09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

82. mál, milliþinganefnd í skattamálum

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég flyt ásamt þrem öðrum þm. á þskj. 91 till. til þál. nm skipun mþn. í skattamálum. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna milliþinganefnd í skattamálum, sem semji frumvarp að heildarskattalöggjöf. Við samningu þessa frv. verði m.a. höfð þessi meginsjónarmið:

a) Að tekju- og eignarskattur og útsvör verði sameinuð og lögð á í einu lagi og renni í sameiginlegan sjóð ríkisins og sveitarfélaganna.

b) Að settar verði reglur um skiptingu tekjuskatts og eignarskatts þessa á milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, enn fremur reglur um skiptingu á hluta sveitarfélaganna.

c) Að opinber gjöld fari aldrei fram yfir sanngjarnt hámark af hreinum tekjum gjaldenda.

d) Að veltuútsvar verði fellt niður.

e) Að skattstigi verði lögboðinn.

f) Að ríkisskattanefnd verði breytt í stjórnvaldadómstól í skattamálum.

g) Að þyngd verði viðurlög við skattsvikum.

h) Að innheimta beinna skatta verði færð á eina hönd.

i) Að skattar verði innheimtir með tímabilsgreiðslum.”

Hið tvöfalda álagningar- og innheimtukerfi beinna skatta á vegum ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar er ærið þungt í vöfum og dýrt í framkvæmd. Það skapar gjaldendum aukið umstang og erfiði umfram þörf, vegna þess að þeir þurfa að greiða opinberu gjöldin á tveim stöðum a.m.k. í stað eins, og þeim, sem vinna að álagningu og innheimtu þessara skatta, mikla og óþarfa skriffinnsku. Raddir eru því uppi um, hvort ekki sé hægt að draga mjög úr hinu flókna og dýra innheimtu- og álagningarkerfi, sem við búum við og hverfa til annars, sem er einfaldara í vöfum. Verður þá mörgum fyrst í hug, hvort ekki muni hægt að sameina beinu skattana í einn gjaldstofn og innheimta og leggja á í einu lagi. Víða erlendis hefur sú leið verið farin, t.d. í Svíþjóð og ég held einnig í Danmörku, og þykir sú skipan mála hafa ótvíræða kosti umfram hið eldra skipulag. Við flm. þessarar till. teljum því, að við samningu frv. að heildarskattalöggjöf verði það meginsjónarmið haft að sameina tekju- og eignarskatt og útsvar og leggja á í einu lagi og renni skattur þessi í sameiginlegan sjóð ríkisins og sveitarfélaganna.

Þá leggjum við til, að væntanlegri mþn. verði falið að setja reglur um skiptingu skatts þessa á milli ríkisins og sveitarfélaganna annars vegar og reglur um skiptingu á hluta sveitarfélaganna sín á milli. Á þessu stigi málsins verður ekkert fullyrt um, hver sé réttlát skipting skattsins í milli ríkisins og sveitarfélaganna. Það mál þarf sérstakrar rannsóknar við og verður að skoðast með hliðsjón af þeim miklu breytingum, sem samþykkt þessarar till. hefði sérstaklega á tekjuöflunarleiðir sveitarfélaganna. Hins vegar teljum við flm. þáltill. þessarar, að eðlilegt sé, að hluta sveitarfélaganna af skatti þessum yrði skipt þeirra í milli eftir svipuðum reglum og hluta sveitarfélaganna er nú skipt af söluskatti.

Við leggjum enn fremur til að tryggt verði með væntanlegri löggjöf, að opinber gjöld geti aldrei farið fram úr sanngjörnu hámarki af hreinum tekjum gjaldenda, en eins og hv. þm. vita, hefur skattalöggjöf okkar verið og er reyndar enn þá þannig úr garði gerð, að gjaldendur hafa iðulega orðið að greiða meira í opinber gjöld, tekjuskatta, tekjuútsvör og veltuútsvör, en nemur hreinum tekjum þeirra. Er slík skattheimta að sjálfsögðu fráleit, og ef rétt er fram talið, þá er hún bótalaus eignaupptaka, sem ekkert menningarþjóðfélag getur verið þekkt fyrir að beita.

Við leggjum til enn fremur, að veltuútsvör verði felld niður. Veltuútsvörin hafa lengi verið einhver verst þokkaði skatturinn, sem tíðkazt hefur hér á landi. og eru rökin fyrir afnámi þeirra margvisleg. Því er helzt haldið fram gegn því að fella niður veltuútsvör, að þau séu nauðsynleg nauðvörn sveitarfélaga gegn undandrætti tekna í atvinnurekstri. Því skal ekki neitað, að verulegir möguleikar séu til slíks undandráttar og að reynslan hafi sannað, að þeir hafi verið notaðir. En við því verður að bregðast á annan hátt en þann að leggja hátt veltugjald jafnt á þá, sem telja rétt fram tekjur sínar og eignir, og hina, sem svíkja undan skatti. Skattalöggjöfin veltir skattyfirvöldum rúmar heimildir til þess að áætla tekjur og eignir þeirra, sem skila tortryggilegum framtölum, og þá heimild er sjálfsagt að nota. Veltuútsvörin hafa m.a. þann ókost, að þau vinna gegn því, að aðilar í atvinnurekstri keppist um að auka viðskipti sín í krafti góðrar og ódýrrar þjónustu. Þau hamla gegn framleiðsluaukningu hjá fyrirtækjum og draga þannig úr framleiðslu þjóðarinnar. Flest rök mæla því með því, að þau verði lögð niður og tekjuþörf sveitarfélaganna verði tryggð eftir öðrum og heppilegri leiðum.

Þá leggjum við flm. enn fremur til. að skattstigi verði lögboðinn einn og sá sami fyrir landið allt. Við álítum það grundvallarsjónarmið eitt réttlátt í skattamálum, að menn séu jafnir fyrir lögunum, hvar svo sem þeir eiga búsetu. Eins og löggjöf er nú háttað, fer því fjarri, að svo sé. Má sem dæmi nefna, að t.d. í Reykjavík er unnt að hafa tekjuútsvarsstiga á einstaklinga og veltuútsvarsstiga á fyrirtæki lægri en í öðrum kaupstöðum, aðallega vegna þess, að í Reykjavík eru útsvarsskyldar ýmsar stórar viðskiptamiðstöðvar, sem eiga viðskipti við landsmenn alla, en gjalda há útsvör í bæjarsjóð Reykjavíkur eingöngu.

Þá teljum við það skapa aukið öryggi fyrir gjaldendur, ef skattstigi er lögfestur og sérstakar lækkunarástæður sömuleiðis, þannig að gjaldendum eigi að reynast auðvelt að sannreyna, hvort útsvar þeirra sé rétt á lagt.

Í sjötta lagi leggjum við svo til, að ríkisskattanefnd sem æðsta úrskurðarvald í skattamálum verði breytt í stjórnvaldadómstól og verði deilur um skattupphæðir sóttar þar og varðar á svipaðan hátt og gert er fyrir venjulegum dómstólum.

Í sjöunda lagi er lagt til, að viðurlög við skattsvikum verði þyngd frá því, sem nú er. Það er trúa mín, að sömu eða svipaðri heildarupphæð ríkisskatta og sveitarskatta megi ná eins og nú er gert, jafnvel þótt hinn sameiginlegi skattstigi yrði eitthvað lækkaður og veltuútsvör felld niður, ef tryggt yrði, að tekjur og eignir yrðu rétt fram taldar. Til þess að svo verði, þarf að mínu viti breyttar starfsaðferðir hjá skattyfirvöldum, þ.e.a.s. meiri vinnu þarf að leggja í athugun á rekstrarframtölum en nú er gert. og þar að auki þarf að þyngja viðurlög við skattsvikum.

Í 8. og síðasta lagi er lagt til, að innheimta sveitarskatta og ríkiskatta verði færð á eina hönd í hverju skattumdæmi. Ætti við þá breytingu að geta orðið verulegur vinnusparnaður og innheimtan gerð ódýrari en nú er, án þess að innheimtan tefjist á nokkurn hátt frá því, sem nú er.

Að lokum er svo lagt til, að skattar verði innheimtir með tímabilsgreiðslum. Er slíkt til mikilla þæginda fyrir gjaldendur.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.