14.12.1960
Efri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

130. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. í tilefni af því, að tveir hv. þdm. hafa gert það að sérstöku umtalsefni, að ég hefði á nýafstöðnu þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja staðið að kaupgjaldskröfum, sem þar hafi verið fram bornar og síðan hafi verið sendar fjvn. Það er alveg rétt út af fyrir sig, að á þessu þingi voru bornar fram kröfur um endurskoðun á launakjörum opinberra starfsmanna með það fyrir augum, að launakjörin yrðu bætt. Enn fremur er rétt og skylt að taka það fram, að um afgreiðslu þess máls var ekki teljandi ágreiningur á þinginu, því að við, sem sæti höfum átt á þeim þingum, höfum yfirleitt haldið okkur að þeirri reglu, sem ég tel skynsamlega fyrir hagsmunamál opinberra starfsmanna, að reyna að afgreiða tillögur um launa- og kjaramál þannig, að sem viðtækast samkomulag geti um þær orðið, en hjá hinu hefur verið sneitt, sem ágreiningur er um, þannig að í öllum meginatriðum voru þessar tillögur samþykktar samhljóða. Ágreiningur var, eftir því sem ég bezt man, aðeins um eitt atriði á þessu þingi, sem telja má fremur lítils háttar, svo að ekki er ástæða til þess að gera það að umtalsefni hér.

Nú væri það út af fyrir sig mikil bjartsýni og til meira ætlazt af þeim efnahagsmálaráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, en jafnvel við höfum vænzt, sem þær tillögur höfum að öðru leyti stutt, ef slíkar ráðstafanir kipptu svo öllum efnahagsmálunum í lag, að það hætti með öllu, að á stéttaþingum væru bornar fram kröfur um bætt kjör. Ég held, að svo gott ástand í efnahagsmálum þessa þjóðfélags muni seint skapast, að slíkt verði með öllu úr sögunni. En það er aðalatriðið í sambandi við þetta og hv. þdm. raunar kunnugt, að samanboríð við aðrar stéttir þjóðfélagsins hafa opinberir starfsmenn lengi borið skarðan hlut frá borði. Það voru m.a. á bandalagsþinginu lagðar fram skýrslur, sem fráfarandi bandalagsstjórn hafði látið gera um samanburð á kaupmætti launa opinberra starfsmanna í nágrannalöndum okkar eða á Norðurlöndunum og hér á landi. Niðurstaða þessarar athugunar var sú, að ef litið var á kjör hinna allra lægst launuðu opinberra starfsmanna, þá var tiltölulega lítill munur á launakjörum þeirra eða kaupmætti launa þeirra hér á landi og í nágrannalöndunum. Hann var eitthvað minni hér. Mig minnir, að það munaði um 10–15% eða svo, en þar er ekki um svo ákaflega mikinn launamun að ræða. Allt öðru máli gegndi um þá embættismenn, sem hærra eru launaðir. Þar var launamunurinn geysilega mikill. Má þar t.d. nefna sem dæmi stéttarbræður okkar hv. 3. þm. Norðurl. v., prófessorana, sem að vísu eru nú hvorki hér á landi né á Norðurlöndunum í hópi þeirra opinberu starfsmanna, sem búa við hin beztu kjör. Niðurstaðan hvað snertir laun prófessora var sú, að í Danmörku, þar sem laun prófessora eru þó talsvert miklu lægri en t.d. í Svíþjóð, voru föst árslaun þeirra sem næst 211 þús. kr. á ári, umreiknað eftir skráðu gengi. Hér eru árslaunin ekki nema um 92 þús., svo að þarna munar yfir 100%. Það, að opinberir starfsmenn og sérstaklega þeir hærra launuðu búa þannig við allmiklu lakari kjör en í nágrannalöndunum, stafar að nokkru leyti af óviðráðanlegum ástæðum eins og þeim, að þar eð okkar þjóðfélag er lítið, þá verða færri borgarar um það að standa undir hverjum embættismanni, svo að af þeirri ástæðu er þess að vísu ekki að vænta, að launakjörin geti hér orðið alveg jafngóð og á Norðurlöndunum. Hins vegar er eðlilegt, að opinberir starfsmenn og þeirra stéttarsamtök líti þannig á, að hlutverk þeirra sé það að vinna að lagfæringu á þessu misræmi, og um það standa allir opinberir starfsmenn saman, hvað sem þeim annars ber á milli um almennar landsmálaskoðanir.

Hvað snertir þær efnahagsmálaráðstafanir, sem gerðar hafa verið, og áhrif þeirra í þessu efni, þá hafa þær í sjálfu sér engu þar um breytt. Þær hafa ekki leiðrétt þetta hlutfall, og það hefur ekki verið talið hlutverk þeirra, en það hefur ekki heldur raskazt opinberum starfsmönnum í óhag, svo að aðstæður eru í því efni óbreyttar frá því, sem áður hafði verið, og því auðvitað engin ástæða til þess að láta slíkar kröfur niður falla vegna þess, að umræddar ráðstafanir hafa verið gerðar. Það er fyrst og fremst krafan um leiðréttingu á þessu óhagstæða hlutfalli milli launakjara opinberra starfsmanna og annarra, sem bandalagsþingið krafðist að lagfæring yrði gerð á.

En það er annað atriði í þessu sambandi, sem vekja má athygli á, og það er þetta: Að mínu áliti er einmitt meginástæðan til þess, að opinberir starfsmenn hafa til þessa orðið að sætta sig við svo skarðan hlut sem raun er á, sú, að launakjörin hér á landi, gagnstætt því, sem er í nágrannalöndunum, hafa raunverulega staðið í stað siðan 1945. Meðan svo er, að lífskjörin í heild batna ekki, er þess ekki að vænta og í rauninni eru ekki neinir stjórnmálalegir möguleikar fyrir því, að farið verði að hækka einvörðungu laun þeirra, sem skár eru settir. Það verður þá látið sitja fyrir að varna því, eftir því sem föng eru á, að lífskjör þeirra, sem verst eru settir, versni frá því, sem er. Það er fyrst, þegar sú aukning hefur orðið á þjóðartekjunum, að skapað geti grundvöll fyrir bættum lífskjörum almennt, sem það verður hugsanlegur möguleiki að leiðrétta þetta óhagstæða launahlutfall fyrir opinbera starfsmenn, sem ég að öðru leyti tel þjóðhagslega nauðsyn, því að það er víssulega mikið áhyggjuefni, eins og nú er í sumum starfsgreinum, sem langskólamenntun þarf til að gegna, að menn leita í vaxandi mæli til annarra landa, þar sem boðin eru betri kjör: En það er fyrst, þegar um er að ræða vaxandi þjóðartekjur, að þess er von, að hægt verði að einhverju leyti að ganga til móts við þessar kröfur. En megintilgangur efnahagsmálaráðstafananna hefur einmitt verið sá að skapa grundvöll fyrir því, að við þurfum ekki að búa við þá stöðnun í efnahagsmálum, sem undanfarið hefur verið, heldur séu sköpuð skilyrði fyrir auknum framleiðsluafköstum og þá um leið bættum lífskjörum.

Fyrst ég stóð hér upp á annað borð, þá er rétt að víkja örfáum orðum að ummælum hv. 3. þm. Norðurl. v. við 2. umr. málsins. Hann minntist á það, að ég hefði sagt, sem var alveg rétt hermt, að það væri enn of snemmt að spá um það, hvort sú efnahagsmálalöggjöf, sem sett var á s.l. vetri, næði tilgangi sínum. Það, sem í þessum orðum fólst, var aðeins sú staðreynd, að svo lengi sem það ástand hefur ekki skapazt, sem að var stefnt með löggjöfinni, þá er auðvitað of snemmt að fullyrða nokkuð um slíkt. En að gefnu tilefni er rétt að vekja athygli á því, að það var aldrei ráð fyrir því gert, að þessi löggjöf mundi ná tilgangi sínum á örfáum mánuðum. Það eru engin þau töfraúrræði til í efnahagsmálunum, að hægt sé, eins og komið var um s.l. áramót, að kippa öllu í lag á örfáum mánuðum. Slíku hefur aldrei verið haldið fram af neinum, heldur einmitt því gagnstæða, að það þyrfti talsvert langan tíma og þyrfti þolinmæði til af hálfu þjóðarinnar, ef þessar ráðstafanir ættu að ná fullum árangri. Þar með er ekki sagt, að ekki sé um neinn árangur að ræða af ráðstöfununum. Ég tel þvert á móti, að hann sé mikill og jafnvel meiri en bjartsýnir menn gerðu ráð fyrir á þeim tíma, sem þessar ráðstafanir voru gerðar, þrátt fyrir það að ýmis óviðráðanleg óhöpp hafi síðan komið til, eins og t.d. aflaleysi togaraútgerðarinnar. Og það, sem ég hef í huga, þegar ég ræði um þann mikla árangur, sem þegar hafi náðst af ráðstöfununum, er fyrst og fremst hin stórbætta gjaldeyrisaðstaða, en meginástæðan til þess, að óhjákvæmilegt var að gera þessar ráðstafanir, var hin slæma gjaldeyrisaðstaða landsins eða hin mikla skuldasöfnun út á við og vaxandi greiðslubyrði þjóðarinnar vegna vaxta og afborgana af erlendum lánum, eins og svo glögglega var einmitt gerð grein fyrir í skýrslum þeim, sem vinstri stjórnin lét frá sér fara síðustu vikurnar, sem hún sat, og áður hefur borið á góma við þessar umr. Það hefur í þessu sambandi verið bent á þá staðreynd, að á tímabilinu frá febrúarlokum til októberloka í ár hefur gjaldeyrisaðstaðan batnað um 211 millj., en á sama tíma árið áður versnaði þessi aðstaða um það bil um 240 millj., þannig að gjaldeyrisafkoman hefur verið um það bil hálfum milljarð króna betri á þessu ári en árinu á undan. Það gefur auðvitað auga leið, að sú minnkun gjaldeyrisnotkunarinnar, sem af þessu hefur leitt, hefur auðvitað hlotið að koma bæði við þjóðina í heild og einstaka borgara. Þetta hefur auðvitað þýtt það, að menn hafa orðið að herða að sér ólina. Öðruvísi er ekki hægt að bæta gjaldeyrisaðstöðuna. En þegar gjaldeyrisaðstaðan má teljast eðlileg, þá er þess að vænta, að slaka megi á ýmsum þeim hömlum, sem settar hafa verið með efnahagsmálalöggjöfinni, og þá sé raunar grundvöllur fyrir eðlilegri aukningu þjóðartekna og bættum lífskjörum hér á landi, alveg eins og í okkar nágrannalöndum, sem búið hafa að undanförnu við eðlilega skipan efnahagsmálanna.