09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

87. mál, styrkir til landbúnaðarins

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns um meðgjöf með landbúnaðarvörum, sem fluttar eru úr landi, vildi ég leyfa mér að taka. þetta fram: Ég hugsa, að flestir gætu verið sammála um, að það væri æskilegt, að landbúnaðurinn væri samkeppnisfær í útflutningnum, þannig að hann gæti fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir fengið sama verð og á innlendum markaði. En það er út af fyrir sig rétt, að þar sem flestir telja æskilegt, að landbúnaður framleiði nægjanlegt til innanlandsneyzlu, þá geti stundum átt sér stað einhver umframframleiðsla, sem nauðsynleg sé að flytja út. Það er vissulega rétt athugað. En með þessu er bara ekki allur sannleikurinn sagður, vegna þess að í l. um framleiðsluráð landbúnaðarins og verðskráningu, sem voru einmitt til meðferðar hér á þingi í fyrra, er þessi meðgjöf gerð miklu meiri en nokkur þörf er á. Lögin voru útbúin þannig, að nú eiga bændur kröfu á allt að því 80 millj. kr. meðgjöf, og þá væri það miklu meiri útflutningur á landbúnaðarvörum en eðlileg umframframleiðsla, og ég held satt að segja, að neytendafulltrúarnir, sem gerðu þetta samkomulag, hafi raunverulega látið hlunnfara sig á þessu og ekki athugað, hvað orða lagið var lúmskt. Ég var að berjast á móti þessu í Ed. í fyrra, en fékk því ekki framgengt. Ég get skotið því inn í í sambandi við þá sömu afgreiðslu, að þá segir í breyt., sem gerðar voru í fyrra, að ef kaup verkamanna í Reykjavík hækki, þá eigi kaup bænda að hækka að sama skapi. Þetta fannst öllum sanngjarnt og eðlilegt. Nú veit maður náttúrlega aldrei, maður sér ekki fram í tímann, það getur orðið þannig, að kaup verkamanna verði aftur vísitölubundið, það getur verið að kaup verkamanna lækki. Ég vildi setja það inn í lögin, að í staðinn fyrir að segja, að ef kaup verkamanna hækkaði, þá skyldi kaup bænda hækka líka, þá væri sagt: ef kaup verkamanna breytist, þá skal kaup bænda hreytast að sama skapi. Þetta máttu bændafulltrúarnir ekki heyra nefnt og felldu þessa till. Þetta kalla ég ósanngirni.

Þá vil ég snúa mér að ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. (GH). Ég vil taka það fram, að ég hef ekkert á móti því, síður en svo, að ýmsir hlutir í sambandi við landbúnaðinn og aðra atvinnuvegi þjóðarinnar verði rannsakaðir. Það má rannsaka þar allt milli himins og jarðar, ef mönnum sýnist svo. Það, sem ég ætlast til, er, að þessir menn styðji líka rannsókn á því efni, sem ég vil láta rannsaka, en það virðist eins og rannsóknaráhuginn blossi allt í einu upp, þegar ég kem með mína till., og það er bara til þess að bægja frá því, sem ég vil láta rannsaka. Þeir vilja láta rannsaka allt annað, en ekki mitt. Ég segi: ég vil láta rannsaka mitt, ég skal líka styðja það að láta rannsaka það, sem þeim liggur á hjarta. Ég hef ekkert á móti því. Hins vegar virðist mér grunntónninn í ræðu þessa hv. þm. vera sá, að hann gengur út frá því sem vísu, að framlög og styrkir til landbúnaðarins séu miklu hærri en til annarra atvinnuvega, því að öll hans ræða gekk út á að afsaka það og sýna hver nauðsyn væri á þessum styrkjum. Hann þekkir náttúrlega meira til landbúnaðarmála en ég, og það má vel vera, að hann hafi rétt fyrir sér í þessu efni þó að ég vilji láta hlutlausa rannsókn skera úr um þetta.

Hann sagði, að ég vildi ekki láta rannsaka, hvort þessi framlög væru nauðsynleg. Það vil ég einmitt gjarnan. Það þarf fyrst að rannsaka, hver framlögin séu, og síðan má rannsaka auðvitað, hvort þau séu nauðsynleg, enda gat ég skýrt um þetta í minni frumræðu, að ég hefði síður en svo nokkuð á móti því, að af þessari rannsókn, sem ég óska eftir, spretti svo ýmiss konar aðrar rannsóknir.

Það er ekkert nema eðlilegt. En að því leyti kom mér þetta á óvart, að ræða þessa hv. þm. virtist ganga út frá því sem gefnu, að framlögin til landbúnaðarins væru hærri en til annarra. Þegar maður er að tala við bændur og bændafulltrúa almennt þræta þeir alveg fyrir þetta eða segja, að þetta sé rangt. Nú þegar á hólminn er komið og á að fara að leggja drög að hlutlausri rannsókn. þá er komið annað hljóð í strokkinn.

Þá sagði þessi hv. þm., að það þyrfti nú ekki langt að leita það væri hægt að sanna, hvernig innræti mitt væri í þessum málum, að ég hefði einn greitt atkv. gegn því í fyrra, að framlag til Búnaðarfélags Íslands væri hækkað um 260 þús. kr. Það er alveg rétt, ég greiddi einn allra þm. atkvæði gegn þessu framlagi, og ég get ekki fundið út, að það hvísli einhver skylda á mér að styðja þetta, þó að fjvn. hafi verið sammála um það. Má ég ekki hafa minar skoðanir á því, á hvern hátt er bezt að verja fé þjóðarinnar? Ég vildi bara spyrja þennan hv. þm.: Telur hann, að hver sá þm. sé illa innrættur, sem greiðir atkv. gegn nýjum styrkjum til bænda og landbúnaðar? Ég get svo auðvitað bætt því við, að ég var eini þm. hér t.d., sem greiddi atkv. gegn fleiri hækkunartill. en til landbúnaðarins, þó að hv. þm. léti þess auðvitað ekki getið. (Gripið fram í.) Jú, það snertir það víst, þegar verið er að taka einstök dæmi úr samhengi, það gerir það sannarlega.

Hv. þm. gaf ýmsar fróðlegar upplýsingar um landbúnaðinn. Hans ræða gekk eiginlega öll út á það að réttlæta þessi framlög og afsaka þau, og það má vel vera, að í því, sem hann sagði, hafi hann haft mikið til síns máls. Og ég vænti þess, að þegar þessi rannsóknarnefnd og aðrar slíkar, sem rannsaka landbúnað og aðra atvinnuvegi þjóðarinnar, komast á laggirnar, þá m.a. kynni þær sér þessa ræðu hv. þm. og sú skýrsla, sem hann gaf þar um ýmislegt varðandi landbúnaðinn, megi verða til þess að létta þessum nefndum störfin.