18.01.1961
Sameinað þing: 32. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í D-deild Alþingistíðinda. (2824)

86. mál, jarðhitaleit og jarðhitaframkvæmdir

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem öðrum þm. Framsfl. að flytja svofellda till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa löggjöf fyrir næsta Alþingi um fjárhagslegan stuðning við sveitarfélög til jarðhitaleitar og jarðhitaframkvæmda.“

Eins og hv. alþm. vita, er jarðhitinn ein af dýrmætustu auðlindum þessa lands og til margvíslegra nota. Enn þá nöfum við aðeins að mjög litlu leyti getað fært okkur hann í þau nyt, sem hægt er að hafa af honum, og hlýtur það að verða verkefni næstu ára að vinna að því að auka þau not til mikilla muna. Eitt af því, sem jarðhitinn er notaður til, er fjarhitun húsa. Nú þegar munu a.m.k. í fjórum bæjar- og sveitarfélögum vera hitaveltur, sem eru til mikils hagræðis fyrir íbúa þessara staða og gera það að verkum, að verulegur gjaldeyrissparnaður er að þeim fyrir þjóðarbúið. Sá galli er á, að miklu færri bæjarfélög og sveitarfélög en vildu nota fjarhitun geta það vegna fjárskorts. Það er vitað, að við túnjaðar nokkurra bæjarfélaga, t.d. í Kópavogi og víðar, er vitað um heitt vatn, sem að sjálfsögðu væri mjög hagkvæmt fyrir svo stórt bæjarfélag að geta notað til upphitunar í húsum, en af fjárhagsástæðum hefur ekki verið talið fært að leggja í kostnað við jarðhitaleit, svo að nokkru nemi, hvað þá að hægt hafi verið fyrir þetta bæjarfélag að leggja út í nokkrar framkvæmdir. sem byggjast á jarðhita.

Eins og hv. alþm. vita, eru til stofnlánasjóðir fyrir vissar framkvæmdir í landinu, eins og t.d. í sambandi við sjávarútveg og landbúnað. En þeir aðilar, sem kynnu að vilja leggja út í jarðhitaframkvæmdir, t.d. ráðast í fjarhitun, hafa ekki, að því er mér er kunnugt um, nokkra möguleika til að fá lán úr slíkum stofnlánasjóðum. Við flm. þessarar þáltill. höfum því leyft okkur að leggja til, að ríkisstj. verði falið að undirbúa löggjöf fyrir næsta Alþingi, sem miðaði að því að gera þeim sveitarfélögum, er ráðast vilja í jarðhitaframkvæmdir, mögulegt að fá til slíkra framkvæmda lán til langs tíma með sæmilegum kjörum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um mál þetta. Það liggur nokkurn veginn á borðinu að Íslendingar hljóta á allra næstu árum að leggja út á nýjar brautir í framkvæmdum hér innanlands, og þá eru jarðhitaframkvæmdir áreiðanlega mjög framarlega í þeirri framkvæmdaröð.

Ég legg svo til, að umr. um mál þetta verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.