09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í D-deild Alþingistíðinda. (2827)

87. mál, styrkir til landbúnaðarins

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 96 till. um rannsókn á styrkjum til landbúnaðarins, sem er á þá leið, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd sérfróðra manna til þess að rannsaka. hvort og að hve miklu leyti bændastéttin og landbúnaðurinn njóti beint eða óbeint styrkja, framlags og fríðinda af hálfu hins opinbera umfram aðrar stéttir og aðra atvinnuvegi þjóðarinnar. Skal nefndin semja skýrslu um athuganir sinar og niðurstöður, og skal sú skýrsla birt almenningi. Nefndin skal ljúka störfum, áður en næsta reglulegt Alþ. kemur saman.

Maður heyrir oft þeim skoðunum haldið á lofti, einkum meðal fólks í þéttbýlinu, að ríkisvaldið geri miklu betur við bændur en aðra landsmenn. Ég minnist þess t.d., að fyrir allmörgum árum hélt kunnur verkalýðsforingi úr Sósfl. því fram opinberlega, að á fjárlögum væru yfir 70 liðir, sem væru beinir og óbeinir styrkir til landbúnaðarins og bænda, en aðeins 3 liðir til iðnaðarins á sama tíma. Bændur og fulltrúar þeirra hafa hins vegar ekki viljað við það kannast, að hlaðið væri undir bændur af ríkisvaldinu, heldur fremur hið gagnstæða. Úr þessum ágreiningi tel ég nauðsynlegt að fá skorið með hlutlausri rannsókn sérfróðra manna. En við þá athugun mætti og gjarnan koma fram, á hvaða sviðum bændur kynnu að njóta minni styrkja og fríðinda en aðrir.

Ýmsir bændasinnar hafa komið að máli við mig og haldið því fram, að með þessari þáltill. væri ég að ráðast á bændastéttina. Hér er um mjög mikinn misskilning að ræða. Þegar rannsókninni yrði lokið, gætu niðurstöður hennar á hinn bóginn ýmist verið notaðar til að ráðast á bændur eða til að hrinda árásum á bændur, allt eftir því, hverjar niðurstöðurnar verða. En um það treysti ég mér að sjálfsögðu ekki til a:ð fullyrða neitt fyrir fram. Ef niðurstaðan yrði sú af rannsókninni, að bændur og atvinnuvegur þeirra nyti meiri fríðinda og framlaga en aðrir atvinnuvegir, þá þarf það alls ekki þar með að þýða, að ofgert sé við landbúnaðinn, miðað við allar aðstæður. Ég býst við því, að hjá mörgum þjóðum njóti landbúnaðurinn meiri styrkja en aðrir atvinnuvegir yfirleitt, og það líka í löndum, þar sem betri skilyrði eru til landbúnaðar en hér hjá okkur. Miðað við þessa niðurstöðu af rannsókninni mætti hins vegar sjá, hvort beinir og óbeinir styrkir til landbúnaðarins keyrðu úr hófi fram, hvort þeir væru í heppilegu formi og bæru tilætlaðan árangur og hvort ekki væri bót að því að skipa þessum styrkjamálum á annan veg, án þess að heildarframlögum væri breytt. Kæmi það hins vegar í ljós af þessari rannsókn, að vangert væri við bændur, þyrfti að sjálfsögðu að finna leiðir til þess að bæta úr því misrétti.

Rétt áður en ég kom hér upp, sá ég á borðinu hjá mér brtt. frá tveimur hv. þm. Framsfl., sem liggur hér fyrir á þskj. 104. Ég er satt að segja nokkuð undrandi á að sjá þetta, vegna þess að þessi till. fjallar raunar um allt annað en mín till. og ætti suðvitað ekki að vera brtt., heldur ætti auðvitað að vera sjálfstæð till. Ég hef ekki haft þann tíma til þess að kynna mér þessa till. og hugleiða hana, að ég geti sagt fyrir um það, hvort ég mundi styðja hana, ef hún væri sjálfstæð till. Þó finnst mér hún þurfa breytinga við. Í till. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa nefnd 5 manna, sérfróðra um landbúnað, til þess að rannsaka, hve miklu fjármagni þurfi að verja af hálfu hins opinbera á næstu tíu árum til landbúnaðarins með óafturkræfum framlögum og lánveltingum, til þess að landbúnaðarinn geti fullnægt neyzluþörf þjóðarinnar á landbúnaðarvörum.“ Aftan við þetta fyndizt mér nauðsynlegt að bæta: geti fullnægt neyzluþörf þjóðarinnar á landbúnaðarvörum án þess að þurfa sérstaka meðgjöf með þeim hluta landbúnaðarvara, sem fluttur er út.

En eins og allir hljóta að sjá, þá er það auðvitað sitt hvað að framkvæma. rannsókn á styrkjum til landbúnaðarins eða að rannsaka fjármagnsþörf landbúnaðarins. Það er auðvitað sitt hvað, og ætti þess vegna þessi nýja till. að vera sjálfstæð.

Samþykkt þessarar till., sem ég hef borið hér fram, og sú rannsókn, sem af henni leiddi, mundi tvímælalaust geta orðið undirstaða að öruggri þekkingu almennings á landbúnaðarmálum og þar með stuðlað að heilbrigðari skoðanamyndun á þess um þætti þjóðmála, en á því er full þörf. Þessi rannsókn gæti líka orðið upphafið að frekari athugunum á gildi landbúnaðarins og annarra atvinnuvega þjóðarinnar.

Ég legg svo til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. fjvn.