15.02.1961
Sameinað þing: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Flm. (Þórarinu Þórarinsson):

Herra forseti. Það er liðinn hálfur mánuður síðan rætt war um þetta mál hér í d. Hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) flutti þá ræðu, þar sem hann ræddi nokkuð um þá till., sem ég hef lagt hér fram, og þá brtt., sem hann hefur borið fram. Það komu allmörg atriði fram í ræðu hv. þm., sem mér fannst ástæða til þess að gera nokkrar athugasemdir við, en þar sem nokkuð er nú liðið, síðan þessi umr. fór fram, og sumt af þessum atriðum, sem hann ræddi um, snerti þetta mál ekki beinlínis, heldur miklu fremur hin almennu stjórnmál í landinu, þá get ég að mestu leyti leitt þau hjá mér og snúið mér fyrst og fremst að þeim atriðum, sem snerta þetta mál sjálft.

Hv. þm. sagði, að það væri vafasamt að stofna til samanburðar á kjárum atvinnuveganna hér á landi og í öðrum löndum. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá honum. Ég held, að það sé einmitt gagnlegt fyrir okkur, að slíkur samanburður sé gerður á sem flestum sviðum og við getum þannig gert okkur það gleggra en ella, hvað það muni vera, sem er ábótavant hjá okkur og við mundum geta lagfært. Þess vegna held ég, að ef rétt væri á þessum málum haldið, þá ætti ekki eingöngu, eins og lagt er til í minni till., sem hér liggur fyrir, að gera samanburð á vaxtakjörum atvinnuveganna hér og í nágrannalöndum okkar, heldur líka á ýmsum fleiri þáttum rekstrarins. Ég get þess vegna ekki verið honum sammála um þetta atriði.

Þá sagði hv. þm., að vextirnir hefðu ekki svo ýkja mikið að segja fyrir afkomu atvinnuveganna. Ég þarf ekki að fara mjög mikið út í þetta atriði, vegna þess að þessu var svo rækilega svarað af hv. 5. þm. Norðurl. v., að ég tel, að það, sem hann sagði. sé nokkurn veginn nægilegt svar við því, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði um þetta efni, og vísa þess vegna til þess. En það gefur að sjálfsögðu auga leið, að ef t.d. væru svipuð vaxtakjör hér og í Noregi, þá mundu heildarvextirnir eða sú upphæð, sem atvinnuvegirnir borga nú í vexti samanlagt, geta lækkað um 100 millj. kr. Þegar sú staðreynd er athuguð, hljóta menn að gera sér ljóst, að það hefur ekki lítið að segja fyrir atvinnuvegina, hver vaxtakjörin eru.

Þá var það eitt atriði, sem hv. þm. minntist á alveg sérstaklega og gerði nokkuð mikið úr, sem mér finnst rétt að ræða nokkuð nákvæmlega, og það var það, að hann taldi, að hinir háu vextir væru fyrst og fremst til hags fyrir sparifjáreigendur og það mundi bitna sérstaklega á þeim, ef útlánsvextirnir yrðu lækkaðir og vaxtakjör atvinnuveganna bætt á þann hátt. Ég held, að það sé ekki ófróðlegt í þessu sambandi að athuga baksíðuna á einasta hefti Fjármálatíðinda, sem þm. hefur verið sent. Þar er línurit af útlánum og innlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, eins og þau voru 1. nóv. s.l., og þar er hægt að fá mjög glögga heimild um þetta atriði. Þetta línurit sýnir, að heildarútlánin hafa verið 1. nóv. 1960 4200 millj., og sé reiknað með þeim útlánsvöxtum, sem nú eru, sem má nokkurn veginn segja að séu í kringum 9% til jafnaðar hjá bönkunum. þá nema árlegir vextir af þessari upphæð um 380 millj. kr. Það er það, sem atvinnuvegirnir verða að borga beint og óbeint fyrir þessi útlán hjá bönkunum, 4200 millj. kr. Svo segir hins vegar, að spariinnlánin í bönkunum á sama tíma hafi ekki verið nema 2200 millj. Miðað við þá innlánsvexti, sem nú eru, ef tekið er meðalbal af þeim, mun láta nærri, að þeir séu kringum 7%. Ársvextir af þessari upphæð eru þar af leiðandi í kringum 150 millj. kr., þar að auki veltuinnlán, sem nema 600 millj. kr., af þeim er ekki nema 3% vextir, svo að þessi upphæð gefur ekki af sér nema 18 millj. kr. á ári. Sem sagt, fyrir þessi útlán, sem bankarnir hafa haft 1. nóv. s.l.. sé miðað við þá upphæð og miðað við þá vexti, sem nú eru, þá nema heildarvextirnir af þeim 380 millj. kr. Aftur á móti það, sem kemur í hlut sparifjáreigenda samkv. þessum sömu upplýsingum, eru 150 millj. kr. fyrir spariinnlánin og um 20 millj. kr. fyrir veltuinnlánin eða samtals 170 millj. kr. M.ö.o.: af þeim 380 millj. kr., sem bankarnir taka af þessum útlánum, kemur ekki í hlut sparifjáreigenda nema 170 millj. kr. 210 millj. kr., eða helmingi hærri upphæð, renna til bankanna með einum eða öðrum hætti. Ég held þess vegna, að það muni vera alveg forsvaranlegt og vel hægt að lækka útlánsvexti bankanna t.d. um 2% frá því, sem nú er, eins og við framsóknarmenn höfum lagt til, án þess að skerða innlánsvextina nokkuð, án þess að ganga nokkuð á hlut sparifjáreigenda. Og það, að vextirnir væru lækkaðir um 2%, útlánsvextirnir, án þess að nokkuð væri hróflað við innlánsvöxtunum, sem mér sýnist að hljóti að vera vel hægt samkv. þessari upphæð, það mundi þýða, miðað við þessar tölur, að heildarvaxtaútgjöld atvinnuveganna mundu lækka í kringum 100 millj. kr. Ef til vill kann að vera þannig hagað rekstri bankanna, að þeim sé þannig komið, að þeir þurfi eitthvað lítils háttar að lækka vexti af sparifjárinnlánum, en það er áreiðanlegt samkvæmt þessum upplýsingum, sem hér liggja fyrir, að lækkun þeirra þarf hvergi nærri að vera eins mikil og sú lækkun, sem færi fram á útlánsvöxtunum. Ég held, að með því að athuga hessar staðreyndir geti menn gert sér fullkomlega ljóst, að það er möguleiki til að lækka verulega útlánsvextina og vaxtabyrðina, sem leggst á atvinnuvegina, án þess að skertir séu hagsmunir sparifjáreigenda, svo að teljandi sé, og þess vegna er ekki hægt fyri,r þá, sem berjast fyrir þeim vaxtakjörum atvinnuveganna, sem nú eru, að fela sig á bak við þá röksemd, að þetta sé ekki hægt, vegna þess að þetta gangi út yfir sparifjáreigendur í landinu. Þetta er vel hægt án þess að láta það ganga, svo að nokkru skipti, út yfir sparifjáreigendur í landinu, því að það getur auga leið, að þegar það, sem bankarnir fá fyrir heildarútlánin, eru 380 millj., það, sem sparifjáreigendur fá, er ekki nema 170 millj., þá draga bankarnir hér miklu stærri hluta í sinn vasa en þeir hafa nokkra þörf fyrir og nokkurt réttlæti er. En það getur hver og einn sagt sér það sjálfur, hvort ekki mundi muna neitt um það fyrir atvinnuvegina, eins og nú er ástatt í landinu, ef vextir af viðskiptalánum eru lækkaðir um upphæð, sem svarar í kringum 100 millj. kr., og svo þar við bætist að sjálfsögðu einnig lækkun á stofnlánum og öðrum lánum, sem koma ekki fram í því yfirliti, sem ég hef hér nefnt og ýmsir aðrir sjóðir lána út en viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir. Þess vegna held ég, að ef menn athuga þessi mál nokkurn veginn hlutlaust, hljóti þeir að gera sér ljóst, að það eru verulegir möguleikar til þess að lækka útlánsvextina og bæta vaxtakjör atvinnuveganna frá því, sem nú er, án þess að það þurfi nokkuð að skerða hagsmuni sparifjáreigendanna. Þess vegna er það engin röksemd gegn því. að útlánsvextirnir séu lækkaðir og reynt sé að skapa svipuð vaxtakjör hér á landi og annars staðar eru, að hagsmunir sparifjáreigenda standi þar í veginum.

Þá talaði hv. þm. nokkuð mikið um það, að lágir vextir væru að því leyti óheppilegir, að þeir ýttu undir óarðbæra fjárfestingu. Ég held, að ef við lítum á reynsluna hjá okkur og í öðrum löndum, þá sé þetta staðhæfing, sem getur ekki staðizt, a.m.k. bendir reynsla margra þjóða og okkar sjálfra til þess. Hér á landi hafa á undanförnum árum verið yfirleitt nokkru hærri vextir en annars staðar hafa gerzt, t.d. í nágrannalöndum okkar. Samt heyrðist mér á ræðu hv. þm., að óarðbær fjárfesting hefði verið tiltölulega meiri hér en annars staðar, svo að háu vextirnir hér á landi hafa ekki orðið til þess að koma í veg fyrir það, sem hann taldi óarðbæra fjárfestingu. Við getum svo litið til þeirra landa, sem hafa lága vexti, eins og t.d. Noregur og Sviss. Ég held, að því sé yfirleitt ekki haldið fram um þau lönd og þá alveg sérstaklega ekki um Sviss, að þar hafi átt sér stað mjög mikil óarðbær fjárfesting, vegna þess að vextirnir hafi verið lágir. Sennilega hefur óvíða átt sér stað minni óarðbær fjárfesting en einmitt í Sviss, miðað við önnur lönd, þrátt fyrir það þó að vextir hafi verið þar tiltölulega lægri en annars staðar. Þess vegna er það engin röksemd, að lágir vextir ýti undir óarðbæra fjárfestingu, vegna þess að það eru í raun og veru allt önnur atriði, sem ráða. miklu meira um það og geta ýtt undir hana, og þá ekki sízt verðbólgan, eins og oft hefur verið bent á og ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um að þessu sinni.

Það virtist svo vera niðurstaða hv. þm., að það, sem við ættum að bíða eftir hér á landi til þess að lækka vaxtakjörin, væri nægilega mikið framboð á lánsfé, fyrr væri ekki hægt að lækka vextina. Ég held, að við verðum að bíða æði lengi eftir því að lækka vextina hér á landi, ef við ættum að bíða þangað til því skilyrði yrði fullnægt, að nægilegt framboð verði á lánsfé, því að eins og okkar atvinnuvegum er háttað og eins og uppbyggingin þarf að vera mikil hjá okkur, til þess að við getum komizt á sama stig og aðrir, verður þess áreiðanlega langt að bíða, að hér verði nægilega mikið framboð á lánsfé. Við höfum líka dæmi fyrir augunum frá mörgum öðrum löndum um það, að þar er ekki verið að bíða eftir því með að hafa lága vexti. að það sé nægilega mikið framboð á lánsfé. Ef við lítum til næstu nágranna okkar og þeirra, sem eru okkar helztu keppinautar á fiskmörkuðunum, eins og Norðmanna, verður það upp á teningnum þar, að þar eru vextirnir lágir, þrátt fyrir það þó að þeir geti hvergi nærri fullnægt þeirri þörf, sem þeir hafa fyrir lánsfé, og verða að leita eftir stórfelldum lántökum annars staðar til þess að fullnægja þeim þörfum, sem þeir hafa fyrir lánsfé. Norðmenn hafa haft lága vexti þrátt fyrir þetta, og það hefur gefizt þeim vel, treyst þeirra atvinnulíf, aukið grósku í því. alveg eins og það mundi gera hjá okkur, ef við fylgdum þeirra fordæmi í þessum efnum.

Hv. þm. ræddi nokkuð um sparifjársöfnunina og taldi. að hún mundi glæðast við það, að vextir væru háir. Nú er það alls ekki reynslan hjá okkur, að þetta sé rétt, vegna þess að þótt innlánsvextirnir t.d. væru hækkaðir mjög verulega hjá okkur á seinasta ári, þá hefur sparifjáraukningin sízt verið hlutfallslega meiri þá en áður, heldur einmitt minni, eins og oft hefur verið sýnt fram á hér í hv. d., og þarf ég þess vegna ekki að rifja Það upp. Það er áreiðanlega margt annað en vaxtakjörin, sem hefur miklu meiri áhrif á það, hvort spari,fjáraukningin er mikil eða lítil, og það, sem að sjálfsögðu kemur kannske meira en nokkuð annað í veg fyrir eðlilega sparifjáraukningu, er það, þegar verðbólga er mikil og þegar stöðugt er verið að hringla með gengið. Gengislækkanir eru eitthvað hið versta, sem gert er í sambandi við sparifjármyndunina, því að stöðugar gengislækkanir verða að sjálfsögðu til þess, að menn missa trúna á verðgildi peninganna, og sérstaklega á það við, þegar of langt er gengið í því að fella gengi, eins og tvímælalaust var gert á seinasta þingi. Það hefur einn af hv. þm. í þessari deild fært rök að því, án þess að því hafi nokkurn tíma verið á móti mælt af hálfu stjórnarliðsins, að gengið hafi verið fellt eitthvað í kringum 20% meira en þörf var á. Og það atriði út af fyrir sig að fella gengið þannig 20% meira en réttmætt getur talizt hefur að sjálfsögðu átt miklu meiri þátt í því en nokkuð annað um langt skeið að veikja traust manna á gjaldmiðilnum og vinna á móti sparifjármyndun. Þess vegna er ekkert óeðlilegt, þrátt fyrir það að vextirnir væru hækkaðir á s.l. ári, að þá skyldi reynslan verða sú, að sparifjáraukningin varð tiltölulega minni en hún hefur áður verið, því að það var eðlileg afleiðing af hinni miklu, óeðlilegu gengislækkun, sem átti sér stað á síðasta ári. Menn verða eðillega hvekktir af því að leggja mikið fé fyrir, þegar verið er að hringla þannig með gengið og það lækkar miklu meira en nokkur skynsemi getur mælt með. Og það ýtir að sjálfsögðu ekki undir sparifjármyndunina nú, að nú má stöðugt lesa hótanir um það í stjórnarblöðunum og af hálfu ýmissa stjórnarsinna, að þeir geti vel hugsað sér að lækka gengið aftur innan tíðar. Það gefur svo að segja daglega að lesa þessar hótanir í stjórnarblöðunum og heyra ýmsa talsmenn stjórnarinnar vera að hampa þessu. Hver getur svo ætlazt til þess, að undir slíkum hótunum ríkisstj. og hennar stuðningsmanna séu menn eitthvað sérstaklega ginnkeyptir fyrir að leggja fé sitt fyrir í sparisjóði og banka? Hafa þessar hótanir stjórnarliðsins sennilega átt meiri þátt í því en nokkuð annað, að dregið hefur úr sparifjármynduninni á undanförnum mánuðum miðað við það. sem hefur átt sér stað á árunum á undan. Þess vegna vil ég nú segja það síðast í sambandi við þessar hugleiðingar mínar í tilefni af ræðu hv. 11. þm. Reykv., að ef stjórnarliðið, — og hann er þar ráðamikill maður í þessum málum, — að ef stjórnarliðið hefur verulegan áhuga á því að auka sparifjármyndun í landinu og vinna að því, að hún verði meiri en hún hefur orðið á undanförnum mánuðum, þá eiga þeir að hætta öllum þessum hótunum sínum, að þeir kunni kannske að lækka gengið aftur innan tiltölulega stutts tíma, því að undir slíkum hótunum er ekki hægt að vænta þess, að sparifjáraukningin fari vaxandi í landinu.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil að endingu endurtaka það, sem ég sagði hér seinast, að mér virðast þessar tvær tillögur, sem hér liggja fyrir, till. mín og till. hv. 11. þm. Reykv., þannig vaxnar, að það megi vel sameina þær og samþykkja þær báðar, og ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær málið till athugunar, vinni að því að afgreiða málið á þann hátt. Ef til vill gætum við hv. 11. þm. Reykv. hjálpað að einhverju leyti til þess, að slíkt samkomulag, gæti náðst.