22.02.1961
Sameinað þing: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í D-deild Alþingistíðinda. (2970)

153. mál, vaxtakjör atvinnuveganna

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. (LJós) flutti hér alllanga ræðu við síðustu umr. þessa máls og kom víða við. Margt var það bæði í ræðu hans og eins hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hér talaði áðan, sem tilefni gæfi til aths., en þar sem ræðutíma mínum við þessa umr. er nú lokið samkv. þingsköpum, get ég ekki farið, svo að neinu nemi, út í það að svara þessum hv. þm., nema með því að misnota gróflega þá lipurð, sem hæstv. forseti hefur sýnt mér með því að heimila mér að gera örstutta aths.

Ég vildi þá aðeins víkja að því, að hv. 4. þm. Austf. vék að þeirri yfirlýsingu, sem vínstri stjórnin gaf á sínum tíma fyrir Dagsbrúnarverkfallið í okt. 1958. Til þess að taka af vafa um það, út á hvað þessi yfirlýsing hefur gengið, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa hana upp, en hún hljóðar þannig:

,.Sú meginregla skal gilda við ný verðlagsákvæði eftir gildistöku hins nýja Dagsbrúnarsamninga, að miðað sé við hið samningsbundna kaup við ákvörðun verðlagningar og nýjar verðreglur ákveðnar sem, fyrst, hafa kaupbreytingin teljandi áhrif á verðlagsútreikningina.“

Það er tvímælalaust, að þetta hafa atvinnurekendur skilið sem loforð um það, að þeir fengju að hækka verð á vöru og þjónustu, sem þeir seldu, sem kauphækkununum næmi. Hv. þm. benti að vísu á það, að þrátt fyrir þetta hefði mátt lækka álagningu og taka þannig kauphækkunina aftur, þannig að í yfirlýsingunni hefði í rauninni ekki falizt annað en það, að ríkisstj. mundi virða ákvæði verðlagslaganna um það, að tillit skyldi tekið til kaupgjalds sem kostnaðarliðar. En ef ekki hefði falizt annað en þetta í yfirlýsingunni, þá er hún atvinnurekendum auðvitað einskis virði, og þeir eru það lífsreyndir, að slíkt hefðu þeir ekki tekið gilt sem grundvöll fyrir samningum, enda er vist, að skilningur atvinnurekenda varð ákvarðandi fyrir verðlagninguna, eins og raunar kom fram í ræðu hv. þm. Hitt var auðvitað úr lausu lofti gripið hjá honum, þegar hann hélt því fram, að það að lækka álagningu hefði strandað á sjálfstæðismönnum í verðlagsaefnd, því að þeir áttu þá ekki nema einn fulltrúa af fjórum. Annars er það í rauninni ekkert nýtt, að vinnudeilur hafa verið leystar á þennan hátt eða með loforði ríkisstj. til atvinnurekenda um það, að þeir fá að hækka vöruverðið til samræmis við kaupgjald og velta þannig kauphækkunar yfir á launþegana sjálfa. Þannig hafa allar vinnudeilur í rauninni verið leystar s.l. 15 ár, eins og glögglega kemur fram í þeirri skýrslu, sem Alþýðusambandið lét semja um þróun kaupmáttar launanna síðan 1945. En þetta hefur verið því verði keypt, að kjörin hafa staðið í stað síðan, sem eðlilegt er, þar sem launþegarnir hafa veríð látnir greiða sér kauphækkanirnar sjálfir.

Nú virtist, úr því að hv. þm. afsakaði svo mjög vinstri stjórnina og gerð hennar í því efni, það þó vera skoðun hans, að þetta væri ekki heilbrigt, að raunverulegar kjarabætur fengju verkamenn því aðeins, að atvinnurekendur greiddu þær sjálfir af eigin ágóða. Um það er ég honum út af fyrir sig sammála, en það gefur e.t.v. nokkra mynd af ósamræminu í þessum málflutningi. Hann fór hörðum orðum um það, að þær vinnudeilur, sem þá stóðu yfir, t.d. í Vestmannaeyjum, skyldu ekki hafa verið leystar og gengið að verulegu leyti a.m.k. til móts við kröfur verkamanna. Í því fólst í rauninni, að hann teldi, að nú væri sá möguleiki fyrir hendi, sem hefði ekki áður verið, að atvinnurekendur gætu greitt kauphækkanirnar at gróða sínum. Það var nú gott og blessað, en hinn helmingurinn af ræðu hans gekk bara út á að sýna fram á það, að vegna þess, hvernig efnahagsmálaráðstafanirnar hefðu leikið atvinnuvegina, þá stæðu þeir aldrei verr að vígi með tilliti til þess að bera kauphækkanir en nú. M.ö.o.: helmingur af ræðu hv. þm. gekk út á að sanna, að það væri aldrei meiri möguleiki á því að greiða kauphækkanirnar en nú, en hinn helmingurinn út á að sýna fram á það, að þessir möguleikar væru aldrei minni.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. get ég ekki svarað nema örstutt. Þegar ég minntist á uppbótakerfið, hafði ég auðvitað í huga það uppbótakerfi, sem hefur verið í gildi hér á landi að undanförnu. Þar með er ekki sagt, að ekki væri hugsanlegur möguleiki á að taka eitthvert annað uppbótakerfl, þar sem nægilegs fjár væri aflað til þess að standa straum af uppbótunum. En það uppbótakerfi, sem að undanförnu hefur staðið, hefur ekki fullnægt þeim skilyrðum.

Varðandi það, sem hann sagði um svikin kosningaloforð af hálfu sjálfstæðismanna, þá vil ég aðeins taka það fram, að í kosningastefnuskrá sjálfstæðismanna var það beinlínis tekið fram, að þjóðin kynni að þurfa að herða að sér ólina í bili til þess að treystra efnahagskerfi sitt, og enn fremur hefur oft verið sýnt fram á það af okkur stuðningsmönnum núv. ríkisstj., að til þess að hægt verði að stöðva verðbólguna. þarf að skrá rétt gengi.

Að síðustu beindi hv. þm. til mín þeirri spurningu, hvort hugsanlegt væri að lifa af verkamannslaunum. Það er nú mál út af fyrir sig, að það eru ekki svo ákaflega margar fjölskyldur, sem hafa ekki meira en 4000 kr. mánaðarlaun, klippt og skorið, en það þýðir, að viðkomandi hafi enga eftirvinnu og ekki vinni nema einn maður í fjölskyldunni. Annars er það ekki aðalatriðið í þessu sambandi, heldur hitt, að það er ekki vafi á því, að margur á erfitt með að komast af. og eðlilegt, að fólkið vilji bæta kjör sín. Það, sem hins vegar er aðalatriðið — því að það má lengi um það deila, hvað menn þurfi há laun til þess að geta lifað, — er það, hvort kauphækkanir, meiri eða minni, geta leitt til runverulegra kjarabóta. Ég skal ekki lýsa hér neinni skoðun á því, hvort slíkir möguleikar séu fyrir hendi nú, en aðalatriðið er, að ef það fer svo, eins og hefur verið undanfarin 15 ár, að verðlagið hækki aðeins til samræmis við kauphækkanir, þá eiga menn jafnerfitt með að lifa af laununum og áður. Það er þetta, sem mestu máli skiptir frá hagsmunasjónarmiði launþeganna. að þeir geri sér grein fyrir, þó að reynt sé að dylja þennan sannleika af ýmsum forustumönnum þeirra.