08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í D-deild Alþingistíðinda. (2748)

61. mál, lánsfé til Hvalfjarðarvegar

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. á þskj. 66 þess efnis, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að athuga möguleika á lántöku til að ljúka vegalagningu fyrir Hvalfjörð og gera veginn hæfa undirstöðu undir varanlegt slitlag. Sams konar till. var flutt á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu, og mun ástæðan hafa verið sú, að þá var ekki vitað um, að neinar ráðagerðir væru á döfinni um meiri háttar lántökur til vegaframkvæmda. Nú er viðhorfið að þessu leyti breytt, því að hæstv. forsrh. hefur upplýst hér á þingi, að m.a. sé í athugun hjá ríkisstjórninni að taka lán til vegaframkvæmda, og því hefur fjvn. þótt rétt, að þessi till. hlyti afgreiðslu á þann hátt, að henni yrði vísað til ríkisstj. Það er með tilliti til þess, að Hvalfjarðarvegur er mjög mikilsverður tengiliður í vegakerfinu milli stórra landshluta. og ætti þess vegna að koma mjög til athugunar að ráðstafa lánsfé til vegargerðar í Hvalfjarðarvegi, ef úr fyrirhugaðri lántöku verður. — Einn nefndarmanna, hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, var fjarverandi, þegar nefndin afgr. málið.