14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í D-deild Alþingistíðinda. (2740)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Sú ríkisstj., sem brugðizt hefur öllum helztu loforðum sínum og veit, að hún hefur glatað trausti meiri hluta þjóðarinnar, á að víkja frá völdum. Af þessum ástæðum á núv. ríkisstj. að segja af sér eða falla fyrir vantrausti ella.

Í efnahagsmálum hefur stefna ríkisstj. beðið fullkomið skipbrot. Eitt af því, sem ríkisstj. undirstrikaði sérstaklega í loforðaskrá sinni, þegar hún tók við völdum, var, að unnið skyldi að því að örva sem mest framleiðslu þjóðarinnar. Þessu hefur beinlínis verið snúið við. Árið áður en viðreisnarstefnan tók við var allmikil og jafn framleiðsluaukning í þjóðarbúskapnum. Þannig segir hagfræðideild Seðlabankans í nýju hefti af Fjármálatíðindum að þjóðarframleiðslan hafi aukizt að meðaltali um 6.3% á hverju ári árin 1955–59 eða í fimm ár. Þessi árlega aukning þjóðarframleiðslunnar er með því allra mesta, sem þekkist hér í nálægum löndum. Það er athyglisvert, að þessi fimm ár, sem framleiðsluaukningin var svona mikil, eru einmitt þau árin, sem ríkisstj. lagði til grundvallar fullyrðingum sínum um það, að þjóðin lifði um efni fram og efnahagsmálin væru í algeru öngþveiti. Sannleikurinn var hins vegar sá, að stöðug framleiðsluaukning á tímum vinstri stjórnarinnar, stóraukin fiskvinnsla í landinu sjálfu, en því sem næst stöðvun á útflutningi á óunnum fiski, stöðvunarlaus rekstur framleiðslutækjanna og markviss uppbygging á framleiðslutækjum landsmanna var að leysa okkur úr vanda tímabundinna gjaldeyrisörðugleika. Mikil uppbygging í landinu, ný raforkuver, sementsverksmiðja, kaup nýrra báta og skipa, bygging nýrra frystihúsa o.s.frv. hlaut að valda nokkrum gjaldeyriserfiðleikum í bili. En hvað hefur gerzt á fyrsta ári viðreisnarinnar? Stórfelldar framleiðslustöðvanir, útgerðarmenn hafa stöðvað rekstur sinn um langan tíma, skipstjórar hafa stöðvað, hásetar gert verkfall, verkamenn og verkakonur hafa gert verkföll, og allir hafa stöðvað af einni og sömu ástæðu — það eru afleiðingarnar af viðreisnarstefnu ríkisstj., sem sagt hafa til sín.

Með viðreisnarstefnunni hefur skipt um í framleiðslumálum þjóðarinnar. Framleiðslan vex ekki um 6.3% að meðaltali á ári eins og áður. Hún hefur minnkað og fer hraðminnkandi augljóslega á þessu ári. Þannig lækka tekjur þjóðarinnar, þannig minnkar það, sem verður til skipta, og þannig hlýtur hagur atvinnuveganna að fara versnandi.

Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagði hér í umr. í gærkvöld, að ýmis batamerki mætti sjá í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hann sagði m.a., að gjaldeyrisstaðan hefði batnað. Nokkur handbær gjaldeyrir hjá bönkunum segir í raun og veru ekkert um stöðu landsins í gjaldeyrismálum. Sá gjaldeyrir, sem bankarnir nú hafa haft umfram það, sem áður var, byggist á gjaldeyrislánum. Það, sem máli skiptir, er það, hvort erlendar skuldir hafa hækkað eða lækkað. Og hvað hefur gerzt í þeim efnum? Jú, einn af hagfræðiráðunautum Sjálfstfl., Þorvarður J. Júlíusson framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands, sagði í grein í Morgunblaðinu þann 18. jan. s.l. um þetta efni, að nettóskuldaaukning við útlönd hefði numið 400–500 millj. kr. árið 1960. Hið rétta er líka, að erlendar skuldir hækkuðu um nálega 500 millj. kr. á því ári. Birgðir útflutningsvöru minnkuðu auk þess um 207 millj. kr. á árinu. Hefði sú minnkun ekki átt sér stað, hefði skuldaaukningin við útlönd orðið 700 millj. kr. á þessu fyrsta starfsári viðreisnarinnar. Þannig er nú hin bætta gjaldeyrisstaða þjóðarinnar eftir eins árs viðreisn.

Viðreisnarstefna ríkisstj. hefur gersamlega brugðizt. Ríkisstj. verður að játa, að hún ræður ekki lengur við ástandið í efnahagsmálum. Þar er allt komið upp í kviku. Verkföll hafa verið og verkföll blasa við. Framleiðslan dregst saman. þjóðartekjurnar minnka, samdráttarstefnan er dauðadæmd hér eins og alls staðar annars staðar.

En kollsigling viðreisnarinnar var stjórninni ekki nóg. Til viðbótar hefur hún svo svikið þjóðina í landhelgismálinu og hleypt brezkum togurum inn á fiskimið bátanna. Málflutningur ríkisstj. og stuðningsmanna hennar í landhelgismálinu er annars hinn furðulegasti. Í öðru orðinu er sagt, að Íslendingar hafi unnið stórsigur í málinu, en í hinu er samkomulagið afsakað með því, að geigvænlegir hlutir hefðu gerzt, ef ekki hefði verið samið, eins og hv. þm. Guðlaugur Gíslason sagði hér í umr. í gærkvöld. Hvaða geigvænlega hluti er þm. að tala um?

Ekki var þó málflutningur hv. 5. þm. Vesturl., Benedikts Gröndals, um landhelgismálið hér áðan öllu betri. Ég verð að telja hann meistara í öfugmælamálflutningi ríkisstj. varðandi landhelgismálið. Þessi hv. þm. hóf mál sitt á því að ætla að sanna fyrir hlustendum, að vissulega hefðu Íslendingar fengið með samningnum við Breta fulla viðurkenningu. Hann sagði: Ef fallið er frá mótmælum um alla framtíð, er það ekki full viðurkenning? — Jú, um alla framtíð. En hvar stendur það í þeim samningi, sem ríkisstj. hefur gert við Breta? Það er einmitt það, sem vantar í samninginn, að fallið væri frá mótmælum um alla framtíð. Þar stendur aðeins „að falla frá mótmælum“, sem Bretar geta vitanlega túlkað eins og þeir vilja og tekið upp mótmælin að nýju.

Þessi hv. þm. sagði, að Lúðvík Jósefsson hefði lýst því yfir á Alþingi, að 12 mílna landhelgi Íslands væri löglaus að 12 mílna landhelgin væri andstæð alþjóðalögum. Vitanlega hefur Lúðvík Jósefsson aldrei sagt þetta á Alþingi. Þetta er eitt af öfugmælum þessa hv. þm. Ég hef þvert á móti margsinnis endurtekið það, að ákvörðun Íslendinga um að færa landhelgi sína út í 12 mílur er ekki andstæð alþjóðalögum. Hins vegar hef ég bent á það, sem allir vita, að það vantar skýr fyrirmæli í alþjóðalög, sem alþjóðadómstóll gæti dæmt 12 mílna landhelgi eftir, og það er vegna þess, að þessi skýru fyrirmæli vantar í alþjóðalög, að haldnar hafa verið tvær alþjóðaráðstefnur í Genf til þess að reyna að koma sér saman um fastar lagareglur í þessum efnum. Það ætti ekki að vera neinum íslendingi, sem fylgzt hefur með í landhelgismálinu, neitt vandræðaefni að skilja þetta.

Það er engin tilviljun, að Bretar fóru fram á það, strax eftir að við höfðum fært út í 12 mílur, að vísa þessu máli fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. En hvað sagði utanrrh. Íslands, Alþýðuflokksmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson, þá? Hvað sögðu allir stjórnmálaforingjar á Íslandi þá, þegar Bretar settu fram þessa kröfu á þingi Sameinuðu þjóðanna, að þessu máli yrði varpað fyrir alþjóðadómstólinn? Allir íslenzkir stjórnmálamenn neituðu þessari beiðni, af því að við vissum, að það voru engin skýr fyrirmæli í alþjóðalögum, sem alþjóðadómstóllinn gæti dæmt eftir okkar máli í hag.

Þessi hv. þm., Benedikt Gröndal sagði hér einnig, að Lúðvík Jósefsson hefði lagt til hér á Alþingi að heimila Bretum veiðar innan 12 mílna landhelginnar. Hann bætti því afreki við í blaði sínu, að hann lét teikna þar kort af Íslandi og landhelginni í kring, og þar var sýnt í kringum svo að segja alla landhelgina við landið með svörtu belti allvíðáttumikið svæði og það hét „friðunarsvæði Lúðvíks fyrir Breta“. Vitanlega hef ég aldrei lagt til, að Bretar fengju að veiða í íslenzkri landhelgi. Ég hafði einmitt í ræðu minni þvert á móti bent á, að það gætu engir fiskað í íslenzkri landhelgi undir herskipavernd. Ég benti á, að hersýningar Breta hefðu verið hreinn fíflaskapur, þeir hefðu aðeins haldið skipum sinum á þröngum básum þar án nokkurs árangurs til fiskveiða. Ég benti á, að með því að Bretar héldu skipum sínum á þennan hátt bundnum á þröngum básum urðu önnur stór svæði bæði utan og innan fiskveiðilandhelginnar íslenzku gersamlega friðuð fyrir ágangi erlendra skipa. Við þurfum því ekki að kaupa þetta ástand af okkur. Þetta ástand var okkur hagstætt upp á fiskfriðunina við Ísland. En þeir menn, sem aldrei hafa komið á sjó og aldrei nærri fiskveiðum, hafa líklega haldið, að Bretar væru að veiða innan 12 mílna landhelginnar allt í kringum landið allt árið. En það er mesti misskilningur. Þau litlu svæði, sem Bretar reyndu að halda uppi sinni hersýningu á, námu aðeins 3½% af fiskveiðilandhelginni við Ísland, en þau svæði, sem þessi hv. þm., Benedikt Gröndal ætlar að hleypa erlendum togaraflota inn á nú, nemur 20% af allri fiskveiðilandhelgi Íslands, og þar eiga þeir að fá að veiða frjálsir og dreifa úr sér eftir vild.

Í þessum umr., sem hér hafa farið fram, hefur það orðið enn skýrara en áður, hver er í rauninni meginástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. hefur gert þennan svikasamning við Breta. Forn vinátta við Breta verður endurreist, sagði forsrh. Hinn hættulegi ágreiningur innan Atlantshafsbandalagsins er liðinn hjá, segja aðrir ræðumenn stjórnarliðsins. Og hér í umr. í kvöld sagði Jónas Pétursson alþm.: Rökin fyrir lausn deilunnar voru einmitt hætturnar á árekstrum við vestrænar lýðræðisþjóðir. — Og enn sagði þessi hv. þm., að menn yrðu að minnast þess, að lausnin væri gerð til þess að bæta sambúð vestrænna þjóða. Það, sem verið er að segja Íslendingum með þessu, er, að þeir megi ekki stækka fiskveiðilandhelgi sína, þó að þeim sé það lífsnauðsyn. Vestrænar lýðræðisþjóðir eru á móti því, að Íslendingar fái nægilega stóra fiskveiðilandhelgi. Ætli menn sjái ekki, þegar svona er í pottinn búið, að þeir menn, sem nú hleypa erlendum veiðiflota inn í íslenzka fiskveiðilandhelgi undir því yfirskini, að þeir séu að vinna hér stóran sigur, ætli þeir mundu ekki einnig vera fúsir til þess eftir 3 ár að heimila framlengingu á þessu veiðitímabili í önnur 3 ár til þess að vernda vestræna samvinnu?

Fiskveiðar útlendinga upp að 6 mílum næstu 3 árin geta valdið Íslendingum meira tjóni en flesta grunar. En hitt er þó enn þá alvarlegra, að afsalað skuli vera þeim eina rétti, réttinum til einhliða ráðstafana, sem allar okkar aðgerðir í landhelgismálinu til þessa dags hafa byggzt á. Allar þjóðir, sem stækkað hafa landhelgi sína úr 3 mílum, hafa beitt þessum rétti, þ.e. ákveðið stækkunina einhliða. Þessi einhliða réttur er viðurkenndur í þjóðaréttinum, jafnvel þó að alþjóðalög séu ekki svo ákveðin, að hægt sé að fella beina dóma um það, sem gert er á þann hátt. Það er því fjarri öllu lagi, að einhliða rétturinn fari í bága við alþjóðalög. Honum er fyrst og fremst beitt þar, sem alþjóðalög eru ekki fyrir hendi. Skuldbinding Íslands til þess að tilkynna Bretum allar frekari útfærslur og um málskot til alþjóðadómstólsins jafngildir því í raun og veru, eins og málin standa í dag, stöðvun um ófyrirsjáanlega framtíð á allri frekari stækkun íslenzku landhelginnar. Þetta vita Bretar vel, og af því telja t.d. forustumenn brezkra togaraeigenda, að það samkomulag, sem nú hefur verið gert við íslenzku ríkisstj., sé þeim raunverulega mjög mikilsvert. Þannig sagði forseti brezkra togaraeigenda í viðtali við fiskveiðiblaðið Fishing News þann 3. þ.m.: Stjórn hennar hátignar hefur unnið mjög gott verk með því að halda Íslendingum innan 12 mílna markanna. Við óttuðumst, að þeir ætluðu sér að taka miklu meira.

Góðir Íslendingar. Við höfum tapað þessari lotu í átökunum við Breta um landhelgi Íslands. Þeir, sem áttu að gæta réttar okkar og hagsmuna, hafa brugðizt. En samningur eins og sá, sem nú hefur verið gerður, og með þeim hætti, sem að honum hefur verið staðið, getur aldrei skuldbundið þjóðina til frambúðar. Þrír flokkar í landinu, sem í síðustu kosningum hlutu 45% atkv., hafa lýst yfir því, að þeir muni við fyrsta tækifæri losa þjóðina undan oki og órétti þessa samnings. Enginn vafi er á því, að mikill meiri hluti kjósenda í landinu mundi nú styðja sjónarmið þessara flokka, og sannar hræðsla ríkisstj. við þjóðaratkvgr. það bezt. Bretar gera sér grein fyrir þessari hættu. Einmitt þessa dagana segja forustumenn brezkra togaraeigenda, að þeir óttist, að ný ríkisstj. á Íslandi mundi ekki telja sig bundna þessum samningi. Þeir vita, þessir menn, að samningurinn er gerður gegn vilja íslenzku þjóðarinnar.

Við höfum ekki tapað landhelgismálinu endanlega þrátt fyrir þennan samning. Nú verður þjóðin sjálf að taka við málinu. Kosningar koma, þó að eitthvað sé hægt að draga þær. Þjóðin fær tækifæri til þess að kveða upp sinn dóm. Nú verður strax að hefjast handa um myndun þjóðfylkingar, sem bjargi málinu. Þau samtök verða að vinnast aftur, sem nú hafa tapazt í svipinn. En grundvöllur þess, að málinu verði bjargað, er, að núv. ríkisstj. hrökklist frá völdum. Það á líka að vera öllum frjálslyndum mönnum kærkomið baráttumál að vinna að því, að sú ríkisstj., sem rýrt hefur lífskjörin, dregið hefur úr framleiðslu þjóðarinnar, og gerzt hefur handbendi erlendra afla og svikið hefur þjóðina í landhelgismálinu, eins og nú er komið í ljós, viki sem fyrst frá völdum, en í staðinn komi frjálslynd framfarastjórn, sem stjórni í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar og bjargi landhelgismálinu. — Góða nótt.