22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í D-deild Alþingistíðinda. (2908)

116. mál, leiðbeiningarstarfsemi í niðursuðuiðnaði

Jón Skaftason:

Herra forseti. í nóvembermánuði s.l. flutti Valtýr Guðjónsson, sem sat hér á Alþingi í fjarveru minni, svo hljóðandi till. til þál., sem liggur hér frammi á þskj. 153:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leita samninga við Fiskifélag Íslands um, að félagið ráði í þjónustu sína einn eða fleiri leiðbeinendur í niðursuðumálum og gangist fyrir, að haldin verði námskeið fyrir verkstjóra í niðursuðuiðnaði“.

Þessari till. fylgir allýtarleg grg., og sé ég ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um hana. og vil þó aðeins undirstrika nokkur meginatriði, sem koma fram í grg. og sýna ljóslega fram á nauðsyn þess, að til slíkra námskeiða, sem hér er um fjallað, verði stofnað sem fyrst.

Það er alkunna, að á undanförnum árum höfum við Íslendingar lagt á það megináherzlu að draga sem mestan afla úr sjó. Við höfum jafnvel gengið feti framar í þessa stefnu en eðlilegt væri. Því að við höfum ekki gætt þess eins og skyldi að reyna að nýta þann afla, sem að landi berst, og gera hann eins verðmætan og hægt væri með því að fullvinna hann í landinu. Ég tel meira en tímabært, að Íslendingar snúi sér nú með fullum krafti að þessu verkefni, og þá er í fyrstu röð að efla niðursuðuiðnað sjávarafurða hér innanlands og fullnýta sjávaraflann.

Það er vitað, að hinar mismunandi fisktegundir, sem hér eru veiddar, eru misjafnlega fallnar til niðursuðu. Fræðimönnum og kunnáttumönnum á þessu sviði ber saman um. að Faxaflóasíldin se að ýmsu leyti ákaflega heppileg til að sjóða niður, og nú er vitað. að hún er í kringum Suðurnes í misjafnlega miklu magni svo til árið í kring. Með þeim tækjum, sem nú er búið að taka í notkun, virðist ekki ósennilegt, að veiða megi Faxasíldina svo til allt árið. Nú vita þeir, sem eitthvað þekkja til mála á Suðurnesjum, að þar er mikill skortur einmitt á atvinnufyrirtækjum eins og niðursuðuverksmiðjum.

Vinna á Suðurnesjum hefur að mjög verulegu leyti grundvallazt á þeirri atvinnu, sem framkvæmdir á Keflavikurflugvelli hafa skapað á undanförnum árum, en á síðustu árum hefur mjög dregið úr þeim framkvæmdum, þannig að hætta hefur verið á, að atvinnuleysi gæti skapazt í sjávarþorpum á Suðurnesjum.

Eins og fram kemur í grg., flytja margar þjóðir verulega mikið magn út af niðursuðuvarningi. Það er nefnt sem dæmi, að a árinu 1957 hafi um 15% af heildarútflutningsverðmæti Norðmanna verið framleiðsluvörur norskra niðursuðuverksmiðja. Á sama árí var útflutningsverðmæti niðursuðuvarnings frá Íslandi ekki nema 0.4%. Þessar tölur sýna betur en langt mál að hér er mjög aðkallandi og mikið verkefni við að fást. Ég held, að ekki sé nauðsynlegt að fara fleiri orðum um þetta atriði.

Tillögumaður hefur lagt til, að ríkisstj. leitaði samninga við Fiskifélag Íslands um, að það beitti sér fyrir þessum námskeiðum, sem hér er fjallað um, og virðist það vera eðillegt með hliðsjón af því, að Fiskifélagið hefur annazt svipaða þjónustu og hefur á sínum vegum nokkra ráðunauta, sem leiðbeina starfsmönnum, er vinna úr sjávarafla. Ég vil svo, herra forseti. óska þess, að umr. um mál þetta verði frestað og því vísað til hv. fjvn.