09.11.1960
Sameinað þing: 12. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í D-deild Alþingistíðinda. (2831)

87. mál, styrkir til landbúnaðarins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að eyða löngum tíma í að ræða þetta mál hér, en vil benda á, að þessi till. slær því í raun og veru föstu, að landbúnaðurinn njóti beinna og óbeinna styrkja umfram aðrar atvinnugreinar í þessu landi, þ.e. bændurnir umíram aðrar stéttir. Og ef hún yrði samþykkt, þá yrði að rannsaka stuðning ríkisvaldsins, óbeinan og beinan, við allar atvinnustéttir þessa lands, því að annars væri ekki hægt að fá þann samanburð, sem þessi till. gerir ráð fyrir. Það nægði ekki í því sambandi að fara að rannsaka tillag samkv. fjári., heldur yrði þá að rannsaka bankastarfsemina í landinu, þá óbeinu aðstoð þeirra við atvinnuvegina og annað eftir því, því að með engu öðru móti en rannsókn á öllum atvinnuvegum landsins, beinum og óbeinum stuðningi til þeirra, væri hægt að fá þann samanburð, sem hv. 9. landsk. gerir ráð fyrir að fá hér. Og ég verð að segja það, að þeir menn, sem fá þetta verkefni til meðferðar, mega halda vel á, ef þeir verða búnir að ljúka þessari rannsókn fyrir næsta þing. Það verður þá vel í þeirri nefnd unnið og þarf ekki undan að kvarta.

Annars er um till. þessa það að segja, að það, sem fyrst og fremst er grunntónninn í henni, er metingur stétta á milli. Það er metingur stétta á milli, það er að etja stétt gegn stétt. Það er ekki þetta, sem þjóðfélagið þarf með. Það þarf þess ekki með að etja stétt gegn stétt, heldur að stétt vinni með stétt. Ég hef alltaf getað skilið. að það væri eðlilegt, að fólk til sjávar og sveita ynni saman og hagsmunir þess færu saman, en ekki gagnstætt því, eins og hér er ætlazt til.

Það er líka atriði í þessu máli, þegar verið er að tala um styrki til landbúnaðarins, hvað eru styrkir til landbúnaðarins. Ég heyrði t.d. sagt frá því í ræðu, sem hæstv. menntmrh. flutti í hv. Ed., að þar hefði hann tekið saman tillögur, sem við framsóknarmenn værum búnir að flytja á þessu þingi um stuðning við landbúnaðinn og fjárveitingar, sem við ætluðumst til að gengju til landbúnaðarins. Eitt af þeim málum, sem hann nefndi þar til, var frv.. sem ég og nokkrir aðrir þm. flytja hér í hv. d. um framlag vegna samgöngubóta í landinu. Það voru líka orðnir styrkir til landbúnaðarins. Ef þannig væri staðið að þessari rannsókn, að samgöngubætur í þessu landi væru taldar styrkir til landbúnaðarins, út í hvað mundi slíkt leiða? Þess vegna, ef á að gera þá rannsókn, sem hér er ætlazt til af hv. flm., verður að vita, hvað er raunverulega átt við. þegar verið er að tala um stuðning við bændur eða styrk til bænda og landbúnaðarins í heild. Og það verður líka að segja það, að það er afar skrýtinn skilningur að ætla bændastéttinni einni það hlutverk að rækta þetta land. Það er ekkert sérmál bændastéttarinnar, hvort Ísland verður ræktað land eða ekki. Það er mál allrar íslenzku þjóðarinnar.

Í sambandi við þetta styrkjatal og annað, sem hér hefur komið fram, bæði beint og óbeint, og oft hefur borið á góma áður, skulum við líka gera okkur grein fyrir því, hver er árangurinn af þeim stuðningi við landbúnaðinn, er verið hefur síðustu áratugi. Ef við hefðum hafið algera kyrrstöðu í landbúnaði árið 1950, þá hefði nú á þessu ári orðið að eiga sér stað stórkostlegur innflutningur á landbúnaðarvörum, og hefði það orðið að vera allverulegt magn t.d. af dilkakjöti, og ef við berum saman verðlag á innfluttu dilkakjöti og á því, sem við framleiðum hér á landi, þá kemur í ljós, þó að við sleppum verndartolli á kjöti, að þá mundi innflutta kjötið kosta fast að því 30 kr. kg, þegar innlenda kjötið kostar 25 kr. hvert kg. Hér er um að ræða fjárhæð, sem mundi nema 104 millj. kr., ef inniflutningur hefði átt sér stað, á þessum mismun. Þess vegna verða menn að gæta að því, að það er ekki verið að styrkja bændur eingöngu, þó að verðlagi sé haldið eðlilega uppi í landinu. Það eru ekki síður þeir, það eru einmitt þeir, sem neyta vörunnar í þessu tilfelli, sem fá hér verðmismuninn. Þetta megum við líka hafa í huga, og ætti hv. þingmaður að glöggva sig á því, að þetta er ekki lítið atriði, sem hér er um að sæða.

Sama er að segja um mjólkurvörur. Við yrðum, að því leyti sem hægt er, að flytja þær inn stórkostlega og eyða í það miklum gjaldeyri, ef hefði orðið alger kyrrstaða í landbúnaði síðustu 10 árin. En sem betur fer hefur það ekki orðið. En það verður að vera áframhaldandi þróun í landbúnaði, ef við eigum að hafa við neyzluþörfinni.

Þetta tal um styrki og annað því um líkt hefur oft borið á góma í margs konar skilningi. Það er hægt að benda á það, að á fjárl. eru 300 millj. til niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum. Það fer ekki til þeirra, sem framleiða vöruna, heldur til okkar hinna, sem neytum hennar. Við yrðum að öðrum kosti að borga þessar vörur hærra verði. Þetta er því styrkur til okkar neytendanna, en ekki til framleiðenda.

Ég hygg, að ef sú rannsókn ætti að eiga sér stað, sem hv. þm. gerir ráð fyrir, þá yrði hún að vera allvíðtæk, ef sá samanburður ætti að vera réttur. En því miður er ég hræddur um, að tilgangur till. sé ekki að eyða misskilningi eða jafna á milli stétta, heldur hið gagnstæða, og fyrir því liggja nokkur rök, að þessari hugsun skýtur upp í huga mínum og annarra.