22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í D-deild Alþingistíðinda. (2792)

70. mál, fiskveiðar við vesturströnd Afríku

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Eftir að þessi till., sem hér er til umr., kom fram á hv. Alþingi á s.l. hausti, mátti lesa í blöðum stjórnarandstöðunnar, hvern hug stjórnarandstaðan mundi bera til till. Þar var um að ræða getsakir í minn garð sem 1. flm. Ég hélt nú satt að segja, að blöðin yrðu látin ein um slíkan málflutning, hann yrði ekki fluttur hér inn á hv. Alþingi. En nú hefur hv. frsm. minni hl. fjvn. fallið í þá freistni að taka undir þennan söng í sinni framsöguræðu, þó að segja verði, að a.m.k. einhverjir af hv. minni hl., sem standa að minnihlutaálitinu, hafi kveinkað sér við að flytja þann málflutning í þskj. Hér er hins vegar um það að ræða að blanda alóskildu máli inn í umr. um þessa þáltill., og verður varla skýrt á annan hátt en að hv. frsm. sé hér að gera tilraun til að brjótast út úr einhvers konar sálkreppu, sem hann hefur sýnilega komizt í yfir þeirri útreið, sem hann og hv. stjórnarandstaða, fékk hér nýlega á hv. Alþingi í umr. um lausn deilunnar við Bretland. Það allt er hins vegar alveg sérstakt sálfræðilegt rannsóknarefni. sem liggur ekki fyrir hér, og ég ætla því að snúa mér að málinu, sem hér er til umr.

Ég fór nokkuð út í það í haust. þegar ég flutti framsöguræðu fyrir þessari till., að ræða um eitt af megineinkennunum á þróun fiskveiða í heiminum undanfarna áratugi og undanfarin síðustu ár, sem einkennist mjög af stórkostlegri aukningu veiðisvæðanna. Bæði stækka hin eldri veiðisvæði og ný veiðisvæði eru tekin í notkun. Þessi þróun á sér stað hvar sem litið er. Hvert sem við litum, hvort sem er í fjarlægum höfum Austurlanda eða hér á Atlantshafi, verður þessi þróun sú sama. Að vísu hafa Evrópuþjóðirnar orðið hér nokkuð á eftir, því að mesta fiskveiðiþjóð heims, Japanir, hefur fyrir mörgum árum og raunar áratugum vikkað sínar fiskveiðar út um allt Kyrrahaf og vísað veginn. Þeir eru komnir meira að segja inn í Atlantshaf nú á síðustu árum, þegar margar af Evrópuþjóðunum halda sig tiltölulega nærri sinum heimaströndum. En þó er svo komið nú, að allar meiri háttar fiskveiðiþjóðir í Evrópu hafa tekið þátt í þessari þróun. Á allra síðustu árum hefur þessi þróun verið örust hjá Rússum. Þeir hafa þanið sig út yfir allt Norður-Atlantshaf og nú á síðasta ári einnig suður um allt Atlantshaf. Íslendingar hafa líka tekið þátt í þessari þróun, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, með því að víkka út sín veiðisvæði til Grænlands, Labradors, og Nýfundnalands. Þetta hefur fært okkur aukinn afla. Við þekkjum nú orðið allvel þessi veiðisvæði og aðstæður þar, en við getum ekki stöðvazt við þá þróun, sem þar hefur orðið. Ég lít þannig á, eins og getið er um í grg. fyrir till., að við verðum sjálfra okkar vegna að fylgjast vel með því, sem í þessu efni er að gerast, jafnvel þótt á mjög fjarlægum miðum sé. Við getum ekki horft á það, þið aðrir reki arðvænlegar fiskveiðar á svæðum, þótt þau séu langt undan, en þó ekki lengra fyrir okkur að fara á en ýmsa aðra, sem þangað sækja. Og það var tilgangurinn með þessari till. frá minni hálfu og þeirra annarra meðflm. að benda á verkefni, sem þyrfti að athuga.

Það nýjasta á þessu sviði eru einmitt veiðarnar við Vestur-Afríku. Þangað sækja nú á síðustu árum fiskimenn margra þjóða beggja vegna Atlantshafs, og eins og getið er um í grg. með till. og kom fram líka í ræðu beggja hv. frsm., hafa frændur okkar Norðmenn nú á síðasta ári gert tilraun til þess að stunda þarna veiðar. Það er rétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði. að þessi leiðangur Norðmanna gekk illa. Það er hins vegar engin sönnun fyrir því, að þarna séu ekki möguleikar til þess að stunda arðvænlegar veiðar, því að aðrar þjóðir gera það í vaxandi mæli, og mér er næst að halda, að allur undirbúningurinn að leiðangri Norðmanna hafi verið ótrúlega slæmur — alveg ótrúlega slæmur, þegar litið er á það, að þeir hafa mikla reynslu í því að stunda veiðar á fjarlægum miðum. Að vísu eru þarna aðstæður mjög ólíkar því, sem þeir hafa áður kynnzt, en það er satt að segja ótrúlegt, að þessi undirbúningur skyldi vera svo lélegur sem raun hefur nú á orðið, og það kemur fram m.a. í blaðaskrifum um þetta. En eins og hv. frsm. minni hl. sagði, liggja ekki enn fyrir opinberar skýrslur um þetta, svo að styðjast verður við blaðafregnir og blaðaskrif og viðtöl við menn, sem hafa verið þarna, og frásagnir þeirra.

Þarna voru sex skip send, — þau voru ekki þrjú, eins og hv. frsm. minni hl. sagði, — það voru sex skip, eitt móðurskip og eitt rannsóknarskip, átta skip í allt, sem fóru í þessa tilraunaferð Norðmanna. Áður höfðu Norðmenn sent skip til þess að kanna þetta svæði og töldu að lokinni þeirri könnun, að þarna væru möguleikar til veiða. Þarna er hins vegar um að ræða geysistórt hafsvæði, og með þeirri könnun, sem Norðmenn gerðu þarna fyrst, gátu þeir ekki farið yfir nema mjög lítinn hluta af svæðinu. Svo var það einnig í vetur, þegar þeir fóru með sinn leiðangur þarna, að þeir gátu ekki verið nema á tiltölulega litlum hluta af því stóra svæði, sem þarna er til að stunda veiðar á. Veiðarfærin, sem þeir voru með, voru, eins og hv. frsm, minni hl. gat um, venjuleg veiðarfæri, og er það út af fyrir sig lítt skiljanlegt, að þeir skyldu leggja út í það að fara með baðmullarveiðarfæri suður á þessi svæði, þar sem vitað er að allar aðrar þjóðir, sem þarna stunda veiðar, nota eingöngu veiðarfæri úr gerviefnum sem þola hitann og gróðurinn í sjónum, sem að sjálfsögðu eyðilagði gersamlega baðmullarveiðarfærin.

Nú segir í till., að fram fari athugun á því, hvaða möguleikar séu á að íslenzk fiskiskip geti hafið fiskveiðar við vesturströnd Afríku. Þetta má gera á ýmsan hátt. Það má gera eins og Norðmenn gerðu, að senda skip þangað suður og kanna. Það má afla upplýsinga eftir ýmsum leiðum um það, hvernig öðrum þjóðum hefur vegnað við veiðar þarna, m.a. afla upplýsinga um það. hvernig Norðmönnum vegnaði, hvers vegna leiðangur þeirra mistókst, en slíkt gæti einmitt orðið til þess að forða okkur frá sömu mistökunum sem hafa orðið Norðmönnum svo dýr. Það er engin nauðsyn á því að mínu áliti að byrja á því strax að senda skip á þessi svæði. Fyrst verður að kynna sér nákvæmlega þær aðstæður, sem fyrir hendi eru, með því að fá upplýsingar frá öðrum, sem þarna stunda veiðar og gera það eftir ýmsum leiðum, og það þarf ekki að hafa mikinn kostnað í för með sér. Það er það, sem fyrri liður till. raunverulega segir. Leiði sú athugun í ljós hins vegar, að möguleikar séu fyrir hendi, ef rétt og skynsamlega er haldið á málunum, þá liggur fyrir að taka ákvörðun um, á hvern hátt skuli að málinu staðíð. Það er þá fyrst, þegar búið er að kanna málið til hlítar, að farið yrði út í það að gera tilraun, ef mönnum sýndist svo, að könnunin hefði leitt í ljós möguleika á því, að slík tilraun gæti tekizt.

Mér er satt að segja alveg óskiljanlegt, hvernig á því stendur, að hv. minni hl. fjvn. vill ekki standa að því, að slík athugun verði gerð, sem till. gerir ráð fyrir. En ég ætla ekki að reyna að leita á því neinnar skýringar. Brtt. svokallaða, sem liggur fyrir frá hv. minni hl., er í raun og veru alls ekki brtt. Þar er um að ræða alveg nýja, sjálfstæða till., sem hefði verið eðlilegt að hefði komið fram sem slík, en ekki breyting við þessa till., því að það er hún eðli sínu samkvæmt ekki.