02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í D-deild Alþingistíðinda. (2769)

58. mál, útboð opinberra framkvæmda

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera langorður um þessa till. Hún skýrir sig sjálf. En efni hennar er það, að Alþ. láti í ljós þann vilja sinn, að unnið verði, eftir því sem kostur er, að opinberum framkvæmdum á þann veg að leita í þau tilboða. Hugsunin með þessu er sú að sjálfsögðu að stuðla að því, að opinberar framkvæmdir verði sem ódýrastar.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, hefur það farið mjög vaxandi góðu heilli, á síðari árum, að upp hafa risið í landinu byggingarfélög og sjálfstæðir verktakar, sem hafa reynzt þess umkomnir að leysa af höndum mjög erfið viðfangsefni. Það er því engum efa bundið, að varðandi flesta eða alla þá mannvirkjagerð, sem ríkið þarf að láta vinna hverju sinni, þá eru til verktakar, sem hafa bæði tæknilega þekkingu og einnig aðra aðstöðu til þess að vinna slík verk.

Í mörgum greinum eru boðin út opinber verk og fylgt um það nokkurn veginn fastri venju. Hins vegar er það engum efa bundið, að það mætti gera í stærri stíl en gert hefur verið, og er því fullkomin ástæða til þess að marka meginstefnu í því efni. Ég skal taka það skýrt fram, að með þessu er það ekki skoðun okkar flm., að eigi að færa þetta út í neinar öfgar. Það verður að metast hverju sinni, hvað heppilegt er í þessu efni, og það getur vitanlega þannig staðið á um einstök verk, að ekki sé heppilegt, að þau séu boðin út. M.a., eins og vikið er að í grg. till., getur það verið nauðsynlegt til þess að veita verkefni því starfsliði, sem nauðsynlegt er að hafa við tilteknar stofnanir fast, að þetta starfslið vinni að vissum nýbyggingarframkvæmdum, svo sem t.d. á sér stað hjá vegagerðinni, og það er einnig að sjálfsögðu eðli málsins samkv., að viðhaldsframkvæmdir séu í höndum hinna sérstöku ríkisstofnana, sem um það mál eiga að fjalla. En varðandi verk, sem hægt er að vinna að í stórum áföngum eða jafnvel einum áfanga, þá er það skoðun okkar, að það sé sjálfsagt að leita á þennan hátt eftir því að fá þau framkvæmd sem ódýrast. Það eru stórar fjárhæðir á hverju ári, skiptir jafnvel hundruðum milljóna, sem ríki og ríkisstofnanir þurfa að láta framkvæma í ýmiss konar byggingum og mannvirkjagerð, og það getur að sjálfsögðu skipt miklu máli og verulegum fjárupphæðum, hvernig að þeim málum er staðið.

Með þessari till. er lögð áherzla á það sjónarmið, að eðlilegt sé, að þessari stefnu verði fylgt, og má því segja nánast, að tillagan sé nokkurs konar stefnuyfirlýsing í því efni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um till., nema sérstakt tilefni gefist til, og vil leggja til, herra forseti, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.