01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í D-deild Alþingistíðinda. (2920)

123. mál, niðursuða síldar á Siglufirði

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja hér þáltill., þingmenn Norðurl. v., sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. í samráði við bæjarstjórn Siglufjarðar að hefja undirbúning nú þegar að niðurlagningu eða niðursuðu síldar á Siglufirði eftir því, hvort hagkvæmara reynist að athuguðu máli.“

Það hefur víst oft verið talað um niðursuðu á síld, bæði á Siglufirði og annars staðar, þannig að það er engin nýlunda. Satt að segja er það dálitið einkennilegt, hve lítið hefur verið gert að því að reyna að koma hráefninu hér, bæði síld og öðru, í verðmætara ástand en það er, þegar það er sent til annarra landa.

Fyrsta niðursuðuverksmiðjan mun . hafa verið reist 1902. Um útflutning á niðursuðuvöru er lítið að ræða, fyrr en 1940–42, pá er nokkuð flutt út. Eftir það fellur hann niður, og er talið, að það hafi verið af því, að það hafi gleymzt að semja um sölu á niðursoðnum matvælum til Englands á þeim tíma. Svo byrjar þetta aftur að vaxa 1954, og 1959 eru flutt út 300 tonn af niðurlögðum og niðursoðnum vöruan, sem gera um það bil 9.3 millj.

Það er enginn efi á því. að á þessu sviði getum við unnið mikið verk. Iðnaðarmálastofnun Íslands fékk norskan mann, sem vafalaust hefur verið vel að sér í þessum efnum, hingað til lands, og hann athugaði þetta og hefur gefið þingmönnum skýrslu um þetta. Hann telur, að þessi atvinnuvegur eigi framtíð fyrir sér, en álítur rétt að fara varlega. Hann leggur höfuðáherzlu á það, að þessar niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjur hafi samvinnu sín á milli, og hann leggur enn fremur mjög mikla áherzlu á. að það þurfi að láta menn læra meir og betur en undanfarið hefur verið gert. Hann telur það nokkrum vandkvæðum bundið að fá að senda menn í skóla til Noregs. Hann skýrir frá því, að það sé góður skóli í Stavanger. en telur engan veginn víst, að við fengjum að senda menn þangað. Ég veit ekki, hversu öruggt þetta er, en ég tel engan veginn útilokað, ef ríkisstj. íslenzka ætti hlut að máli, að vegur væri að semja við Norðmenn um að fá að senda unga menn í fagskóla til Noregs.

Það er eftirtektarvert við þennan niðursuðu- og niðurlagningariðnað hér á landi, að það er oft skipt um eigendur, og það er mjög mismunandi magn, sem sent er til einstakra landa. Það bendir til þess, að markaðurinn sé ekki öruggur eða að kaupendunum líki ekki þessi framleiðsla reglulega vel hjá okkur. Það er ekki nema eðlilegt, að við eigum mikið eftir að læra á þessu sviði, en þó álít ég, að það sé engan veginn ástæða til að ganga fram hjá þeirri tæknikunnáttu, sem fólk hefur þegar fengið við þær verksmiðjur, sem þegar eru starfandi.

Við bendum á Siglufjörð til þess, að þar verði reist niðurlagningar- eða, niðursuðuverksmiðja. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að þetta er næstfjölmennasti bær á Norðurlandi. Fjörðurinn er lítill. hann skerst þarna inn í þennan hrikalega skaga, og það er fyrst og fremst höfnin, sem hefur skapað hann, og sú aðstaða, að það er stutt á síldar- og fiskimiðin. Norðmenn urðu einna fyrstir til þess að notfæra sér aðstöðuna þarna, og síðan settust Íslendingar þar að, þannig að bærinn stækkaði á síldarárunum og varð að stærsta bæ norðanlands fyrir utan Akureyri. En þessi bær hefur að mestu leyti byggt afkomu sína á síldarafla og að nokkru leyti á fiskafla.

Nú vitum við, að stopul er síldveiðin, og þess vegna er ekki hægt að treysta á hana nema hafa eitthvað með. Fyrir íbúa Siglufjarðar væri það ákaflega mikil nauðsyn að geta tryggt sér vinnu yfir veturinn, því þó að ungir menn, sem eru ekki heimilisfeður þar, geti farið til fjarlægra staða til að hafa atvinnu yfir veturinn, þá er það ekki auðgert fyrir heimilisfeður, unglinga og konur, sem eru bundnar við heimilin. Fyrir okkur vakir því, að ríkisstj., í samráði við bæjarstjórn Siglufjarðar, hlutist til um, að hafizt verði handa að undirbúa niðursuðu- eða niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði. Ég hef miklu meiri trú á því, að einstaklingsframtak komi þarna einnig til greina. Þessi norski maður ráðleggur að byrja ekki í stórum stíl. og þá er miklu hentugra, að einstaklingarnir sjái um það, því að yfirstjórn þeirra mála, sem opinberir aðilar, eins og ríkissjóður, hafa með að gera, verður alltaf miklu dýrari.

Ég held því, að það væri e.t.v. hægt að slá tvær flugur í einu höggi: hlutast til um það að senda unga menn, sem gjarnan væru þá búsettir á Siglufirði, til landa, þar sem væru fullkomnir skólar um þetta, reyna að fá aðgang að þeim skólum fyrir þessa menn eða koma þeim fyrir þar, sem þeir gætu lært þetta verklega hjá verksmiðjunum, eða í þriðja lagi, ef hvorugt þetta tækist, að reyna þá að fá menn með fagkunnáttu frá öðrum löndum hingað, og gætu þeir þá gjarnan sett upp einhvern skóla hér. Þetta verður ekki gert, nema ríkisvaldið eigi hlut að máli, en samráð og samstarf við bæjarstjórn Siglufjarðar er æskilegt, því að hún þekkir heimamennina betur og getur valið þá menn, sem hentugir væru.

Vitanlega er ekki nema sjálfsagt, að víðar komi upp síldariðnaður en á Siglufirði, en þarna er alveg sérstök nauðsyn, að verði hafizt handa vegna vetraratvinnunnar. Það vill oft verða svo, þar sem ríkið á stór atvinnufyrirtæki, að einstaklingsatvinnutækin komast í skuggann, og það hefur verið þannig norðanlands, bæði á Skagaströnd og Siglufirði og e.t.v. víðar, að þar sem ríkið hefur haft miklar eignir og stór atvinnufyrirtæki eins og síldarverksmiðjuna, þar hafa einstaklingarnir varpað áhyggjum sínum dálítið á ríkið, það hefur dregið úr einstaklingsframtakinu óbeint.

Ég álit t.d., að Siglufjörður liggi mjög vel við fiskveiðum. Það er stutt á miðin bæði til vesturs og austurs og e.t.v. enginn bær á Norðurlandi, sem liggur betur við smábátaútgerð. En þeir hafa bara of lítið af bátum, og með því að frystihúsin, bæjarfélagið eða e.t.v. í vissum tilfellum ríkisvaldið styddi einstaklingana til að eignast hentuga báta, báta af hentugri stærð, sem ekki væru þeim ofviða, þá er ég sannfærður um, að þarna má hafa blómlega vélbátaútgerð.

Ég skal játa, að ríkisvaldið hefur gert talsvert mikið fyrir Siglufjörð. En því má ekki gleyma, að það hafa verið mikil verðmæti flutt út frá Siglufirði. Ég hygg því, að allir geti verið sammála um, að þarna eigi, eftir því sem mögulegt er, að bæta lífsskilyrði fólksins, þannig að lífsafkoma þess gæti orðið sem allra bezt. Og ég er ekki í neinum vafa um, að með því að vinna að framgangi þessa máls á skynsamlegan og hyggilegan hátt mundi vera hægt að bæta þarna mjög mikið atvinnuskilyrði og auka að miklum mun það verðmæti, sem hægt væri að flytja út fyrir síldarafurðir.

Þessi Norðmaður telur, að Norðurlandssíldin sé á margan hátt hentug til þess að framleiða t.d. gaffalbita og annað því um líkt. Aftur telur hann magrari síldina hentuga til niðursuðu. En það hefur verið þannig undandarin ár, að mjög mikið hefur verið um magra síld, sem hefur ekki verið talin fyrsta flokks söltunarsíld, a.m.k. ekki fyrir Rússlandsmarkaðinn. Vera má, að þetta breytist, að það sé hægt að selja þá síld, sem magrari er, en hvað sem því líður, þá veitir ekki af að hafa vakandi auga með öllum möguleikum til að geta komið þessu hráefni í sem allra bezt verð. Það er stórt verk að vinna í utanríkisverzluninni. og í raun og veru veitir þjóðinni ekki af að hafa sína beztu starfskrafta þar. Það hefur lítið verið gert að því að vinna markað fyrir niðursuðuvörur. Ég er ekki í vafa um, að í heitu löndunum, t.d. Miðjarðarhafslöndunum, er hægt að vinna markað fyrir niðursoðnar vörur, reykta og niðurlagða síld o.fl. Ég er ekki í vafa um þetta, en það kostar mikla vinnu og er ekki gert á einum degi. Það má t.d. benda á frysta fiskinn, hversu óhemjuverk það var að vinna markað í Ameríku eins og gert hefur verið og er verið að gera í Evrópulöndunum. Það veltir ekki af góðum starfskröftum og samstarfi til þess að geta slíkt, þar sem samkeppnin er jafnhörð. Það er miklu auðveldara að semja við lönd, þar sem ríkisvaldið ákveður, hvaða magn á að kaupa, og samkeppnin verður þá meira einhliða. Þeir menn, sem hafa unnið upp markaðinn fyrir frysta fiskinn og fleiri vörur ytra, eru í raun og veru þeir menn, sem færa þjóðarbúinu mestar tekjur. Þess vegna er það illa farið að vanþakka þeim og tortryggja, ef það er gert að ástæðulausu. Ég er ekki í vafa um, að um niðursuðuvörur væri æskilegt, að samstarf myndaðist millí þeirra, sem flytja þær út, þeir hefðu félagsskap, þannig að þeir geti haft sameiginlega fulltrúa til að annast um söluna.

Ég skal ekki fullyrða um, hvort okkar síldarsölu er komið fyrir hentugan hátt, bæði hvað snertir ~mjöl. lýsi og síld, en ég efa, að svo sé. Og í því tilfelli vildi ég benda á það, að síldarverksmiðjum ríkisins tókst á árinu 1959 að selja síldarafurðir sínar fyrir hærra verð en einstaklingunum. Það má því vera, að á því sviði mætti vinna mikið og þarft verk með því að hafa meira samstarf á milli þeirra, sem framleiða síldina, um söluna. Það þyrfti ekki að mynda beinan hring, en að samstarfið yrði nánara en verið hefur, þeir fylgdust betur að og byðu ekki hver annan niður undir neinum kringumstæðum, og eins þyrfti það að vera með niðursuðuvörur, ef um mikinn útflutning yrði að ræða, það þarf að vinna nýja markaði og það þarf að vera samvinna milli þeirra manna, sem framleiða niðursuðuvörurnar, — samvinna milli þeirra að afla markaða og koma vörunum í sem bezt verð. Ég hygg, að þarna sé mikið verk að vinna. Við ætlumst ekki til, að ríkisstjórnin geri þetta ein, heldur í samráði við einstaklinga og bæjarstjórn. Það getur algerlega ráðið úrslitum, að ríkisstj. hlutist til um þetta og hjálpi til að hrinda málinu í framkvæmd, greiði fyrir að útvega lán og stuðli að því, að menn geti lært þennan iðnað á hagkvæman hátt. Verði um verulega niðursuðu að ræða á Siglufirði, kæmi til greina að reisa þar dósaverksmiðju, — það er mikill kostnaður við að flytja dósirnar á milli, — og þá mundi skapast í kringum dósagerðina mikil vinna. Þetta yrði því allt til athugunar í framtíðinni, en nauðsynlegt að fara að undirbúa þetta, því að það tekur alltaf langan tíma að koma þessu í framkvæmd.