15.12.1960
Neðri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

130. mál, söluskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að rifja það upp, þótt í stuttu máli verði, sem hæstv. fjmrh. hafði um þetta mál að segja, þegar hann lagði það fram á seinasta þingi, og 1. umr. um málið fór fram 15. marz, að því er ég má segja.

Það, sem hæstv. fjmrh. hafði þá um þetta mál að segja, enda hafði það einnig komið fram í grg. frv.; var það, að sá söluskattur, sem þetta frv. fjallar um, mundi að öllum líkindum ekki þurfa að standa nema þetta ár, en falla niður um áramótin, eins og líka var gert ráð fyrir í sjálfu frv. Rökin fyrir því, að þessi skattur var lagður á í fyrra eða á síðasta þingi, voru þau, að smásöluskatturinn gilti ekki allt árið og þess vegna þyrfti sérstakan skattauka á þessu ári til að bæta það upp, sem tapaðist af smásöluskattinum, vegna þess að hann gilti ekki nema 9 mánuði ársins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rifja upp á þessu stigi, enda hefur það áður verið gert, það, sem um þetta hefur verið sagt í grg. söluskattsfrv. í fyrra, eða það, sem hæstv. fjmrh. sagði, þegar hann lagði málið fram hér í Nd., en þau ummæli verða vissulega ekki skilin öðruvísi en sem mjög ákveðið fyrirheit um það, kannske ekki beint loforð, en mjög ákveðið fyrirheit um það, að þessi skattur skyldi ekki gilda nema fram að þessum áramótum. Það hefur hins vegar gerzt, að hæstv. ráðh. hefur ekki getað staðið við þennan ádrátt eða þetta fyrirheit, sem hann gaf, þó að hann vafalaust hafi haft löngun til þess, því að ég hygg, að það gildi um hann eins og aðra fjmrh., að þeir vilja gjarnan draga úr sköttum og álögum, ef þeir telja það mögulegt. Og það, sem mér finnst sérstök ástæða til við þessa umræðu, er að rifja það upp, hvers vegna hæstv. fjmrh. hefur ekki getað staðið við þetta fyrirheit eða þennan ádrátt, sem hann gaf hér á síðasta þingi um það, að þessi skattur yrði ekki framlengdur.

Hver er ástæðan til þess, að það verður að framlengja þennan skatt, þrátt fyrir þær vonir, sem um það voru gefnar á seinasta þingi, að þess mundi ekki þurfa? Svarið við þessari spurningu er ákaflega einfalt og augljóst. Það liggur í því, að á seinasta þingi var tekin upp ný efnahagsmálastefna, sem hefur það í för með sér, að þennan skatt þarf að framlengja, eins og ég skal víkja nokkru nánar að.

Megintakmark þessarar efnahagsmálastefnu er það, að þar eru tekin upp alls konar höft til þess að draga úr framtaki manna, til þess að skerða frelsi manna og athafnamöguleika til margvíslegra framkvæmda. Þessi höft á framtak manna og athafnamöguleika þýða það að sjálfsögðu, að framleiðslan dregst saman, að framkvæmdir dragast saman, að viðskipti minnka. Af því leiðir það, að hinir föstu tekjustofnar ríkisins gefa minna af sér en þeir ella mundu gera, og þess vegna verður að grípa til þess ráðs að leggja á nýja skatta eða framlengja skatta, sem ætlunin var að láta falla niður. Þetta eru meginástæðurnar til þess, að hæstv. fjmrh. getur nú ekki staðið við það fyrirheit eða þann ádrátt, sem fullkomlega má segja, að hann hafi gefið á seinasta þingi um það, að þessi skattur skyldi falla niður, og var það sérstaklega áréttað af hans stuðningsblöðum og hans flokksmönnum út í frá., að þessi skattur yrði felldur niður um áramótin og þá mundu launþegar og aðrir, sem yrðu fyrir kjaraskerðingunni, fá nokkra kjarabót í framhaldi af því. En við þetta hefur hæstv. fjmrh. ekki getað staðið, vegna þess að efnahagsmálastefnan, sem tekin var upp á seinasta þingi, var röng og hafði þær afleiðingar í för með sér, að hinir föstu tekjustofnar ríkisins gefa minni tekjur af sér nú á þessu ári og á næsta ári en vera mundi undir eðlilegum kringumstæðum.

Í framhaldi af þessu er líka auðvelt að svara þeirri spurningu, sem stundum hefur komið fram í þessum umr. af hálfu stjórnarsinna í viðræðum þeirra við stjórnarandstæðinga. Þeir segja: Þið eruð á móti þessum skatti. Hvað viljið þið láta koma í staðinn? Viljið þið láta einhvern annan skatt koma í staðinn? — Þessum spurningum er ákaflega auðvelt að svara. Við teljum ekki ástæðu til þess, að það þyrfti neinn nýr skattur að koma í staðinn, ef breytt væri um efnahagsmálastefnu. Það er undirstaðan í þessum efnum að breyta um efnahagsmálastefnu. Og það, sem þyrfti að gera, væri að afnema þau ýmsu höft, sem hafa verið lögð á framtak manna og frelsi og möguleika til athafna og felast í hinni svokölluðu viðreisn. Það þyrfti að draga úr kjaraskerðingarhöftunum, úr vaxtaokurshöftunum, úr lánsfjárhöftunum og öðrum höftum, sem hefur leitt af viðreisninni. Ef þetta yrði gert, þá mundi það verða til þess, að einstaklingar og fyrirtæki fengju notið sín betur til þess að auka framleiðsluna og ýmsar framkvæmdir. Framleiðslan mundi vaxa, framkvæmdirnar mundu vaxa, viðskiptin mundu aukast, hinir venjulegu tekjustofnar ríkisins mundu gefa meira af sér, mundu nægja til að vega á móti útgjöldum, og þess vegna mundi ekki þurfa nýja skatta eða að framlengja skatt eins og þennan. Þess vegna, ef rétt er stjórnað og rétt stefna væri tekin upp, þá væri fullkomlega hægt að losna við skatt eins og þennan. Það liggur í því, að þennan skatt þarf að framlengja, að það hefur verið tekin upp hafta- og samdráttarstefna, sem veldur því, að hinir föstu tekjustofnar ríkisins gefa minni tekjur af sér en þeir mundu gefa, ef stjórnað væri með það fyrir augum að hafa framleiðsluna, framkvæmdirnar og viðskiptin sem mest í landinu.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á, að það er í fleiri efnum en þessum, að þær vonir hafa brugðizt, sem ýmsir menn þóttust binda við viðreisnina á sínum tíma. Það er ekki ástæða til þess að rifja það upp í löngu máli hér, en ég held, að það megi nokkurn veginn fullyrða, að það sé sama, á hvaða sviði er gripið niður, að þá hafa vonirnar brugðizt, sem þeir gerðu sér um viðreisnina, sem voru henni fylgjandi, eða a.m.k. þeir, sem vissu ekki nægilega vel um þau áhrif, sem hún mundi hafa, og trúðu þeim fullyrðingum, sem formælendur hennar höfðu í frammi.

Því var til dæmis hiklaust haldið fram, þegar verið var að koma viðreisnarlöggjöfinni fram hér á Alþingi, að lífskjörin mundu ekki skerðast neitt. Í viðreisnarpésanum, sem dreift var út um landið, var því haldið fram alveg hiklaust, að 5 manna fjölskylda, sem hefði 60 þús. kr. árslaun, mundi búa við óbreytt kjör eftir sem áður, þó að þessar ráðstafanir yrðu gerðar. Hvaða slík fjölskylda mun það vera í landinu í dag, sem vill taka undir þetta og segja, að kjör hennar séu nú hin sömu og áður? Slík fjölskylda mun áreiðanlega ekki fyrirfinnast. Og hvað þá um þær fjölskyldur, sem eru fjölmargar, sem búa við miklu lakari tekjur og kjör en þetta? Nei, kjaraskerðingin, sem hefur hlotizt af viðreisnarráðstöfununum, hefur orðið stórkostleg, í staðinn fyrir það — að mönnum voru gefnar vonir um það, að hún mundi ekki verða nein. Það var líka sagt og því haldið fram af formælendum viðreisnarinnar, þegar þeir voru að koma henni fram, að hún mundi verða til þess að gera grundvöll atvinnuveganna traustari og öruggari en hann er nú. Hver er sá, sem heldur því fram núna, að grundvöllur sá, sem atvinnuvegirnir byggist á, sé orðinn traustari og öruggari en hann áður var? Halda bændurnir því kannske fram? Kom það fram á fundi Stéttarsambands bænda á síðastliðnu hausti, að þeir teldu rekstrargrundvöll landbúnaðarins betri og öruggari en hann áður var? Þvert á móti, þeir héldu því fram þar, að rekstrargrundvöllur landbúnaðarins hefði versnað svo að segja á hvaða sviði sem var. Eru það kannske útgerðarmennirnir, sem vilja viðurkenna það, að rekstrargrundvöllur útgerðarinnar, atvinnuvegar þeirra, sé betri nú en hann var, áður en viðreisnin kom til sögunnar? Ég held, að það sé ein gleggsta sönnun um það, að það er búið að fresta landsfundi útvegsmanna tvívegís, vegna þess að þeir hafa ekki fengið nein ákveðin svör um það hjá ríkisstj., hvað hún vildi gera til þess að tryggja útgerðinni sambærilegan rekstrargrundvöll við það, sem hún hafði, áður en viðreisnin kom til sögunnar. Eru það kannske iðnaðarmenn og iðnrekendur, sem halda því fram, að rekstrargrundvöllur þeirra atvinnuvegar hafi batnað, síðan viðreisnin kom til framkvæmda? Er vaxandi atvinnuleysi í iðnaðinum merki þess, að rekstrargrundvöllur iðnaðarins sé betri nú en hann var fyrir viðreisnina eða áður en hún kom til sögunnar? Ég held, að það segi alveg nægilega glöggt til um það, hvaða áhrif viðreisnin hefur haft á rekstrargrundvöll iðnaðarins. Og þannig má halda þessu áfram. Það má nefna hvaða atvinnugrein á fætur annarri sem er, og niðurstaðan verður í öllum efnum hin sama, að rekstrargrundvöllurinn er lakari og verri nú en hann var, áður en viðreisnin kom til framkvæmda.

Það var líka sagt um viðreisnina, að hún mundi verða til að glæða trú þjóðarinnar á landið og framtíðina. Hefur viðreisnin kannske gert þetta? Lítur unga fólkið kannske bjartari augum á framtíðina nú en það gerði, áður en viðreisnin kom til framkvæmda? Það mætti nefna ýmis dæmi um þetta, en ég mun aðeins láta nægja að nefna eitt. Það hefur gerzt á þessu ári, að um 20—30 ungir verkfræðingar hafa farið af landi burt og tekið sér atvinnu í öðrum löndum til lengri eða skemmri tíma. Vegna hvers hafa þessir ungu menn sem eru þannig menntaðir, að við megum sízt af öllu missa þá úr landi, gert þetta? Það er einfaldlega vegna þess, að þeir sjá fram á það, að sú samdráttarstefna, sem hefur verið upp tekin í landinu, mun leiða til þess, að það verði ekki verkefni fyrir þá í framtiðinni í þessu landi, að óbreyttri stjórnarstefnu muni ekki skapast nægileg verkefni fyrir tæknimenntaða menn í þessu landi. Það er af þessum ástæðum, sem þeir grípa þann kost að flýja land. Það má nefna miklu fleiri en verkfræðingana, sem svipað er ástatt um. Allmargir menn, sem á undanförnum árum hafa dvalizt erlendis og stundað þar vélfræðinám, hafa tekið þann kost að fara ekki heim á þessu ári að námi loknu, heldur leita sér atvinnu erlendis.

Stjórnarstefnan, samdráttaðstefnan, haftastefnan, kreppustefnan, sem núv. ríkisstj. fylgir, er með öðrum orðum að leiða til þess, að sá hluti unga fólksins, sem er einna bezt tæknilega menntaður og við megum einna sízt missa. en á hins vegar mesta möguleika til þess að ryðja sér braut erlendis, er að yfirgefa landið og setjast að í öðrum löndum. Kannske er þetta einhver alvarlegasta afleiðingin, sem kreppu og samdráttarstefna ríkisstj. hefur haft. Unga fólkið, sem bezt er menntað, er byrjað að flýja landið, og það eru engar líkur til þess, að það komi hingað aftur, nema það verði tekin upp önnur stefna, — stefna, sem sýnir því, að það muni verða hér verkefni fyrir þá menntun, sem það býr yfir, og það geti notið hér krafta sinna. En unga fólkið fær ekki trú á þetta, meðan sú samdráttar- og kreppustefna ríkir, sem nú er í landinu.

Það mætti nefna fleiri svipuð dæmi um það, hvernig þær vonir hafa gersamlega brugðizt, sem formælendur viðreisnarinnar voru að glæða fyrir mönnum, þegar þeir voru að hrinda henni í framkvæmd. En ég sé ekki ástæðu til þess að nefna öllu fleira að þessu sinni.

En í tilefni af því, að hæstv. ríkisstj. leggur nú þetta frv. fyrir Alþingi og þar með falla þær vonir, sem ýmsir gerðu sér um það, að þessi skattur yrði látinn niður falla og af því mundi hljótast nokkur kjarabót fyrir almenning, þá vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvaða ráðstafanir ríkisstj, hygðist gera til þess að draga úr þeirri miklu kjaraskerðingu, sem almenningur í landinu og sérstaklega láglaunastéttirnar hafa orðið fyrir af völdum þeirra efnahagsráðstafana, sem ríkisstj. hefur gert. Ég held, að það hljóti að vera hverjum manni ljóst, sem gerir sér grein fyrir þeirri dýrtið, sem nú er orðin, og þeim launakjörum, sem t.d. láglaunamenn hafa, að það eru engar líkur til þess, að þessar stéttir geti lifað mannsæmandi lifi á komandi missirum, nema einhverjar ráðstafanir verði gerðar þar til úrbóta, t.d. eins og sú ráðstöfun að fella þennan skatt niður, sem nú er horfið frá. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh.: Hvaða ráðstafanir ætlar ríkisstj. að gera til þess að koma í veg fyrir það, að kjaraskerðingin lendi með eins miklum þunga á láglaunastéttunum og nú eru horfur á að óbreyttum aðstæðum, sem sérstaklega er ljóst, eftir að þær vonir bregðast, að sá skattur, sem hér ræðir um, verði felldur niður? Ég hygg, að hæstv. ráðherra eigi ákaflega gott með að skilja, hver þörf er fyrir það, að slíkar ráðstafanir séu gerðar. Hæstv. ráðherra hefur ásamt meðráðherrum sínum gert sér grein fyrir því, að það muni bitna mjög þung dýrtíð á þeim af völdum þessara efnahagsráðstafana. Þess vegna hafa hæstv. ráðherrar gert ráðstafanir til þess með sérstökum skattalækkunum, sem fyrst og fremst koma hátekjumönnum til góða, að t.d. ráðherrarnir hafa í gegnum skattalækkanirnar á þessum árum fengið raunverulega kaupuppbót eða launauppbót, hvernig sem hann vill orða það, sem mundi svara til þess, að t.d. kaup Dagsbrúnarmanna yrði hækkað um 40—50%. Þessa uppbót hafa ráðherrarnir talið nauðsynlegt að veita sér vegna þeirrar kjaraskerðingar eða þeirrar dýrtíðar, sem hefur orðið í landinu af völdum efnahagsráðstafana, sem þeir hafa gert. Þess vegna vil ég spyrja: Hvaða ráðstafanir telja ráðh. rétt að gera og verði að gera, til þess að láglaunastéttirnar fái þó einhverja uppbót, þó að hún sé ekki eins mikil og sú, sem ráðherrarnir hafa fengið, eða þá eitthvað í áttina við það, sem þeir hafa fengið? Ég sé ekki fram á það, ef ráðherrarnir hafast ekkert að, ríkisstjórnin aðhefst ekki neitt og ekkert verður gert til þess að ganga til móts við láglaunastéttirnar; en að þær verði að grípa til einhverra neyðarúrræða. Og ég sé ekki þann siðferðislega grundvöll, sem ráðherrarnir hafa til þess að standa gegn slíkum kröfum, ef þeir aðhafast ekki neitt, hafa veitt sjálfum sér uppbót sem nemur 40–50% launahækkun hjá Dagsbrúnarmönnum, en vilja svo ekki neitt fyrir slíkar stéttir gera.

Ég vil þess vegna enn á ný endurnýja þá fyrirspurn mína í tilefni af því, að þessi skattur er framlengdur, til hæstv. fjmrh.: Hvaða ráðstafanir ætlar ríkisstj. að gera til þess að bæta úr þeirri miklu kjaraskerðingu, sem láglaunastéttirnar í landinu, verkamennirnir, bændurnir, verzlunarfólkið og millistéttirnar, hafa orðið fyrir?

Það væri ástæða til þess að ræða ýmislegt fleira um þessi mál. En það, sem mér finnst réttast að rifja upp að lokum, er, að í stjórnmálunum, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, eru það raunverulega tvær stefnur, sem eigast við, og þær stefnur eru allvel markaðar í hinum kunnu ummælum Jónasar Hallgrímssonar, að „mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið“. Á undanförnum árum hefur íslenzku þjóðinni áreiðanlega alltaf verið að muna nokkuð á leið, allt síðan við fengum sjálfstæðið aftur í okkar hendur. Það hefur verið svo að segja um stöðuga framsókn og framfarir að ræða hér á landi þangað til árið 1960. Þá skiptir um. Þó að menn líti eins hlutlaust á þessi mál og frekast er hægt að gera, þá er ekki hægt annað en viðurkenna, að það hefur verið gengið til baka á því ári, sem er að liða. Það er að ganga til baka að leggja slík höft á framtak manna og athafnafrelsi, að það leiðir til stórfellds samdráttar í atvinnulífi landsmanna, að það leiðir til þess, að framleiðslan dregst saman, að það leiðir til þess, að framkvæmdir minnka, að viðskipti minnka, og þjóðin kemur þess vegna til með að búa við minnkandi tekjur á komandi árum. Þetta er að ganga aftur á bak. Það er líka að ganga aftur á bak, þegar kjör almennings í landinu, sérstaklega láglaunastéttanna, eru stórkostlega skert algerlega að þarflausu, eins og nú er gert. Það er víssulega að ganga aftur á bak. Og það er þá kannske allra frekast að ganga aftur á bak, þegar trú unga fólksins á framtíðina og verkefnin er svo stórkostlega skert, að þeir menn, sem eru bezt menntaðir og helzt geta rutt sér brautir annars staðar og við megum sízt af öllu missa, fara í tugatalí af landi burt. Það er vissulega að ganga aftur á bak. Og þannig mætti halda áfram að nefna dæmi þess, hvernig þjóðin hefur verið að ganga aftur á bak undir forustu þeirrar ríkisstj. og þeirra stjórnarflokka, sem nú fara með völdin. Þess vegna verður það, ef þessu heldur áfram, að þá hefur þjóðin um tvær stefnur að velja, og það á að vera auðvelt fyrir hana að velja um þessar stefnur, önnur stefnan er sú að halda áfram þeirri uppbyggingar- og framfarastefnu, sem var hér áður, að halda áfram að sækja fram, að halda áfram að miða áfram. Hitt er sú stefna, sem nú er fylgt, að ganga aftur á bak, eins og hæstv. ríkisstj. er vissulega að gera. Það, sem þjóðin kemur til með að velja um, ef þessari stefnu verður fylgt áfram, er að ganga aftur á bak undir forustu núv. ríkisstj. og stjórnarflokka, ellegar að byrja á ný að sækja fram undir forustu Framsfl.