16.01.1961
Sameinað þing: 30. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í D-deild Alþingistíðinda. (2852)

92. mál, niðurlagningar- og niðursuðuiðnaður síldar

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Sú staðreynd er alkunn, að við Íslendingar höfum algera sérstöðu meðal fiskveiðiþjóða að því leyti, að aflamagn okkar á hvern íbúa landsins er mörgum sinnum meira en nokkurrar annarrar þjóðar, eða nálægt 4000 kg árlega á hvern íbúa, meðan sú þjóð, sem næst kemst að þessu leyti, nær aðeins um 600 kg á hvern íbúa eða a.m.k. sex sinnum minna en við, en sú þjóð er Norðmenn, en sú þriðja í röðinni hefur aðeins fiskframleiðslu eða aflamagn upp á 100 kg á ári á hvern íbúa. En sérstaða okkar verður þó enn meiri, eins og alkunnugt er, ef einnig er haft í huga það aflamagn, sem kemur á hvern sjómann okkar. Á hinn bóginn liggur fyrir, að við sköpum okkur ekki nándar nærri slík verðmæti úr afla okkar eins og magn kannske gefur ástæðu til. Ýmsar fiskveiðiþjóðir ná þannig stórfellt hærra verði á hverja einingu afla heldur en við. Við öflum þannig meira en allir aðrir, en berum hlutfallslega minna úr býtum en flestar aðrar þjóðir. Þetta er ein af alvarlegustu staðreyndunum um þann atvinnuveg, sem þjóðin öðru fremur byggir á lífsafkomu sína, og staðreynd, sem höfuðnauðsyn er á að könnuð sé til hlítar, hverju sætir og hverjar leiðir eru þar helstar til úrbóta.

Það leikur ekki vafi á því, að þróunin í þeirri tækni, sem lýtur að úrvinnslu aflans, hefur í ýmsum greinum dregizt aftur úr þróun veiðitækninnar. Veiðitækni okkar stendur tækni annarra fiskveiðiþjóða á sporði, þegar á heildina er litið, og skilyrðin frá náttúrunnar hendi eru góð. En að hinu höfum við minni gaum gefið, að nýta hráefnið, sem sjómenn okkar draga að landi, til þeirrar verðmætissköpunar, sem efni standa til og er í samræmi við vaxandi kröfur heimsmarkaðsins um góðar og vandaðar matvörur. Í dag er ástandið t.d. þannig, að 6/7 hlutar af síldinni, hinum verðmætasta afla, sem við fáum, eru látnir í bræðslu til mjöl- og lýsisframleiðslu á markaðinn, þar sem offramleiðsla ræður verðlaginu, en hins vegar ekki staðið við á sama tíma nema þriðjunginn af þeim fyrirframsamningum, sem gerðir hafa verið um sölu á saltsíld. Og enn síður er leitazt við að auka verðmæti þess takmankaða síldarafla, sem er saltaður, með niðursuðu og niðurlagningu, eins og tíðkast meðal annarra fiskveiðiþjóða. Á sama tíma stendur svo mikill hluti af fiskverkunarstöðvum okkar lítið notaður, en aflinn er fluttur í vaxandi mæli á erlendan markað á frumstæðan mátt, sem lélegt hráefni oft og tíðum. Og það er ekki heldur óþekkt, að verðmætum úr fiski, eins og t.d. þunnildum, beinum og hrognum og fleiru sé bókstaflega fleygt í sjóinn aftur, en í betra fallinu látið í fiskmjölsverksmiðjur til mjölframleiðslu, en úr verulegum hluta þessa hráefnis má vinna verðmæt matvæli, t.d. hrognin og þunnildin til niðursuðu.

þáltill., sem hér liggur fyrir og ég flyt á þskj. 102 ásamt þeim 11. landsk. þm. og hv. 4. þm. Austf., lýtur að einum þætti þess vandamáls, sem ég hef hér drepið á. Við flm. till. teljum, að með samþykkt hennar væri nokkurt spor stigið í þá átt, að nýtt yrði betur en áður sú dýrmæta matvara, sem síldin er og þá ekki sízt Norðurlandssíldin, og þá um leið auknar gjaldeyristekjur og annar afrakstur síldveiðanna, jafnframt því sem vinnuafi. sem nú misferst að verulegu leyti í sjávarþorpunum vegna árstíðabundins atvinnuleysis, komi að fullum notum, bæði einstaklingunum og þjóðinni í heild til hagsbóta.

Það hefur lengi verið ljóst, að með aukinni velmegun þjóða gerist tvennt í senn um fiskneyzlu. Í fyrsta lagi, að hún vex jafnt og þétt og mun nú vera orðin um 17 kg á hvert mannsbarn í heiminum að meðaltali, og hitt líka, að kröfur til vörugæða vaxa, þannig að neytendur vilja því í stöðugt ríkari mæli fá þessa vöru í handhægu formi til neyzlu, í umbúðum, svo að tryggð séu fyrsta flokks gæði og varan sé handnæg til neyzlu og fullnægi batnandi smekk neytenda um ytra útlit. Það kemur líka til að taka þarf tillit til erfiðra geymsluskilyrða og finna leiðir til þess að búa vöruna svo úr garði, að hún haldi gæðum sínum við ýmis skilyrði.

Niðursuða og niðurlagning fiskafurða í loftþéttar umbúðir hefur nú um áratuga skeið orðið í æ ríkari mæli lausnarorðið til þess að ráða fram úr þessum viðfangsefnum. Flestar, ef ekki allar fiskveiðiþjóðir hafa jafnt og þétt aukið niðursuðuiðnað sinn síðustu árin og áratugina, og nokkuð víða er nú svo komið, að þessi framleiðslugrein er orðin stærri öllum öðrum greinum innan fiskframleiðslunnar. Árið 1957 voru þannig niðursoðnar fiskafurðir orðnar stærsta útflutningsgrein fiskafurða hjá Norðmönnum, en þeir eru, eins og kunnugt er, mesta fiskútflutningsland veraldar. Það ár fluttu Norðmenn út niðursoðnar fiskafurðir fyrir hátt í einn milljarð ísl. króna, og á s.1. ári er það aðeins skreiðarframleiðslan ein, sem hefur orðið verðmætari en niðursuðuvörurnar. En sums staðar annars staðar hefur þó þróunin jafnvel orðið enn þá stórstígari í þessum efnum. Og ef litið er til heimsframleiðslunnar, þá sést líka, hvert stefnir í þessu efni. Þannig var öll framleiðsla í heiminum á niðursoðnu fiskmeti 434 þús. tonn árið 1957, en á árinu 1959 var hún orðin 509 þús. tonn og hafði því aukizt um nærri því 20% á tveimur árum. Meðan slík þróun fer fram meðal fiskframleiðenda um víða veröld, höldum við Íslendingar áfram að henda dýrmætasta hráefni okkar, síldinni, í gúanó að mestum hluta og söltum aðeins 1/7 hlutann. En sá hlutinn, sem þó er unninn á þennan hátt, er fluttur út sem hráefni í niðursuðuiðnað annarra þjóða að nokkru leyti, t.d. Svía, sem síðan endurselja síldina vandlátum neytendum á margföldu verði.

Ef við ættum að standa jafnfætis t.d. Norðmönnum í niðursuðu- og niðurlagningariðnaði, þá lætur nærri, að útflutningur okkar ætti að vera um 10–12 þús. tonn á ári af niðursoðnum fiskafurðuan. Miðað við verðmæti ætti þessi útflutningur að gefa okkur í aðra hönd um eða yfir 300 millj. kr. á ári, ef sambærilegt ætti að vera við Norðmenn. En þetta hefur verið þannig í reyndinni, að árið 1959 voru aðeins flutt út 300 tonn eða aðeins örlítill hluti af þessu, að verðmæti 9–10 millj. kr. á þáverandi gengi. Og það skyldi þá enginn ætla, að Norðmenn teldu sig búna að ná nokkru lokatakmarki við úrvinnslu sjávarafurða. Þvert á móti er sú skoðun ofarlega á baugi meðal útvegsmanna og stjórnarvalda þar í landi, að nú og í framtíðinni verði fyrst og síðast að keppa að því að fullvinna í stöðugt ríkari mæli síldarog fiskafurðir. T.d. lét sjávarútvegsmálaráðherra Norðmanna nýlega ummælt á þessa leið í blaðaviðtali:

„Hráefnaskorti getum við mætt með betri nýtingu aflans. Við verðum að keppa að sem allra beztri úrvinnslu fiskafurðanna og þar með verðmætisaukningu. Allt of mikið magn af síld og fiski er nú flutt út úr landinu lítið unnið, í stað þess að vinna það til neyzlu meðal þjóða, sem búa við góð lífskjör.”

Ef nú þessi ummæli eru réttmæt frá sjónarmiði Norðmanna, sem þarf ekki að draga í efa, hversu brýn hvatning eru þau þá ekki fyrir okkur Íslendinga, sem naumast þekkjum nokkra fullkomna úrvinnslu sjávarafla, þegar framleiðslu hraðfrysts fisks sleppir? En óneitanlega er þar um að ræða nokkuð fullkomna framleiðslu, og er hún þó ekki þróaðri en svo, að nauðsynlegt hefur þótt að stofna stórfyrirtæki beggja vegna Atlantshafsins til þess að vinna þá vöru enn þá betur í hendur húsmæðranna, sem vöruna kaupa.

Ég held, að það hafi lengi verið ljóst öllum, sem um framtíð fiskiðnaðar okkar hafa hugsað, að hér þyrfti mikið og áríðandi verk að vinna og ekki yrði, svo að vel færi, lengi hjá því komizt. að við fylgdumst með þróuninni í fiskiðnaðinum og gerðumst hlutgengir á heimsmarkaðinum með framboði verulegs magns af niðursoðnum fiskafurðum. Ég tel, að ekki verði heldur sagt, að hv. Alþ. hafi verið með öllu áhugalaust í þessum efnum. Árið 1946 voru t.d. samþ. hér á hv. Alþ. lög um síldarniðursuðu ríkisins, og mun þá einkum hafa verið haft í huga að sjóða niður í stórum stíl sumarveidda Norðurlandssíld á Siglufirði. Það má e.t.v. deila um, hvort slík framkvæmd hefði verið heppilegasta byrjunin á síldariðnaði á þessu sviði, og skal þó ekkert um það fullyrt. En hitt er aftur á móti staðreynd, að ekkert varð úr framkvæmdum þrátt fyrir þessa lagasetningu og að þessi lög hafa verið pappírsgagnið eitt í hálfan annan áratug. En allt frá því að þessi lög voru sett hér á hv. Alþ., hafa öðru hverju verið samþykktar hér þáltill. um niðursuðuiðnað, en hafa ekki verið í því formi, að þær hafi megnað að hreyfa við málinu, svo að verulegt gagn hafi orðið að, með einni undantekningu þó. Mér er ekki kunnugt um, að tillögur, sem hér hafa komið fram og jafnvel verið samþykktar, hafi með þeirri einu undantekningu reynzt nein undirstaða framkvæmda. En undantekningin í þessu efni er tillaga sú, sem samþykkt var hér á hv. Alþ. árið 1958, um nýtingu smásíldar í Eyjafirði. Það mál var samkv. vilja Alþingis tekið föstum tökum og er nú að verulegu leyti komið í höfn með ágætum árangri.

Með hliðsjón af því, sem reynslan hefur kennt okkur um haldleysi frómra óska Alþingis í þessum efnum til framkvæmdavaldsins, er þessi till., sem nú er flutt, gerð úr garði með nokkuð öðrum hætti en fyrri tillögur, sem í líka átt hafa gengið. Það er gert ráð fyrir ferns konar aðgerðum til þess að gera áhugasömum einstaklingum og fyrirtækjum þeirra eða bæjarfélaga mögulegt að hefjast handa af eigin rammleik. Það er lagt til í fyrsta lagi, að ríkið velti ábyrgð fyrir 90% stofnkostnaðar niðurlagningar- og niðursuðuverksmiðja, sem komið verður upp á árunum 1961 og 1962. Í öðru lagi, að tryggt verði með lántökum eða með því að heimila töku erlendra lána, sem fáanleg væru til framkvæmda, allt að 50 millj. kr. lánsfé hvort áranna 1961 ag 1962. Í þriðja lagi að hlutazt verði til um, að viðskiptabankar velti afurðalán vegna framleiðslu framangreindra verksmiðja með sama hætti og tíðkast um aðrar útfluttar sjávarafurðir. Og í fjórða lagi, að ráðnir verði 2–3 sérfræðingar í niðursuðuiðnaði í þjónustu ríkisins og velti þeir án endurgjalds ráðleggingar og hvers konar tæknilega aðstoð við byggingu verksmiðja og framleiðslustörf þeirra. Hér er sem sagt hvorki lagt til, að til komi neinn beinn stórvægilegur fjárstyrkur til fyrirtækja, sem komið yrði á fót, né heldur að ríkið sjálft leggi í milljónaframkvæmdir, en heldur ekki látið sitja við óskirnar einar. Við flm. þessarar till. álítum, að nú þegar sé fyrir hendi sá áhugi á framkvæmdum í þessum efnum og sú trú á gagnsemi þeirra og arðsvon, að fullvíst sé, að með þeirri fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins, sem till. okkar gerir ráð fyrir, muni blað verða brotið í fiskiðnaði okkar og niðursuðu- og niðurlagningariðnaður muni hefjast fyrir alvöru hér á landi og síðan geta þróazt með eðlilegum hætti og verða mikilvægur liður í atvinnulífinu og í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Í þessu sambandi verður ekki heldur gengið fram hjá því mikilvæga atriði, að hér er um að ræða það úrræði í atvinnumálum margra sjávarþorpa, sem að verulegu leyti byggja á síldveiðum, sem næst er hendi og gæti áreiðanlega með minnstum tilkostnaði gerbreytt viðnorfum í þeim efnum. Það væri unnt mjög víða með tiltölulega litlum kostnaði og jafnvel án sérstakrar mannvirkjagerðar að hefja niðurlagningu saltsíldar og jafna þannig nýtingu vinnuafls yfir allt árið. Þannig gæti þessi iðnaður leyst að miklu eða jafnvel í ýmsum tilfellum að öllu leyti það vandamál, sem nú er í vaxandi mæli fyrir hendi í síldveiðiþorpunum, að síldveiðarnar velta fólkinu aðeins atvinnu lítinn tíma úr árinu, en atvinnuleysi vofir yfir langtímum saman hinn tímann. Um leið væru svo jafnvel margfaldaðar gjaldeyristekjur þjóðarinnar af verulegum hluta þess hráefnis, sem fiskískip okkar draga að landi.

Samanburður á verðmæti niðursoðinna fiskafurða annars vegar og hálfunninna vara hins vegar sýnir, að yfirleitt er þar um að ræða tvöföldun sem algert lágmark. En sé miðað hins vegar við óunna vöru, óunninn fisk eða síld, sem annars færi til mjöl- og lýsisframleiðslu, verður mismunurinn margfaldur. Þannig sést af skýrslum, að t.d. niðursoðinn ufsi, öðru nafni sjólax, gefur fjögur til fimmfalt verðmæti á móti söltuðum ufsa. Niðurlögð kryddsíld gefur milli tvöfalt og þrefalt meira verðmæti en síld í tunnum, og þannig mætti lengi telja. Að sjálfsögðu segja þessar tölur ekki alla sögu um hagkvæmni niðursuðuiðnaðarins. En hitt er vitað, að meginhluti verðmætisaukans fæst fyrir vinnu, en aðeins mjög lítill hluti fyrir erlendar rekstrarvörur.

Um leið og ég vísa til grg. okkar með till. til frekari rökstuðnings, vil ég leyfa mér að benda hv. n., sem málið fær til meðferðar, á nýútkomið rit, greinargott og fróðlegt, um íslenzkan niðursuðuiðnað, eftir einn fremsta niðursuðuverkfræðing Norðmanna, Karl Sund Hansen, sem starfað hefur hér á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands og hefur einnig verið ráðgefandi um byggingu á einni beztu niðursuðuverksmiðju okkar, sem nú er starfandi. Álit þessa manns á þeim möguleikum, sem hér eru fyrir hendi í þessum efnum, verður tæpast véfengt og styður að mínu viti eindregið, að farin verði sú leið, sem hér er lögð til að farin verði til að ýta af stað þjóðhagslegu nauðsynjamáli.

Ég vil svo að lokum vænta þess, að þessi till. hljóti greiða afgreiðslu í hv. fjvn. og geti komið til endanlegrar afgreiðslu hv. Alþingis hið fyrsta.