23.11.1960
Sameinað þing: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

83. mál, framleiðslu- og framkvæmdaáætlun þjóðarinnar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Við höfum átta þm. úr Framsfl. leyft okkur að flytja á þskj. 92 till. til þál. um undirbúning löggjafar um framleiðslu- og framkvæmdaáætlun þjóðarinnar. Vil ég nú leyfa mér að gera grein fyrir þessu máli og þeim ástæðum, sem við flm. teljum vera til þess að taka upp þá starfsemi, sem hér er um að ráða.

Hér í höfuðstaðnum eru í smíðum tvö stórhýsi á vegum íslenzkra aðila í heilbrigðismálum, landsspítalinn nýi og bæjarspítalinn í Fossvogi. Vinna við þessi hús bæði var, að mig minnir, hafin samtímis vorið 1953. Þau eiga að hafa rúm samtals fyrir 400 sjúklinga, þegar byggingu þeirra er lokið. Nú eftir 7 ár virðist hvor tveggja framkvæmdin eiga langt í land. Segjum, að þeim verði báðum lokið að fullu eftir 8 ár, sem raunar mun ekki verða, byggingin mun taka lengri tíma, en segjum það, að þeim verði báðum lokið að fullu eftir 8 ár og komi þá að notum samtímis. Í 8 ár er þá búið að verja til þessara tveggja nauðsynjaframkvæmda hvorrar fyrir sig nokkrum tugum milljóna. Þetta fé hefur verið lagt fram smátt og smátt, og engin króna kemur að notum fyrr en eftir 8 ár. Ef annað hvort húsið hefði verið látið sitja fyrir, hefði það verið fullgert eftir í ár. Þá var hægt að byrja á hinu og það hefði með því móti komið jafnsnemma að notum og það gerir nú. En með því að kljúfa verkið hefur þjóðin verið án eins fullkomins sjúkrahúss með 200 sjúkrarúmum í í ár, sjúkrahúss, sem hún hefði getað haft til afnota þennan í ára tíma, án þess að það hefði nokkurn aukastofnkostnað í för með sér. Hér er um að ræða annars vegar framkvæmd tveggja aðila, sem stefna að sama marki án samvinnu um árangur, hins vegar um

framkvæmdaáætlun, sem þjóðfélagið hefði haft hag af. Ég tek þetta aðeins sem dæmi, en þau eru mörg. Og þá munu menn t.d. bæta við og segja, að þetta sama eigi sér stað t.d. um vegagerð og hafnargerðir. Eitthvað kann að vera til í því, en þar er þó sá munur á, að vega- og hafnarframkvæmdir koma yfirleitt að nokkru gagni jafnóðum og þær eru gerðar.

Ég skal nefna fleiri dæmi, sem koma þessu máli við. Fjölskylda verður að fresta byggingu íbúðan húss. þegar það er komið undir þak, sakir fjárskorts, byrjar aftur eftir 1–2 ár. Í þessi eitt til tvö ár glatar hún vöxtum af fé sínu, og í landinu er þeirri eða þeim íbúðunum færra í eitt til tvö ár. Bóndi, sem gæti heyjað fyrir 200 ám og hirt þær, hefur ekki nema 100, af því að hann vantar stofnfé til að auka bústofninn. Af þessu er tjón, bæði fyrir þjóðfélagið og bóndann. Byggðarlag fer í eyði, af því að þar vantar veg eða höfn, og áunnin verðmæti í byggðarlaginu eyðileggjast, af því að það fer í eyði. Kannske hefði það ekki farið í eyði, ef menn heiðu vitað, að von væri á höfninni eða veginum eftir 2, 3 eða í ár eða svo og að því mætti treysta.

Ég hef stundum verið að fara yfir aðalmanntalið frá 1950. Síðan er margt breytt. Nú er að því komið að taka nýtt aðalmanntal á þessu ári. En þó er það enn íhugunarefni. sem þar stendur í þessu aðalmanntali frá 1950. Þar stendur m.a., að 9.7% af þjóðinni stundi eða hafi framfæri af fiskveiðum, og er fiskverkun þá auðvitað ekki meðtalin, og nærri eins margir, eða 9.1%, af verzlun. 14.2% stunda eða hafa framfæri af þjónustustörfum svonefndum. Þá eru taldir opinberir starfsmenn, skemmtikraftar o.fl. Ég ætla ekki að ræða þessar tölur, en þjóðin gerir litið til að skipuleggja vinnuafl sitt, gerir sér yfirleitt sem slík ekki nákvæma grein fyrir því, hvernig hún ver kröftum sínum. Hún gerir sér sem slík ekki heldur nægilega grein fyrir, hvernig hún geti eða vilji verja kröftum sínum og fjármunum á komandi árum eða hve mikið fé sé hægt eða hagkvæmt að fá að láni hjá öðrum og til hvers á hverjum tíma eða hverja greiðslumöguleika erlend lán geti skapað.

Ég minnist þess og við minnumst þess sjálfsagt fleiri. að á stríðsárunum síðustu voru margir þeirrar skoðunar, að saltfiskur væri úr sögunni sem ein af aðalútflutningsvörum Íslendinga. Nú vantar þessa vöru. Nú vantar saltfisk í landinu til þess að fullnægja eftirspurninni erlendis, eftir því sem okkur er tjáð, á þessu ári. Þess má líka minnast, að stundum hafa verið uppi háværar raddir um offramleiðslu á kjöti eða mjólk. Nú er sýnt, að þessi framleiðsla þarf að aukast mjög á komandi árum til neyzlu innanlands og að allar líkur eru til þess, að hagkvæmt verði, að kjöt haldi áfram að vera útflutningsvara. Hér er sem sé enn eitt dæmið um það, að það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, sem fram undan er.

Fyrirhyggjusamir einstaklingar gera oft áætlun fram í tímann um atvinnurekstur sinn og framkvæmdir. Bæjar- og sveitarfélög gera nú yfirfeitt fjárhagsáætlun fyrir eitt ár um tekjur og gjöld sín og fyrirtækja sinna, þótt sú áætlun sé að vísu stundum nokkuð lausleg. Alþingi semur fjárlög fyrir eitt ár í senn, en fjárl. eru áætlun um rekstur ríkissjóðs og rekstur ríkisfyrirtækja, jafnframt því sem þau fela í sér ákvarðanir, sem hafa lagagildi. En mörg fyrirtæki og margir einstaklingar láta sjálfsagt undir höfuð leggjast að gera nokkrar slíkar áætlanir, sem því nafni geti nefnzt, og um starfsemi þjóðarinnar í heild hafa slíkar áætlanir fram í tímann almennt ekki verið gerðar á vegum ríkisins hefur þó í seinni tíð nokkrum sinnum verið stofnað til áætlunargerðar af þessu tagi, en í hvert sinn á takmörkuðu sviði, a.m.k. í reynd. Stundum hefur þá verið um það að ræða að gera tillögur um lausn mála, sem fólu í sér nokkra áætlun. Það er bezt að segja það eins og það er, að bæði hjá þingmönnum og ríkisstjórnum hefur oft komið fram talsverður áhugi fyrir því að setja á laggirnar áætlunarstarfsemi, en löngum hefur minna orðið úr en skyldi og stundum ekki mikil alúð við það lögð að fara eftir þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið. Hugmyndir manna um gildi áætlana af þessu tagi virðast oft hafa verið fremur óljósar. Þó að kosnar hafi verið og skipaðar nefndir til að gera áætlanir, hefur árangurinn yfirleitt orðið nokkuð í molum. Þó hygg ég, að sú áætlunarstarfsemi, sem átt hefur sér stað, hafi orðið til gagns og geti orðið til gagns fyrir þá, sem við þá starfsemi kunna að fást eftirleiðis.

Skipulagsnefnd atvinnumála, sem svo er nefnd. var skipuð af ríkisstj. árið 1934, og mun hún hafa starfað um tveggja ára skeið. Hún gaf út árið 1936 mjög ýtarlega grg., meira en 500 bls. að stærð í stóru broti, sem átti að vera fyrra bindi nefndarálits en síðara bindið var aldrei prentað, og ég veit ekki hvort handritið hefur geymzt. Þessi nefnd, skipulagsnefnd atvinnumála, fékk sér til ráðuneytis sænskan hagfræðing, Lindberg að nafni, og gerði hann allmargar ritgerðir fyrir nefndina, sem fyrirhugað var að prenta í öðru bindi nefndarálitsins. Í erindisbréfi þessarar nefndar, sem dagsett var 20. ágúst 1934, var henni m.a. falið, eins og það þar er orðað, „að koma fram með að rannsókn lokinni rökstuddar tillögur og sem nákvæmastar áætlanir um aukinn atvinnurekstur, framkvæmdir og framleiðslu í landinu“. Í fyrra bindi nefndarálitsins eru líka margar tillögur, sem styðjast við áætlanir, sem nefndin gerði. Það væri freistandi að ræða það efni og bera saman við það, sem gerzt hefur síðan, en þetta rit er merk heimild um ýmislegt í þjóðarbúskap Íslendinga fyrir aldarfjórðungi og um áhugamál manna og fyrirætlanir á þeim tíma.

Árið 1942 kaus Alþingi milliþn. í raforkumálum. Sú nefnd átti m.a. að gera till. um „fjáröflun til að byggja rafveitur í því skyni að koma nægilegri raforku til ljósa, suðu, hitunar og iðnrekstrar í allar byggðir landsins á sem skemmstum tíma“. Samkv. ályktun Alþingis um þetta mál átti jafnframt að rannsaka, „hvernig auðveldast sé að fullnægja raforkuþörf landsmanna hvarvetna í landinu“. Þessi raforkumálanefnd frá 1942 gerði allsherjar rafvæðingaráætlun og áætlun um að tengja saman orkuver í ýmsum landshlutum með háspennulínum og sömuleiðis um byggingu nýrra raforkuvera, en raforkuver voru þá færri og minni en þau eru nú. Upp úr þessu var svo sett raforkulöggjöf. En ég kem að þessum málum síðar.

Árið 1943 kaus Alþingi milliþn. til þess að gera „áætlanir og tillögur um framkvæmdir í landinu, þegar stríðinu lýkur“, eins og það þar var orðað. Sú nefnd lét m.a. gera skýrslu um skiptingu þjóðartekna eftir atvinnuvegum, en ekki var sú skýrsla prentuð. Nefndin gerði líka áætlun um byggingu íbúðarhúsa að stríðinu loknu, og er sú áætlun prentuð í riti um byggingamálasýninguna í Reykjavík árið 1944. Þessi nefnd var lögð niður, þegar nýbyggingarráð tók til starfa 1944, og mun það hafa tekið við skjölum hennar og gögnum.

Nýbyggingarráð, sem svo var nefnt, var skipað af ríkisstj, árið 1944 og starfaði til 1947. Um það voru sett sérstök lög á Alþingi, nr. 62 27. nóv. það ár. Um það, þ.e.a.s. nýbyggingarráð, segir svo í 2. gr. laganna:

„Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun fyrst um sinn miðað við næstu 5 ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Skal þar áætlað, hver atvinnutæki, byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita, til þess að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, svo og hvernig bezt væri fyrir komið innflutningi fáanlegra tækja og efnis á næstu árum, með það fyrir augum að hagnýta sem bezt auðlindir landsins. Þá skal nýbyggingarráð gera áætlun um, hvar tækin skuli staðsett, og tillögur um byggingar og aðrar framkvæmdir í því sambandi.“

Nýbyggingarráði voru jafnframt falin önnur verkefni. sem áttu litið skylt við áætlanagerð og hafi eflaust haft truflandi áhrif á áætlanagerðina. Svo fór, að hin fyrirhugaða 5 ára áætlun um það, sem kallað var nýsköpun þjóðarbúskaparins, var aldrei birt og mun ekki hafa verið samin. Mér er tjáð, að gerð hafi verið í nýbyggingarráði og hafi verið til í vélriti fiskveiðaáætlun og áætlun um flutninga milli Íslands og annarra landa og að skipakaup eða skipasmíði hafi átt að byggjast á þessum áætlunum, enn fremur skipasmíðaáætlun og mannaflaáætlun í sambandi við aukningu skipaflotans.

Fjárhagsráð tók við af nýbyggingarráði árið 1947. Það var föst stofnun, sem starfaði fram á árið 1954, að ég ætla. í fjárhagsráði voru gerðar fjárfestingaráætlanir fyrir eitt ár í senn og skemmri tíma, eins og yfirleitt mun hafa tíðkazt í gjaldeyrisnefndum, en um áætlun lengra fram í tímann mun yfirleitt ekki hafa verið að ræða í fjárhagsráði.

Atvinnumálanefnd ríkisins, sem svo hefur verið nefnd, var kosin á Alþ. árið 1955 til að gera tillögur um eflingu núverandi atvinnuvega og nýjar atvinnugreinar til framleiðslu- og atvinnuaukningar og hagnýtingar náttúruauðæfa landsins.“ Þessari n. var m.a. einnig ætlað að gera tillögur um samræmingu ýmiss konar rannsóknarstarfsemi. og mun hún hafa haft samráð eða samvinnu við rannsóknaráð ríkisins, og hygg ég, að hún sé starfandi enn.

Atvinnutækjanefnd var skipuð af ríkisstj. haustið 1956 til þess að gera tillögur í atvinnumálum, einkum í þeim landshlutum, sem þar væru verst á vegi staddir, og fjallaði hún í reynd aðallega um atvinnulífið við sjávarsíðuna. Nefndin afgreiddi vorið 1958 þrjár áætlanir til ríkisstj., miðaðar við þessa landshluta. Skýrslur hennar um atvinnuástand og aðstöðu til atvinnurekstrar í bæjum og þorpum á Norður-, Austur- og Vesturlandi voru prentaðar árið 1958 og sams konar skýrslur um bæi og þorp á Suðurlandi árið 1959.

Nú undanfarin ár hefur verið unnið að 10 ára áætlun um hafnarframkvæmdir í landinu samkvæmt ályktun Alþ. 26. marz 1958.

Þess má einnig geta. að árið 1954, ef ég man rétt, voru skipaðir til þess 2 menn af ríkisstj. að gera tillögur varðandi jafnvægi í byggð landsins, og má segja, að það nefndarálit, sem frá þeim mönnum kom, hafi verið að nokkru leyti í áætlunarformi.

Þá þykir mér rétt að vekja athygli á því, að árið 1950 var á vegum Stéttarsambands bænda gerð 10 ára áætlun um fjarfestingu landbúnaðarins, þ.e.a.s. um bústofnsaukningu, ræktun, byggingu útihúsa og íbúðarhúsa, véla- og verkfærakaup o.fl. þess háttar, svo og um lánsfjárþörf landbúnaðarins á sama tíma og um aukningu á framleiðslu landbúnaðarvara til útflutnings. Þessu 10 ára áætlun samdi Bergur Sigurbjörnsson viðskiptafræðingur, fyrrv. alþm., „í samráði við og með aðstoð” formanns Stéttarsambandsins og nokkurra annarra nafngreindra manna sérfróðra um þau efni, sem áætlunin fjallar um. Mér er ekki fullkunnugt um, að hve miklu leyti hlutaðeigandi aðilar hafa haft þessa áætlun til hlíðsjónar, eftir að hún var gerð. Hún mun þó hafa verið allmikið notuð og endurnýjuð, t.d. í sambandi við lántökur erlendis. Þessi áætlun var birt í Árbók landbúnaðarins árið 1951. Nú, þegar áætlunartíminn er liðinn, er næsta fróðlegt að bera hana saman við það, sem skeð hefur í fjárfestingarmálum landbúnaðarins á árunum 1951–60. Ég vek athygli á því, að hér er um framkvæmdaáætlun að ræða. en ekki framleiðsluáætlun, þ.e.a.s. áætlun um framleiðslu landbúnaðarafurða nema að því er varðar aukningu á útflutningi þessara vara. Þó má segja, að í bústofnsáætluninni felist einnig a.m.k. lausleg áætlun um framleiðsluna.

Árið 1954 var stofnað til þess með lögum, að gerð væri 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins. Jafnframt var lögfest útvegun lágmarksfjármagns til áætlunarinnar, 250 millj. kr., og upphæð hvers árs á þessu 10 ára tímabili. Framkvæmdaáætlunin skyldi síðan samin, er nægileg sérfræðileg athugun lægi fyrir. Á sínum tíma var svo þessi framkvæmdaáætlun samin fyrir tímabilið 1954–63 og sundurliðuð eftir árum.

Í sambandi við undirbúning fjárlaga, sem ég vék að áðan, hafa hinar sérstöku stofnanir ríkisins gert áætlanir til eins árs í senn um starfsemi sína, sem auðvitað er á mjög afmörkuðum sviðum. Þá munu sumar þeirra einnig, t.d. landssíminn, að ég hygg hafa gert framkvæmdaáætlanir fyrir nokkur ár í senn.

Á vegum Framkvæmdabanka Íslands hefur um nokkurt árabil verið unnið að skýrslu- og áætlanagerð, og hefur hagdeild bankans haft það verk með höndum. Hér mun vera um að ræða ýmsar framkvæmda- og framleiðsluáætlanir til skamms tíma, svo óg skýrslur um þjóðartekjur. Þetta verk mun öðrum þræði hafa verið unnið vegna þátttöku Íslands í efnahagssamvinnu Evrópu og að einhverju leyti við hana miðað.

Ég hef talið það sjálfsagt og ómaksins vert að rifja upp fyrir hv. alþm., að vísu mjög lauslega það, sem gerzt hefur í þessum málum. Þetta stutta yfirlit sýnir, að allmiklu starfi hefur á undanförnum áratugum verið varið til að gera sér grein fyrir verkefnum framtíðarinnar, og í því sambandi hefur oft verið um að ræða áætlanagerð á takmörkuðu sviði, þó að form þeirrar áætlunargerðar hafi sjaldnast verið með föstu sniði. En þessi starfsemi hefur verið í brotum, samhengi vantað, tilgangurinn oft ekki svo ljós sem skyldi. Nefndir hafa verið settar á laggirnar, verkefni þeirra ákveðin, oftast hér á Alþingi með skyndisamþykktum, án þess að þær hafi verið eins rækilega undirbúnar og vera þarf, ef áætlunarverk á að koma að fullum notum.

Við flm. þáltill. teljum, að hér eigi nú að verða breyting á og að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir, hvernig vinna beri að áætlunum og hver megintilgangur áætlanagerðar eigi að vera í tillögu þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 92, er gert ráð fyrir, að skipuð verði fimm manna nefnd, bankastjóri Framkvæmdabankans og einn maður tilnefndur af hverjum þingflokki. Verkefni þessarar fimm manna nefndar á samkvæmt till. að vera að undirbúa löggjöf um það, hversu semja skuli fyrir ár hvert og fyrir nokkur ár í senn áætlun um framleiðslu og framkvæmdir í landinu. Samkv. tillgr. er nefndinni ætlað að hafa þrjú sjónarmið í huga. þegar hún gerir tillögur sínar um, hvernig áætlanir skuli semja. Í fyrsta lagi það, að framleiðslu og framkvæmdir þurfi að miða við vöxt þjóðarinnar. Í öðru lagi við það, að þjóðin verði á framfaraleið. Og í þriðja lagi að þjóðin þurfi að byggja upp land sitt og að jafnvægi eigi að vera í byggð landsins. Þessari nefnd er ekki ætlað að gera áætlanir. Henni er ekki ætlað að starfa langan tíma. En við teljum, að áætlunargerð um þessa meginþætti þjóðarbúskaparins sé svo vandasöm og svo mikið undir henni komið, að áður en byrjað er að vinna að henni. eigi að setja um hana sérstaka löggjöf, setja um það sérstaka löggjöf, hvernig hún eigi að vera og hvernig að henni skuli unnið. Við teljum vafasamt, að það sé á færi Alþingis nú að setja slíka löggjöf. Það mál þarf að ræða við sérfróða menn hér á landi, hagfræðinga, og svo er fyrir að þakka, að við eigum nú orðið mörgum vel lærðum hagfræðingum á að skipa, sem einmitt á því sviði geta orðið að miklu liði. En það er líka full ástæða til þess, að nefndin kynni sér áætlanagerð með öðrum þjóðum, ekki sízt hjá þeim þjóðum, sem mesta reynslu hafa á þessu sviði. Það þarf ekki að þýða, að við teljum æskilegt að taka upp stjórnarfar þeirra eða vinnulag að öðru leyti. Og þó að reynt sé að fá þjóðarheildina, til að vinna eftir áætlun eða með hliðsjón af áætlun, þarf það ekki að hafa í för með sér að innleiða almennt sérstök rekstrarform í atvinnulífinu, t.d. ríkisrekstur. Áætlun um framleiðslu og framkvæmdir þjóðarinnar getur verið ríkisrekstraráætlun, eins og hún er í sumum löndum, en hún getur alveg eins verið áætlun um einkarekstur eða blandaðan rekstur. Það er hægt að gera áætlun um þróun atvinnugreinanna í slíkum rekstri, og það er hægt að stuðla að því á ýmsan hátt, að einstaklingar og fyrirtæki hafi eðlilega hliðsjón af gerðri áætlun, þjóðaráætlun eða landsáætlun, sem miðuð er við, að þjóðinni fjölgi, að hún haldi áfram á braut framfaranna og að byggð haldist við um land allt.

Það, sem fyrir okkur flm. vakir, er, að athugaðir verði möguleikar á því að gera áætlanagerð að föstum lið í starfsemi þjóðfélagsins, að ekki verði látið nægja eins og hingað til að setja á laggirnar nefndir, sem starfa tímabundið á takmörkuðu sviði. Það er vandaverk að ákveða, hvernig slíkri starfsemi skuli hagað, svo að gagn verði að. Það er trúlegt, að ríkisstofnun þurfi að hafa stjórn þessa verks, en það er áreiðanlega heppilegast, að fleiri komi til, samtök fyrirtækja, atvinnustéttir, bæjar- og héraðsstjórnir, ríkisstofnanir o.fl. En það þarf að ákveða, hvað hverjum skuli ætlað að vinna og hvernig áætlunarefnið verði saman dregið. Í sambandi við slíka áætlunargerð þarf að skapast þjóðaráhugi á uppbyggingu framtíðarinnar, heilbrigður þjóðarmetnaður, heilbrigður metnaður stétta og atvinnugreina og byggðarlaga í þá átt að láta ekki sinn hlut eftir liggja við að efla þjóðarbú vort og gengi þeirra, sem í landinu búa.

Í till., sem fyrir liggur á þskj. 92, er gert ráð fyrir framleiðslu- og framkvæmdaáætlun fyrir ár hvert og lengri tíma. En það er ekki nóg að tala um áætlun. Menn verða að gera sér grein fyrir, um hvað áætlanir eigi að vera. Á þessar tvær áætlanir viljum við benda sem meginþætti, þ.e.a.s. framleiðsluáætlunina og framkvæmdaáætlunina. En það kemur af sjálfu sér, að ef unnið er að slíkum áætlunum, munu fleiri áætlanir koma til, eins og vikið er að í grg. till. Það þarf að gera áætlanir um vinnuafl þjóðarinnar á hverjum tíma, um fjármagn, gjaldeyri neyzluáætlun o.fl. Um það ræði ég ekki nánar á þessu stigi, enda skortir mig til þess sérfræðilega þekkingu að leggja á ráðin um það efni. Þar þurfa hagfræðingarnir að koma til sögunnar.

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að áætlanir, eins og hér er aðallega um rætt, framkvæmda- og framleiðsluáætlun, hvort sem hún nær langt eða skammt fram í tímann, er hægt að gera á tvennan hátt fyrst og fremst. Það er hægt að gera líkindaáætlun, sem svo mætti nefna, eins konar veðurspá, þar sem dregnar eru líkur af reynslu og reynt að gera sér grein fyrir, hvað gerast mundi, án þess að sá aðili, sem áætlunina gerir, ætli sér sjálfur að hafa á það veruleg áhrif eða gera tillögur um ráðstafanir. En það er líka hægt að gera það, sem ég vildi kalla frumkvæðisáætlun, þ.e.a.s. áætlun, sem að meira eða minna leyti er byggð á tillögum þeirra, sem áætlunina gera. Þarna mundi vinnubrögðum sjálfsagt verða hagað nokkuð eftir stjórnarstefnunni á hverjum tíma. En það, sem fyrir okkur flm. vakir, kemur fram í orðalagi tillgr. á þskj. 92. En jafnvel þótt aðeins sé farin hin fyrri leið, að eingöngu sé um líkindaáætlun að ræða, hefur hún eigi að síður mikilvægu hlutverki að gegna. Það mætti líkja slíkri áætlun við vörður á fjallvegi, þar sem ókunnugir eiga leið um. Áætlun af hinu taginu, frumkvæðisáætluninni, má e.t.v. fremur líkja við það, þegar verkfræðingur markar fyrir nýjum vegi.

Ég veit, að margir hafa verið og eru vantrúaðir á gildi áætlana á það er bent, að erfitt sé að fara eftir áætlunum og því erfiðara sem þær eiga að ná lengra fram í tímann. Og það er rétt. Hér á þessu veðrasama landi hefur þó verið lagt í það fyrir löngu að láta strandferðaskip sigla eftir áætlunum, sem gerðar eru ár fram í tímann, og allir telja það nú sjálfsagt. Erlendis hafa járnbrautarlestir lengi farið svo nákvæmlega eftir áætlunum, að varla skokkar um mínútu á hverjum stað, án áætlana færu allar samgöngur úr skorðum, á landi, sjó og í lofti, bæði hér og annars staðar. Til þess að áætlanir í samgöngum standist, þarf auðvitað að samræma starf fjölda fólks, og yfirleitt verður niðurstaðan sú, að hver leysir af hendi það, sem honum er ætlað. Og sjálfsagt fer áætlunartækninni fram eins og annarri tækni í veröldinni, líka hér á landi.

Það má segja, að staðhættir séu slíkir hér á landi. að erfitt sé að gera áætlanir um atvinnulíf og framleiðslu. því að hér sé svo mikið undir duttlungum náttúrunnar komið. Öðru máli gegni um þau lönd, þar sem byggt er fyrst og fremst á iðnaði og framleiðslugetu, sem hægt sé að reikna út fyrir fram. Svipull er sjávarafli, segir máltækið, og mestöll útflutningsframleiðsla Íslendinga byggist á sjávarafla. Sjávaraflinn við Ísland er þó ekki svipuill en svo, að sá afli, sem minnstur verður hér, mundi þykja ágætur hjá sumum öðrum þjóðum, sem fiskveiðar stunda. Og mismunur af afrakstri íslenzks landbúnaðar eftir árferði mun nú orðið ekki vera miklu meiri en gengur og gerist í öðrum löndum, þar sem landbúnaður er stundaður. Ég fer ekki nánar út í það. Þess er líka að geta, að þó að sjávarútvegurinn framleiði nú yfir 90% af útflutningsvörum landsmanna, þá er ástæða til að ætla, að það hlutfall breytist á komandi tímum, ekki þannig, að útgerð dragist saman, því að hún mun fara vaxandi a.m.k. fyrst um sinn, og það er fráleitt að láta sér detta í hug, að þjóðin eigi að hverfa frá fiskveiðum eða draga úr þeim fyrst um sinn, þó að þær geti verið áhættusamar. En það er jafnframt sennilegt, að útflutningur landbúnaðarvara eigi fyrir höndum að aukast og að þjóðin muni á komandi tímum flytja út iðnaðarvörur, sem ekki eru fluttar út nú. Hjá því getur varla farið, að hér verði komið á fót stóriðnaði, kannske í smáum stíl miðað við það, sem tíðkast hjá stórþjóðunum, en stóriðnaði þó. Þessi fámenna þjóð. með fáar vinnunendur, samanborið við vinnuhandafjölda annarra þjóða, mun ekki til lengdar neita sér um það að þiggja þann liðsauka, sem landið sjálft býður fram í orku fallvatnanna. Þann dag, sem sá liðsauki verður þeginn, verður þjóðin höfði hærri en hún er nú á sviði tækninnar, og að því mun koma. En mikið er undir því komið að sjálfsögðu, að þar verði ekki of greitt úr hlaði riðið, að ekki verði hrapað að því að gera allt í einu og að hafizt sé handa á réttum stað, svo að ekki raskist jafnvægi í byggð landsins. Þær framkvæmdir, sem þar verður um að ræða, þarf að hefja samkvæmt áætlun, og þá munu þær líka gera þjóðinni auðveldara en áður að láta aðrar áætlanir sínar standast.

Þó að okkur flm. séu ljósir margir og miklir erfiðleikar við að gera áætlanir og fara eftir þeim, getum við ekki komizt hjá því hér á Alþ. að viðurkenna hinar nýju staðreyndir vorra tíma.

Það er staðreynd, sem varla verður dregin í efa. að þjóðum, sem ekki verður talið að standi á hærra menningarstigi en Íslendingar, jafnvel þjóðum, sem að margra dómi búa við óæskilegt stjórnarfyrirkomulag, hefur, að því er virðist, a.m.k. að verulegu leyti tekizt að framkvæma áætlanir, sem gerðar hafa verið til margra ára og að áætlanirnar hafa lyft þjóðarbúskap þeirra á hærra stig en hann hefði verið að öðru óbreyttu.

Því hefur stundum verið haldið fram, að ásetlanagerð geti í ýmsum tilfellum lagt hömlur á framtak í atvinnulífi og framkvæmdum. Þetta fer auðvitað nokkuð eftir því, hvers eðlis þær áætlanir eru, sem gerðar eru. Sé eingöngu eða fyrst og fremst um líkindaáætlanir að ræða, verður engin ástæða til að óttast slíkt. Slík áætlun er til leiðbeiningar, til að hjálpa mönnum til að átta sig, og enginn hefur á móti veðurspá, menn vilja bara hafa hana sem réttasta. Ef áætlunin hins vegar felur í sér fyrirmæli, verkstjórn, íhlutun um dreifingu fjármagns eða þvílíkar aðgerðir að meira eða minna leyti, þá má segja, að ekki geti hver farið sínu fram. En slík áætlun felur líka í sér nokkurt öryggi fyrir þá, sem á þjóðarbúinu vinna eða þar hafa forsjá og framtak á einhverjum stað eða einhverju sviði, ef að henni er unnið á réttan hátt.

Þjóðinni fjölgar nú ört. Íbúar landsins munu að líkindum verða 375 þúsundir eftir 40 ár, þ.e.a.s. um næstu aldamót. Þjóðin er á framfaraleið og vill áreiðanlega halda áfram á þeirri leið. Landið okkar góða bíður eftir sinni stóru framtíðarþjóð, og það býr yfir miklum möguleikum til þess að fóstra þá þjóð. Þeir möguleikar eru ekki bundnir við einhvern lítinn hluta landsins. Þeir möguleikar eru, að telja má, um land allt. — og menningarþjóð, sem á heilbrigðan þjóðarmetnað, ann ættjörð sinni og vill vera sjálfstæð, mun vonandi aldrei gera áætlanir um að leggja land sitt eða landsbyggðir í eyði. Landið og miðin umhverfis það búa yfir miklum möguleikum. En vinnuafl og fjármagn á sér takmörk. Nauðsyn ber til þess að dómi okkar flm. að þjóðin og þeir sem forustu hafa í málum hennar, geri sér grein fyrir því á hverjum tíma með nokkrum fyrirvara, að hverju skuli stefna í framleiðslu og framkvæmdum og hvernig þeim skuli hagað, hvað óhjákvæmilegt sé og æskilegast, hvað helzt megi bíða og hvers vænta megi, ef með forsjá er á málum haldið. Með þetta í huga er sú tillaga flutt, sem hér liggur fyrir. Og að öllu athuguðu væntum við flm. þess, að Alþingi geti ð það fallizt, að unnið verði að því að undirbúa þá löggjöf um framleiðslu- og framkvæmdaáætlun þjóðarinnar, sem hér er um að ræða og fyrir liggur á þskj. 92.

Ég legg svo til. að till. verði vísað til hv. fjvn.