19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

130. mál, söluskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði alls ekki ætlað mér að hafa afskipti af þessu máli við 2. umr., en hæstv. fjmrh. sá sérstaka ástæðu til þess að tileinka mér kafla úr sinni ræðu í dag um málið og það með nokkuð einkennilegum hætti. Hann gerði mér sem sé upp þau orð eða þann málflutning, að ég hefði lagt aðaláherzlu á það í því, sem ég sagði um þetta mál, væntanlega við 1. umr., að af því að söluskatturinn hefði heitið bráðabirgðasöluskattur, þá hefði í því fólgizt algert fyrirheit og raunar loforð um, að hann yrði ekki endurnýjaður. En þennan málflutning viðhafði ég alls ekki. Ég lagði þvert á móti áherzlu á, að ástæðan til þess, að menn fyndu nú mjög að því, að þessi skattur væri framlengdur, væri sú, að í öllum umr., sem hefðu átt sér stað í fyrra um málið, hefði tónninn verið sá, að þjóðinni ætti að skiljast, að þessi skattur mundi settur af sérstökum ástæðum, sem ekki mundu verða fyrir hendi framvegis. Það var sagt í öllum umr., að þetta væri aðeins gert í eitt sinn. Það var á þetta, sem ég lagði aðaláherzlu.

Annars kann það náttúrlega ekki góðri lukku að stýra, þegar hæstv. fjmrh. hagar sér þannig við þessar umr., að hann er hvergi nærri, þegar um málið er rætt, og lætur svo kannske bera sér einhverjar meira og minna óábyggilegar fréttir. En þannig kom hæstv. ráðh. fram fyrir helgina, að hann flutti hér ræðustúf og stökk síðan á brott og var hér ekki allt kvöldið, þótt áfram væri haldið fram á nótt með umr. um málið. Er slíkt auðvitað stórlega vítavert. Og þá er auðvitað að bæta gráu ofan á svart, þegar ráðh. er svo alveg úti á þekju, eins og hann hlýtur að verða með þessum hætti, að hann skuli koma hér og gera mönnum upp málflutning, sem þeir hafa ekki að neinu leyti viðhaft.

Mér er vel ljóst, að það hefur oft komið fyrir áður, að ákvæði, sem hafa verið nefnd bráðabirgðaákvæði, hafa verið framlengd. En það fer allt eftir því, hvernig á málinu hefur verið haldið og hvað um það hefur verið sagt, hvort hægt er að telja, að öðruvísi sé farið að en ráð var fyrir gert í öndverðu. Það fer ekki eftir heiti málsins, heldur eftir því, hvernig á því hefur verið haldið. Og ég vil leyfa mér að minna á, fyrst hæstv. ráðh. er farinn að ræða um þetta nú, að í fjárlagafrv., sem flutt var, eða efnahagsmálafrv., — ég man ekki nákvæmlega í grg. hvors málsins það var, — var því lýst yfir rétt í byrjun meðferðar efnahagsmálanna, að innflutningssöluskatturinn yrði ekki hækkaður. Sú yfirlýsing kom frá hæstv. fjmrh., að hann yrði ekki hækkaður, — innflutningssöluskatturinn. En það voru ekki liðnar nema fáar vikur, þegar ákveðið var að meira en tvöfalda innflutningssöluskattinn. Og var það nokkur furða, þegar svo þessari till. fylgdi, að þetta væri fyrst og fremst vegna þess, að álögurnar yrðu aðeins fyrir níu mánuði ársins, — var þá nokkur furða, þegar þetta var allt lagt saman, þó að menn drægju þær ályktanir af þessu, að á þessum skatti þyrfti ekki að halda á nýjan leik?

Ég benti líka á, að það kemur mjög greinilega fram í áliti norska hagfræðingsins, sem fenginn var af hendi hæstv. ríkisstj., að honum hafði verið sagt, — það hafði verið lögð áherzla á það við hann, það var augljóst á orðalagi hans, — að þessi skattur ætti að vera aðeins til bráðabirgða, og það var þó komið fram á sumar, að ég hygg, þegar umr. fóru fram við hann. Á þetta benti ég líka, en alls ekki heiti skattsins út af fyrir sig.

Þá var annað atriði, sem hæstv. ráðh. drap einnig á eða kom einnig með, og það var þetta margumtalaða dæmi, sem hann kemur ætíð með og segir, að skattalagabreytingar og tollalagabreytingar þær, sem gerðar hafa verið af hendi núv. ríkisstj., hafi komið sér heldur betur fyrir meðalfjölskyldu en það ástand, sem var. Auðvitað dettur engum í hug að rengja tölur hagstofunnar. Hagstofan er bara beðin að reikna út vissa liði, sem eru slitnir úr samhengi, eins og ég greinilega sýndi fram á fyrir helgina, — sem eru slitnir úr samhengi og settir upp út af fyrir sig til þess að gefa falska mynd af þeim áhrifum, sem efnahagsmálastefna ríkisstj. hefur haft.

Það er beðið um að reikna út, hvað hækkunin nemi á vísitölufjölskylduna af söluskattinum, og síðan er dregin frá lækkunin, sem verður vegna afnáms 9% söluskattsins og útsvaranna og tekjuskattsins. Þetta er það, sem hagstofan gerir auðvitað. Það er laukrétt. En svo misnotar ráðh. þessa skýrslu hagstofunnar í blekkingaskyni til þess að reyna að halda því að mönnum, að þetta þýði, að eiginlega hafi engar kjaraskerðingar átt sér stað í sambandi .við ráðstafanir ríkisstj. En hvað er nú til í því?

Það er nú í fyrsta lagi, að ráðh. biður hagstofuna að draga þarna frá 9% söluskattinn, sem var afnuminn. Nú veit ráðh., að 9% söluskatturinn rann að verulegu leyti í útflutningssjóð, og hann átti því að falla niður, um leið og gengislækkunin var sett á, og ef hæstv. ráðh. vildi láta koma hér fram rétta mynd, átti hann auðvitað að biðja hagstofuna að reikna inn í dæmið áhrif gengislækkunarinnar, sem kom á móti 9% söluskattinum. Það gerði ráðh. ekki. Það datt honum ekki í hug að biðja um, vegna þess að þá víssi hann auðvitað, að í ljós kom, hvaða áhrif þessar ráðstafanir höfðu í heild.

Ráðh. lætur draga frá nýju sköttunum þá skatta, sem felldir eru niður, þó að þeir hafi að verulegu leyti runnið í útflutningssjóð, en ekki reikna aftur gengislækkunina sjálfa til útgjalda í dæminu.

Hér til viðbótar kemur svo, að ekki tekur hæstv. ráðh. heldur með í dæmið alla þá skatta, sem settir voru inn í ríkissjóð að nýju í fyrsta skipti nú. Ekki er þarna tekinn inn benzínskatturinn, sem áður rann í útflutningssjóð, en ráðh. hirti í ríkissjóðinn. Auðvitað eru það nýjar álögur í þessum skilningi, því að sá skattur átti að detta niður, þegar gengislækkunin var sett í staðinn fyrir rann.

Þetta rammadæmi hæstv. ráðh. hefur enga raunhæfa þýðingu. Það er auðvitað laukrétt sett upp af hagstofunni, þeir liðir, sem hún er beðin að reikna. En það eru bara einstakir liðir slitnir úr samhengi til þess að gefa ranga mynd af því, sem raunverulega hefur gerzt, enda mundi ekki kaupmáttur tímakaupsins hafa lækkað um 12% síðan í októbermánuði 1958, ef þessi rammaklausa hæstv. ráðh. hefði einhverja þýðingu í sambandi við umr, um kjaramálin.

Svo vil ég aðeins segja þetta að lokum, af því að ég ætlaði ekki að fara að ræða hér um málið almennt: Ég veit ekki, í hve mikinn vanda hæstv. ríkisstj. er komin með þessi framlengingarmál sín, og ég vil ekki fara að efna til þess, að það verði að hafa hér þinghald yfir jólin út af þeim, þó að ég telji, að það hefði alls ekki átt að fresta þinginu, og mun ég færa rök fyrir því, þegar þar að kemur. Ég mun því ekki tefja þessa umr. með því að ræða meira almennt um málið. En ég vil aðeins segja að lokum: Hæstv. ráðh. hefur ekkert svarað þeim fsp., sem hér hafa verið fluttar, bæði af hv. 8. þm. Reykv. (ÞÞ), mér og fleirum, um það, hvort ríkisstj. ætli ekkert að gera til þess að bæta upp kjaraskerðinguna, eins og hún nú liggur fyrir, og hvort ríkisstj, dettur það yfirleitt í hug, að þetta geti staðið, eins og það er nú, t.d. þegar litið er á, hvernig verkamannakaup er og kostnaðurinn við að lifa er orðinn. Þessu hefur hæstv. ráðh. engu svarað. Hann segir það eitt, að það sé hagsmunamál launþeganna, að ráðstafanir ríkisstj. takist. Hvað meinar hæstv. ráðh. með, að þær takist? Við sjáum nú, hvað þegar er orðið. Það er þá væntanlega ekkert óframkomið annað en að það takist að koma á enn meira atvinnuleysi en nú þegar er orðið. Það mundi víst heita, að samdráttarstefnan og kjaraskerðingarstefnan takist. Ég veit ekki, hvað hæstv. ráðh. er að fara með svona yfirlýsingum.