25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í D-deild Alþingistíðinda. (2871)

101. mál, iðnrekstur

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við höfum nokkrir þm. leyft okkur að flytja á þskj. 112 till. um eflingu iðnrekstrar.

Atvinnuvegir okkar Íslendinga eru allt of einhæfir. Við erum að allt of litlu leyti sjálfum okkur nógir um það, sem við þörfnumst. Við þurfum fleira að sækja til annarra landa en flestar aðrar þjóðir. Þetta gerir okkur háðari verzlun og viðskiptum við aðrar þjóðir en æskilegt er. Fyrir bragðið eru okkur m.a. gengismál gjaldmiðilsins erfiðari miklu en annars væri. Við erum hlutfallslega afar mikið upp á erlendan gjaldeyri komnir.

Undirstaða allrar efnalegrar velmegunar er framleiðsla, nytsöm og seljanleg. Fyrir okkur Íslendinga er aukin framleiðsla lífsnauðsyn til bættra lífskjara og til þess að við getum staðið öruggir á eigin fótum. Og við þörfnumst ekki aðeins aukinnar framleiðslu að magni, heldur líka að fjölbreytni, verðmæti og söluhæfni erlendis.

Hinir fornu íslenzku atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, verða að vísu aldrei úreltir, af því að það, sem þeir leggja til, er aðallega matvæli, og matvælaskorturinn er það sem veldur hinu ört fjölgandi mannkyni þungum áhyggjum, þegar það hugsar um afkomu sína langt inn í ókominn tíma. Ísland er land með mikla möguleika til matfanga. Matfangasældin tryggir því sess meðal nytjalanda svo langt inn í framtíð sem augað eygir. En að öðru leyti er landið fremur hráefnasnautt. Að vísu er það lítt rannsakað að því leyti enn sem komið er. Við rannsóknir getur vitanlega allt í einu ýmislegt komið upp úr dúrnum. Leirleðjan í botni Mývatns var ekki mikils metin fyrir einum áratug. Nú virðist annað upp á teningnum. Við skulum vona, að margt fleira komi til sögunnar af náttúruauðæfum í skauti landsins.

Eins og nú standa sakir, er það sjávarútvegurinn, sem leggur til aðalútflutningsvörur þjóðarinnar. Skýrslur herma, að hann leggi til meira en 9/10 af útflutningnum. Landbúnaðurinn hefur síðustu ár lítið framleitt til útflutnings, en hann hefur gegnt því hlutverki, sem er ekki síður þýðingarmikið fyrir þjóðina, lagt til kjöt, mjólk og grænmeti á borð landsmanna. Báða þessa atvinnuvegi þarf að efla. Auka þarf líka verðmæti hráefna þeirra með því að fullvinna þau með iðnaði. Útflutningsverðmæti sjávaraflans verður að stórauka með því að vinna úr honum innanlands þau matvæli, sem unnin eru úr honum erlendis handa neytendum. Í fyrra samþ. hv. Alþ. till. frá mér og fleirum um hagnýtingu síldaraflans, þar sem skorað var á hæstv. ríkisstj. að koma á umbótum að því er snertir verkun og vinnslu síldarinnar, sem landsmenn veiða. Leyfi ég mér að vænta þess, að sú áskorun hafi ekki verið látin sem vindur um eyru þjóta, svo mikilsvert er það mál En þar var aðeins um eina tegund framleiðslunnar að ræða. Sama gildir meira og minna um aðrar tegundir framleiðslunnar. Fyrir þessu þingi liggja ýmsar tillögur, sem ganga í þessa átt.

Landbúnaður og sjávarútvegur eru of einhæfir atvinnuvegir til þess að fullnægja þjóðarþörfum, þó að góðir séu. Við hlið þeirra hefur líka risið á legg iðnaður og gerzt þriðji aðalatvinnuvegurinn. Hann tekur við hráefnum hinna aðalatvinnuveganna og gerir úr þeim tilbreytilegar markaðsvörur.

Landbúnaður og sjávarútvegur hafa frá fyrstu tíð verið mjög háðir árferði. Hin hvikula veðrátta á Íslandi hefur haft mikil áhrif á afkomu þeirra og framleiðslugetu frá ári til árs. Tækni nútímans dregur að vísu úr því, að þessir atvinnuvegir séu jafnmikið á valdi veðurfarsins og áður, en samt hljóta þeir alltaf að verða veðráttunni háðir og breytileik hennar. Svo er til viðbótar, að því er sjávarútveginn snertir, að hann er rányrkja, og enginn veit, hvað hin stórkostlega veiðitækni hans má ganga nærri fiskstofnum, svo að náttúran hafi við að fylla í skörð þeirra vanhalda, sem veiðitæknin veldur í höfunum. Sé það rétt, sem sagt er, að skýrslur fiskifræðinga bendi til að þorskafli síðustu ára hér við land hafi aðallega verið borinn uppi af tveimur aldursárgöngum, þ.e. frá árunum 1945 og 1955, þá virðist ekki miklu mega muna, til þess að út af geti borið um fiskinn á miðunum við og við og máske til langframa.

Margs konar iðnaður á að geta risið óháðari hvikulu tíðarfari landsins en bæði landbúnaður og sjávarútvegur. Það liggur í augum uppi, að því fjölbreyttari sem framleiðsla þjóðarinnar er, því öruggari og árvissari verður efnanagsafkoma þjóðarinnar. Engum blöðum er um það að fletta, að þjóðfélagið hefur fyllstu ástæðu til að athuga möguleikana til aukins iðnaðar í landinu. Ekki má einskorða sig við stóriðnað, heldur hvers konar iðju, allt frá handverki til þess, er stóriðnaður er nefnt. En um verkefnaval má ekkert handahóf gilda. Það verður að telja skyldu ríkisins, eins og skipun mála er orðin í þjóðfélaginu, að rannsaka, hvaða iðnaður er líklegur til að geta borið sig erlendis og orðið þeim, er reka hann, og þjóðinni til ávinnings og þrifa. Gott er, að framtakssamir einstaklingar og frjáls áhugasamtök taki upp iðnrekstur, en ríkið á að leggja til og kosta þá fræðilegu alhliða athugun, sem þarf að gera á þessu og einstaklingarnir byggja á.

Fyrsti liður þáltill. þeirrar, sem ég er að fylgja úr hlaði, er um að fela hæstv. ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að á vegum ríkisins fari fram þvílík athugun. Upphaf till. og 1. liður hljóða þannig, með leyfi hæstv, forseta:

.,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni: 1. Að leggja fyrir rannsóknaráð ríkisins að taka til rækilegrar athugunar og rannsóknar í samráði við Iðnaðarmálastofnun Íslands, hvaða iðngreinar geta hérlendis haft jafngóðan eða betri starfsgrundvöll en hliðstæðar iðngreinar hafa í nágrannalöndum Íslands. Áliti verði skilað sem allra fyrst og það birt almenningi, svo að orðið geti til leiðbeiningar þeim, sem vilja hefja nýjan iðnrekstur.“

Hér er um það að ræða, að athugað verði, hvaða iðngreinar geti þrifizt hér eins vel eða betur en í nágrannalöndum okkar, þ.e. verið samkeppnisfærar á erlendum markaði. Kemur þá ekki eingöngu til greina sá iðnaður, sem getur fengið innlend hráefni heldur líka iðnaður byggður á innfluttu hráefni. Nágrannaþjóðir okkar flytja út iðnaðarvörur, sem unnar eru hjá þeim úr innfluttu hráefni. Líklegt er, að þau hráefni mætti. a.m.k. sum, fá með svipuðu verði hingað til lands. Í Þessu sambandi koma ekki sízt til athugunar svonefnd heimsmarkaðshráefni, svo sem: málmar, plast, spunaefni o.s.frv. Nauðsynlegt er, að við þessa athugun sé haft í huga, hve Íslendingum er mikilsvert að bæta við núverandi verkefni sín því, sem gefur árvissar tekjur. Áríðandi teljum við flm. till., að niðurstöður rannsóknarinnar fáist sem fyrst og verði birtar almenningi á opinberan og aðgengilegan hátt, svo að orðíð geti til leiðbeiningar fyrir þá, sem vilja setja á stofn nýjan iðnrekstur. Við teljum einboðið, að rannsóknaráð ríkisins hafi rannsókn þessa með höndum, en sjálfsagt teljum við einnig, að rannsóknaráðið hafi samráð um verkefnið við Iðnaðarmálastofnun Íslands. Stjórn Iðnaðarmáfastofnunarinnar er þannig skipuð, að samtök iðnrekenda í landinu verða þá í eðlilegu sambandi við rannsóknarstarfíð og geta komið sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri .

Annar liður till. er áskorun um, að ríkisstj. hlutist til um, eð stofnlán til iðnfyrirtækja verði aukin, einkum þó til þeirra fyrirtækja, sem vilja hefja eða auka iðnrekstur til framleiðslu á útflutningsvörum, því að þar liggur mest á. Allir vita, að iðnaðurinn á við stofnfjárskort að búa. Á því verður að ráða bót, ef hann á að geta innt af hendi þau hlutverk í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar, sem til er ætlazt og nauðsynlegt er að hann taki að sér. Telja verður mest um vert, eins og sakir standa, að koma upp iðnrekstri, sem framleiðir arðgæfa útflutningsvöru, eins og ég hef áður tekið fram. Þörfin fyrir meiri gjaldeyri er svo aðkallandi og brýn. Þess vegna leggur till. fyrst og fremst áherzlu á aukin stofnlán til þeirra fyrirtækja, sem framleiða útflutningsvöru.

Þriðji liður till. er áskorun til ríkisstj. um að stuðla að því, að iðnfyrirtæki, sem komin eru á það stig að geta hafið útflutning á samkeppnisfærum vörum, fái þegar sérstaka fyrirgreiðslu um rekstrarlán til þeirra tilrauna. Vitað er, að gæruskinn, úlpur, gólfteppi og áklæði er eftirsótt af erlendum ferðamönnum, og sumir segja húsgögn líka, og sjálfsagt er margt fleira af alíslenzkum framleiðsluvörum, sem hefur gengið í augu útlendinga. Æskilegt er, að slíkar vörur komi strax á boðstóla erlendis. Til þess þarf rekstrarfé, sem ástæða er til að láta hlutaðeigendur fá, ef þeir vilja leita markaðar fyrir vörurnar erlendis. Það er fullkomlega tímabært að hefja skipulega sókn fyrir framvindu iðnaðar og leysa úr læðingi áhuga og hæfileika, sem Íslendingar búa yfir til athafna á þeim sviðum. Þáltill. þessi er flutt í þeim tilgangi að koma af stað hreyfingu í þá átt á breiðu sviði, skapa áhugamönnum þekkingarskilyrði til þess að velja sér arðgæfan iðnrekstur að verkefnum og búa þeim mönnum, er með fjármál ríkisins fara og lagasetningu, grundvöll til að gera sér grein fyrir, að hvaða iðnrekstri er ástæða til að hið opinbera hlúi eða beiti sér fyrir að komið sé á fót.

Ég leyfi mér að leggja til, að umr, um þessa till. verði frestað og henni vísað til hv. fjvn.