14.12.1960
Efri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

130. mál, söluskattur

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið rætt allverulega hér í hv. d., enda er það að vonum. Hér er um stórmál að ræða, mál, sem skiptir hag alls almennings í landinu miklu. Það er enginn efi á því, enda munu allir vera sammála um það, að bráðabirgðasöluskatturinn á sinn stóra þátt í þeirri miklu dýrtíð, sem hæstv. ríkisstj. hefur á þessu ári steypt yfir þjóðina. Það er því mjög eðlilegt, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé mikið rætt og um það deilt.

Það er enginn vafi á því, að allur almenningur, neytendur í landinu, hefur gert ráð fyrir því og vænzt þess, að þessi bráðabirgðaskattur ætti ekki að standa lengur en út árið 1960. Hver einasti neytandi, sem á annað borð hefur gert sér grein fyrir þessu, mun hafa trúað því og treyst, að það væri ætlun yfirvalda, að hann félli sjálfkrafa úr gildi nú um áramót. Hér í hv. d. hefur gætt gagnstæðra skoðana. Stjórnarandstaðan vill fella þetta frv. um framlengingu, en stjórnarliðar vilja framlengja skattinn. Ég hygg þó, að enginn hv. þdm. sé ánægður með þá framlengingu, jafnvel ekki hv. þm. Sjálfstfl. Mér hefur heyrzt á hv. þm. Alþfl., að þeir væru langt frá því að vera ánægðir með framlenginguna og vildu fegnir geta greitt atkv. gegn henni. En þeir hafa lýst því yfir, að þeir sjái til þess enga leið. Nú langar mig við þessa 3. og síðustu umr. að leggja fram brtt., sem að vísu er skrifleg, — till., sem að mínum dómi fer bil beggja og ætti að gera það auðveldara, að einhver skárri lausn fengist á þessu en framlenging á skattinum, eins og hann er þetta ár. Ég vænti þess sérstaklega, að hv. þdm. úr flokki Alþfl. íhugi og athugi þessa till. vandlega, og ég skírskota til þeirra í trausti þess, að þeir eftir áður gefna yfirlýsingu hér í hv. d. sjái sér fært að styðja þessa till. og þar með koma í veg fyrir óbreytta framlengingu þessa bráðabirgðaákvæðis.

Ég vil nú með örfáum orðum gera grein fyrir þessari till. og ræði þá málið í örfáum atriðum um leið í heild.

Við munum það allir, að í byrjun þessa árs, þegar frv. til l. um söluskatt var lagt hér fram, leyndi það sér ekki, að frv. í heild bar þess augljós merki, að hér var um flaustursverk að ræða. Á þetta var rækilega bent í umr. þá, og ég þarf ekki að fara nánar út í það, en minni aðeins á þetta. Nefndin, sem undirbjó frv., gerði sér greinilega ljóst, að hér var um flýtisverk að ræða, og hún tók það fram í aths. sínum við frv. Nefndin hafði haft skamman tíma til þess að fjalla um þetta margbrotna mál, eins og segir í grg. En það var rekið fast á eftir af hæstv. ríkisstj., og n. skilaði því, sem hún sjálf þá nefndi bráðabirgðatill., til ríkisstj. Jafnframt var svo lofað að vinna að málinu áfram og talið líklegt, að unnt yrði að leggja það fyrir þing það, sem nú situr, leggja fyrir það till. um frambúðarlausn málsins í heild, frambúðarlausn laga um söluskatt í heild.

Lögin eru þannig flaustursverk og flýtisverk eins og þau leggja sig. Þau þarfnast endurskoðunar og það þegar á þessu þingi, eins og undirbúningsnefndin ætlaðist til. Mér vitanlega hefur þó ekki bólað á neinu frá hæstv. ríkisstj. í þessa átt enn sem komið er.

Það var áberandi, að í byrjun þessa árs var tvennt ákveðið strax í upphafi og kunngert alþjóð varðandi söluskattinn. Hið fyrra var, að hann skyldi skila 437 millj. kr. í ríkissjóð, og hið síðara, að hækkun á 7.7% söluskattinum af innflutningi væri ekki áformuð. Þetta hvort tveggja var kunngert m.a. í grg. fjárlagafrv. 1960. Við fyrri yfirlýsinguna, um fjárhæðina, var staðið og það fyllilega, en það var ekki staðið við síðara fyrirheitið. Frá því var vikið allhastarlega, eins og öllum er kunnugt, og söluskatturinn af innflutningi hækkaður úr 7.7% upp í 16.5%. Um ástæðu til, að ekki var staðið við gefið fyrirheit í þessu efni, skal ég ekki fjölyrða, það hefur þegar verið mikið rætt hér að þessu sinni, en það er staðreynd, að í janúar þessa árs lýsti hæstv. ríkisstj. því yfir, að hún ætlaði ekki að breyta söluskatti af innflutningi. Það er líka staðreynd, að mánuði síðar gekk hún á bak orða sinna í þessu efni og stórbreytti þessum skatti í hækkunarátt. Ég ætla ekki heldur að ræða þá þríþættu skýringu, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið á orsök þessara brigðmæla í byrjun ársins. Hann gaf þessa skýringu í fyrra, og hann endurtók hana nú fyrir nokkrum dögum. Ég ætla ekki heldur að draga í efa þá skýringu. Hún sýnir það ljóslega, að málið allt var illa undirbúið, vanhugsað eða skakkt hugsað frá upphafi til enda. Um þetta ber skýring ráðherrans vott, enda kemur það heim og saman við það, sem ég tilfærði áðan úr aths. undirbúningsnefndarinnar. Stóra dæmið, sem gefa átti útkomuna 437 millj. kr., var aldrei sett upp, fyrr en í eindaga var komið. Þá var rokið í að lappa og tjasla við þetta, og þannig er til komin hækkunin á söluskatti af innflutningi um 8.8%. Þessi vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í flóknu og viðkvæmu máli ber vissulega að víta. Þau hæfa illa, þegar ranglátasti skatturinn hefur orðið fyrir valinu og neytendur í landinu skulu skattlagðir um fjárhæð, sem samsvarar hátt á þriðja þús. kr. á hvert mannsbarn að meðaltali.

Bráðabirgðaákvæðið um viðaukasöluskatt af innflutningi var afsakað með því m.a., eins og kunnugt er, að 3% almenni söluskatturinn gæti ekki komið til framkvæmda, fyrr en nokkuð væri liðið af árinu 1960, og því fyrirsjáanlegt, að með honum einum saman fengist ekki sú fjárhæð, sem fjárlfrv. gerði ráð fyrir. Með þessum orðum er söluskattsviðaukinn afsakaður í grg. söluskattslagafrv., og sömu skýringu hefur hæstv. fjmrh. gefið hér. Ef gengið er út frá þessu, að hækkunin stafi að nokkru leyti af því, að söluskattur innheimtist ekki til fulls fyrstu mánuði ársins 1960, þá á hið sama ekki við um næsta ár. Þá dreifist hann á alla mánuði ársins. Þess vegna gæti og ætti 8.8% bráðabirgðaskatturinn að geta lækkað um þann hluta, sem þessum mismun nemur. Hve mikill sá mismunur er, skal ég ekki um dæma, en einhver hlýtur hann að vera, svo framarlega sem fyrrgreind afsökun er gild. Væri ekki úr vegi að mínum dómi, að hæstv. ríkisstj. láti þegar athuga og reikna út, hve mikinn þátt í 8.8% hækkuninni það viðurkennda atriði átti, að 3% almenni söluskatturinn gat ekki gilt allt þetta ár, sem nú er að liða, og hún láti síðan lækka bráðabirgðaskattinn sem þessu nemur. Þessi tilmæli geta tæpast talizt ósanngjörn, að því er ég hygg.

Nú er mikið bil á milli þess að halda þessum skatti óbreyttum og afnema hann með öllu. Honum var þó aðeins ætlað að standa til bráðabirgða og einungis þetta ár, að því er margir hugðu. Ríkisstj. vill halda honum óbreyttum, aðrir vilja afnema hann með öllu. En hvernig væri að fara bil beggja í þetta sinn, þ.e.a.s. að lækka hann? Ein forsendan fyrir þessum skatti er fallin brott að allra dómi, og því ber að réttu lagi að lækka hann sem því nemur. Ef til vill mætti með því móti einu lækka þennan skatt um fjórðung, — ég veit það ekki, eitthvað mætti lækka hann. En hann á að geta lækkað meira en þetta, og hann þarf að lækka meir. Þennan viðaukaskatt mætti auðveldlega lækka um helming nú þegar. Eins og hann er nú, er hann þung byrði á herðum neytenda, nemur hvorki meira né mínna en 1000 kr. á hvert nef í landinu, eins og margsinnis hefur verið bent á hér í hv. d. Hann á því ekki svo lítinn þátt í þeirri dýrtíð, sem hæstv. ríkisstj. illu heilli hefur innleitt nú.

Ég vil nú leyfa mér að stinga upp á því, að þessi skattauki sé lækkaður um helming. Það mundi létta 80–90 millj. kr. skattbyrði af borgurum í landinu, og svarar það til um 500 kr. skattlækkunar á hvert mannsbarn. Mér finnst ranglátt að lækka þennan skatt ekkert og hef gert grein fyrir því, og sanngjarnt, að hann verði lækkaður nú um helming, og ég held, að það sé unnt að gera þetta.

Hæstv. ríkisstj. og fylgismenn hennar hafa mikið gumað af áhuga sínum á auknum sparnaði í opinberum rekstri. Um þörfina á slíkum sparnaði töluðu stjórnarliðar mikið við afgreiðslu fjárl. í fyrra, og þeir gera það enn nú í ár. Þó aðhafast þeir ekki neitt — eða svo til ekki neitt — í þessu efni, heldur láta þeir ár frá ári sitja við orðin tóm. Fjárlög þessa árs stórhækkuðu frá árinu áður, og fjárlög næsta árs eiga enn að sýna verulega hækkun. Þannig er verðbólgan enn í fullum gangi og bezta gengi á ríkisbúinu íslenzka.

Það mun láta nærri, að útgjöld ríkissjóðs 1961 standi til að auka um nálægt 90 millj. kr. Ef meginhluti þeirrar fjárhæðar, þeirrar hækkunar, væri nú sparaður, má lækka 8.8% söluskattinn um helming. Þetta legg ég til að gert verði. Það er möguleiki á að spara á mörgum sviðum, ef viljinn er nokkur fyrir hendi. Heimilunum í landinu er fyrirskipað að spara. Þeim er skammtað naumt, án þess að nokkur spyrji þau, hvort þetta sé hægt, hvort þetta sé mögulegt. Má ekki sama að einhverju leyti gilda um stjórnarheimilið? Að mínum dómi má ekki aðeins gilda hið sama, heldur á að gilda hið sama.

Hér á hinu háa Alþingi hefur verið borinn fram mesti fjöldi tillagna um niðurskurð, mesti fjöldi raunhæfra till. um niðurskurð útgjalda ríkissjóðs, og ég skal nú aðeins minna á nokkrar.

Í fyrsta lagi má fækka sendiráðum Íslands erlendis nú þegar, t.d. leggja niður tvö sendiráð á Norðurlöndum. Í öðru lagi má draga að mun úr opinberum veizluhöldum, án þess að nokkurn saki. Í þriðja lagi má takmarka mikið frá því, sem verið hefur, tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnur, tölu fulltrúa í viðskiptasendinefndum, svo og fækka nokkuð ferðum á alþjóðamót. Í fjórða lagi er öllum að bagalausu unnt að fækka löggæzlumönnum á Keflavíkurflugvelli. Í fimmta lagi er leikur einn að fækka bifreiðum ríkis og ríkisstofnana og koma í veg fyrir, að þær séu misnotaðar til einkaþarfa viðkomandi starfsmanna. Í sjötta lagi má draga úr framlögum til ýmissa sérþinga, sem ríkissjóður er nú látinn bera allan kostnað af.

Þetta og ótalmargt fleira er unnt að gera þegar í stað. Ég nefni þessar fáu ráðstafanir af því, að tillögur um þær ásamt 17 öðrum sparnaðartillögum er að finna í áliti meiri hl. fjvn. um fjárlagafrv. í ár. Jafnvel hv. stjórnarliðar sjá þörfina á aukinni hagsýni í ríkisrekstrinum, og þeir sjá líka og viðurkenna möguleikana til sparnaðarins. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki til þessa anzað neinum ráðleggingum um aukna hagsýni eða svo til ekki. Hennar orka fer helzt í það að upphugsa ráð til að hækka fjárlögin frá ári til árs.

Ég hef minnzt á tillögur hv. stjórnarliða um sparnað. Þær eru ekki færri en 23 talsins. En stjórnarandstæðingar hafa einnig bent á fjöldann allan af leiðum til sparnaðar ríkisútgjaldanna. Ein till. er sú, að fyrirskipaður verði 10% niðurskurður á kostnaði við stjórnarráðið, utanríkisþjónustuna, dómgæzluna, lögregluhald og toll- og skattheimtuna. Samþykkt þessarar tillögu einnar mundi spara ríkinu rúmar 11 millj. kr. í útgjöld. En auðvitað var till. felld af stjórnarliðinu, eins og flestar aðrar sparnaðartillögur og eins og allar aðrar sparnaðartillögur stjórnarandstæðinga. Stjórnarliðar í hv. fjvn. hafa sýnilega áhyggjur af útþenslu ríkisútgjaldanna nú og þeirri verðbólgu, sem hún leiðir til. Þeim er ljós þörfin á að gera allar tiltækilegar ráðstafanir til sparnaðar, eins og þeir orða það í nál. sínu. Gallinn er bara sá, að þeir vilja ekki láta gera þessar ráðstafanir nú þegar, heldur einhvern tíma í framtíðinni. Og það er sama sagan frá því í fyrra, þar er sagan endurtekin, það ráð, að geyma til morguns það, sem hægt er að gera í dag.

En með þessu frv., sem hér liggur nú fyrir, fer hæstv. ríkisstj. fram á, að 8.8% bráðabirgðasöluskatturinn verði framlengdur. Þessi málaleitan ber því glöggt vitni, að áform og áætlanir stjórnarinnar standast ekki. Það er eins í þessu efni og flestum öðrum, að orð og efndir falla ekki saman, og með þeim hætti hefur „viðreisnin“ orðið að hreinu viðundri, eins og allri þjóðinni er nú að verða ljóst.

Það er kannske ekki unnt að segja, að viðreisn hæstv. ríkisstj. hafi hrunið í rúst, því að hún varð aldrei nein. Það hrundi hver steinn, jafnóðum og hann var lagður. Það eina, sem áunnizt hefur með þessari svokölluðu viðreisn, er aukning dýrtíðar, samdráttur í atvinnu og viðskiptum og versnandi lífskjör almennings.

Það er, eins og kunnugt er, ekki sérlega erfitt verk að koma á og viðhalda ranglátum sköttum eða að hækka ríkisútgjöldin ár frá ári. Og það er ekki heldur erfitt að rífa niður það, sem upp hefur verið byggt. En hitt kostar meiri fyrirhöfn, að byggja upp og bæta. Því miður virðist það ætla að verða meginhlutverk núv. hæstv. ríkisstj. að rífa niður það, sem byggt hafði verið upp á árunum áður. En niðurrifið er fljótunnið, og má sjá þess mörg glögg dæmi á þessu ári. Þörfin á því, að þetta niðurrif verði stöðvað nú sem fyrst, er brýn og knýjandi fyrir alla undantekningarlaust í þessu landi. Það verður ekki auðvelt verk að byggja upp á ný það, sem rifið hefur verið niður nú á skömmum tíma. En einhvern tíma verður að spyrna við fæti.

Ég þori varla að vænta þess, að farið verði að þeirri till., sem ég legg fram í lok máls míns, og þó vil ég vænta þess, að hún verði gaumgæfilega athuguð af hv. meiri hl. í þessari þd., og sérstaklega, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, vildi ég ætlast til þess, að hv. þdm. úr Alþfl. athugi vel, hvort þeir gætu ekki fallizt á þessa málamiðlunartillögu mína, sem hér liggur fyrir. Þeir hafa, eins og ég sagði áðan, lýst því yfir, að þeir vildu gjarnan geta greitt atkv. á móti framlengingu söluskattsins, en sæju enga leið til þess. Nú hef ég sumpart í þeirri till., sem ég legg fram, og sumpart í því máli, sem ég nú hef flutt, bent á leiðina til þess og bent á, að möguleikinn er til staðar.

Herra forseti. Ég vil mælast til þess, að ég megi leggja hér fram skrifl. tillögu og að leitað verði afbrigða fyrir henni, en till. hljóðar svo:

„1. gr. orðist svo:

Í stað orðanna „til ársloka 1960“ í fyrri málslið a-liðs ákvæða til bráðabirgða komi: til ársloka 1961, og í stað „8 af hundraði“ í sama málslið komi: 4 af hundraði.“