30.11.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

83. mál, framleiðslu- og framkvæmdaáætlun þjóðarinnar

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, snertir mikilvægt þjóðhagslegt vandamál og er því að mínu áliti þess fyllilega verð, að henni sé veitt athygli og hún rædd, hvaða skoðanir sem menn annars kunna að hafa á því, hvort úrræði þau, sem þar er bent á, séu líkleg til að leysa þann vanda, sem við er að etja. En á því er ekki vafi, að misheppnuð fjárfesting er a.m.k. eitt af þýðingarmestu sjúkdómseinkennum þeirra meinsemda, sem við hefur verið að etja í efnahagsmálum okkar, ef ekki ein af grundvallarorsökum vandans.

Við Íslendingar höfum lengst af, frá því er seinni heimsstyrjöldinni lauk, varið stærri hluta af þjóðartekjum okkar til fjárfestingar en gerzt hefur meðal nágrannaþjóða okkar, sem margar hverjar hafa þó orðið á þessum tíma að byggja atvinnulíf sitt upp úr rústum heimsstyrjaldarinnar. Tilgangur þessarar miklu fjárfestingar, sem hér hefur átt sér stað, hefur auðvitað verið sá að búa í haginn fyrir aukna velmegun þjóðarinnar eða bætt kjör almenningi til handa, því að sannar framfarir hljóta auðvitað fyrst og fremst að vera fólgnar í bættum kjörum. En hver hefur árangurinn orðíð í þessu efni? Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að vitna til fskj. með frv. til laga um áætlunarráð ríkisins, er hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hefur flutt, en í þessu fskj. er tafla, sem sýnir þróun kaupmáttar tímakaups á árabilinu frá 1945 til 1959, eða frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk og til ársins 1959. Samkvæmt þessari töflu er kaupmáttur tímakaupsins að meðaltali árið 1959 99.8 stig, miðað við 100 árið 1945, þannig eð á þessu tímabili hefur kaupmáttur tímakaupsins lækkað um 0.2 stig. Á sama tíma má gera ráð fyrir því, að kaupmáttur tímakaups hafi í nágrannalöndum okkar aukizt um allt að því 50%.

Nú er mér að vísu fyllilega ljóst, að kaupmáttur tímakaupsins og breytingar, sem verða á honum eru ekki einhlítur mælikvarði á kjör launþeganna. Þar kemur auðvitað fleira til greina, eins og breytingar, sem kunna að verða á bótum samkvæmt almannatryggingum, enn fremur skattamál og síðast, en ekki sízt atvinnuástandið. Allir þessir þættir hafa auðvitað einnig meiri eða minni áhrif á raunveruleg kjör launþeganna. En með tilliti til þess, að ekki hafa orðið stórvægilegar breytingar á þessum atriðum á því tímabili, sem hér er um að ræða, ætti kaupmáttur tímakaupsins að gefa nokkurn veginn til kynna þá breytingu, sem orðið hefur á raunverulegum lífskjörum. Hins vegar er rétt að taka það fram, þó að það sé auðvitað aukaatriði í þessu sambandi, að það mundi vera villandi að miða við kaupmátt tímakaupsins, ef sýna ætti þróun kjaranna á því ári sem nú er að líða, því að eins og kunnugt er, þá hafð jafnhliða þeim verðhækkunum, sem orðið hafa og auðvitað hafa leitt til talsverðrar rýrnunar á kaupmætti tímakaupsins, verið gerðar ráðstafanir til þess að stórauka bætur samkvæmt almannatryggingum og lækka skatta.

Annað atriði kemur auðvitað líka til í þessu sambandi, nefnilega það, að vísitalan hefur að undanförnu verið slæmur mælikvarði á verðlagið. En ekki er þó ástæða til þess að ætla, að þeir útreikningar, sem hér hafa verið gerðir, gefi skakka mynd af þróuninni í þeim efnum, eða að því leyti, sem svo væri, mætti frekar ætla, að rýrnun kaupmáttar launanna væri meiri en niðurstaðan bendir til, vegna þess að eins og kunnugt er hefur sú leið gjarnan verið farin til þess að halda verðlaginu í skefjum að reyna að halda verði á þeim vörum, sem sérstaka þýðingu hafa, í vísitölunni, í skefjum á kostnað þess, að verðlag á öðrum vörum hefur hækkað. Niðurstaðan af þessu. samanborið við þá þróun, sem orðið hefur í okkar nágrannalöndum, er því vissulega dapurleg.

Nú er það ekki svo, að ekki hafi á því tímabili, sem hér er um að ræða, orðið verulegar grunnkaupshækkanir. Þær hafa orðið hvað eftir annað, en samt sem áður hefur kaupmáttur tímakaupsins ekki aukizt. Allar tilraunir launþeganna til þess að rétta hlut sinn í þessu efni með grunnkaupshækkunum h:afa runnið út í sandinn, eða m.ö.o. kauphækkanirnar hafa verið teknar til baka með hækkunum á tollum og sköttum, gengislækkunum og öðru, þannig að launþegarnir hafa orðið að greiða allar kauphækkanirnar úr eigin vasa. Það er nú stundum sagt við þessu, að ástæðan til þess, að árangurinn af kjarabaráttu verkalýðsins hefur orðið svo lítill sem raun er á, sé sá, að óvinveitt stjórnarvöld hafi meira eða minna að óþörfu gert sér leik að því að taka aftur allar þær kjarabætur, sem á hafa unnizt með samningum um hærra grunnkaup. þannig að hér sé um að kenna illvilja. stjórnarvaldanna. Að þetta getur ekki staðizt út af fyrir sig held ég sé auðveldast að sanna með því að vísa til ferils vinstri stjórnarinnar í þessum efnum.

Eins og kunnugt er, urðu miklar kauphækkanir á árinu 1955. Óbein afleiðing þessara kauphækkana og verðhækkana, sem af þeim leiddi varð, eins og kunnugt er, að stofnað var til nýrra kosninga og ný stjórn settist að völdum. En frá sjónarmiði þeirra manna, sem einmitt hafa haldið þessu fram, að það sé vegna illvilja stjórnarvaldanna. að allar kauphækkanir hafa runnið út í sandinn, ætti slíkum illvilja ekki að hafa verið til að dreifa hvað þessa ríkisstj. snertir. En hvernig fór svo með þær kjarabætur, sem áunnizt höfðu í verkfallinu 1955, eftir að vinstri stjórnin tók við völdum? Ein af fyrstu aðgerðum þessarar ríkisstj. var sú að setja bráðabirgðalög um vísitöluskerðingu í ágúst 1956. Ég var áheyrnarfulltrúi fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja á Alþýðusambandsþinginu 1956, og man ég, að á því þingi var útbýtt skjali, þar sem gerð hafði verið athugun á kaupmætti launanna frá því fyrir verkfallið 1955 og til haustsins 1956. Niðurstaðan varð sú, að kaupmáttur launanna væri þá 7% meiri en hafði verið fyrir verkfallið 1955, eða með öðrum orðum, niðurstaðan af þessari rannsókn var sú, að allt það, sem verkamenn höfðu áunnið með þessu verkfalli. umfram það, sem atvinnurekendur buðu í upphafi verkfallsins, en það voru 7% kjarabætur, hafði verið tekið aftur vegna vísitöluskerðingarinnar, enda lætur það mjög nærri, þar sem kauphækkanirnar voru 10%. en vísitöluskerðingin 6 stig eða um 3% af launum, að af þessum 10% voru tekin 3, þannig að eftir var nákvæmlega það, sem atvinnurekendur höfðu boðið í upphafi verkfallsins, eða m.ö.o., að hér var viðurkennt, að það, sem á hafði unnizt í verkfallinu, var þegar tekið aftur á fyrstu dögum vinstri stjórnarinnar. Þetta var þó ekki talið nægja, heldur var nokkrum mánuðum seinna sett sú löggjöf, sem kölluð hefur verið „jólagjöfin“, þar sem lagðar voru á nýjar álögur, sem námu einum 2–3 hundruðum millj. kr. Enn var þetta þó ekki nóg, því að vorið 1958 var sett bjargráðalöggjöfin, sem þýddi verulegar nýjar álögur, og haustið 1958 var ástandið þannig að dómi þessarar ríkisstj., að í áliti, sem útbýtt var á Alþýðusambandsþingi 1958, var því haldið fram, að allt að því 8–14% kjaraskerðing í viðbót við þá, sem orðin væri, væri óhjákvæmileg.

Ég er ekki að hreyfa þessu vegna þess, að ég sjái sérstaka ástæðu til þess í sambandi við þetta mál að deila á vinstri stjórnina. Framsöguræða hv. 1. flm. fyrir þessari þáltill. var málefnaleg og ekki deilt á neinn. En ég rek þessa þróun aðeins því til sönnunar, að það er ekki nóg til þess að skapa grundvöll fyrir bættum kjörum, að skipt sé um ríkisstj., ef efnahagsmálastefnan er óbreytt. Það er fjarri mér að halda því fram, að þeir, sem áttu sæti í þeirri hæstv. ríkisstj., m.a. hv. 4. landsk., hafi gert það með sérstakri ánægju að taka þannig aftur allar þær kjarabætur, sem áunnizt höfðu í því verkfalli, sem óbeint kom þessari ríkisstj. til valda. Nei, en þessi ríkisstj. stóð eins og svo margar aðrar gagnvart því, að það var ekki um nema tvo kosti að velja, annaðhvort að gera þessar kjaraskerðingarráðstafanir eða að láta atvinnuvegina stöðvast, og þá var fyrri kosturinn talinn betri. Það er því ekki rétt skýring á þeirri ömurlegu þróun hvað snertir kjör launþeganna. að það sé eingöngu vegna illvilja stjórnarvaldanna, að baráttan hefur orðið svo árangurslítil. Önnur skýring er sú, að grundvallarorsök þess, að árangur framfaraviðleitni okkar hefur orðið svo lítill sem raun er á, sé skipulagsleysi í fjárfestingu, og sú þáltill., sem hér liggur fyrir, ásamt frv. hv. 3. þm. Reykv. um áætlunarráð, byggir m.a. á þeirri skoðun. Þessi skýring er auðvitað til mikilla muna málefnalegri en sú, sem ég hef rætt. Og það er ekki vafi á því, að í þeim efnum þarf endurbóta við.

Ég hygg, að það sé ekki ágreiningur um það milli þeirra stjórnmálaflokka, sem fulltrúa eiga á hv. Alþingi, að æskilegt sé og jafnvel nauðsynlegt að koma á þjóðhagsáætlanagerð í einhverri mynd. Þetta er m.a. eitt þeirra atriða, sem nefnd voru í þeirri stefnuyfirlýsingu, sem hæstv. núv. ríkisstj. gaf út, áður en hún settist að völdum. Til framkvæmda hefur það þó ekki komið enn þá og mun því valda skortur á upplýsingum og annarrí afstöðu til þess að semja slíkar áætlanir. En séu gerðar slíkar þjóðhagsáætlanir, hlýtur það að verða liður í slíku, að einhver heildaráætlun sé gerð um þá fjárfestingu, sem má eiga sér stað í þjóðfélaginu, til þess að það fari ekki úr skorðum. Hve víðtæk slík áætlanagerð eigi að vera og hvernig henni eigi að koma fyrir í einstökum atriðum, getur auðvitað verið ágreiningsmál en varla hitt, að þetta þurfi í einni eða annarri mynd að gera. Það er líka að mínu áliti mjög athyglisverð hugmynd, sem kemur fram í frv. hv. 3. þm. Reykv. um áætlunarráð, að hér verði komið á fót efnahagsmálastofnun með beinni eða óbeinni aðild mikilvægustu hagsmunasamtakanna í landinu. Slíkum stofnunum hefur verið komið á fót hjá ýmsum okkar nágrannaþjóða með mjög góðum árangri og ég tel þá hugmynd fylillega athyglisverða og er í rauninni ekki í vafa um, að hún muni koma til framkvæmda, áður en langt um liður, í einni eða annarri mynd.

En hvað sem þessu líður, — og þá kem ég raunar að því, sem var tilefni til þess, að ég stóð hér upp, — og þó að ekki verði komizt hjá því að taka upp einhvers konar stjórn á heildarfjárfestingu og það geti verið gott út af fyrir sig, þá ber að mínu áliti að vara mjög við þeirri skoðun, að með því að gera slíkar fjárfestingaráætlanir að hægt að vinna bug á grundvallarorsökum meinsemda efnahagskerfisins. Þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, geta verið skynsamlegar út af fyrir sig, en það væri hættulegt að ætla að telja sér trú um það, að með slíku einu saman væri hægt að leysa þann vanda, sem við er að etja, því að grundvallarorsök þess, að framfaraviðleitni okkar undanfarin ár og áratugi hefur ekki borið þann árangur, sem æskilegt væri, er þess eðils, að hún verður ekki upprætt með áætlanagerð.

Hver er þá kjarni efnahagsvandamálsins? Að mínu álíti er hann í stuttu máli sá, að efnahagskerfið hefur að undanförnu ekki örvað þá, sem framleiðslutækin reka og eiga, til þess að auka framleiðnina og bæta rekstur sinn, heldur hefur þetta jafnvel verið þvert á móti. Og þær veilur í efnahagskerfinu, sem þessu hafa valdið, eru einkum þrenns konar.

Verðlagið hér á landi hefur verið svo úr skorðum fært, að það hefur ekki verið réttur mælikvarði á það, hvers konar framleiðslustarfsemi sé afkastamest frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Má þar m.a. nefna hina röngu gengisskráningu og ýmislegt fleira í öðru lagi hefur uppbótakerfið verið öllum framförum fjötur um fót. Sem dæmi um þetta má m.a. nefna það, að ef litið er á útgerðina sem heild, þá bætir hún ekki hag sinn með því að innleiða sparnað í rekstri, afla nýrra markaða o.s.frv. Sé það gert, verður eðlilega sagt við útgerðarmennina af hálfu ríkisvaldsins: Úr því að ykkar framleiðslukostnaður hefur lækkað og það verð, sem þið fáið á erlendum mörkuðum, hefur hækkað, þá þurfið þið ekki á eins miklum uppbótum að halda og áður, þannig að uppbæturnar verða þá lækkaðar, þannig að slíkar ráðstafanir bæta ekki hag útvegsins. Sama máli gegnir í rauninni um bændurna. Samkvæmt lögum er ákveðið, að kaup þeirra eigi að svara til verkamannskaups, þeir eigi að fá það verð fyrir afurðir sinar, að þeir beri úr býtum sem samsvarar verkamannskaupi. Ef afköst aukast í landbúnaðinum, þá breytist það ekki, að bóndinn á eftir sem áður að fá verkamannskaup, svo að eðlilegt er þá og í fullu samræmi við skipulagið, að slíkar umbætur í rekstri komi aðeins fram í lækkuðu afurðaverði. Sama máli gegnir um kaupmenn og iðnrekendur. Ef þeir bæta rekstur sinn, verður sagt við þá af hálfu stjórnarvaldanna: Úr því að framleiðslukostnaður ykkar hefur lækkað, þurfið þið ekki sömu álagningu eða sama vöruverð og áður. Það er hér sem hundurinn liggur grafinn að mínu áliti. Efnahagskerfið í heild hefur verið þannig, að í stað þess að örva framfarir hefur það verið framförum fjötur um fót. Þriðja atriðið, sem hér má nefna, eru svo skattamálin. Jafnvel þó að atvinnurekendum hafi tekizt með sparnaðarráðstöfunum að auka tekjur sinar, hefur það fram að þessu verið svo, að meginhlutinn af því hefur verið innheimtur í skatta.

Meðan ekki hefur tekizt að ráða bót á þessum atriðum, þá er víst, að sama sagan mun endurtaka sig eins og verið hefur s.l. 15 ár, að allar tilraunir launþeganna til þess að bæta hag sinn verði árangurslausar og það óháð því, hverjir með völdin fara. Þetta er auðvitað óæskilegt, og ber brýna nauðsyn til þess, að úr því verði bætt. En eina leiðin í því efni, þar sem grundvöllur raunverulegra kjarabóta hlýtur fyrst og fremst að vera aukin framleiðsla, er sú að koma á þeim lagfæringum á hagkerfinu, að atvinnurekendur verði hvattir til þess að auka framleiðni og framleiðsluafköst, en ekki beinlínis hindraðir í því.