01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Flm. (Þórarinu Þórarinsson):

Herra forseti. Það er óþarft að hafa langa framsögu fyrir þessari till., vegna þess að hún skýrir sig nokkurn veginn sjálf. Efni hennar er það, að Alþingi feli ríkisstjórninni að afla upplýsinga um vaxtakjör atvinnuveganna hjá þeim þjóðum, sem Íslendingar keppa við á erlendum mörkuðum, og vinna síðan að því, að vaxtakjör íslenzkra atvinnuvega verði ekki lakari en vaxtakjör hliðstæðra atvinnuvega hjá framangreindum þjóðum.

Það er svo augljóst mál hvílík nauðsyn það er, að atvinnuvegir okkar séu samkeppnisfærir við atvinnuvegi þeirra þjóða, sem keppa við okkur á erlendum mörkuðum, að um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Það hlýtur þess vegna að verða keppikefli okkar að búa þannig að íslenzkum atvinnuvegum, eftir því sem við framast megum, að þeir séu samkeppnisfærir. Á mörgum sviðum eru okkar atvinnuvegir nú samkeppnisfærir við erlenda keppinauta, t.d. hvað kaupgjald snertir. Kaupgjald er nú mun lægra hér á landi en í nágrannalöndum okkar, og mér hefur verið sagt, að jafnvel þó að fallizt væri á þær kröfur, sem verkamannafélagið Dagsbrún ber nú fram, mundi verkamannakaup samt verða lægra hér en í nágrannalöndum okkar, svo að að því leyti ætti ekki að stafa af slíkri hækkun sú hætta, að atvinnuvegir okkar væru ekki samkeppnisfærir hvað kaupgjald snertir. Hins vegar er það svo á ýmsum öðrum sviðum, að atvinnuvegum okkar eru ekki búin samkeppnisfær kjör við atvinnuvegi í nágrannalöndunum, sem keppa við þá á mörkuðum þar. Og þetta á ekki sízt við í sambandi við vextina. Þeir vextir, sem atvinnuvegirnir verða að búa við, eru nú yfirleitt helmingi hærri eða rösklega það hér á landi en í flestum nágrannalöndum okkar. Það er hægt að gera sér nokkra grein fyrir því, hvað þetta muni þýða, með því að líta á nokkrar tölur hjá bönkunum. eins og t.d. um útlán þeirra, en í nóvemberlok síðasta árs munu útlán banka og sparisjóða hafa numið um 4700 millj. kr., og sennilega hafa þau hækkað síðan. Miðað við þá vexti, sem nú eru, lætur nærri, að vaxtagreiðslur af þessari upphæð á ári nemi nálega 500 millj. kr. Hér eru svo ótaldir vextir af öllum stofnlánum, sem koma ekki inn í þessa upphæð, vextir af útlánum innlánsdeilda kaupfélaganna og margra sjóða annarra, svo að sennilega er ekki fjarri lagi að ætla, að miðað við þá útlánsvexti, sem nú eru í landinu, séu vaxtagreiðslur eitthvað á milli 600 og 700 millj. kr. á ári, og þessar greiðslur allar lenda að sjálfsögðu á atvinnuvegunum með einum eða öðrum hætti. Ef atvinnuvegirnir byggju við svipuð lánskjör og t.d. atvinnuvegir nágrannalandanna, mundi það þýða, að þessi upphæð mundi sennilega alltaf lækka um helming eða rösklega það, eða á milli 300 og 400 millj. kr., og má á þessu sjá, hve erfið aðstaða atvinnuvega okkar er til samkeppni við erlenda atvinnuvegi hvað vaxtakjörin snertir. Þess vegna er nauðsynlegt að taka þetta mál til nánari athugunar og meðferðar og vinna að því, að úr þessum mikla mismun verði dregið.

Það kunna einhverjir að segja, að þetta muni ef til vill hafa það í för með sér, að það yrði að lækka innlánsvexti og draga á þann hátt úr sparifjármyndun í landinu. En í sambandi við það er ekki úr vegi að athuga reynslu annarra þjóða í þessum efnum, og hún er sú, að háir innlánsvextir eru engan veginn trygging fyrir mikilli sparifjársöfnun. A.m.k. í mörgum þeirra landa, þar sem vextir eru lágir, eins og t.d. í Sviss, er sparifjársöfnun einna mest. Vextirnir sjálfir hafa oft og tíðum ekki svo mikið að segja í því sambandi, hver sparifjársöfnunin er, heldur ýmsar aðrar ástæður, eins og t.d. trúin á gjaldmiðlinum eða verðgildi peninganna. En hins vegar er einmitt reynslan sú, að verðgildi peninganna veltur mjög mikið á því, hver samkeppnishæfni atvinnuveganna er. Svisslendingar hafa um langt skeið haft samkeppnisfæra atvinnuvegi. Þess vegna hefur verðgildi peninganna verið traust hjá þeim og það verið undirstaða sparifjársöfnunar þar í landi. Þess vegna mundi það áreiðanlega stuðla að því, að verðgildi peninganna væri traust, ef við tryggðum samkeppnishæfni atvinnuveganna, og það á þann hátt mynda grundvöll að aukinni sparifjársöfnun.

Ég tel ekki ástæðu til þess að færa öllu fleiri rök fram fyrir þessari tillögu. Ég held, að menn hljóti að gera sér ljóst, hvílík nauðsyn það er, að við tryggjum samkeppnishæfni atvinnuvega okkar í sambandi við vaxtakjörin.

Ég sé, að á þskj. 305 hefur hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, lagt fram brtt. En mér finnst. að hún ætti öllu frekar að vera viðaukatill., vegna þess að hún fjallar um allt annað efni, sem að vísu snertir þetta mál, en er um annan þátt þess, og mér finnst. að það gæti þess vegna mjög vel farið saman að samþykkja bæði mína till. og till. hans, en hans till. þyrfti þess vegna ekki að koma í stað minnar, og ef hv. þm. fellst á að flytja þessa till. sem viðaukatill., þá væri ég fús til þess að vera meðflm. hans að tillögunni. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til þess og sé ekkert samræmi í því, að hún sé látin koma í stað þeirrar tillögu, sem ég flyt, og hún látin falla niður.

Þessi till., sem hv. þm. hefur flutt á þskj. 305. fjallar um athugun á ráðstöfun til þess að auka sparifjármyndun í landinu. Það getur að sjálfsögðu vel farið saman að athuga möguleika á sparifjársöfnun í landinu og því að bæta vaxtakjör atvinnuveganna. Hvort tveggja stuðlar að sjálfsögðu að sama marki, því að lækka vextina, eins og till. mín fer fram á, og eins hinu, að stuðla að aukinni sparifjármyndun og draga þannig úr lánsfjárskorti atvinnuveganna, eins og till. hv. þm. fer fram á. Ég mundi hins vegar telja æskilegt, að þessi tillaga hans væri nokkru víðtækari, þannig að hún fjallaði ekki eingöngu um athugun á því, hvaða ráðstafanir séu vænlegastar til þess að auka sparifjármyndun í landinu heldur yfirleitt fjármunamyndun í landinu, t.d. fjármunamyndun hjá fyrirtækjum, því að það er vitanlega ekki síður mikilvægt atriði til þess að bæta úr lánsfjárskorti fyrirtækja, að þeim sé tryggð aðstaða til þess að safna eigin fé. Það er jafnvel enn mikilvægara en hitt atriðið, að það sé safnað sparifé í bönkum. En nú verðum við að viðurkenna það, að á undanförnum árum og áratugum, hefur hvergi nærri verið búið eins vel að fyrirtækjum og vera skyldi eða þeim sköpuð slík aðstaða sem vera skyldi til þess að safna eigin fjármunum og eigin sjóðum. Það má t.d. minna á. að hér í bænum hefur um langt skeið verið lagt á mjög þungt veltuútsvar, sem hefur komið í veg fyrir það, að fyrirtæki hér í bænum gætu komið sér upp nægilegu veltufé. Veltuútsvarið, ef það er lagt saman á undanförnum árum, þá nemur það áreiðanlega orðið hundruðum anilljóna króna og hefur að sjálfsögðu skert möguleika fyrirtækjanna til að eignast eigið fé og draga úr lánsfjárþörfum sinum á þann hátt. Ég vil þess vegna telja eðillegt. að þessari till. frá hv. 11. þm. Reykv. verði breytt þannig, að athugunin verði ekki eingöngu látin ná til sparifjármyndunar í bönkum, heldur líka til fjármunamyndunar hjá fyrirtækjum yfirleitt. Í því sambandi kæmi að sjálfsögðu margt annað til athugunar en það að hækka beinlínis vextina. Það hefur oft verið uppi tillaga um að athuga möguleika til að verðtryggja sparifé. Af hálfu ýmissa þm. Framsfl. hafa verið fluttar tillögur um athugun á því máli, en slíkar athuganir hafa hins vegar ekki farið fram, a.m.k. ekki að neinu ráði, og kæmi það að sjálfsögðu vel til athugunar í þessu sambandi.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst þessar tvær tillögur geta vel farið saman, það sé engin ástæða til þess að víkja minni til hliðar og samþykkja hina till., því að þær fjalla í raun og veru um óskylt efni, þó að þær snerti þetta meginmál lána- og vaxtakjör atvinnuveganna. Ég vildi þess vegna beina þeirri fyrirspurn til flm., hvort hann gæti ekki fallizt á það, að í staðinn fyrir að þessari till. hans væri ætlað að koma í stað minnar, þá kæmi hún sem viðaukatill. og till. yrði svo afgreidd frá Alþingi í því formi, þannig að hún snerti bæði athugun á vaxtakjörum atvinnuveganna og jafnframt á möguleikum til að tryggja. þeim meira veltufé og lánsfé.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.