30.01.1961
Neðri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

151. mál, fjárreiður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, skipun nefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér finnst afar eðlilegt, að umr. um till eins og þessa, till um skipun nefndar samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að rannsaka vissar fjárreiður SH og fleiri atvinnurekenda, blandist saman við þær deilur, sem verið hafa og enn eru um kjör íslenzkra sjómanna. Því hefur nefnilegs verið haldið fram af ýmsum aðilum, að fiskverð hér á landi hafa verið ákveðið lægra en ástæða væri til og réttmætt væri, vegna þess að vissar afætur hafi tekið til sín nokkurn hluta af verðmæti íslenzkra sjávarafurða, ýmist í sölumeðferðinni ellegar í sambandi við aðra þjónustu veitta sjávarútveginum í ýmsum myndum, m.a. í gegnum sölu olíu, í verzluninni á salti og veiðarfærum, ef til vill með ákvörðun of hárra fragta á flutningi íslenzkra sjávarafurða á erlenda markaði, og sú afætustarfsemi komi þannig til með að taka meiri hlut af verðmætum framleiðslunnar en ástæða sé til og safna gróða á hendur þeim aðilum, sem þá þjónustu annast. Einnig hafa menn látið sér detta í flug og haldið því fram, að vátryggjendur tækju fullmikinn hlut til sín af andvirði íslenzkra sjávarafurða í sambandi við tryggingar skipa og annarra verðmæta í þjónustu sjávarútvegsins og að vaxtaokrið í landinu legðist svo þungt á íslenzkan sjávarútveg, að það yrði þess valdandi, að verðið til framframleiðendanna, sjómannanna og útgerðarmannanna, yrði að þessu öllu frádregnu ákveðið allt of lágt. Þetta er því eitt og sama málið.

Hér er farið fram á, að rannsakaður sé einn liður þessara mála, það sé rannsakað, hvort SH sé sönn að því eða saklaus að því að hafa tekið of mikið til sín af verðmæti þess fisks, sem hún hefur haft til sölumeðferðar. Ég fyrir mitt leyti teldi eðlilegast, að SH væri ánægðust með það allra aðila að fá á sig slíka rannsókn, svo að hún gæti fengið fyrir því sannanir, að hún væri saklaus af þessum sakargiftum, hún hefði ekki stungið of miklum hlut af andvirði íslenzkra sjávarafurða í sinn vasa, of hátt fiskverð væri því ekki afleiðing af því. En mér hefur hins vegar fundizt, að þeir, sem hér hafa rætt um þetta mál og andmælt hv. frsm., hv. 3. þm. Reykv., hafa litið þessa rannsókn óhýru auga og talið þetta fyrst og fremst árás á SH. Einkanlega kvað hv. 1. n. Vestf. mjög fast að orði um það, að það, að flm. till bæði ekki einnig um slíka rannsókn á Samband ísl. samvinnufélaga það sýndi vinsemd hans við það fyrirtæki, og þá mátti álykta, að þetta væri fjandskaparbragð hans við SH. Þetta álít ég hinn mesta misskilning. Hér eru uppi ákveðnar sögur um það að tekið sé til hliðar mikið fjármagn af hinum ýmsu aðilum, sem koma við fyrirgreiðslu eða þjónustu við sjávarútveginn, og það hlýtur að minnka hlutskipti þeirra manna, sem eiga þarna jafnháan siðferðilegan rétt, þ.e.a.s. bæði sjómanna og útgerðarmanna.

Ég lýsi því yfir að ég er eindregið fylgjandi því, að slík rannsókn, sem hér er lagt til að fram skuli fara, verði framkvæmd. Ég álít, að hún eigi að geta upplýst það, sé hún vel og vandlega og hlutdrægnislaust af hendi leyst. En það ætti að vera tryggt með kosningu slíkrar nefndar, fimm manna nefndar innandeildarmanna, að það gæfi þá viðhlítandi vitneskju um það, hvort SH sé sek um það að hafa tekið of mikið fé fyrir sína þjónustu og þar með orðið þess valdandi, að minna hafa komið og komi í hlut sjómanna og útgerðarmanna. Ég sé ekki. að Sölumiðstöðin þurfi neitt að kveinka sér undan því, þó að í fyrsta dagi væri rannsakað hjá henni, hversu mikið fé SH hafa dregið út úr rekstri sjávarútvegsins á Íslandi og sett fast í fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi og hvernig þau fyrirtæki standi fjárhagslega, hverjir séu eigendur þeirra og hvernig fjárhagslegum afrakstri þeirra hafa hingað til verið ráðstafað. Hér er nú orðið upplýst og viðurkennt í umr., hvað menn og vissu, að SH hefur komið á fót stórum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi, og það er hald manna, að þessi fyrirtæki hafa ekki getað komizt á fót nema fyrir fé, sem hafa verið tekið af íslenzkum sjávarafurðum, af andvirði þeirra á erlendum mörkuðum, og verðið verið skammtað lægra sem því nam.

Hv. 3. þm. Austf. gaf um þetta upplýsingar hér í umr., og ég held, að hann hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að þarna hafa átt sér stað fjárfesting upp á 149 millj. kr. eða eitthvað nálægt því. Það er góðra gjalda vert, að hann sem kunnugur innanhúss í SH gefi Alþ. sem skilmerkilegastar upplýsingar um þetta fyrirtæki og starfsemi þess í sambandi við þetta mál. En það jafngildir engan veginn hlutlausri ýtarlegri rannsókn, sem óskað er að fram fari, og það er jafnmikil þörf eftir sem áður, þó að hann hafa af nokkurri hreinskilni og kunnugleika gefið upplýsingar, að hlutlaus rannsókn þingkjörinnar nefndar fari fram og skoði þetta allt saman ofan í kjölinn. Og úr því að hv. 3. þm. Austf. er fús til að gefa upplýsingar um það, sem honum er kunnugt um, þá ætti honum að vera enn ljúfara, að hin ýtarlegasta rannsókn fari fram á þessu, því að hann vill gefa í skyn, að hér sé ekkert óhreint í pokahorninu og Sölumiðstöðin hafa ekkert það gert, sem hún þurfi að blygðast sín fyrir eða draga dul á.

Í öðru lagi er hér spurt um, hversu mikið fjármagn SH hafi í veltu í óseldum fiski erlendis. Það væri mjög fróðlegt líka að fá að vita það. Það er vafalaust mjög breytilegt, en hlýtur alltaf eitthvað að vera, og að fengnum upplýsingum hlýtur maður að fara að hugleiða, hvort þetta væri óeðlilega mikið eða hvort það væri nákvæmlega það, sem minnst væri hægt að komast af með. Ef þetta fyrirtæki heldur óeðlilega miklu fjármagni í sinni vörzlu og lætur gjaldeyrisskil og greiðslur koma óeðlilega seint til hinna réttu eigenda fisksins, þá er þarna um rangan verknað að ræða. En ef þetta gengur allt eins fljótt og unnt er og ekki er haldið meira fjármagni en nauðsynlegt er vegna þessarar þjónustu, þá er SH að þessu atriði saklaus, og um það vil ég líka fá niðurstöðu óhlutdrægrar rannsóknarnefndar og læt mér þar ekki nægja hið bjarta yfirbragð Einars Sigurðssonar, hv. 3. þm. Austf., og hans orð eins um það. Hann er þarna aðili, sem er að gefa þær upplýsingar, sem honum þóknast.

Í þriðja lagi vill tillögumaður fá rannsókn á því, hversu mikið fé SH eða einstakir stjórnendur hennar hafa lagt í hliðarfyrirtæki, sem annist viðskipti, er annist sjávarútveg, svo sem tryggingar, flutninga, innkaup og annað því um líkt. Nokkrar upplýsingar um þetta gaf hv. flm. líka. En það er alveg eins og um hin atriðin, ég álit, að það sé ekkert fullnægjandi, nema einmitt að áhlutdrægur aðili rannsaki þetta og skýri frá, hvað sé hið rétta í því. Skal ég þó taka það fram, að ég er ekkert að rengja þær upplýsingar út af fyrir sig, sem hv. 3. þm. Austf. hefur hér gefið. Ég er ekki einu sinni viss um, að hann viti um allt það, sem hér þyrfti að fást vitneskja um samkv. þessari fyrirspurn.

Eitt af því, sem sagt er í sambandi við fyrirtæki Sölumiðstöðvarinnar í Bretlandi, er það, að sá rekstur hafa gengið mjög illa. Þegar Sölumiðstöðin hafa verið búin að koma upp verksmiðju sinni í því gamla íshúsi, sem hún keypti niðri við Thames, og fór að koma á fót sölustöðum víðs vegar um borgina, þá er mér tjáð, að brezkir fisksöluhringir hafi tekið sig til og skipulagt það vandlega að fylla sem allra flestar matsöluverzlanir á sölusvæði þessara íslenzku fyrirtækja, sölufyrirtækja, sem áttu að annast sölu og dreifingu hins íslenzka fisks, og þannig mettað markaðinn í kringum hin íslenzku smáfyrirtæki og komið í veg fyrir nálega alla sölu, þannig hafa þessar matvörur legið óseldar. Og það mun rétt vera, sem hv. 3. þm. Austf. upplýsti, að þessar vörur, eftir að búið var að matreiða þær á þennan hátt, hafa ekki mikið geymsluþol og þarna er því mikil hætta á, ef salan er treg, að mikil verðmæti verði ónýt. Um það atriði veit hv. 3. þm. Austf. vafalaust nokkuð, hvort þessar sögur eru réttar eða ekki. En ég tók eftir því, að hann sagði, að fyrst framan af hefði starfsemin í Englandi gengið frekar illa, og bendir það frekar í áttina til þess, að þær sögur, sem hér eru sagðar um innilokun þessara dótturfyrirtækja SH innan valdsviðs brezkra fisksölu- og matsöluhringa, séu að einhverju leyti meira eða minna réttar.

Í 6. liðnum er spurt um, hversu mikið fé bankar ríkisins hafi lánað einstökum meðlimum Vinnuveitendasambands Íslands, um hve langan tíma og hvernig þeir standa í skilum með það, og er þá komið út fyrir það, sem snýr að SH, en allfróðlegt gæti verið samt sem áður að fá áreiðanlegar upplýsingar um það.

Ég er þeirrar skoðunar, að það þyrfti að rannsaka miklu fleira en þetta, eða alla þá meginþætti, sem talið er að valdi því, að íslenzkt fiskverð sé lægra til íslenzkra sjómanna og útgerðarmanna heldur en eðlilegt sé, þ. á m, áhrif vaxtanna, og þar hefur maður sem vísbendingu upplýsingar, sem hæstv. sjútvmrh. gaf í áramótagrein sinni. Hann sagði, að tvennar ráðstafanir hefðu veríð gerðar viðvíkjandi rekstrarmöguleikum sjávarútvegsins á árinu 1961, sem sé að fella niður 21/2% gjaldið í útflutningssjóðinn, sem okkur er kunnugt um, og lækkun vaxtanna um 2%. Og ef ég man rétt, fullyrti hæstv. ráðh., sem þekkir þessi mál mjög vel, að þessar tvær ráðstafanir ættu að geta hækkað fiskverðið á Íslandi um 20 aura á kg. Og útreikningurinn mun vera á þá leið. að niðurfelling gjaldsins í útflutningssjóð samsvari 4 eða 5 aura hækkun á kg og 2% lækkun vaxta um það bil 14–15 aurum á kg. Er það ekki það rétta — eða er það öfugt? (Gripið fram í.) Nú er það öfugt, að lækkun vaxtanna um 2% valdi 4–5 aurum á kg og hinn liðurinn 14–15, en 20 aurum samtals eða um það bil.

Það er því upplýst með þessu, að ef vextirnir hefðu verið færðir niður í það sama og þeir voru. þá hefði fiskverðið þó getað hækkað eftir þessum upplýsingum hæstv. ráðh. um 10–20 aura, og eru þó ýmsir þeirrar skoðunar, að fyllsta ástæða væri til að fara með vextina lægra. að því er snertir a.m.k. vexti af afurðum, sem bíða frekari sölumeðferðar. Það hefur lengi verið hald manna og raunar rökstudd skoðun, að olíuhringarnir tækju áþarflega mikinn gróða í sinn hlut í gegnum verzlun olíu og benzíns og það væri réttlætanlegt að takmarka meira þann gróða á þann hátt, að útgerðin, undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, fengi þessa nauðsynjavöru á hagkvæmara verði. En allt, sem dregur úr rekstrarkostnaði útgerðarinnar, getur auðvitað orðið til þess að gera henni fært að standa undir hærra fiskverði. Fjöldamargir menn eru líka þeirrar skoðunar, að útvegun á salti og veiðarfærum eigi að vera þjónusta, sem innt sé af hendi af ríkinu sjálfu án ágóða án gróða, þannig að sjávarútveginum séu tryggðar þessar vörur á réttu verði. Það er að sjálfsögðu frá sjónarmiði ýmissa manna talið gott, að eigendur þeirra flutningaskipa, sem annast flutning á íslenzkum fiski til erlendra markaða, standi sig vel og græði. En hins vegar teldi ég þó öllu meiri nauðsyn á því, að þeirra rekstur væri aðeins tryggður, þar fengju slíkir aðilar fyrir sína starfsemi og þjónustu eingöngu það, sem rekstrinum væri nauðsynlegt, til þess að hann væri rekinn og haldið í víðunandi horfi, en að fragtirnar væru hafðar svo lágar, að framleiðendur fisksins fengju í sinn hlut allt það, sem þeim réttilega bæri, og það gæti komið fram í hækkuðu fiskverði. Ef óhóflegur gróði safnast þarna fyrir, þá getur hann ekki verið fenginn öðruvísi en með því að taka of háar fragtir, sem hlýtur auðvitað að verka lækkandi á fiskverðíð. Sama er um vátryggingarnar. Það hefur verið talið og meira að segja verið látið í það skína frá hendi hæstv. ríkisstj., að það þyrfti að rannsaka betur tryggingastarfsemina, það sé ef til vill hugsanlegt að lækka þær upphæðir, sem útgerðin borgi nú í tryggingar, og stórkostlegar ásakanir hafa nýlega komið á prenti viðvíkjandi tryggingafélagi á einum stað, þar sem því var beint dróttað að þessu fyrirtæki, að það tæki óhæfilega há iðgjöld og hafa falið það í röngu bókhaldi, hversu gífurlegar upphæðir væru teknar af útgerðarmönnum umfram þarfir. Það er vafalítið, að tryggingastarfsemi mætti koma fyrir á þann hátt, að hún legðist léttar á útgerðina í landinu en hún gerir, og þyrfti auðvitað að gera þær ráðstafanir, svo að útgerðramenn og fiskimenn væru losaðir undan því að standa undir þeirri gróðasöfnun, því að hún er engin nauðsyn. Og þeir, sem fisks afla, eiga ríkari og sterkari siðferðilegan rétt til þess að fá fyrir sína vinnu sómasamlega greiðslu heldur en að þessir milliliðir safni auði.

Það var einkanlega hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ), sem vék að því mjög ákveðið, að verkalýðshreyfingin ætti nú mikinn hlut að því eða viss hluti hennar að stöðva útgerðina, eins og hann orðaði það. Og hann sagði beint, að sessunautur hv. 3. þm. Reykv., — það mun frekar hafa verið ég, sem hann átti við, heldur en hv. þm. Jón Kjartansson, sem situr hv. 3. þm. Reykv. til vinstri handar, — stjórnaði þeirri starfsemi að stöðva nú útgerðina. Ég veit ekki, hvort það er þess vert að ræða við hv. þm. um þessar ásakanir, en hann virtist vera í því hugarástandi, að hann hugleiddi frekar lítið, hvað hann segði í sömu andránni heimtaði hann raunar af forseta, að hann gripi í taumana og svipti hv. 3. þm. Reykv. og kannske fleiri þm. málfrelsi, jafnvel alveg ástæðulaust að vera að láta þá ræða um þessi mál dag eftir dag. Þegar svona er talað þá hygg ég, að raunar sé ekki rétt að taka menn alvarlega, og væri það að vísu maklegast. En þegar verkalýðshreyfingin er höfð fyrir þungum sökum í sambandi við stöðvun atvinnulífsins, þó held ég þó, að það sé svo stórt mál að ástæða sé til að ræða það.

Það er ekki hægt að komast hjá því að staldra við það, að þróun seinustu ára hefur verið slík, að verkalýðshreyfingin getur ekki óendanlega við það unað. Það er alkunnugt, að ríkisvaldið hefur gripið inn í, takmarkað frelsi verkalýðshreyfingarinnar umfram það, sem eðlilegt getur talizt í lýðfrjálsum löndum. Það var breyting á öllum samningum stéttarfélaga í landinu þegar ákveðið var að skera í burtu 10 vísitölustig án nokkurs endurgjalds fyrir tæpum 2 árum. Og það var einnig breyting á öllum gerðum samningum stéttarfélaga, þegar ákveðið var að afnema alla vísitölu á kaup í landinu. það var enn fremur breyting á samningum stéttarfélaga sjómanna, þegar ákveðið var að lækka fiskverðið. sem um hafði verið samið og stóð í janúarmánuði 1959 1.91 kr. á kg og var þá lækkað með lögum niður í 1.66 kr. Ég veit ekki til þess, að í neinu nágrannalanda okkar eða í Bretlandi hafa ríkisvaldið nokkurn tíma breytt samningum stéttarfélaganna með löggjöf, og svo mikið er víst, að samtökin í Vestur-Evrópu hafa látið mjög í ljós undrun sína yfir því, að ríkisvaldið skuli beita svona aðferðum gagnvart frjálsri verkalýðshreyfingu. Enn fremur er það fáheyrt, alls óheyrt hér á landi fyrr, að löglega boðað verkfall skuli hafa verið bannað með lögum. Allt þetta hefur verkalýðshreyfingin orðið að þola á undanförnum tveimur árum og hefur sýnt mikla þolinmæði í því að grípa til gagnráðstafana og búið sig undir að verja rétt sinn nú á undanförnum mánuðum og gert það algerlega á lýðræðislegan hátt. Verkalýðsfélögin hafa rætt þessar þungu búsifjar, sem þau hafa orðið fyrir, og tekið sínar ákvarðanir. Síðan hafa fulltrúar frá verkalýðsfélögunum mætt til ráðstefnu og gert þar heildarsamþykktir og síðan skotið þessum ráðagerðum öllum til síns æðsta ákvörðunarvalds, þings Alþýðusambandsins, og það gengið frá hinum endanlegu línum í þeim ráðstöfunum, sem verkalýðshreyfingin vildi gera til þess að verja hendur sínar fyrir ágengni ríkisvaldsins. Fjöldamargir hafa látið undrun sína í ljós yfir því, hvað verkalýðshreyfingin færi sér hægt í þessum efnum og hvað hún væri þolinmóð. En það vissu allir, að að því hlyti að koma, að hún gripi til vopna og verði sig. Það er nú viðurkennt af hagfræðingum, sem annast skýrslugerð fyrir ríkisvaldið, að kaupmáttur tímakaupsins á Íslandi, sem stóð í 109 í ársbyrjun 1959, er nú kominn ofan í 84 og enn fremur, að vísitala vöruverðs og þjónustu. sem sett var 100 í marzmánuði í fyrra, um leið og gengislækkunin var ákveðin, er nú komin upp í 117. Sýnir það, að vísitala vöruverðsins hefur hækkað um 17%, síðan gengislækkunin var framkvæmd. Þessar tölur hvorar tveggja sýna það, sem allir raunar vita, að vöruverðshækkunin frá því í ársbyrjun 1959 er alveg gífurleg, en kaupið hefur staðið í stað. Það væri því mikil óvarkárni og mikill skortur á skynsemi, ef stjórnendur landsins létu sér detta í hug, að sú stjórnarstefna, sem ætli launastéttunum að búa við slíkar búsifjar, geti blessazt og geti gengið. Og það getur ekki verið, að þeir hafi ekki reiknað með því, að gagnráðstafanir kæmu frá hendi verkalýðshreyfingarinnar gagnvart svona ofbeldisaðgerðum.

Það, sem gerðist fyrst af öllu, var það, að sjómenn, sem höfðu orðið fyrir lögbindingu fiskverðs og lækkun fiskverðs stórkostlega, frá því að þeir sömdu síðast um það, gripu til sinna varnaraðgerða. Það vita allir, að hinn rétti samningsaðili á Íslandi til þess að ákveða kaup og kjör vinnandi stétta eru hin einstöku verkalýðsfélög, hvert á sínu félagssvæði, og deildir Vinnuveitendasambandsins gagnvart þeim sem samningsaðilar. Þegar menn vilja semja fyrir stærri svæði í einu, gerist það með því, að verkalýðsfélögin og vinnuveitendafélögin gefa umboð stærri heildum, t.d. Alþýðusambandinu annars vegar og Vinnuveitendasambandi Íslands hins vegar. Og það var það, sem gerðist, það voru þau vinnubrögð, sem voru viðhöfð nú í sambandi við sjómannakjörin. Þessar nefndir höfðu einnig rætt um það áður, að það væri æskilegt að breyta grundvallarfyrirkomulagi sjómannakjaranna, hverfa frá hinum aldagömlu hlutaskiptum og taka upp nýtt skiptafyrirkomulag, sem þeir í aðalatriðum voru hvorir tveggja sammála um, að því er snerti uppbyggingu á grundvallaratriðum, fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna og fulltrúar alþýðusamtakanna. Þessar tvennar tíu manna nefndir gengu til samninga. Sjómennirnir báru fram sínar kröfur, sem voru um verulega hækkun á fiskverði og lagfærð skiptakjör. Menn vildu líka koma á þetta samræmi. Í staðinn fyrir 38 mismunandi kjarasamninga, sem giltu víðs vegar um landið, vildu menn helzt ná því marki að fá einn samning, ein sameiginleg kör ákveðin í einum samningi fyrir landið allt. En það þarf ekki að rekja þá sögu í einstökum atriðum, það vita allir, að útgerðarmennirnir neituðu í upphafi algerlega að semja um neitt það, sem væri kjarabót handa sjómönnunum. Þetta var óbilgirni sem vissulega setti heldur illt blóð í samningamenn verkalýðssamtakanna frá fyrstu byrjun. Slíkur steyttur hnefi er ekki til þess að laða samkomulagsmöguleika fram. Og ekki nóg með það, þegar þeir höfðu steytt hnefann á þennan hátt, gáfu þeir umboð nokkrum mönnum úr hópi útgerðarmannanna til að laumast frá samningaborðinu suður á Suðurnes og fá þar til samninga við sig að næturlagi fulltrúa úr samninganefnd sjómanna, til þess að gera sérsamkomulag um samning, sem heildarsamninganefnd sjómannanna taldi vera í raun og veru afturför, verri kjör en áður höfðu ríkt, a.m.k. stórkostlega verri kjör en víða annars staðar höfðu gilt á landinu áður. Þetta var sviksemi í hinum sameiginlegu vinnubrögðum, sem menn höfðu komið sér saman um, og varð til þess að bæta gráu ofan á svart, eftir að þeir höfðu notað hótanir um það, að þeir mundu aldrei semja um neina lagfæringu á kjörum sjómanna.

Síðan gekk þetta þannig til, að fulltrúar sjómannanna slökuðu til nótt eftir nótt á fundum með sáttasemjara, en fengu engin tilboð frá útgerðarmönnum á móti. Þeir héldu áfram að lemja hnefanum í borðið, þeir semdu ekki um neinar kjarabætur sjómönnum til handa. Það var gefin eftir krafan um frítt fæði, og lækkað var smám saman frá 35% af brúttóandvirði afla það, sem skyldi falla í hlut hásetanna, og niður í það, sem endanlega var gert samkomulag um, 29.5%. Útgerðamennirnir höfðu hins vegar staðið fast fyrst á 27% skiptum og höfðu að síðustu og þó ekki fyrr en á síðustu sólarhringunum mjakazt upp í 28% og stóðu þar þangað til síðasta sólarhringinn, að samkomulag var gert, með fyrirvara um undirskriftir stéttarfélaganna, um 291/2%. Það var orðið vitað, að þegar okkar samningamenn, sjómannasamtakanna, voru komnir niður fyrir 30%, þá voru þeir komnir niður í það lágmark, sem hugsanlegt var að fengist samþykkt á þeim stöðum, sem áður höfðu haft hin beztu kjör, því að það væri úr því farið að semja niður einstaka staði, sem höfðu haft beztu kjörin. Beztu kjörin höfðu áður ríkt á Vestfjarðasvæðinu, en lökustu kjörin í Reykjavík og Hafnarfirði. Þegar okkar umboðsmenn í samninganefndinni höfðu teygt sig svona langt, að þeir voru komnir niður fyrir þau kjör, sem áður höfðu ríkt á ýmsum stöðum, þá fór að braka í og bresta hjá okkur, og þannig fór, að Vestfjarðasambandið tilkynnti það formlega, að það héldi ekki áfram að stöðva sinn flota upp á það eitt að eiga það í vændum að vera samið niður, og hvarf úr sambökunum að því er þetta snerti. Það var og vitað, að útgerðarmenn á Austfjörðum vildu semja um 32% til handa skipshöfn, vildu sem sé fallast á það, að skipshöfnin fengi tæpan einn þriðja af aflaverðmæti, sem skipshöfn og skip ber að landi, og sýndist það ekki um of. En hvað kom til, að þeir gerðu það ekki, að meir sömdu ekki? Það kom þá í ljós, að L.Í.Ú. hafði tekið óafturkallanleg umboð af útgerðarmönnunum, bæði á Austfjörðum og annars staðar, að það skyldi fara með samningana og útgerðarmennirnir gætu ekki tekið samningaumboðið af því og farið með það sjálfir, — þó að þeir vildu semja um 32%, þá fengu þeir það ekki. Það var ekki ríkari eign en umboð þarna, umboðið var orðið ríkara en eignin. M.ö.o.: útgerðarmenn, sem töldu sanngjarnt að semja við sjómennina um 32%, fengu það ekki, þeir voru bundnir af óafturkallanlegum umboðum, sem þeir höfðu verið svo óvarkárir að láta af hendi við forráðamenn valdaklíku L.Í.Ú.

Þegar samkomulag hafði verið undirskrifað af samninganefnd sjómannanna og samninganefnd L.Í.Ú. með fyrirvara um samþykki félaganna, þá var starfi landssamninganefndarinnar auðvitað lokið og samningarnir gengu heim til sinna upprunalegu aðila, sem viðurkenndir eru sem hinir réttu aðilar við samninga í vinnulöggjöfinni. þ.e.a.s. til hinna einstöku sjómannafélaga heima í héruðum. Og þá kom það í ljós, sem vita mátti, að Alþýðusambandið, fulltrúi þess í samninganefndinni, það verður ekki sakað um að hafa haldið of fast á málunum og viljað knýja fram með óbilgirni of háar kröfur sjómönnum til handa, það kom í ljós, að sjómennirnir töldu þarna vera búið að sýna of mikla tilslökun, tilhliðrunarsemi, búið að semja sig of langt niður, og þeir neituðu að samþykkja samningana mjög víða, þ. á m. hér í Reykjavík. Þegar Jón Sigurðason, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur; sagði samninganiðurstöðuna fyrir sjómannadeildina hér, fiskimannadeildina í Sjómannafélagi Reykjavíkur, þá var samkomudagið kolfellt, og verkfall stendur hér enn þá. af því að það var búið að semja sig lengra niður en sjömennirnir sjálfir vildu sætta sig við. Á Vestfjörðum vildi enginn líta við þessu samkomulagi, enda höfðu þeir áður tilkynnt sig út úr þeirri viðleitni að semja, þegar svo lágt var komið, og Austfirðingarnir allir saman, útgerðarmennirnir þar og sjómennirnir, voru andvígir þessu bráðabirgðasamkomulagi og hafa nú gripið til þess siðar að semja sérstaklega. Og þegar þeir fengu frelsi til þess, þá vildu þeir semja um sem svarar 32% af aflaverðmætinu til handa skipshöfn, það er nú komið á daginn. En á Vestfjörðunum var verkfallinu, sem lýst hafði verið yfir, þegar stofnað var til landssamninganna til þess að reyna að knýja fram einn landssamning fyrir landið allt, aflýst og útgerðarmönnunum á því svæði gefinn kostur á því að setja bátana af stað upp á þau gömlu skiptakjör, sem höfðu verið á Vestfjörðum að fenginni yfirlýsingu um, að þeir mundu borga hið nýja fiskverð.

Fóru pá ekki bátarnir af stað á Vestfjörðum? Ónei, þá kom fram tilkynning frá L.Í.Ú., að þeir hefðu enga heimild til þess að setja bátana af stað, þeir væru bundnir af þeim óafturkallanlegu umboðum, sem þeir hefðu veitt L.Í.Ú., og þeir skyldu verða gerðir upp, ef þeir hreyfðu sig. Sams konar hótanir fengu útgerðarmennirnir á Austfjörðum. Af þessu var auðsætt, að Alþýðusamband Vestfjarða hafði aflýst á löglegan hátt hinu fyrra verkfalli, bauð að bátaflotinn skyldi ganga, meðan samningar væru reyndir, samkv. hinum gömlu kjörum, sem allir höfðu sætt sig við, og reynt að koma á nýju samkomulagi, en mætti ofbeldi af hendi útgerðarmannanna, af hendi landssambands þeirra. Það er enginn vafi á því, enda hefur það verið borið undir lögfræðinga, að þetta atferli útgerðarmannanna á Vestfjörðum eða Landssambandsins gagnvart þeim er ólöglegt verkbann. Þeir höfðu ekki boðað neina stöðvun þarna á ný, eftir að fyrri deilan leystist, með 7 daga fyrirvara, eins og þeim er skylt. Nú er mér tjáð, að þeir muni hafa runnið á þessu og að Útgerðin á Vestfjörðum sé komin af stað og samningarnir við stjórn Alþýðusambands Vestfjarða í gang á ný, og mætti þá vænta, að samkomulag tækist á því svæði út af fyrir sig, og þykist ég pá vita. að þar verður naumast samið um minna en 32%, miðað við það, að þeir láta sér suðvitað ekki detta í hug að rýra þau góðu kjör, sem þeir áður höfðu, sem voru hin beztu á landinu.

Þetta, sem ég nú hef sagt, sýnir augljóslega, að sjómannakjaradeilan er að mjög miklu leyti afleiðing af því, hvert fiskverðið getur verið, og fiskverðið ákvarðast af því, hvað miklu eða litlu er stolið af afætum af verðmæti fisksins. Ef þar er komizt að réttri niðurstöðu, ekki aðeins gagnvart Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, heldur gagnvart vöxtum, vaxtabyrðinni, olíuhringunum, útvegun salts og veiðarfæra, flutningsgjalda á sjávarafurðum til erlendra markaða, vátrygginga o.s.frv., ef þar er fyllilega rannsakað, hvað taka verði fyrir þessa þjónustu og fyrirgreiðslu, og tryggt, að það sé ekki tekið neitt meira en réttmætt er, þá er hægt að komast að niðurstöðu um það, hvað hið rétta fiskverð skuli vera til sjómanna og útvegsmanna, og þess vegna ætti enginn, sem hefur hreint mél í poka viðvíkjandi þessum atriðum, að beita sér gegn því, að slík rannsókn fari fram. Það gæti einmitt leitt til þess, að samkomulag fengist við sjómenn og útgerðarmenn um þessi mál sem hafa verið og eru enn alvarleg deilumál

Í Vestmannaeyjum vita allir, að ástandið núna er þannig, að þar er ekki eingöngu um stöðvun að ræða vegna þess, að verkamannafélag Vestmannaeyja og verkakvennafélagið þar á staðnum hafa lýst yfir verkfalil út af launakjörum verkafólks í landi, heldur er stöðvunin á útveginum í Vestmannaeyjum nú einnig afleiðing af því, að útgerðarmennirnir hafa samþykkt að hefja ekki róðra, setja ekki flota sinn í gang, fyrr en þeir hafa fengið það, sem þeir vilja sætta sig við í fiskverði. Glíman í Vestmannaeyjum er þannig alveg greinilega á þann veg, að útgerðarmenn og verkamenn og verkakonur standa saman um að fá fyrst, áður en útgerðin hefjist þar, afgert, hvað fiskverðið skuli vera og hvað skuli vera kaup verkamanna og verkakvenna. Sjómannadeilan sem slík er leyst í Vestmannaeyjum. því að Sjómannafélagið Jötunn samþykkti uppkastið frá landssamninganefndinni. En á sama degi og því verkballi var aflýst samþykkti sjómannafélagið samúðarvinnustöðvun, sem getur þannig komið til framkvæmda eftir sjö daga, frá því að samþykktin var gerð, með vinnustöðvun, kaupgjaldsbaráttu verkamanna og verkakvenna. Og Vélstjórafélag Vestmannaeyja mun hafa gert það líka, þannig að öll stéttarfélögin í Vestmannaeyjum standa nú í verkfalli og samúðarverkföllum og útgerðarmennirnir standa í óleystri deilu um fiskverð gagnvart útgerðarmönnum. Í raun og veru hefur það, eins og ég áðan sagði, svo valdið stöðvun útgerðarinnar á Vestfjörðum, að L.Í.Ú. neitaði útgerðarmönnunum um að hefja róðra á ný og hélt þeim þannig dag eftir dag í ólöglegu verkbanni. Svo kemur hv. 1, þm. Vestf. og segir: Það er sérstaklega einum manni að kenna, að atvinnulífið er stöðvað. — Það er eitt, sem hann hefur aldrei skort, og það er ósvífni. Það skortir hann ekki enn, þó að hann sé kominn á áttræðisaldurinn.

Þessi mál öll saman, fiskverð, hlutaskipti, þ.e.a.s. lífskjör sjómannanna, það er mjög samslungið mál því, hvað Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hvað vátryggingafélögin, hvað olíuhringarnir taka af útgerðinni, og ef þessir aðilar taka óhóflega mikið í sinn hlut, þá verður það auðvitað til þess að skerða hlut sjómanna og útgerðarmanna, sem eiga mjög hliðstæðra hagsmuna að gæta, og það er umfram allt þetta, sem getur valdið meira eða minna varanlegri stöðvun atvinnulífsins í landinu. Af hendi verkalýðssamtakanna kemur það aldrei til mála, að einn einstakur maður eða örfáir menn geti ráðið því, sem þar er gert. Þar hefur enginn aðstöðu til að taka úrslitaákvörðun, nema hún sé tekin neðan frá í gegnum meirihlutasamþykktir verkalýðsfélaga og síðan samtaka á stærri svæðum og síðan gegnum Allþýðusambandið. Þó að einhver vildi gefa fyrirmæli sem einstaklingur, þá væru þau að engu höfð og hefðu ekkert gildi, og það væri engu verkfalli hægt að halda uppi á eins manns fyrirmælum. En valdboð, sem samrýmast ekki vinnulöggjöfinni hafa nú verið gefin út af L.Í.Ú. og mundu ekki standast fyrir félagsdómi. Það þarf enginn um það að efast, að þegar t.d. er lýst yfir gagnvart útgerðarmönnum á Austfjörðum og Vestfjörðum, að þeir verði gerðir upp, ef þeir fari eftir sínum vilja, en ekki boðum og bönnum frá L.Í.Ú., þá stangast það við lög, stenzt ekki. Útgerðarmennirnir sjálfir eru hinir löglegu samningsaðilar og geta aldrei gefið nein slík umboð, að þau séu ríkari en þeirra eigin vilji. Þeir hafa samningsfrelsi. Að öðrum kosti, ef hið síðara stenzt, þá er ekkert samningsfrelsi til í þessu landi og þá er ekki til neins fyrir verkalýðshreyfinguna að sitja fyrir framan leikbrúður eða handjárnaða menn, sem hafa ekki neinn samningsrétt. Vinnuveitendasamband Íslands hefur leyft sér að láta fulltrúa sinn í Vestmannaeyjum lýsa yfir banni gagnvart atvinnurekendunum þar, að þeir megi ekki semja. Það hefur enginn slíkan rétt yfir atvinnurekendum í Vestmannaeyjum eða annars staðar. Það getur ekkert bannað þeim. Þeir hafa samningsfrelsið að lögum, og ef þeir sýna það ekki, að þeir séu ráðandi gerða sinna við samningsborð, Þá er ekki hægt að setjast að samningaborði með þeim.

Það var eftir að samningar höfðu staðið a.m.k. hálfan mánuð hér í Reykjavík fyrir milligöngu sáttasemjara, sem það var upplýst af Vinnuveitendasambandinu, að þeir hefðu ekkert leyfa til þess að semja, þessir menn, sem höfðu verið þarna nótt eftir nótt í samningum við samninganefnd sjómanna. Þeir hefðu ekkert vald til þess, enga heimild til þess að semja um eitt eða neitt. Það væri fimm manna nefnd, sem búið væri að skipa af Vinnuveitendasambandinu, sem hefði öll ráð þar. Það hefðu sem sé ekki verið neinir samningamenn, sem sjómennirnir voru að ræða við, bara dúkkur, dúkkur ofbeldisins. Og ofbeldið var grímubúið í hálfan mánuð og enginn látinn um það vita. Þá var flett af grímunni og sagt: Það eru fimm menn aðrir, sem hafa valdið.

Svona framferði af hendi vinnuveitenda í landinu verður ekki unað, og það er ekki að vænta neins árangurs í samningum, þegar svona vinnubrögðum er beitt. Og ég hygg, að það verði ekki haldgott, hvorki fyrir hv. 1. þm. Vestf. né neina aðra að segja, að stöðvanir atvinnulífsins í landinu séu t.d. mér eða einhverjum einstökum mönnum í verkalýðshreyfingunni að kenna. Við höfum farið að réttum leikreglum, en gagnaðilinn ekki. Við eigum hendur okkar að verja eftir tveggja ára ofbeldisaðgerðir ríkisvalds, og það gat enginn vænzt þess, að okkar aðgerðir kæmu síðar fram en þær hafa komið.

Ég mundi því vænta þess, að það kæmu fleiri tillögur í kjölfar þessarar tillögu, sem hér er til umræðu, til þess að rannsaka fleiri þætti, sem hafa áhrif á fiskverðið í landinu, ekki aðeins Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, heldur einnig gróða olíuhringanna, og æskilegt væri að komast að réttri niðurstöðu um það hvað væri hægt að minnka þann gróða, til þess að auka aftur þann hlut útgerðarinnar, sem henni væri þaðan skilað, athuga um gróða farskipafélaganna og komast að réttri niðurstöðu um það, hvort þar sé ekkert oftekið, hvort ekki sé hægt að gera flutning íslenzks fisks á erlenda markaði kostnaðarminni og þar með auka hlutskipti útgerðarmanna og sjómanna í sambandi við það, og alveg á sama hátt með tryggingafélögin, rannsaka hvort þau taka ekki of mikið fyrir sína starfsemi og hvort ríkið gæti ekki t.d. sjálft annazt tryggingastarfsemina á útgerðinni á hagkvæmari hátt og þar með hlíft útgerðinni við útgjöldum, sem hún nú verður fyrir að ófyrirsynju og verða mætti til þess að bætir fyrst og fremst kjör íslenzks sjávanútvegs og íslenzkra sjómanna.