14.12.1960
Efri deild: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

130. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, að ég sé, að það, sem ég sagði áðan, hefur farið algerlega í rangan háls á hv. 4. þm. Vestf. Ég minntist á það í ræðu minni, sem er staðreynd, að launakjör opinberra starfsmanna hér á landi, samanborið við það, sem er í nágrannalöndunum, eru lakari, og sérstaklega á það við um þá embættismenn, sem eru hærra launaðir. Hitt sagði ég ekki, og það er aðalatriði þessa máls, að leiðin til þess að fá þetta leiðrétt mundi vera sú að hækka kaupið nú, þannig að það umreiknað eftir gengi yrði það sama og á Norðurlöndunum. Til þess að slíkt gæti orðið til leiðréttingar, þyrftu raunverulegar þjóðartekjur að aukast nægilega mikið, til þess að slík kauphækkun gæti átt sér stað, án þess að það leiddi til almennra verðhækkana. Afleiðingin af því, að við ætluðum að hækka allt kaupgjaldið t.d. um 30% eða hvað það væri, meðan ekki hefur skapazt slíkur grundvöllur fyrir því, yrði blátt áfram sú, að allt verðiag hækkaði um 30%, svo að við stæðum í sömu sporum eftir sem áður. Það er einmitt þetta, sem hefur skeð undanfarin ár. Það hafa orðið jafnmiklar kauphækkanir hér og á hinum Norðurlöndunum og jafnvel meiri, en það hefur bara farið þannig, eins og ég áður hef gert grein fyrir, að í kjölfar kauphækkana hafa, af því að fyrir þeim hefur ekki verið raunhæfur grundvöllur, siglt samsvarandi verðhækkanir. Þetta er ástæðan til þess, að þrátt fyrir öll þau verkföll, sem háð hafa verið, og allar þær grunnkaupshækkanir, sem hafa orðið hér siðan 1945, standa launþegarnir sem heild nákvæmlega í sömu sporum og þá, kjör þeirra eru jafnvel orðin lakari. Meginástæðan til þess er aftur sú, að efnahagskerfið hefur verið svo úr skorðum fært, að það hefur ekki átt sér stað sú framleiðsluaukning, sem orðið hefði að eiga sér stað, ef fært væri að bæta kjörin með þessu móti. Í því sambandi leyfi ég mér aftur að minna á það, sem ég sagði hér við 2. umr. málsins, að það var háð hér langt verkfall árið 1955, og það tókst að hækka kaupið um 10%. En hvernig var komið nokkrum mánuðum seinna, m.a. fyrir tilstilli hv. 4. þm. Vestf. og annarra, sem studdu vinstri stjórnina? Þetta hafði allt verið tekið aftur í hækkuðum sköttum, vísitöluskerðingu o.s.frv. Nú er það fjarri mér að halda því fram, að illvilji þessara manna hafi ráðið því. En þeir töldu ekki annað fært, ef ekki ætti að koma til annars, sem fyrir launþega hefði verið verra, nefnilega stöðvunar atvinnuveganna.

Það má með engu móti blanda því tvennu saman, hækkun kaupgjalds og bættum kjörum. Það eru bætt kjör, sem launþegarnir í þessu landi fyrst og fremst hafa þörf fyrir, ekki kauphækkanir, nema því aðeins, að skilyrði séu fyrir því, að þær geti leitt til bættra kjara