19.12.1960
Neðri deild: 42. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

130. mál, söluskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mikið þessar umr. En það voru tvö atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem hann hélt hér áðan, sem ég vildi gera stuttlega aths. við.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að þær tölur, sem ég hefði nefnt hér áðan í sambandi við þær skattalækkanir og skattahækkanir, sem hæstv. ríkisstj. hefði framkvæmt, væru rangar. Því einu er til að svara í þessu efni, að allar tölur, sem ég nefndi, eru frá hæstv. ráðh. sjálfum eða úr frumvörpum, sem hann hefur lagt fram hér á Alþ. Samkv. þeim nemur sú skattalækkun, sem hann tók inn í útreikninga sína í sambandi við framfærsluvísitöluna og hér hefur verið rætt um, þeim upphæðum, er ég nefndi. Samkv. fjárlagafrv. í fyrra nemur tekjuskattslækkunin 75 millj. kr. og samkv. útsvarslagafrv., sem þá var lagt fram, eða grg., sem fylgdi því, nam útsvarslækkunin samanlagt á heildarútsvörunum 55 millj. kr. Um söluskattinn, sem var lagður á iðnaðarvörur, er það að segja, að hann rann að langsamlega mestu leyti í útflutningssjóð. Hitt er hins vegar rétt, ég skal viðurkenna það, hjá hæstv. ráðh., að nokkur hluti þessa skatts rann í ríkissjóð, eða að því er áætlað var 35 millj. kr. Samtals gera þá þeir skattar, sem voru afnumdir og hæstv. ráðh. vitnar í og koma inn í framfærsluvísitöluna, 165 millj. kr. eftir þeim útreikningum, sem fyrir liggja frá hæstv. ráðh. sjálfum, þó að hann vilji nú rengja það. Lækkanirnar nema sem sagt 165 millj. kr. samkv. áætlun hæstv. ráðh. Aftur á móti eru hinir nýju skattar, sem hann tekur með inn í útreikninga sína, innflutningssöluskatturinn, sem hér er verið að ræða um, og smásöluskatturinn, áætlaðir í fjárlagafrv. núna 353 millj. kr., eða rösklega helmingi hærri. Og það getur hver sagt sér það sjálfur, hve mikið af þessum sköttum sem kann að koma beint inn í útreikninginn um framfærsluvísitöluna, að þá er það alveg óhjákvæmilegt, að skattar, sem nema 350 millj. kr., hljóta að koma harðar við almenning en skattar, sem nema 165 millj. kr. Þetta held ég að hverjum hljóti að verða ljóst, sem vill líta á þetta mál af sanngirni, þó að það megi kannske halda því fram, að á fyrsta stigi komi ekki nema nokkur hluti þessara nýju skatta inn í framfærsluvísitöluna. En þessir tveir nýju skattar, sem hér um ræðir, eru hins vegar ekki nema nokkur hluti þeirra skatta, sem hafa verið lagðir á í fjármálaráðherratíð núv. fjmrh. Þeir eru miklu meiri en þetta, þannig að það er algerlega rangt að bera aðeins saman þessar skattalækkanir og skattahækkanir. Þessir útreikningar þyrftu að vera miklu víðtækari, ef þeir ættu að vera réttir.

Það, sem segir þess vegna langsamlega mest til um það, hvort kjör almennings hafa versnað eða batnað vegna þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. hefur gert, eru þeir útreikningar, sem hafa verið gerðir á því, hver kaupmáttur launanna sé fyrir þessar ráðstafanir og eftir þær. Og þeir útreikningar sýna, að kaupmáttur launanna hefur lækkað a.m.k. um 12–15%. Það sker alveg úr um það, hvort þessar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hafa haft kjaraskerðingu í för með sér eða kjaraskerðingu ekki. Og þá útreikninga hefur hæstv. fjmrh. ekki treyst sér til að vefengja. — Það var í tilefni af þessum upplýsingum, sem ég beindi þeirri fsp. til hæstv. fjmrh., — og vegna þess að sú von hafði brugðizt, að þessi skattur yrði afnuminn, sem nú er verið að ræða um, — hvaða ráðstafanir ríkisstj. ætlaði sér að gera til að draga úr þeirri miklu kjaraskerðingu, sem hér hefur átt sér stað.

Hæstv. fjmrh. hefur enn ekki svarað þessu á annan veg en þann, sem er náttúrlega algerlega út í loftið, að bezta kjarabótin, sem almenningur getur fengið, sé sú, að efnahagsmálastefna ríkisstj. heppnist? Á að skilja þetta svar hæstv. ráðh. þannig, að ríkisstj. ætli ekki að gera neinar ráðstafanir, heldur fylgja áfram þeirri stefnu, sem nú er, algerlega óbreyttri, sem mundi þá ekki aðeins þýða það, að sú kjaraskerðing, sem nú er orðin, mundi haldast, heldur mundi kjaraskerðingin verða miklu meiri í framtíðinni, vegna þess að sú stefna, sem nú er fylgt, mun koma til með að hafa vaxandi samdrátt í för með sér, vaxandi atvinnuleysi, vaxandi kjaraskerðingu, þannig að þótt verkamönnum sé núna reiknuð 48 þús. kr. árslaun, með því að þeir hafa dagvinnu dag hvern, eins og taxtar gera ráð fyrir, þá mundi vinnan dragast saman og þessi upphæð lækka, vegna þess að atvinnuleysið mundi verða þess valdandi, að menn fengju ekki fullan vinnutíma. Er það þetta, sem hæstv. ráðh. er að prédika, — ekki aðeins það, að kjaraskerðingin, sem nú er, skuli haldast, heldur skuli hún aukin með þeirri stjórnarstefnu, sem nú er fylgt? Annað varð ekki ráðið af þeim svörum, sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. hér áðan.

En ég vil þá spyrja hæstv. fjmrh. að því og biðja hann að svara því alveg afdráttarlaust: Álítur hann, að það sé mögulegt fyrir nokkuð stóra fjölskyldu, 4—5 manna fjölskyldu t.d., að lifa á 48 þús. kr. árslaunum, eins og eru þau laun, sem verkamenn hafa nú? Álítur hæstv. ráðh., að það sé sanngjarnt, og álítur hann, að það sé hægt að lifa mannsæmandi lífi fyrir þessi laun? Mundi t.d. hæstv. ráðh. treysta sér til þess að lifa á þessum launum sjálfur? Það væri mjög freistandi að heyra hans svar við því. En það virðist vera það svar, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, að það eigi að bjóða ekki aðeins verkamönnum, heldur líka iðnaðarfólki, verzlunarfólki og skrifstofufólki, að lifa ekki aðeins á 48 þús. kr. árslaunum, heldur jafnvel lægri tekjum, ef óbreyttri stjórnarstefnu verður haldið áfram. Þess vegna vil ég biðja hæstv. ráðh. að svara því alveg afdráttarlaust: Álítur hann, að það sé mögulegt að lifa mannsæmandi lífi á þessum tekjum, og mundi hann sjálfur treysta sér til þess að gera það?