02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í D-deild Alþingistíðinda. (2773)

58. mál, útboð opinberra framkvæmda

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var nánast til þess að skýra nánar atriði, sem virtust valda misskilningi hjá hv. 9. þm. Reykv., sem ég stóð hér upp. Ég vil þó fyrst nota tækifærið til að þakka þær góðu undirtektir, sem till. þessi hefur fengið.

Það var mjög sjálfsögð ábending og þakkarverð, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. kom hér með og einnig hæstv. menntmrh. hefur vikið að í sinni ræðu, að það sé full þörf á því að setja lög um útboð yfirleitt. Í grg. till. okkar þremenninganna er að því vikið, að það sé sjálfsagt nauðsynlegt að setja fastar reglur um útboð opinberra verka, og er það vissulega ánægjulegt, að í iðnmrn. skuli vera hafin athugun á því atriði. Mér skildist hins vegar, ef ég hef rétt skilið það, að sú athugun miði fyrst og fremst að því, hvaða reglur skuli settar um útboð opinberra verka, en hins vegar það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að, að því er mér skildist, að það yrði sett löggjöf um útboð almennt og þá vafalaust í því skyni að setja ákveðnar reglur um réttindi og skyldur þeirra aðila, sem útboðs leita og útboð gera, í hvaða formi það skuli gert og hvaða rétt menn þá hafa. Það er vissulega oft, sem menn leggja í mikinn kostnað við það að gera tilboð, og það þykir jafnvel stundum brenna við, að þeirra réttinda sé ekki gætt sem skyldi og nokkuð gáleysislega farið með slíka hluti, og það er vissulega ástæða til þess að taka það mál einnig til athugunar og þakkarvert að fá þá ábendingu.

Varðandi það, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði hér um afstöðu t.d. vegamálastjóra, sem lítillega er minnzt á í grg. till., þá skal það tekið fram, að hvorki hann né vitamálastjóri voru í meginatriðum á móti því, að það væru boðin út opinber verk. Það voru hins vegar tvö atriði, sem þeir bentu á og vikið er að í grg.: Annars vegar það, að ýmis verk á þeirra vegum væru þess eðlis, að það væri verið að smáveita fjárveitingar, þannig að það væri aldrei hægt að vinna fyrir nema lítið í einu og því erfiður grundvöllur til útboðs. Það mætti þó vel hugsa sér t.d. með brúargerðir, sem eru unnar í einum áfanga, að það sé vel suðið að bjóða þær út og jafnvel hægt að fara lengra í því efni en gert hefur verið. En þetta var önnur meginástæðan til athugasemda þessara embættismanna við þessa hugmynd um útboð. Hin aths. var varðandi söluskattinn, og einmitt sú ráksemd stofnananna er niður fallin, vegna þess að hinn hái söluskattur, sem þeir urðu að greiða á þeim tíma, sem till. þessi var fyrst flutt, sem buðu í verk, er nú niður fallinn. Það er því hliðstæð aðstaða, sem þessir verktakar hafa til þess að vinna verkin og gera tilboð, eins og er fyrir ríkisstofnanirnar sjálfar, þannig að þessi ástæða, sem var mjög veigamikil í þeirra aths. við till. á sínum tíma, er brott fallin, og er það vissulega vel, því að með þeim söluskatti, eins og hann var, þá var það rétt, að það var mjög torveldað og í rauninni gert lítt mögulegt fyrir verktaka að geta boðið í verk, þannig að það gæti orðið að nokkru ráði ódýrara en ríkisstofnanirnar ynnu það sjálfar.

Þá vildi ég jafnframt skýra það, að það liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli, að þegar talað er um í till., að verkið verði veitt þeim aðilum, sem hagstæðust tilboð gera, þá verður í því efni ekki aðeins að meta það, hvort tilboðin eru lægst, heldur einnig, hvort það er þá hægt að treysta því, að viðkomandi aðilar geti leyst þetta verk af hendi, og það séu uppfyllt þau skilyrði, sem gera verður til gæða verksins, því að það er eins og einnig er vikið að í grg., þó að það sé að sjálfsögðu grundvallaratriði að fá verkin sem ódýrust, þá má ekki heldur ganga fram hjá því nokkru sinni, að jafnhliða verður að tryggja, að verkið sé viðunandi af hendi leyst. Frá sjónarmiði okkar flm. hefur það a.m.k. verið fullkominn skilningur á því, að þetta yrði að takmarkast jafnan við það, að aðilar væru taldir færir til að leysa þessi verk af höndum og að það væru leyst af höndum á þann hátt, að viðhlítandi gæti talizt. Annars er ekki hægt að segja, að þar sé um hagstæðustu tilboðin að ræða, því að það auðvitað er ekki eitt hagstætt að líta á lægstu töluna, sem boðin er, ef það falla svo á ríkið kannske meiri og minni útgjöld, bæði vegna þess, að verkið sé illa unnið og jafnvel einnig, að viðkomandi aðili geti, þegar til kemur, alls ekki leyst það af hendi. Ég held því, að okkur beri ekki á milli, flm. og hv. 9. þm. Reykv., um það, að sjálfsagt sé að hafa hliðsjón af þessum atriðum.