22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

185. mál, Héraðsskóli á Snæfellsnesi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till þessi er á þá lund að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að atlhuga möguleika á byggingu héraðsskóla á Snæfellsnesi.

Samkv. upplýsingum, sem fengnar hafa verið hjá fræðslumálastjóra og fjárhaldsmanni skóla, eru allir héraðsskólar í landinu yfirfullir, og þeir unglingar skipta hundruðum, sem ekki hafa fengið inngöngu í skólana. Nýlegt dæmi, er samvinnuskólinn var gerður að heimavistarskóla í sveit sýnir, að við það jókst aðsókn að honum stórlega, og hefur að jafnaði ekki komizt í skólann nema helmingur þeirra sem þreyttu inntökupróf. Af þessu er augljóst, að þörf fyrir heimavistarskóla í sveit fyrir unglinga er mikil, hefur verið vaxandi síðustu ár, og er mjög rík ástæða til að ætla, að hún muni halda áfram að vaxa. Þær röksemdir, sem í fyrstu voru færðar fyrir héraðsskólahreyfingunni hér á landi, eru enn í fullu gildi.

Það hefur nú orðið nokkurt hlé á byggingu héraðsskóla í landinu, og er tillaga þessi flutt í fyrsta lagi til að hreyfa því, hvort ekki er hægt að koma skrið á það mál á ný, fá það undirbúið og síðan framkvæmt, að haldið verði áfram að byggja upp héraðsskóla eins og aðrar greinar skólakerfisins.

Í öðru lagi er um leið bent á mjög æskilega staðsetningu fyrir næsta héraðsskólann, á Snæfellsnesi vestanverðu. Slík staðsetning mundi verða í næsta nágrenni við þrjú ört vaxandi útgerðarþorp, og gæti skóli farið þar mjög vei. Slíkri staðsetningu til styrktar mætti benda á þá staðreynd, að á Snæfellsnesi hefur einn af klerkum þjóðkirkjunnar fundið það upp hjá sjálfum sér að reka á heimili sínu unglingaskóla með góðum árangri, og hefur aðsókn að þeim einkaskóla verið mjög mikil.

Loks mætti minnast þess, að í sambandi við vaxandi tal um ferðamál hér á þingi er talað um gistihúsarekstur í sambandi við héraðsskálana, og gæti slíkt mjög vel komið til greina, ef um það væri hugsað frá upphafi.

Herra forseti. Ég leyfa mér að leggja til. að umr. verði frestað og till vísað til hv. allshn