14.03.1961
Sameinað þing: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í D-deild Alþingistíðinda. (2741)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hv. 4. þm. Austf., sem hér var að ljúka máli sínu, átti bágt. Hann var að reyna að klóra sig út úr því, sem hann hafði áður sagt, þar sem hann gerði tilboð til Breta um að veiða áfram innan íslenzkrar landhelgi. Ég skal leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt það, sem hv. þm. var að reyna að klóra sig frá. Það er svo hljóðandi:

„Ég hef sagt frá áður, að mig hefði langað mjög til þess, miðað við aðstöðuna til friðunar á Íslandsmiðum, að semja beinlínis við Breta um það, að þeir héldu áfram eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár þessari sömu vitleysu sem þeir voru að gera hér.“

Hvað er þetta annað en bjóða Bretum að halda áfram veiðum sínum hér undir fallbyssukjöftum herskipanna. Ég efast um, að allir íslenzkir sjómenn og íslenzkir varðskipsmenn mundu verða glaðir, ef þessi háttur hefði verið upp tekinn í staðinn fyrir þann samning, sem gerður var.

Þessum útvarpsumr. um vantraust á ríkisstj. er nú að ljúka. Mörg orð og stór hafa fallið í garð ríkisstj., og margar sakir og þungar hafa verið á hana bornar. Þó að ekki væri nema lítið brot af því, sem sagt hefur verið, sannleikanum samkvæmt, þá væri þessi vesalings ríkisstj. vissulega ekki mikils virði. En hér hefur farið eins og svo oft áður, ádeilurnar hafa verið svo öfgafullar og svo langt frá því að baka nokkurt tillit til staðreynda og staðreyndum beinlínis snúið við, að þær hafa gersamlega misst marks, svo að hlustendur hafa greinilega séð í gegnum moldviðri. Afstaðan til mála hefur beinlínis mótazt af því að stjórnarandstaðan vill ríkisstj. feiga, en ekki af efni málsins, sem rætt er. Þetta er ekki ný saga. Framsfl. a.m.k. hefur t.d. leikið þennan leik oft áður, en frægasta dæmið um þann leik gerðist þó 1950. En þó að það sé orðið 11 ára gamalt, get ég ekki stillt mig um að minnast á það nú, því að það er bæði athyglisvert og lærdómsríkt.

Eftir að þriggja flokka samstarfið í ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar var rofið, fyrst og fremst af Framsfl., var mynduð minnihlutastjórn Sjálfstfl. Þessi stjórn bar fram frv. til laga um efnahagsaðgerðir, sem hinir flokkarnir lýstu sig óánægða með, og gekk Framsfl. það lengst, að hann bar fram vantrauststillögu á ríkisstj., sem flutt var af þeim Hermanni Jónassyni, hv. 2. þm. Vestf., og Eysteini Jónssyni, hv. 1. þm. Austf. Þessi vantrauststillaga var samþykkt. En það leið ekki nema örstuttur tími, frá því að þessi vantrauststillaga var samþykkt og þangað til þessir sömu menn, sem fluttu vantraustið á Sjálfstfl., höfðu gengið til samstarfs við Sjálfstfl. um stjórnarmyndun og samþykkt með honum gengisfellingarfrv., aðeins örlítið breytt til málamynda. Þetta er að kunna vel til vígs, ganga fyrst af stjórnarflokknum dauðum í ríkisstj., vekja hann síðan upp aftur og gangast fyrir samstarfi við hann um það mál, sem harðast hafði verið deilt um.

En þessi saga er að nokkru leyti að endurtaka sig nú, bara í öfugri röð. Fyrst stendur flokkurinn að því með Sjálfstfl. að bjóða Bretum árið 1952 að leggja útfærsluna þá undir dómsúrskurð alþjóðadómstólsins. Nú er það talinn höfuðglæpur við alda og óborna að gera hið sama um væntanlegar útfærslur. Árið 1958 stóð sami flokkur að því að bjóða Bretum eða brezkum togurum allt svæðið á milli 6 og 12 mílna til veiða í 3 ár, ef þeir viðurkenndu 12 mílurnar. Nú á það að vera höfuðsynd að leyfa þessar veiðar í takmarkaðan tíma og á takmörkuðum svæðum gegn sömu viðurkenningu. Í öllum þessum tilfellum er það afstaðan til ríkisstj., sem mótar stefnu flokksins, en hann forðast að taka málefnalega afstöðu. Þá gefur hann sér nú þá forsendu í þessu máli, að Bretar hafi gefizt upp við að veita togurum sínum herskipavernd, þó að vitað sé, að fram á síðustu stund hafi verið uppi kröfur og ráðagerðir um að halda þessu áfram, eins og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, hefur beinlínis óskað eftir.

Einn af ræðumönnum Framsfl. í gærkvöld sagði, að allur heimurinn hefði hlegið að þessum aðförum Breta: Ég dreg mjög í efa, að þetta sé rétt. Og svo mikið er víst, að ekki var þeim mönnum hlátur í hug, sem áttu í stöðugri og lífshættulegri baráttu við brezku herskipin og raunar brezku togarana líka, né heldur aðstandendum þeirra í landi. Ég ætla, að þeir hafi allir orðið þeirri stund fegnastir, þegar þessari hættu hafði verið bægt frá.

Það er uppáhalds orðatiltæki hjá stjórnarandstöðunni, félögum okkar í Alþfl. úr vinstri stjórninni, að þurft hafi að beita Alþfl. hörðu til þess að fá hann til fylgis við útfærsluna 1958. Þetta var gert í gærkvöld af hv. 1. þm. Norðurl. e., Karli Kristjánssyni, þó að marghrakið hafi verið. Alþfl. var vissulega samþykkur útfærslunni. En hann vildi aðeins fá tíma til að kynna málið á erlendum vettvangi og vinna því fylgi. Hann fékk það góðu heilli og með þeim árangri, að allir nema Bretar virtu í verki það, sem við gerðum. Það var þess vegna Alþfl. sem þurfti að beita hörðu til þess að fá skynsamlega lausn á málinu, og það tókst.

Í sambandi við þennan og þvílíkan málflutning vil ég einnig benda á það, sem hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, sagði hér áðan um hv. 9. landsk., Jón Þorsteinsson, að hann hefði viðhaft óviðeigandi og móðgandi ummæli úr þinghelginni um fjarstaddan mann hér í gærkvöld. Þetta er eins og annað, sem fram hefur komið frá þessum hv. þm.. mjög fráleit fullyrðing, þar sem hv. 9. landsk. þm. hafði ekki önnur ummæli hér en fram komu í dómsúrskurði í viðkomandi máli.

Um efnahagsmálin hefur verið allmikið rætt, bæði í þessum umr. og oft áður, og skal ég þar ekki miklu við bæta. En eitt vildi ég þó taka fram og vekja athygli á, að þegar óðaverðbólgan haustið 1958 var komin í algleyming, þá var ástandið orðið óraunhæft og óstöðugt í mesta máta. Þegar vísitalan hafði hækkað á einu ári um 34 stig og vissa fyrir, að dýrtíðin mundi halda áfram að vaxa með stöðugt auknum hraða, lá opið fyrir, þó að ekkert hefði verið gert nema auka uppbæturnar með vaxandi vísitölu, að afkoma alls almennings hlaut að versna og yfirvofandi hætta á miklum samdrætti vegna minnkandi sparifjármyndunar og stöðvunar á erlendum lántökum. Þegar þess vegna nú er verið að bera saman ástandið í dag við það, sem var um áramótin 1958 og 1959, eftir eitt bezta ár, sem yfir þjóðina hefur komið, þá er það í hæsta máta villandi að gera samanburðinn á þann hátt. Það, sem á að bera saman, er ástandið nú við ástandið eins og það hefði orðið, ef ekkert hefði verið að gert, og ég get fullyrt, að sá samanburður sé ekki óhagstæður fyrir núv. ríkisstj.

Þeir hafa verið að skemmta sér við það, stjórnarandstæðingarnir, að kalla sína stefnu framfara- og uppbyggingarstefnu, en stefnu ríkisstj. stöðvunarstefnu. Þeim er þetta að vísu ekki of gott. En það er hið herfilegasta öfugmæli eigi að síður, þar sem fyrirsjáanlegt var, að vinstristjórnarstefnan mundi innan tiltölulega stutts tíma leiða til meiri og minni stöðvunar í atvinnurekstri landsmanna, og það var einmitt til þess að koma í veg fyrir þessa stöðvun, að ríkisstj. beitti sér fyrir sinni viðreisnarstefnu.

Síðan 1927 hefur enginn einn flokkur haft meiri hluta á Alþingi. Allflestar ríkisstjórnir síðan hafa því verið samstjórnir tveggja eða fleiri flokka. Allir hinir pólitísku flokkar, sem nú eiga fulltrúa á Alþingi, hafa um eitthvert skeið unnið með öllum hinum flokkunum. Þar er enginn undanskilinn. Þetta sýnir að mínu viti það, að þegar samstarfsvilji er fyrir hendi, geta flokkarnir átt samleið um lausn ákveðinna, aðkallandi mála, þó að óbilgjörn stjórnarandstaða bæði nú og oft áður telji stjórnarflokkana jafnan óalandi og óferjandi. Og þó að flokkarnir hafi mismunandi lífsskoðanir og stefnu, hafa þeir þó allir getað um tíma komið sér saman um lausn ákveðinna mála. Á því byggist stjórnarsamstarfið í samstjórnum, að flokkarnir komi sér saman um ákveðin mál og láti ágreiningsmálin bíða.

Þá er ekki óeðlilegt, að spurt sé: Hvaða mál hefur þessi ríkisstj. komið sér saman um að leysa, og hvað líður lausn þeirra? Hæstv. forsrh. las upp í gær stefnuyfirlýsingu ríkisstj., og skal ég því ekki ræða hana frekar. En ég skal aðeins nefna nokkur mál, sem annaðhvort hafa verið leyst eða eru í deiglunni, auk stóru málanna, efnahagsmála og landhelgismálsins, sem ég tel að hvor tveggja hafi tekizt mjög vel um og marki tímamót í sögu þjóðarinnar, ef ábyrgðarlausum andstæðingum tekst ekki að véla þar um.

Af öðrum málum vildi ég aðeins nefna almannatryggingalöggjöfina frá því í fyrra og aftur nú frá þessu þingi. Þar hafa verið stigin þau risaskref til umbóta, að önnur slík hafa aldrei verið stigin, síðan lögin frá upphafi voru sett. Fjölskyldubætur, ellilífeyrir, örorkubætur, slysabætur og fleiri og fleiri bætur hafa verið auknar svo, að þær jafnast nú orðið á við þær bætur, sem nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum greiða, en þær eru, eins og kunnugt er, taldar standa fremst og bezt að þessum málum. Með þessum auknu tryggingabótum hefur þeim verið rétt hjálparhönd, sem höllustum fæti standa í lífsbaráttunni, og er það vissulega vel. Þetta vildi ég sérstaklega undirstrika, þar sem því hefur verið haldið fram hér í kvöld af stjórnarandstöðunni, að það hefði verið sýnt sérstakt tillitsleysi við þetta fólk.

Húsnæðismálin vildi ég aðeins nefna einnig. Þau mál eru að vísu öll í endurskoðun, þar sem stefnt er að því að gera fyrirgreiðslu hins opinbera einfaldari og betri, en auk þess hefur á liðnu ári verið útvegað meira fé til þessara mála en nokkru sinni áður, eða samtals um 72 millj. kr. Stefnt er að því að útvega sömu upphæð í ár. Fer þá að nálgast það ástand, sem að er stefnt, að unnt verði að afgreiða lánbeiðnir nokkurn veginn jöfnum höndum sem þær berast.

Mörg fleiri mál mætti nefna, svo sem aðstoð við lánamál sjávarútvegsins, sem verið er að vinna að, skatta- og útsvarslækkanir, aðstoð við sveitarfélög með því að veita þeim hluta af söluskatti eða yfir 70 millj. kr., bankamál og margt, margt fleira. Allt í allt tel ég, að svo mikill árangur hafi náðst í núv. stjórnarsamstarfi á því rúma ári, sem þetta samstarf hefur staðið, til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu, að mjög vel megi við una og í annan tíma hafi ekki jafnlangt stjórnarsamstarf borið öllu meiri árangur. A.m.k. er ég sannfærður um, að hefðu þeir, sem nú standa. að vantraustinu, haldið um stjórnvölinn, þá mundi árangurinn ekki hafa orðið betri, því að ég efast um, að þeir hefðu komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut nema hið neikvæða — að rífa niður. — Góða nótt.