

Önnur tala hv. þm. er söluskattur fyrir árið 1959, hann sé áætlaður 145 millj. Þessi tala er líka röng. Í fjárl. fyrir það ár er söluskatturinn áætlaður 151.4 millj. eða 6.4 millj. hærri en hv. þm. tekur upp í sínu þskj.

Ef við lítum svo, eins og með tekjuskattinn, á reynsluna, hver var útkoma á þessu ári, þá varð söluskattur ríkissjóðs ekki 145 millj., eins og þarna greinir, heldur 164 millj. En auk þess er hér farið með mjög blekkjandi tölur, vegna þess að 2/3 hlutar af þessum söluskatti á innlendri þjónustu og vörum, sem þá gilti, runnu ekki beint í ríkissjóð, heldur í útflutningssjóð, og honum var létt af, um leið og ríkissjóður hins vegar tók að sér vissan hluta af verkefni útflutningssjóðs eða niðurgreiðslurnar. Vitanlega er það ekki réttur samanburður að sleppa því, að 6% af þessum 9% skatti hafi verið felld niður. Þegar það er tekið með, varð söluskatturinn á árinu 1959 ekki þessar 145 millj., sem hv. þm. setur í sitt nál., heldur 237 millj.

M.ö.o.: þarna skakkar frá tölu hv. þm. og reynslunni, það skakkar hvorki meira né minna en 92 millj. kr. Og ef þarna eru teknar þær réttu tölur, sem sagt hver tekjuskatturinn og eignarskatturinn varð á árinu 1959 og hver söluskatturinn raunverulega varð, þá skakkar þarna hvorki meira né minna en 147 millj. kr., sem þessir skattar gáfu meira en hv. þm. gefur upp.

Með þessu er náttúrlega gersamlega dottinn botninn úr öllum fullyrðingum hans. Hann segir í nál. sínu, með leyfi hæstv. forseta, að hækkun söluskatts frá því fyrir viðreisn umfram lækkun tekjuskatts og lækkun útsvara sé óumdeilanlega orðin 238.5 millj. á árinu 1961. Með þessum leiðréttingum, sem ég hef hér gefið upplýsingar um, eru þá þessar 238 millj. hans komnar strax niður í 91.5 millj., og má nú segja, að minna geri gagn. En auk þess er hér beitt hinum mestu blekkingum, því að hingað til hefur það aldrei verið talið til skattahækkana, ef sami skattstigi eða sami tollstigi var í gildi, þó að hann gæfi ríkissjóði meiri tekjur eitt árið en annað. Ef t.d. innflutningur er heldur meiri eitt árið og gefur því nokkru meiri tekjur í ríkissjóðinn, en að óbreyttum tollstigum, þá hefur hingað til engum manni dottið í hug að kalla það tollahækkanir. Alveg sama sagan er með tekjuskattsstigann, og ef á að fá hér réttan samanburð, þá átti hv. þm. auðvitað að setja dæmið upp þannig: Hvað mundu tekjuskattslögin og eignarskattslögin frá árinu 1959 gefa í ríkissjóð á árinu 1961, ef þau eru óbreytt? Ég ætla, að sú upphæð mundi þá verða væntanlega eitthvað í kringum 200 millj. kr., — ég skal ekki fullyrða um það, það hefur ekki verið nákvæmlega útreiknað.

Ég nefni þessar tölur hér og leiðréttingar til að sýna fram á, hversu hér er farið alveg blygðunarlaust með rangar tölur til þess að búa út einhver dæmi. Og ég verð að segja, að þessar villur allar og veilur hefðu þótt heldur léleg frammistaða í reikningi á barnaprófi, hvað þá á landsprófi.

Þá er því slegið hér föstu, að við í ríkisstj. höfum lofað því, að efnahagsráðstafanirnar mundu alls ekki hafa í för með sér neina kjaraskerðingu, heldur kjarabætur. Þetta er einn tilbúningurinn og skáldsagan ein enn hjá hv. stjórnarandstæðingum. Þeir hafa m.a. búið til þau ósannindi, algeru ósannindi, að ég hafi lofað því f.h. ríkisstj., að þessi 8% skattur yrði ekki framlengdur á árinu 1961. Þetta vita þessir hv. þm. að er rangt, m.a. vegna þess, að ég lýsti því yfir hér í fyrra oftar en einu sinni í þessari hv. d., að þó að skatturinn væri bráðabirgðasöluskattur og þá ekki ákveðið um gildi hans nema fyrir árið 1960, þá væru engin fyrirheit eða loforð um það, að hann yrði ekki framlengdur á árinu 1961, og það yrði aldrei hægt að ákveða, fyrr en fjárlfrv. fyrir 1961 lægi fyrir. Það yrði að gerast upp í sambandi við það. Þetta eru líka alger ósannindi. Ríkisstj. hefur aldrei haldið því fram, að efnahagsaðgerðirnar frá í febrúar mundu ekki skerða lífskjör landsmanna um sinn. Einmitt þvert á móti. Við höfum alltaf bent á að þessar efnahagsaðgerðir mundu leiða af sér víssa kjaraskerðingu, og til þess að lina þá kjaraskerðingu, eftir því sem unnt væri, m.a. af þeirri ástæðu var farið í það að hækka stórlega fjölskyldubæturnar, auka niðurgreiðslurnar og hækka almannatryggingar. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir er auðvitað um kjaraskerðingu að ræða. Hitt er svo annað mál, að þó að það sé ljóst, að á þessu ári sé um kjaraskerðingu að ræða, þá er það von okkar og trú, að ef efnahagsaðgerðirnar takast, sem ég hef fulla trú á að þær muni gera, þá auðvitað munu kjör Íslendinga batna á næstu árum og ekki aðeins vinna upp þessa kjaraskerðingu, sem nú hefur orðið á þessu ári, heldur miklu meira.

Varðandi þessar breytingar á skattakerfinu vil ég enn fremur rifja það upp hér, sem ég sagði í fyrravor í þessari hv. d., að þegar tekin væri annars vegar lækkunin á tekjuskattinum, lækkunin á útsvörunum og afnám 9% söluskattsins, þegar þetta væri tekið annars vegar og hins vegar sú hækkun, sem leiddi af 3% nýja söluskattinum og 8% innflutningssöluskattinum, þá næmi lækkunin hærri upphæð fyrir meðalfjölskyldu en hinar nýju álögur. Þessar yfirlýsingar standa alveg óhaggaðar, og ekki aðeins það, heldur hefur útreikningur hagstofunnar nú í haust sýnt, að útkoman fyrir meðalfjölskylduna er að þessu leyti, við þennan tilflutning eða breytingar á skattakerfinu betri en ég hafði haldið fram, og skal ég nú skýra frá niðurstöðum hagstofunnar í því efni.

Hér er miðað við meðalfjölskyldu eða þá, sem vísitalan er byggð á. Lækkun tekjuskatts hjá þessari fjölskyldu nam á þessu ári 1444 kr., lækkun útsvars hér í Reykjavík nam á þessari sömu fjölskyldu 924 kr. Lækkun útgjalda, vegna þess að 9% söluskatturinn var niður felldur, nam 1357 kr. Samtals er því lækkun útgjalda meðalfjölskyldunnar 3725 kr. á þessu ári.

Hækkanirnar eru hins vegar: Vegna hins nýja 3% söluskatts 1527 kr., hækkun útgjalda vegna 8% innflutningssöluskattsins er 1700 kr., samtals 3227 kr. Sem sagt lækkun útgjalda þessarar fjölskyldu er nær 500 kr. meiri en hækkun útgjaldanna af þessum tveim nýju sölusköttum. Þetta liggur skjallega fyrir og er reiknað út af hagstofunni, og ég efast um það, að þessir hv. þm., þótt þeir leyfi sér margt, að þá leyfi þeir sér að vefengja útreikninga hagstofunnar í þessum atriðum. Hér liggur það fyrir sannað, sem ég hélt fram í vor og studdist þá líka við athugun hinna hæfustu manna, að þessar breyt. út af fyrir sig á skattakerfinu, lækkun tekjuskatts, lækkun útsvars, afnám 9% söluskattsins, á móti hins vegar 8% og 3% söluskattinum, að þetta er fremur kjarabót en kjararýrnun fyrir vísitölufjölskylduna. Það þýðir svo ekkert að ætla að drepa þessu á dreif eða snúa út úr þessum tölum með því að túlka orð mín þannig, að ég sé með þessu að segja, að við efnahagsráðstafanirnar hafi ekki orðið kjararýrnun í bili í heild. Það hefur vitanlega orðið. Vitanlega hafa kjör manna rýrnað í bili, svo sem öllum var augsýnilegt að hlaut að verða, hvaða aðgerðir sem farið var í til þess að rétta við það ófremdarástand, sem fjármál og efnahagur landsmanna voru í.

Nú segir hv. frsm. 1. minni hl., að þetta hafi allt saman verið óþarft, að fara að vera svona róttækur, því að kerfisbreytinguna, sem sé að kippa öllu í lag, hefði átt að framkvæma í áföngum. Jú, við höfum reynsluna af því. Vinstri stjórnin, sem tórði í tvö og hálft ár, reyndi að framkvæma þessa kerfisbreytingu, sem hún taldi víst að mundi leiða til viðreisnar, að fara hana í áföngum, og hún fór hana í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn var með jólagjöfinni 1956 og hinn síðari með bjargráðunum vorið 1958. Hverjar voru svo afleiðingar af þessum tveimur áföngum vinstri stjórnarinnar til að rétta -við efnahag og fjármál landsmanna? Afleiðingin var í stuttu máli þessi: Þegar vinstri stjórnin tók við í júlímánuði 1956, var framfærsluvísitalan 185 stig. Í desember 1958, þegar vinstri stjórnin eftir sína tvo áfanga lét af völdum, var hún komin úr 185 stigum upp í 220. Og samkvæmt yfirlýsingu forsrh. sá sú stjórn engin úrræði, og í henni var engin samstaða til þess að ráða bót á efnahagsmálunum. Þessi var í stuttu máli sagt niðurstaðan af tilraun vinstri stjórnarinnar til að fara í tveim áföngum.