31.01.1961
Neðri deild: 53. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í D-deild Alþingistíðinda. (3023)

151. mál, fjárreiður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, skipun nefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. (HV) hélt hér alllanga ræðu í gær um þetta mál og veittist nokkuð harkalega að mér persónulega fyrir að hafa látið þau orð falla í umr. hér s.l. föstudag, að ég teldi, að hæstv. forseti þessarar deildar ætti að beita forsetavaldi til að skera niður umræður um verkalýðshreyfinguna á Íslandi. Hann sagði m.a., að 1. þm. Vestf. vantaði hvorki viljann né getuna til að vera ófyrirleitinn. Það er nú ekkert nýtt í hans málflutningi. Ég skal ekki eyða mörgum orðum til að hrinda slíkum ámælum. Ég hefði talið, að það hefði verið hæstvirts forseta að áminna hann eftir slíkan áburð hér í þessari hv. deild. En ég skal ekki erfa það við hann á nokkurn hátt, en vil aðeins benda á, að öll þessi ræða, sem hann flutti hér sem ásökun á mig, til hennar hafði ég ekki gefið neitt tilefni. Ég lét aldrei þau orð falla, sem hv. þm. lagði út af, og ef hann vill athuga ræðuna, eins og hún er tekin upp af segulbandinu, þá mun hann sjá, að ég hef aldrei látið slík orð falla hér um verkalýðshreyfinguna. Ég minntist hins vegar á, að það væri vafasamt, hvort hæstv. forseti ætti ekki að nota forsetavald til að stöðva þann áróður, sem hv. 3. þm. Reykv. héldi hér uppi fyrir hönd Sovétríkjanna á Íslandi, en minntist ekkert á verkalýðshreyfinguna í því sambandi. Ég var hins vegar ekkert óanægður yfir því, að hv. þm. ræddi um þessi mál í sambandi við SH og fiskverðið. Það taldi ég mjög eðlilegt. Og margt af því, sem hann sagði í sambandi við þau mál gefur tilefni til þess að ræða málið nánar, og það er einmitt þess vegna, sem ég fyrst byrja á því að ræða við þennan hv. þm. út af þeirri ræðu, sem hann hélt.

Hv. þm. minntist m.a. á olíuverðið, hvers vegna núv. hæstv. ríkisstj. beitti sér ekki fyrir því, að það væri lækkað á Íslandi, til þess að hækka þannig hlut sjómannanna. En við skulum athuga dálítið nánar þessi mál Það var á sínum tíma skipuð mþn., sem raunverulega starfar enn, til þess að athuga tæknilegar og viðskiptalegar umbætur á rekstri sjávanútvegsins. Hún gaf út m.a. prentað álit um einn þáttinn, sem rannsakaður var í togaraútgerðinni. og ég geri ráð fyrir því, að hv. 4. landsk. þm. hafa fengið það eins og aðrir þm. Hann mun þar sjá allmargar og merkilegar upplýsingar í sambandi við olíumálin á Íslandi, þar sem sýnt er ákveðið og óhrekjanlega fram á, að það hafa verið notaður allt annar verðlagsgrundvöllur við verðlagningu í olíu í landinu en á nokkurri annarri vöru, í meðan varan heyrði undir verðlagsákvæðin. En þessi gögn öll komu m.a. fram í tíð vinstri ríkisstj., og þá heyrðu þessi mál öll undir flokksbróður hv. þm., sem þá var viðskmrh. og sjútvmrh. En hvers vegna tapaði þessi ágæti hv. þm. áhuganum fyrir því að leiðrétta þessi mál? Hvers vegna tók hann ekki upp þær ábendingar, sem n. alveg óskipt setti fram í þessu máli? Það var enginn ágreiningur í n. um það, að hér væri um allt of háa álagningu að ræða, og hæstv. þáv. ráðh. gefin full bending um það, hvernig mætti laga þetta. En hvers vegna daufheyrðist hann við því? Ætli það hafi ekki verið vegna þess, að hann hafa verið í of nánu sambandi við þá aðila, sem höfðu hér nagsmuna að gæta, þ.e. Samband ísl. samvinnufélaga eða dótturfélag þess, Olíufélagið. Ég hef ekki fundið neina aðra skýringu á þessu fyrirbæri. Það er ákaflega gott að ásaka aðra menn fyrir að gera ekki ákveðnar umbætur, en hafa sjálfur látið undir höfuð leggjast þann tíma sem þessi hv. þm. átti sæti í ríkisstj. og hafði þá möguleika til þess að hafa afskipti af þessum málum, að framkvæma samskonar umbætur. En það hefur hann alveg látið hjá líða að gera.

Hv. þm. gat um, að það væru margar sögur um það, að SH tæki of stóran hlut frá sjómönnum í sambandi við sín viðskipti. Um það skal ég ekkert segja, ég þekki ekkert inn á það og skal ekkert verja þeirra gerðir. En ég vil í því sambandi spyrja: Fá sjómennirnir betra verð og meira út úr sínum hlut, sem selja aflann í gegnum Samband ísl. samvinnufélaga, fá þeir hærra verð fyrir sinn fisk heldur en þeir, sem selja í gegnum SH. Það finnst mér vera höfuðatriði í þessu máli. Það er það að ef rannsaka á aðeins annað fyrirtækið, en ekki hitt, þá er ekki rétt að farið. Eftir því sem ég veit bezt, þá mun það ekki vera, að þeir menn, sem hafa skipt hér við SÍS, hafi fengið hærra fiskverð, en hitt veit ég alveg fyrir víst, að þau frystihúsin, sem fengu meiri uppbætur á meðan uppbætur voru veittar á fiskinn munu að fleirtölu hafa einmitt verið hjá SÍS, af hvaða ástæðum sem það hefur verið. Ég tel því ekki frambærilegt, að ekki megi undir neinum kringumstæðum láta rannsókn fara fram á báðum þessum fyrirtækjum sameiginlega. En það vildi hv. 4. landsk. þm. ekki láta gera, það kom skýrt fram í ræðu hans. Hv. þm. sagði, að ég hefði látið orð um það falla, að hér væri verið með einhvern fjandskap á hendur SH af flm., en það hef ég aldrei sagt neitt um.

Þá gat hv. þm. þess, að SH tæki allmikið til tyggingar erlendis af því fé, sem sjómenn og útgerðarmenn ættu, og sagði beinlínis, að það væri til þess að lækka útgreiðsluverð til sjómanna. Fyrir þessu færði hann þó engin rök. En ég hygg, að í fyrsta lagi séu þar fjárfestingar gerðar í þeirri trú, að það verði til þess að hækka verðið til sjómannanna, og að raunin hafa einnig verið sú, að það hafa gert hvort tveggja í senn, hækkað verðið til sjómannanna annars vegar og gert mögulegt að selja meira magn á erlendum markaði hins vegar. En um þetta getur sjálfsagt hv. þm. fengið fullkomnar upplýsingar, m.a. frá hv. 3. þm. Austf., sem á sæti í stjórn SH. En ef svo er, að SH hefur ekki greitt hærri hluta til sjómanna og útgerðarmanna vegna þessara ráðstafana á fé hvernig er þá um sams konar ráðstafanir hjá SÍS? Vitað er, að þeir hafa einnig sett fast fé í nákvæmlega sams konar iðjuver erlendis. Er það skoðun hv. 4. landsk., að sjómennirnir, sem hann hefur svo náið samband við, hafa fengið hærra verð þar og þá hafi það verið beinlínis vegna þess, að þeir hafi fjárfest minna en SH í erlendum byggingum? Þetta er sjálfsagt að fá upplýst, og það eru engin vandkvæði að fá það upplýst hér.

Hv. 4. landsk. og hv. 3, ym. Reykv. hafa báðir rætt um, að það væri alveg óverjandi, að útgerðarmenn skyldu hafa beitt sér í þeirri verkstöðvun eða deilu, sem nú er um kjör sjómanna, eins og þeir hafa gert, þ.e. krefjast þess, að meðlimir félags þeirra fengju ekki leyfi til þess að semja hver fyrir síg. En hv. 4. landsk. þm. talaði um í gær, að einstakir útgerðarmenn hefðu verið kúgaðir til þess að semja ekki hver fyrir sig og þeim hefði jafnvel verið hótað að reka þá burt úr félagsskapnum eða einhverjum öðrum hefndarráðstöfunum, ef þeir riftuðu því samkomulagi, sem gert hefði verið hér um, þeir hefðu framið hér margvislegar lögleysur. Þetta voru hans orð. Um allt þetta skal ég ekki deila efnislega. En ég vil aðeins benda hv. 4. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykv. á, að þetta er nákvæmlega það sama sem verkalýðshreyfingin hefur gert árum saman. Það þýðir ekkert fyrir hv. 4. landsk. að hrista höfuðið yfir því. Hann veit ósköp vel, að í hverju einasta verkfallí, þó að það hafi verið talið löglegt verkfali. — það er ég ekki að segja um, — að í hverju einasta verkfalli hefur þessu verið beitt af þeim, sem hafa stjórnað verkföllunum. Þeir hafa krafizt þess, að menn fengju ekki að vinna, á meðan á verkfallinu stæði, jafnvel þó að þeir hefðu sjálfir viljað vinna. Þetta er hin almenna regla í verkföllum, því að annars væri ekki hægt að halda þessum félagsskap saman, ef menn brytust út, hvort sem um er að ræða verkamenn eða atvinnurekendur. Og það er einmitt þetta, sem gefur ástæðu til þess, að nú á alvarlega að fara að athuga, hvort við eigum ekki að fara að semja nýja vinnulöggjöf, þar sem hnefarétturinn ræður ekki lengur í landinu, þar sem málin eru leyst með annaðhvort viturlegu samkomulagi, og ef það ekki næst, þá með viturlegum dómi. Hvaða enda hefur það í einu landi ef á að leyfa hnefarétt, ótakmarkaðan hnefarétt, hvort sem hann er frá hendi vinnuveitenda eða vinnuþiggjenda? Hvaða áhrif hefur það að síðustu í einu landi? Það mundi enda þannig, að sá aðili, sem hefur valdið, mundi alltaf ganga á lagið, eins og venjulega er gert, og segja Ég vann þetta verkfall með hnefarétti síðast, við getum farið svolitið lengra næst o.s.frv. — Hinir verða þá að láta undan. Svona hefur þetta gengið. Og hvað lögbrotin snertir, þá veit hv. 4. landsk. miklu betur en nokkur annar maður, að hann hefur einmitt staðið manna mest fyrir þessum lögbrotum. Hvað mikið var framið af lögbrotum í verkfallinu 1955? Hvað var mikið framið þá af lögbrotum? Stöðvaðir voru menn frá því að komast inn í bæinn og út úr honum hellt niður framleiðslu bænda í landinu o.s.frv. Og hvers vegna var samið um það síðast, eins og ávallt áður, að málsóknir af öllum lögbrotum skyldu látnar falla niður? Hvers vegna var það sett inn í samningana? Hér var viðurkenning á því, að framin hefðu verið lögbrot. Og svo eru þessir menn að koma hér og fárast yfir því, að aðrar stéttir hafa tekið upp nákvæmlega sömu aðferðir í þessum deilum.

Sannleikurinn er sá, að vinnudeilurnar í landinu eru komnar á það stig, að verkalýðurinn sjálfur er að tapa þessum leik. Þegar aðrar stéttir í landinu sáu, að það var sterkasta vopnið að halda saman, þá var það ekki eingöngu verkalýðurinn, sem tók sér þetta vopn í hendur, Það voru atvinnurekendur, og það jafnvel embættismenn þjóðarinnar, sem tóku að gerast svo stéttvísir, halda svo fast saman, að þeir gætu þannig þvingað fram ákveðin bætt kjör. Þegar svo er komið, er þetta barátta á milli stéttanna í landinu. Það er ekki lengur barátta á milli atvinnurekenda annars vegar og verkalýðs hins vegar. Það er kapphlaup hjá stéttunum í landinu að tryggja sig sem bezt með þessum rétti gegn hinum. Og þá erum við komnir út í slíka ófæru að Alþingi má ekki láta það afskiptalaust lengur. Og þess vegna spyr ég: Vilja þessir menn, sem þykjast bera umhyggju fyrir hag verkalýðsins, setjast að samningaborðinu nú og semja um að endurskoða vinnulöggjöfina, gera það á réttlátan hátt, taka fullkominn þátt í þeirri nefnd, sem væri valin, gera það og sjá, hvaða leiðir væri hægt að finna til þess að bæta úr þessu öngþveiti sem enginn hefur gott af?

Við, sem erum hvorki verkamenn né atvinnurekendur, eins og er nú orðið, skiljum ekki, að í þjóðfélagi, sem er sæmilega menntað og sæmilega upplýst, skuli ekki vera hægt að finna leið til þess að jafna þegar deilur þjóðinni að skaðlausu eins og í öllum öðrum ágreiningsmálum. Hvers vegna er ekki hægt að finna leið til þess að láta ákveðna hlutlausa menn skera úr um þessi atriði eins og mörg önnur deiluatriði í landinu? Menn verða að gera svo vel að beygja sig undir það að láta fyrst undirrétt og síðan hæstarétt skera úr um ákveðin mál, ekki aðeins stórkostleg fjárhagsmál heldur og önnur stórkostleg atriði, sem snerta jafnvel æru manna, og deilur um það, hvort þessi aðili hefur rétt fyrir sér eða hinn. Hvers vegna má ekki á sama hátt fá menn til þess að dæma um þessi mál? Það er vitað, að þessi mál eru komin í það öngþveiti, að það er útilokað að búa við þau áframhaldandi, nema þjóðin eigi að þola stórkostlega undir því. Það er t.d. viðurkennt, að það hefur enginn maður haft hag af verkfallinu frá 1955, hvorki verkamenn né atvinnurekendur, og hefði það átt að vera nægilegur skóli til þess að stöðva að fara út í slíkt ævintýri aftur. Það er líka vitað, að mikill hluti af áróðri í sambandi við verkföll í dag er runninn af pólitískum áhuga, meira en af umhyggju fyrir verkalýðnum, og þá er því nauðsynlegra að setja hér einhver takmörk til þess að fyrirbyggja það tjón, sem af því hlýtur að verða.

Þegar hv. 4. landsk., sem ég skal ekki ræða miklu meira við nú í þetta skipti lýsti því yfir hér, að hann vildi ekki undir neinum kringumstæðum láta rannsaka þessi sömu atriði hjá hliðstæðum aðila, þ.e. SÍS, og tók fram, að það væri engin ástæða til þess, þá datt mér í hug, að hann hefur nú verið heldur lengi í félagsskap við Framsfl., sem alltaf hefur haft það efst á blaði hér, í Alþingi og hjá þjóðinni að hugsa sér að fá að búa við önnur lög en aðrir. En honum væri líka hollt að gera sér ljóst, að eftir þeim reglum nær maður ekki alltaf bezta árangrinum.

Ég skal þá snúa mér nokkuð að svarræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOl), sem hann hélt hér eftir mína ræðu s.l. föstudag. Hann byrjaði ræðu sína með því að gleðjast yfir því, að ég væri kominn úr banni, hefði fengið frelsi og mætti nú orðið tala í þessari hv. deild. En honum varð á á sama tíma að krefjast þess af mér og vænta þess, að ég beitti mér fyrir framgangi ákveðins vandamáls í Sjálfstfl., því að það væri vitað og viðurkennt bæði af honum og mörgum öðrum, að ég hefði þar lang mest áhrif allra manna. En hvernig fer þetta nú saman, að ég á að hafa mestu áhrifin í flokknum, en samt sem áður ekki svo mikil áhrif, að ég geti leyst mig sjálfan undan banni þar við málfrelsi? Eitthvað er nú farið að renna út í fyrir þessum hv. þm., þegar hann ætlar að fara yfir í rökfræðina. Ég get hins vegar fullvissað hv. þm. um það að Sjálfstfl. hefur aldrei beitt slíku lýðræði innan sinna vébanda, og hv. þm. veit einnig, að skapgerð mín er slík, að ég hefði aldrei beygt mig undir slíkt lýðræði og þess vegna hefði ég m.a. aldrei getað átt sæti í hans eigin flokki en skal hins vegar ekki ræða það nánar.

Ég skal svo snúa mér að því að ræða svör hv. þm. og aths. við mína ræðu. Ég spurði m.a.: Hvers vegna vill hv. flm. ekki láta fara fram sams konar rannsókn á starfsemi SÍS? Ég fékk við því svar, og svarið var þetta: Það kom enginn hroki fram í svari SÍS til verkalýðshreyfingarinnar um að mæta kröfu um betri kjör, gagnstætt því, sem kom fram í svari frá SH. Þetta var eina ástæðan. En hvaða vit er nú í því að byggja tillögu eins og þá, sem hér er til umræðu, á þessu grundvallaratriði, sem er viðurkennt að hefur verið aðalatriðið, að annar aðilinn svari blítt, kannske án þess að meina það, en hinn aðilinn svarar með skarpari orðum og setur fram í harðari orðum sína skoðun? Getur það gefið ástæðu til þess að flytja svona tillögu? Sér ekki hv. þm., í hvaða óskaplegar ógöngur hann er kominn, ef hann er að byggja málflutning sinn á Alþingi á svona löguðu, að ég nú ekki tali um, þegar vitað er, að sambandið þarna á milli í dag er slíkt, að þeim, sem blítt svarar, kann að hafa þótt það bæta sinn málstað að vera ekki að hafa nein hörð orð um þetta, kannske ekki verið neitt ósárt um það, að keppinautur hans, SH, fengi slíka rannsókn eins og hér um ræðir, ef hinn keppinauturinn þyrfti ekki að svara neitt til um þau mál. Og svo sagði hv. þm. enn fremur, það var önnur ástæðan: Ég hef alla aðstöðu til að fylgjast með gerðum Sambandsins sem meðlimur í KRON. Hæstv. dómsmrh. skaut hér fram í og spurði, hvort KRON hefði þá fylgzt með olíuhneykslinu. Ég vil nú spyrja: Ef svo hefur verið, er þá KRON samsekt í því svindil öllu saman? Vill hv. þm. taka á sig alla þá ábyrgð og viðurkenna hér, að hann hafa verið meðábyrgur í öllu því. sem hefur skeð í sambandi við olíumálin og SÍS, og þeim afskiptum, sem þeir hafa haft af því, því að nú er það upplýst, að það er miklu stærri þáttur, sem Sambandið hefur átt í þeim málum, heldur en einn brúsi af frostlegi, eins og tjáð var á aðalfundi Sambandsins og KRON hefur sjálfsagt talið nægilega sönnun fyrir sakleysi þeirra í þessum málum.

Nei, ég held, að hv. þm. verði að hafa einhverjar ríkasi ástæður til þess að flytja svona tillögu heldur en þessar tvær, sem hann hefur gefið, því að þær eru honum ekki til sóma. Og hvert mundi stefna hjá okkur almennt í landsmálunum, ef þetta ætti að vera leiðarvísir hjá okkur í málflutningi í þingi? Hvert mundum við þá stefna?

Ég spurði einnig, hvort tillagan væri borin fram vegna þess, að grunur lægi á því, að Sölumiðstöðin hefði talið ranglega fram, hefði dulið eignir, hefði ekki gefið réttar skýrslur um eignir og skuldir eða dregið á einhvern hátt til sín fjárhæðir, sem hún ætti ekki. Nei, svarið var það. að slíkar ásakanir þyrði ekki hv. flm. að bera á stjórn SH. til þess væri engin ástæða. Svo er komið, að það er viðurkennt hér í þinginu, að hv. flm. hefur enga ástæðu til þess að halda, að þetta hafa komið fyrir hjá Sölumiðstöðinni. Þrátt fyrir alla þá andúð, svo að ég kveði ekki sterkara að orði, — þrátt fyrir alla þá andúð, sem hann persónulega hefur á þessu fyrirtæki, og allan þann sterka vilja, sem hann hefur til ásakana, þá viðurkennir hann samt sem áður, að það sé engin ástæða til þess að halda, að hér hafi verið framið neitt, sem er ólöglegt, að ég ekki segi glæpsamlegt, og hins vegar liggur fyrir játning um það, að aðal- og eina ástæðan sé sú, að það hafa verið of mikill hroki í bréfi til verkalýðshreyfingarinnar, gagnstætt því, sem var hjá SÍS. Þá sýnist ekki mikil ástæða til, að þessi till, sem hér liggur fyrir, verði yfirleitt samþykkt. Þá sýnist allur grundvöllurinn vera fallinn undan því að hafa borið till fram. Hinu er svo ekki að neita að það er hreint ekki lítill ábyrgðarhluti af hv. þm. að bera svona till fram, um hvaða útflutningsfyrirtæki sem væri, hvort það væri heldur SH eða Sambandið eða einhver annar útflytjandi. Við skulum ekki halda, að það séu hér ekki opin eyru útlendra sendifulltrúa til þess að hlusta á og fylgjast með, hvað gerist hér, þegar um er að ræða jafnstórkostlegt mál og hér um ræðir. Við skulum ekki halda, að þau eyru séu lokuð. Að vísu sagði hv. þm., að hann væri ekki viss um, að skattaframtölin kynnu að vera rétt hjá samlaginu frekar en, eins og hann sagði hjá mörgum öðrum mönnum. Það er mál sem þjóðin hefur glimt við í mörg ár og komizt að þeirri niðurstöðu, að það hafa verið svo langt gengið í skattabrjálæðinu í landinu, að menn hafa verið neyddir til þess að nota hvaða smugu, sem þeir gátu, til þess að komast út úr því öngþveiti. Ég held, að það yrði ekki talin fullkomlega nægileg ástæða til þess að bera fram svona tillögu eins og hér um ræðir, ef skattaframtöl SH, sem ég veit ekkert um hafa ekki verið lakari en svo, að ríkisskattanefnd og skattstjórinn sjá ekki ástæðu til þess að láta fara fram um það rannsókn.

Svör hv. flm. við spurningu minni um það, hvenær verkalýðshreyfingin hafa boðið útgerðinni löng og hagkvæm lán með lágum vöxtum og boðið þeim marga dísiltogara, verða nú harla einkennileg og fjarstæðukennd, en þar segir hv. flm. till: Ég er verkalýðshreyfingin á Íslandi. Ég hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, formaður Alþýðubandalagsins, ég er verkalýðshreyfingin á Íslandi. Ekki vantar nú hrokann, og ekki vantar nú sjálfsálitið, það verð ég að segja. En hvað ætli það séu margar þúsundir verkamanna á Íslandi, sem mundu neita þessu? Ég efa, að hv. 3. þm. Reykv. fengi stóran hóp íslenzkra verkamanna til þess að viðurkenna það, að hann væri verkalýðshreyfingin á Íslandi, og ef svo væri komið, að hann væri verkalýðshreyfingin á Íslandi, þá er ekki vel farið, það verð ég að segja, þá er sannarlega ekki vel farið. Nei, honum er alveg óhætt að lækka svolítið þann rosta. Það getur ekki verið neitt hollt fyrir hann að halda, að hann sé ekki einungis verkalýðshreyfingin heldur geti hann og einn ráðið þar því, sem hann vill. Og ef þetta væri svo, hvers vegna sveik þá þessi verkalýðshreyfing hv. 3. þm. Reykv., hvers vegna sveik hann þá vinstri stjórnina, því að það er vitað, að hv. þáv. forsrh. kom til verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og bað hana um áframhaldandi stuðning og sú verkalýðshreyfing, sem var ekki Einar Olgeirsson, sagði nei? Hvers vegna sveik þessi verkalýðshreyfing þá Framsfl., og hvers vegna sveik hún þá þjóðina, eins og hann hefur síðan haldið fram, að þjóðin hafa verið svikin með því að gefa ekki vinstri stjórninni nægilegt áframhaldandi þingfylgi? Það er eitthvað farið að ruglast hjá hv. þm., þegar hann er að ræða um þessi mál

Með þessu fororði og þessum hugsunarhætti, að hann væri verkalýðshreyfingin á Íslandi, sagði hann: Ég bauð að stækka fiskveiðasjóð, þegar ég var í nýbyggingarráði. Þá bauð hann að stækka fiskveiðasjóð. Hvaðan átti það fé að koma? Átti það ekki að koma frá útgerðarmönnunum að mestu leyti og frá þjóðinni að vísu allri, en einnig líka útgerðarmönnum, einnig frá fiskafurðunum í landinu, sem útgerðarmenn og sjómenn eiga saman? En það var hann, verkalýðshreyfingin á Íslandi, hann einn, þessi stóri maður, sem bað um allt féð. Bankarnir vildu bara ekki taka við því, sagði hann. Og svo segir hann: Ég vildi byggja 30 dísiltogara, en útgerðarmennirnir vildu aðeins kolatogara. Enginn þeirra vildi dísiltogara, og þá var gert samkomulag fyrir mitt tilstilli, verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Ég fór til Englands og kom á samkomulagi um, að það skyldu þó byggðir olíukyntir togarar. — Hvenær og hvar hefur hv. 3. þm. Reykv. dreymt þennan draum? Ég bara spyr: Hvar hefur hann dreymt hann og hvenær, og hvenær hefur þetta komizt inn í hans hugsun? Ég hygg, að það séu ekki margir menn á Íslandi, sem vita meir um þetta mál en ég, vegna þess að ég var í nefndinni sem samdi um þessi mál og ég varð aldrei var við, að verkalýðshreyfingin á Íslandi væri að flækjast fyrir fótum mínum í Englandi á þeim tíma, hvorki hjá skipasmiðastöðvunum né nokkurs staðar á minni leið á þeim tíma. Hún kannske hefur verið í Rússlandi þá, ég skal ekki segja um það, en hún var áreiðanlega ekki við þessi mál riðin í Englandi.

Nú þykir mér rétt að skýra frá því, hvernig þessi mál gengu. Það var ákveðið að senda út fyrirspurn til allra útgerðarmanna, sem höfðu látið í ljós, að þeir ætluðu sér og vildu endurnýja sína togara og áttu í nýbyggingarsjóði, fyrirspurn um það, hvers konar skip þeir vildu eignast. Og ég held, að ég hafa sagt það einmitt, er þetta var til umræðu síðast, að það kom svar frá öllum, að þeir vildu eingöngu eimtogara, allir að undanteknu einu útgerðarfélagi, sem óskaði eftir að fá dísiltogara. Það var ekki einasta það, að n., sem átti að semja um þetta, yrði að taka mjög mikið tillit til þess, hvað mennirnir vildu, sem áttu að kaupa og áttu að borga skipin, því að þá borguðu þessir menn togarana að langmestu leyti, því að sá hluti. sem þeir fengu úr stofnlánadeildinni, var sannarlega ekki stór hluti. — (EOI: 75%.) Því segir hv. þm. það? Það er rangt, það voru flestir af þeim, sem borguðu miklu stærri hluta í togurunum, vegna þess að þeir áttu nýbyggingarsjóðina, og þegar hv. þm. er að tala um 75%, þá er hann að tala um seinni flokkinn, 10 togara flokkinn, sem var ekki 75%, heldur 70%, sem var lánað hjá Barclay's Bank, en 20% lánað af ríkissjóði. Hann þarf ekki að segja mér um þau mál Þetta var nú ein ástæðan fyrir því. Hin ástæðan var sú, að við gátum ekki þá undir neinum kringumstæðum fengið smíðaða í Englandi svo marga dísiltogara á þeim tíma, sem við vildum. Það voru engin þau verkstæði, sem byggðu togarana, sem gátu tekið að sér byggingu á dísilvélunum, og þeir, sem byggðu skipin, vildu ekki byggja skipin, ef þau ættu að fara undir dísilvélar, og geta þannig ekki notað sín verkstæði til að byggja samhliða gufuvélar. Þetta er sannleikurinn í málinu. En það var farin sú leið að byggja aðalvélina sem eimvél og allar aukavélar sem dísilvélar. Þetta millistig var m.a. tekið til að kenna okkar vélstjórum að fara með og kynnast dísilvélunum um borð í skipunum, og ég hygg, að þessi leið hafa verið afar farsæl. En hún var sannarlega ekki farin fyrir tillögu frá verkalýðshreyfingunni á Íslandi.

Að enginn útgerðarmanna hafa viljað dísiltogara, er algerlega rangt. Það útgerðarfélag, sem óskaði eftir að fá einn dísiltogara, vildi sannarlega fá skipið, en það fékk það bara ekki. Þegar átti að fara að úthluta togurunum, þá fékk það ekki þann togara, sem það þó hafði pantað. Það var meira að segja tilbúið til að taka báða dísiltogarana, en það fékk það bara ekki, vegna þess að Reykjavíkurbær krafðist þess að fá bæði skipin. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að hrista höfuðið um það. Ég þekki þessi mál miklu betur, og ég get sagt honum, hvernig þetta skeði. Það skeði þannig, að Reykjavíkurbæ var úthlutað tveim dísiltogurum ásamt eimtogurunum. Reykjavikurbær skrifaði ríkisstj, á einu stigi málsins og óskaði eftir, að ríkissjóður tæki helzt báða togarana, a.m.k. annan, en helzt báða. En þegar það útgerðarfélag sem hafði pantað dísiltogarana, benti borgarstjóra á, að hann gæti alls ekki ráðið yfir þessu skipi, það hafði verið pantað af þessum mönnum, og það var fyrir þeirra orð, að það var smíðað, og þegar honum skildist það, að það væri full trú á dísiltogurunum, þá snerist honum hugur og sagði: Við höldum báðum skipunum og látum þau ekki. — Skal ég, hvenær sem er, leggja fram gögn í þessu máli, sem sanna mitt mál. Það er fullkomlega rangt, að útgerðarmenn hafa ekki viljað dísiltogara, þar sem það voru útgerðarmenn, sem frá upphafa óskuðu eftir slíku skipi.

Hv. 3. þm. Reykv., sem telur sig vera verkalýðshreyfinguna á Íslandi, átti sem slíkur sæti í nýbyggingarráði, stofnun, sem ég er honum alveg sammála um að hafa unnið að mörgum merkilegum málum. En hvers vegna sveik hann þá þá ríkisstjórn, sem að því vann? Hvers vegna rauf hann stjórnarsamstarfið, sem myndað var utan um nýbyggingarráð? Ef hann veit það ekki, skal ég segja honum það. Hann gerði það vegna þess, að hann mat meira áhuga á rússneskum áróðri en á íslenzkum málum. Það er þess vegna, sem hann rauf samstarfið. Það samrýmdist ekki lengur þeirri stefnu í utanríkismálum, sem þáverandi ríkisstj. vildi hafa, og þá var það Sósfl., þ.e. verkalýðshreyfingin að sögn hv. þm., sem vildi ekki lengur fylgja stjórninni og mat meira hagsmuni Rússlands en Íslands. Það er á þennan hátt, sem þessi hv. þm. var þjóðlegur á þeim tíma, en er svo alltaf að ásaka aðra menn fyrir að hafa ekki haldið áfram þeirri uppbyggingu, sem hann þá sannarlega hætti að styðja.

Nei, hv. þm. ætti fyrir löngu að vera búinn að gera það upp við sig, að hann er ekki verkalýðshreyfingin á Íslandi og það er alveg ólíkt íslenzkum verkamönnum að afhenda sjálfsákvörðunarrétt sinn eins takmarkalaust og hann hefði orðið að gera, ef hann hefði átt að löggilda þennan hv. þm. til þess að vera sinn fulltrúa á öllum sviðum í verkalýðsmálum. Og ég vonast til þess, að svo djúpt sökkvi aldrei íslenzkur verkalýður, að honum komi til hugar að gefa sitt vald í hendur slíkum manni eins og hv. 3. þm. Reykv., á meðan hann er ekki meiri Íslendingur en hann hefur sýnt að hann hefur verið undanfarin ár.

Hv. þm. gat um það, að hann hefði viljað stækka fiskveiðasjóðinn. Hann er ekki einn um það að hafa viljað stækka fiskveiðasjóð. Ég veit ekki betur en allir hv. þingmenn hafi verið sammála um það allan þann tíma, sem ég hef setið á Alþingi, að stækka fiskveiðasjóð eftir megni og hefur tekizt vonum framar að gera það og það á raunhæfari hátt en verkalýðshreyfingin á Íslandi. þ.e.a.s. hv. 3. þm. Reykv. hefur viljað gera, meðan hann var í nýbyggingarráði. En það er eins og með allt annað hjá þjóð. sem er fátæk og þarf að byggja upp á öllum sviðum, hún verður stundum að sætta sig við að stíga smærri spor en hún vildi gera, ef hún hefði nægilegt fé til þess.

Ég held, að þegar hlustað hefur verið á ræðu hv. þm. Í sambandi við þá till, sem hér liggur fyrir, og þau rök, sem hann hefur fært fram fyrir henni, þá sé óhætt að slá því alveg föstu, að tilgangur með flutningi frv. er að reyna að koma inn hjá almenningi, að það sé meira athugavert við starfsemi Sölumiðstöðvarinnar en hið hliðstæða starfsemi Sambandsins eða samvinnufélaganna. En það er einn þátturinn í samstarfi Framsfl. og Alþb. að telja almenningi trú um, að Samband ísl. samvinnufélaga beri að taka fram yfir Sölumiðstöðina á þessu sviði, því að vitað er, að það hefur sterka pólitíska aðstöðu í landinu. Það er ein ástæðan fyrir flutningi frv., en miklu frekar er þó hin ástæðan, að nota Þetta mál til áróðurs fyrir rússneskan markað, eins og hann reyndi að gera hér áðan, og enn fremur til þess að reyna að breiða yfir þann þátt, sem Þessi hv. þm. hefur átt í því, að ekki hefur komizt samkomulag á í sambandi við þessi mál. Þetta hafa verið aðalástæðurnar fyrir flutningi till.

Um leið og ég lýk máli mínu hér, vildi ég mega benda hv. þm. á, að eitt af okkar ágætustu skáldum sagði í litlu ljóði:

„Að deyða sjálfan sig

er synd mót lífsins herra,

en að lifa sjálfan sig

er sjöfalt verra.“

Og hv. 3. þm. Reykv. er sannarlega að lifa sjálfan sig í þessari hv. deild.