02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í D-deild Alþingistíðinda. (2765)

54. mál, sjálfvirk símstöð fyrir Austurland

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér um ræðir, fjallar um fjölbreyttari síldariðnað á Austurlandi. Segja má, að það sé frumstæðasti máti að vinna úr síldinni, þegar hún er notuð í bræðslu og aðeins framleitt úr henni mjöl og lýsi, en það er greitt minnst fyrir hráefnið, þegar hún er hagnýtt á þann hátt. Grófsöltun gefur meira verð fyrir hana. hvað þá þegar síldin er sérverkuð, soðin niður eða lögð niður eða reykt. Flestar, ef ekki allar síldveiðiþjóðir reyna að vinna úr síldinni sem dýrmætasta vöru með því að verka hana á þann hátt, að hún sé sem girnilegust fyrir neytendurna. Það hefur verið náð ótrúlega langt í þessum efnum. Oft er okkur einna tamast að vitna til frænda vorra Norðmanna, en þar er síld í dósum verkuð á ýmsan hátt og er stór liður í útflutningsframleiðslu þeirra.

Á Austurlandi hagar svo til, að á nyrztu fjörðunum er oft takmörkuð atvinna að vetrarlagi, þar sem fiskur gengur þá lítið á miðin út af Austfjörðum, nema þá syðst, en þangað hefur hingað til reynzt fulllangt að sækja nema fyrir þá, sem búa á syðri fjörðunum. Það væri því mjög mikilsvert að geta fundið einhverja þá atvinnu, sem þetta fólk gæti stundað á veturna heima, í stað þess að þurfa að fara í fjarlæg byggðarlög til þess að leita sér atvinnu yfir vetrarmánuðina. Og það er ekkert eðlilegra þá í þessum sjávarþorpum en að fólkið fullvinni fisk eða fiskafurðir, sem það er vanast að vinna við, og ætti þá síldin frá sumrinu sérstaklega að vera kjörin til þessara hluta. Þess vegna er þessi þáltill. flutt um, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvernig koma megi á fót á Austurlandi fjölbreyttari hagnýtingu síldar en fæst með bræðslu hennar og söltun, eins og nú tíðkast.

Ég mun ekki láta fleiri orð fylgja að svo stöddu, en ég vil leggja til, að umr. verði nú frestað um þessa till., og ég held, að það sé réttast að leggja til, að henni verði vísað til hv. allshn.