19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

130. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Eins og fyrr hefur verið frá sagt, klofnaði fjhn., og við, sem erum í minni hl., höfum skilað sínu nál. hvor. Mitt nál. hefur ekki komið fram enn þá, því að það var nokkuð síðbúið, þannig að ég verð að tala, án þess að það liggi fyrir, en í því eru ekki neinar brtt. Afstaðan til frv. er sú að leggja til, að það verði fellt.

Þessar ákvarðanir, sem nú er lagt til að framlengja, voru teknar í fyrra, þegar frv. til söluskatts var lagt fyrir, og þá stóðu í þeirri grg., sem því frv. fylgdi, svo hljóðandi rök fyrir því að leggja það fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. er lagt til, að lögleiddur verði 3% almennur söluskattur á vörusölu, vinnu og þjónustu á síðasta stigi viðskipta. M.a. af þeim sökum, að skattur þessi getur eigi komið til framkvæmda, fyrr en nokkuð er liðið af árinu, er fyrirsjáanlegt, að með honum einum saman fæst ekki sú fjárhæð, sem frv. til fjárl. gerir ráð fyrir. Hefur því verið horfið að því til bráðabirgða að afla þess, sem á vantar, með viðbótarsöluskatti á innfluttar vörur. Er áætlað, að til þess þurfi að hækka núgildandi innflutningssöluskatt um 8%, eða úr 7% upp í 15%, og er lagt til, að sú hækkun gildi til ársloka 1960. Eins og áður getur, hefur skammur tími verið til athugunar og undirbúnings máls þessa, og því er sú leið, sem hér um ræðir, að nokkru leyti bráðabirgðaleið.“

Þetta voru röksemdirnar í fyrra. Það var einvörðungu ein röksemd, sem var haldið fram, og hún er, að fjórði hluti ársins væri liðinn og innflutningurinn og annað, sem skyldi skattleggja á þeim hluta ársins, yrði ekki skattlagt meir, þess vegna yrði að bæta það upp með þessum álögum. Það er þess vegna alveg greinilegt, að fyrir lá frá hálfu ríkisstj., þegar þessi skattur var á lagður í fyrra, loforð og yfirlýsing um, að það kæmi ekki til mála, að þessi skattur yrði framlengdur, af því að hann væri einvörðungu bráðabirgðaskattur og af því að nú væri tekin upp ný stefna í viðskiptum ríkisins, frá því sem áður var, við þegnana, og það er að hlaða ekki frekari álögum á menn. Og það voru gerðar sérstakar ráðstafanir á sama þingi til þess að lækka allt það, sem þeir ríku í landinu og þeir, sem tekjuháir voru, þyrftu að borga, lækka tekjuskattana á þeim, sem efnaðastir og tekjuhæstir voru, þannig að það lá í öllu þessu framferði beint loforð um það, að þessir skattar — eða tollar væri réttara að segja um svona söluskatt, — þeir skyldu ekki framlengdir, þeir væru aðeins út af þessu óhappi, að ríkisstj. hefði verið svona seint á ferðinni, að henni hefði ekki auðnazt að leggja svona söluskatt á fyrsta ársfjórðunginn líka.

Það er þess vegna ekki um neitt að efast, að þessi skattur átti að vera til bráðabirgða, og því var lofað, að hann yrði til bráðabirgða. Og nú á að festa hann. Að vísu er maður ekki óvanur slíku hjá einum fjmrh. Það hefur komið fyrir áður á Íslandi, að bráðabirgðaskattur hafi verið framlengdur. En það gildir alveg sérstakt nú. Það gildir nú í fyrsta skipti í 18 ár, að verið er að leggja á söluskatt, sem sé nefskatt, sem leggst á almenning án nokkurra skaðabóta, án þess að sú fátæka alþýða, sem verður að borga þennan söluskatt,fái það uppborið að einhverju leyti með sjálfkrafa hækkandi vísitölu. Hingað til hefur það verið svo, þegar slíkir nefskattar hafa verið lagðir á alþýðu, að ríkisvaldið hefur oft og tíðum kinokað sér við það, vegna þess að það þýddi sjálfkrafa launahækkun vegna vísitölunnar. M.ö.o.: almenningur var ekki alveg varnarlaus gagnvart ríkisvaldinu og gagnvart nýjum álögum og gagnvart því að framlengja bráðabirgðaskatta og bráðabirgðaolía ár eftir ár. Hann hafði ofur litla vörn, þar sem vísitalan var. Þeim fátækustu og þeim varnarlausustu var vísitalan vernd á móti þess háttar ósvífni, eins og slíkri framlengingu. En núna hefur alþýðan ekki slíka vernd. Hún hefur verið af tekin með lögum. Nú þegar þessi söluskattur er framlengdur, ef ríkisstj. hefur hér meiri hl. til þess, þá þýðir það, að þetta leggst á almenning, á alþýðu manna, án allra skaðabóta. Menn verða að bera þetta, menn verða að láta sig vanta því meira, á meðan ekki er búið að gera ráðstafanir til þess að hækka kaupið. Og að öðru leyti er þetta líka alveg frábrugðið því, sem áður hefur verið. Tekjuskatturinn hefur síðustu 18 árin ekki verið lækkaður og sízt af öllu á þeim, sem hæstar hafa tekjurnar. Það var gert í fyrra að taka þær ákvarðanir, vegna þess að því var yfir lýst, að nú ætti ekki að halda áfram á þeirri leið að auka álögur á almenning. Það var engin siðferðisleg vörn til fyrir því að lækka skattinn á þeim ríku, tekjuskattinn, réttlátasta skattinn í landinu, á hátekjumönnunum alveg sérstaklega, — það var engin siðferðisleg vörn til fyrir því, svo framarlega sem átti um leið að halda áfram að auka nefskattana á almenningi. Svo gersneyddur allri siðferðismeðvitund býst ég ekki við að meiri hlutinn hafi verið, að honum hafi dottið í hug að fara að lækka skattana á hátekjumönnunum, svo framarlega sem hann var ákveðinn í því að halda áfram að framlengja alla bráðabirgðaskatta, sem lögðust á almenning fyrst og fremst. Þess vegna stóð þarna sérstaklega á.

Hvernig stendur á, að ríkisstj. svíkur þessa yfirlýsingu sína og þessi loforð? Hvernig stendur á því? Var hún ráðin í því í fyrra? Það er náttúrlega alltaf erfitt að segja, — oss er ei nýrnanna rannsókn veitt. En ekki er ég nú svo slæmur í hennar garð, að ég vilji endilega ætla henni það, að hún hafi verið ákveðin í þessu, þegar hún lagði þetta fram. Ég er hræddur um, að það sé kannske eins og með ýmislegt fleira, að allir reiknimeistarar ríkisstj. hafi reiknað vitlaust í sambandi við þetta eins og í sambandi við flest annað. Þeir eru meistarar í að reikna vitlaust. Hvernig reiknuðu þessir menn? Hvað var það, sem þeir sögðu ríkisstj. að væri höfuðatriðið í öllu saman? Jú, það væri að eignast gjaldeyrissjóði erlendis. Og hvað væri heillaráðið til þess að eignast gjaldeyrissjóði erlendis? Jú, það væri það að skera niður innflutning til landsins. Og hvernig átti að fara að því að skera niður innflutning til landsins? Jú, það var eitt ágætt ráð, það var að minnka kaupgetu almennings þannig, að hann hefði ekki efni á að kaupa, gera fólkið á Íslandi svo fátækt, að það gæti ekki veitt sér það, sem það hafði getað veitt sér á undanförnum árum. Þetta voru ráð sérfræðinganna, og þetta voru ráðin, sem ríkisstj. tók upp, og um leið eru lækkaðir skattarnir á hátekjumönnunum og lofað að vera ekki að framlengja annað eins ótæti og þennan söluskatt, það hefði bara verið þessi yfirsjón, að einn ársfjórðungurinn hafði tapazt þarna til skattálagningar.

Hvað gerist svo? Hingað til höfum við á Íslandi reynt að fara þær leiðir til þess að bæta afkomu okkar þjóðar, m.a. til þess að jafna og gera verzlunarjöfnuðinn hagstæðan, að auka útflutning, vinna betur úr vörunni, framleiða meira, selja meira af fullunnum vörum úr landinu. Núv. ríkisstj. fór inn á allt aðra stefnu í þeim efnum. Hún skeytti litið um það, hvort yrði unnið almennilega úr vörunni. Henni var sama um og jafnvel þótti vænt um og stuðlaði að því, að fiskurinn yrði frekar fluttur út sem ísfiskur, að við fengjum sem minnst fyrir hann. Hvað þýddi hins vegar að fara út í það að skeyta litið um að auka útflutninginn, en minnka í staðinn innflutninginn? Jú, þetta hafði þær eðlilegu afleiðingar innanlands, að þegar alþýðan gat ekki keypt eins mikið og áður og þegar reynt var að koma í veg fyrir, að flutt yrði inn til landsins, þá var það ekki aðeins sá almenningur, sem leið undir því, sem gat ekki veitt sér það, sem hann áður hafði veitt sér, heldur jafnvel sjálfur ríkissjóður. Ég veit ekki, hvort sérfræðingarnir hafa reiknað með því, að jafnvel sjálfur ríkissjóðurinn yrði fyrir áfalli í þessu sambandi, að tekjurnar stæðust ekki. Og hvað höfum við séð? Við höfum séð í sambandi við afgreiðslu fjárl. núna og upplýsingarnar, sem við höfum fengið um tekjurnar á þessu ári, að tekjustofnarnir eru að bila og að fjárl., eins og á að afgreiða þau núna, eru raunverulega óvarlega afgreidd, gagnstætt því, sem verið hefur undanfarin 18 ár. Þau eru óvarlega afgreidd hvað það snertir, að jafnvel sjálfir reiknimeistararnir hafa nú ekki trú á, að áætlunin á fjárl. komi til með að standast hvað tekjurnar snertir. M.ö.o.: það er að bila, sem hefur verið grundvöllurinn undir því, að ríkissjóður hefur á undanförnum áratugum sífellt getað gert meira og meira fyrir almenning í landinu, veitt honum meiri og meiri þjónustu, vegna þess að kjör almennings hafa á ýmsan hátt verið það sæmileg, sérstaklega vegna sæmilegrar atvinnu, að hann hefur getað veitt sér allmikinn innflutning og þessi innflutningur hefur gefið góða skatta og tolla í ríkissjóðinn. Nú bregzt sem sé þetta, og ef maður vill leggja þetta út á hinn bezta hátt fyrir ríkisstj., þá er það þetta, sem hún stendur frammi fyrir: Tekjustofnarnir eru að bregðast, og afleiðingin, sem ríkisstj. virðist draga af því, er þetta: Þá verðum við að hækka raunverulega nefskattana, framlengja þá nefskatta, sem við lofuðum að afnema í fyrra.

Þess vegna er það, að þegar svona frv. kemur fram, eins og um þessa framlengingu á söluskattinum, þá er þar um að ræða óbeina viðurkenningu ríkisstj. á því, að grundvöllurinn fyrir allri hennar pólitík sé að bresta, að allir útreikningar sérfræðinga hennar reynist vitlausir, að það standist ekki, það sem þeir höfðu áætlað. Það hefði fæstum mönnum þótt það nokkuð undarlegt, þegar sú stefna er tekin upp að rýra afkomu þjóðárbúsins, gera ekkert til að auka hana, segja jafnvel, eins og hæstv. ríkisstj. segir: Hvað varðar mig um þjóðarhag? — Hvað varðar ríkisstj. um atvinnurekendur og verkamenn? Hvað varðar ríkisstj. um atvinnulífið? Það á að eiga sig út af fyrir sig. Og svo undrast hæstv. ríkisstj., sem segist ætla að láta þetta allt saman afskiptalaust, að þegar afkoma þjóðarbúsins versnar, þá skuli afkoma ríkissjóðs, ríkisbúsins, líka fara versnandi. Auðvitað fylgist það að. Þær stoðir, sem standa undir okkar atvinnulífi, standa líka undir ríkissjóðnum, þannig að þegar verið er að brjóta þessar stoðir, eins og ríkisstj. nú gerir, þá er hún líka að brjóta það, sem ríkissjóðurinn byggir á.

Þess vegna er það, þegar hún sér eina slíka stoð vera að bresta, eins og í þessu sambandi tekjuöflunina í ríkissjóð, þá er ekkert undarlegt, þótt hún grípi til þess að bregðast þeim loforðum, sem hún hafði gefið, og reyna nú að níðast á almenningi með því að leggja þennan söluskatt á, framlengja þennan söluskatt, sem átti í fyrra bara að vera til bráðabirgða.

Þess vegna er nauðsynlegt að gera sér það ljóst, þegar við erum að ræða svona mál eins og þetta frv. um að framlengja bráðabirgðasöluskattinn, að það þarf grundvallarbreytingu, stefnubreytingu, hverfa frá þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur verið með, til þess að bæta úr þeim málum, sem hér er um að ræða. Það, að þetta frv. er komið fram, eða afleiðingin af rangri pólitík ríkisstj., afleiðingin af þeirri pólitík að fara inn á að reyna að minnka innflutninginn með því að minnka kaupgetuna, í staðinn fyrir að auka útflutninginn, auka atvinnuna, gera þjóðina ríkari og fólkið efnaðra. En það er þveröfugt, sem ríkisstj. er að gera.

Hæstv. ríkisstj. hefur gengið harðvítuglega fram í að framfylgja þessari pólitík um að minnka kaupgetuna. Og hún hefur ekki látið sér nægja að skera niður kaupmátt tímakaupsins, lækka tímakaupið í sambandi við vísitölubannið. Hún hefur gert meira. Hún hefur komið á atvinnuleysi. Það er bein afleiðing af pólitík ríkisstj., að atvinnuleysi skuli nú vera komið á á Íslandi aftur, að tugir manna í bæ eins og Akureyri skuli vera atvinnulausir, að atvinnuleysi skuli þegar hafa gert verulega vart við sig í Reykjavík, að atvinnuleysi skuli nú vera að heltaka bæi eins og Ísafjörð, að atvinnuleysið yfirleitt, þessi versti vágestur okkar, skuli ætla að fara að gerast landlægur aftur.

Ég hef spurt hæstv. ríkisstj. að því hér og hennar sérfræðinga, þá sem við höfum á nokkurn hátt getað náð til, — þeir hafa verið úti í París og hér og hvar, þegar fjhn. þessarar hv. d. hefur viljað við þá tala, — hvort það hafi verið vísvitandi gert af þeim, hvort það sé þáttur í þeirra útreikningi, að eigi aðeins kaupgetuminnkun vegna kauplækkunar, heldur einnig kaupgetuminnkun vegna atvinnuleysis skyldi hljótast af þeirra ráðstöfunum, hvort atvinnuleysið sé vísvitandi ráðstöfun ríkisstj. Ég hef spurt hæstv. ríkisstj. að þessu hér hvað eftir annað með þessari spurningu: Ef það er efnahagslegt hrun og atvinnuleysi í landinu, hefur þá ríkisstjórnarpólitíkin heppnazt eða hefur hún misheppnazt? Og ég hef ekki getað fengið svar við þessu. Nú er hæstv. fjmrh. viðstaddur, svo að nú væri kannske hugsanlegt, fyrst við náðum ekki í hann, þegar hann var á næturgöltri sínu hér á föstudagskvöldið, að hann gæfi okkur svar við þessu. Ég vona, að hæstv. sjútvmrh. hafi skilað til hans öllu því, sem ég las yfir honum þá, — hann lofaði því hátíðlega hér í þingsalnum, - svo að hæstv. fjmrh. svari nú og gefi nú góða skýrslu um sína afstöðu í þessum málum.

Ég spurði að því, hvort hrun og atvinnuleysi þýddi það, að pólitík ríkisstj. hefði heppnazt eða hún hefði mistekizt. M.ö.o.: mig langaði til þess að vita það, þegar við sjáum fram á efnahagslegt hrun og atvinnuleysi í landinu, hvort það var þetta, sem ríkisstj. stefndi að, eða hvort það var þetta, sem hún vildi forðast. Ég skilgreindi mína afstöðu þannig, að ég áleit, að hennar sérfræðingum, sem eru mjög lærðir menn, væri það auðvitað ljóst, hvert þeirra stefna mundi leiða. Þeir þekkja það frá því andlega heimalandi sínu, Ameríku, til hvers svona stefna leiðir. Þeir sjá atvinnuleysi fara þar sívaxandi, — ég hygg, að það sé komið upp í 5 milljónir manna núna, — og þeir vita það þess vegna, ef á að koma á harðvítugri auðvaldskúgun í einu landi, þá þarf að koma á atvinnuleysi til þess. Ég gekk þess vegna út frá því, að þeir mundu álíta, að þegar staflarnir hjá Völundi hækkuðu, þegar menn hefðu minni efni á að kaupa timbur, þegar sementsverksmiðjan færi kannske að stöðvast vegna of mikillar sementsframleiðslu og of mikilla sementsbirgða, af því að menn hefðu ekki efni á að kaupa sement í hús, þá álitu þeir, að þeirra pólitík væri að heppnast, þegar margir menn væru orðnir um hvert skiprúm, af því að menn gengju hundruðum saman atvinnulausir í landi, þá álitu þeir, að þeirra pólitík væri að heppnast. En ég vildi fá að vita, hvort ríkisstj. hefði þessa sömu skoðun, sem ég ætlaði þeim. Ef svo væri, ef það er vísvitandi stefna ríkisstj. að koma á atvinnuleysi og hruni í landinu, að rýra lífskjörin hjá verkalýðnum og öðrum launþegum, að gera þá bjargálna millistétt meira eða minna gjaldþrota, — ef þetta væri hennar stefna, þá skilur maður ákaflega vel þetta frv., sem hér liggur fyrir, og það að ganga á bak orða sinna frá í fyrra. Ef það er meiningin að ná eignunum af verkalýð og millistétt í landinu og sópa þessu yfir til örfárra auðmanna í landinu, — ef það er stefnan, við skulum segja eins og gert hefur verið í Bandaríkjunum, þá skilur maður, að þetta er einn þáttur í úthugsuðu kerfi um, hvernig eigi að rýja þá íslenzku alþýðu, sem var orðin of velmegandi fyrir auðvaldið í landinu, rýja hana inn að skinninu smátt og smátt, máske ekki fara of hratt í það, þannig að það væri hægt að sætta menn við það, en ganga áfram stig af stigi.

Þess vegna er það eðlilegt í sambandi við hvert einasta af þessum skipbrotsmálum ríkisstj., sem hér kemur fyrir, efnahagsmálin fyrir helgina og söluskattinn núna, að sjálf pólitík hennar komi til umr.

Setjum nú svo hins vegar, að hæstv. ríkisstj. hefði viljað gera ýmsa góða hluti, auka ýmsa þjónustu við almenning með fjárl. og þyrfti þess vegna að ná í tekjur, hvað hefði þá verið rétta leiðin? Rétta leiðin í slíku sambandi væri tvennt: Í fyrsta lagi að reyna að skera nokkuð niður af óþarfa útgjöldum ríkissjóðs, m.ö.o.: á sama tíma sem væri verið að prédika það yfir almenningi, að hann ætti að spenna fastar að sér beltið, þá sýndi ríkisstj. og ríkisvaldið það einnig í nokkru, að ríkisvaldið vildi fara sparlega með það fé, sem tekið væri af almenningi, sem sannarlega þarf á sínu fé að halda. Þetta hefur ekki fengizt. Allar till. um sparnað á fjárl. hafa verið felldar, þær till., sem eitthvað munaði um, þannig að það er greinilegt, að þá leið vill ríkisstj. ekki fara.

Þá var hitt til: Ef hæstv. ríkisstj. hefði fundizt, að hún þyrfti að gera svo og svo mikið ýmist fyrir almenning eða fyrir sjávarútveginn eða til framfara almennt í landinu, að hún þyrfti að leggja á nýjar álögur, þá varð að ná þessu með því að leggja einhverjar byrðar á þá ríku og á þau breiðu bök og með því að knýja fram vissan sparnað í vissum þáttum þjóðarbúskaparins, þar sem dregið hefði verið úr gróða. Við vorum með tillögur í sambandi við efnahagsmálin og slíkar ráðstafanir viðvíkjandi því að draga nokkuð úr þeim gróða, sem við vitum að nú er á t.d. vátryggingunum, draga nokkuð úr þeim gróða, sem skipafélögin hafa, og ýmsar aðrar ráðstafanir. Allt slíkt var fellt. En það hefði náttúrlega verið nær af hæstv. ríkisstj., ef henni fannst hún endilega þurfa að afla meira fjár, að hækka þá aftur tekjuskattinn á hátekjumönnunum, sjálfum sér og öðrum, heldur en að leggja þennan söluskatt á almenning. Það hefði verið nær. Það hefði verið réttlátara. Ekkert af þessu var gert.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur rætt um það innan sinna vébanda að gera einhvern niðurskurð á fjárl. Því hefur verið fleygt, að henni hefði dottið slíkt í hug. En henni hefur þá fyrst og fremst dottið í hug að reyna að skera eitthvað niður af almannatryggingunum, en ekki treyst sér til þess strax. Hvort það er satt eða ekki, skal ég ekki fullyrða. En það er farið nokkuð svipað að, ef söluskattur er lagður á almenning eða hins vegar þær almennu tryggingar, sem hann á að fá, skornar niður. Það er hvort tveggja tekið fyrst og fremst úr sama vasanum, en hins vegar pólitískt þó nokkur munur á.

Þess vegna, ef hæstv. ríkisstj. áleit óhjákvæmilegt að leggja á nýjar álögur, átti að fara aðrar leiðir en þessar, sem hér er um að ræða. Þessi söluskattur kemur til með að hvíla mjög þungt á almenningi. Hann hafði satt að segja búizt við því, að þessum hluta söluskattsins, sem hér um ræðir, yrði þó alltaf af létt, og það hefði þýtt fyrir alþýðu manna þó ofur litla lífskjarabót, þó að það hefði ekki sagt mjög mikið upp í þá gífurlegu rýringu á lífskjörunum, sem þegar hefur átt sér stað. Og nú er rétt að athuga vel, hvernig þessi skattur kemur út fyrir alþýðu manna, með tilliti til þess, sem ég gat um í upphafi míns máls, með tilliti til vísitölubannsins.

Ég hef birt í sambandi við umr. um þessi mál, nú seinast í sambandi við efnahagsmálin, þróunina, sem lífskjör almennings, hvað kaupgetu tímakaupsins snertir, hafa tekið á þessu ári. Hæstv. fjmrh. vildi bera nokkrar brigður á hjá mér fyrir nokkrum dögum, að það væri rétt mynd, sem ég færi þar með. Ég hef birt vísitölu, sem reiknuð hefur verið út af Torfa Ásgeirssyni hagfræðingi, sem er sú sama sem var birt á síðasta ári líka, vísitölu, sem annar stjórnarflokkurinn fagnaði sérstaklega að sjá og lagði mjög mikla blessun yfir þann grundvöll, sem þar var reiknað á, vegna þess að það kom í ljós á þeirri vísitölu, að þegar miðað var við 1945, kaupgetu tímakaupsins þá sem 100, þá hafði vísitalan 1959 haldizt í 99, meðalvísitala ársins, sem var sérstaklega vegna þess, að janúar þess árs, 1959, var með eina hæstu vísitölu kaupgetunnar, sem þekkzt hefur á Íslandi, sem sé 109 stig, þannig að það var svo að segja þar eitt stig til þess að jafna út á hvern mánuð ársins, sem eftir var. Þegar þessi vísitala er útreiknuð miðað við 1945 sama sem 100, þá lítur þróunin eftir mánuðum þessa árs, 1960, þannig út, með leyfi hæstv. forseta:

Í janúar var það 99, febrúar 99, marz 98, apríl 93, maí 92, júní 89, júlí 88, ágúst 88, sept. 88 — eða ef maður tekur það nákvæmlega 87.5, okt. 86 — eða nákvæmlega 86.2, nóvember 86 það var 85.54, desember 85 — nákvæmlega séð 85.1. M.ö.o.: það hefur lækkað um næstum 15% á þessu ári.

Þetta er afrek ríkisstj. gagnvart lífskjörum almennings á þessu ári. Þetta er lífskjararýrnunin, eins og hún lýsir sér aðeins í kaupgetu tímakaupsins. Hin afrek ríkisstj. eru ekki tekin þarna með, að geta líka svipt menn tímakaupinu öllu, hindra menn í því að fá atvinnu, gert menn atvinnulausa, neytt menn, eins og alla verkamennina í Reykjavík núna, til þess að hverfa burt kl. 8–9 á morgnana, af því að þeir fá enga vinnu.

Hæstv. fjmrh, vildi bera brigður á, að þetta væri rétt, að reikna vísitöluna svona, miðað við vörur og þjónustu. Ég held því fram, að það sé rétt að reikna hana svona. Hvað er það, sem verkamaðurinn þarf — fjögurra manna fjölskylda — til þess að geta dregið fram lífið samkvæmt vísitölu hagstofunnar? Hvað er það, sem hún þarf í fé yfir árið til þess að borga þessar vörur og þjónustu? Hún þarf 56 þús. kr. Og hvað er það, sem einn Dagsbrúnarverkamaður hefur í laun árið um kring fyrir sína 8 tíma vinnu, ef hann fær í friði fyrir ríkisstjórnarpólitíkinni að vinna 8 tíma á hverjum degi og er ekki sviptur vinnunni, eins og hann er núna? Hann fær 48 þús. kr. Hann vantar 8 þús. kr. til þess að geta veitt sér þessar vörur og þjónustu, sem kosta 56 þús. eftir vísitölunni. Þess vegna er rétt að miða við þetta, en ekki alla vísitöluna. Hinir tveir liðir vísitölunnar, sem þarna Eru ekki teknir með, eru annars vegar húsnæðið og hins vegar uppbæturnar viðvíkjandi almannatryggingunum og skattalækkunin. Hvernig kom það út, þegar maður reiknaði með þeirri vísitölu, sem hæstv. fjmrh. vill láta leggja til grundvallar, þeirri opinberu vísitölu hagstofunnar, eins og hún er eftir 1. okt., eftir að ríkisstj. lét breyta grundvellinum? Þá var það 68 þús., sem fjögurra manna fjölskylda þarf til að lifa af, og Dagsbrúnarverkamaðurinn hefur 48 þús. Hvernig er húsnæðisvísitalan reiknuð í þeim lið? Hvað er hún? Hún er 10 200 kr. á ári. Ætlar hæstv. fjmrh. að útvega öllum þeim Reykvíkingum, sem til hans koma, sæmilega gott húsnæði fyrir 10 200 kr. húsaleigu á ári? Hvað mörgum reykvískum fjölskyldum ætlar hann að útvega leigu á þetta 900–1000 kr. á mánuði? Ætli jafnvel okkar volduga fjmrh. mundi ekki veitast það dálítið erfitt, jafnvel þótt hann yrði aftur borgarstjóri í Reykjavík. M.ö.o.: ég held því fram, að þessi vísitala sé fölsuð og gefi ekki rétta mynd af því, sem fjölskylda í Reykjavík þarf til þess að lifa af. Hins vegar gefur þessi þáttur um vöru og þjónustu rétta mynd, og meðan það er svo, að Dagsbrúnarverkamaður getur fyrir vinnu 8 tíma hvern einasta dag ársins ekki einu sinni komizt upp í 56 þús. krónurnar, sem hann þarf til þess að borga vörur og þjónustu, þá er rétt að miða við það.

Þetta verða menn að horfast í augu við, þegar menn eru að ræða um framlengingu söluskattsins. Það er nú þegar búið að íþyngja almenningi þannig með vísitölubanninu, með byrjandi atvinnuleysi, með gengislækkuninni og dýrtíðinni í kjölfar hennar, að almenningur þolir ekki meira. Hver dropi, sem við bætist, getur verið nægur til þess, að út af flói, og það væri skynsamlegra af einni ríkisstj. að halda ekki svona rakleitt áfram með óréttlátar álögur, heldur að sjá nokkuð að sér og byrja að reyna að draga í land. Það er kannske ekki okkar fyrst og fremst í stjórnarandstöðunni að reyna að gefa henni góð ráð í því sambandi. Það er svo greinilegt, að hennar stefna er að kollsigla sig, að við ættum náttúrlega ekki að harma það. En hver dagurinn sem líður með versnandi lífskjör, hverjar nýjar álögur, sem á bætast, hvert nýtt óréttlæti, sem framið er af hálfu hæstv. ríkisstj., það knýr menn hins vegar til þess að mótmæla þessu, leggja að henni að hverfa frá villu sins vegar, hætta við þessa röngu efnahagsstefnu, sem er að gera þjóðina fátækari, sem er að leiða atvinnuleysið yfir landið, sem er að leiða efnahagslegt hrun yfir okkar atvinnuvegi. Það er of dýrt að vera að gera tilraunir með löngu úreltar kenningar, eins og þær, sem er verið að gera tilraunir með á Íslandi núna. Við eigum ekki að fara aftur á neina steinöld hvað snertir efnahagskerfið. Við vissum vel, að þau efnahagskerfi, sem fyrir voru á Íslandi, voru gölluð. En þá átti að stíga sporin áfram til þess að reyna að bæta úr þeim, en ekki aftur á bak með því að skipuleggja kreppu í landinu, eins og nú er verið að gera.

Mín till., herra forseti, gagnvart þessu frv. er því, að það sé fellt.