27.03.1961
Neðri deild: 86. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

218. mál, skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka viðskipti við Axel Kristjánsson og h/f Ásfjall

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði í sambandi við þetta mál sem mig langaði að víkja hér að nokkrum orðum.

Ég veitti því athygli, að hæstv. utanrrh. taldi, að svipuð vinnubrögð hefðu veríð höfð í sambandi við veitingu á ríkisábyrgð fyrir togarann Keili og gert hafði verið áður til ýmissa annarra aðila, sem keypt hefðu togara. þar sem þeir hefðu fengið sína ríkisábyrgð eingöngu með viðkomandi skip sem baktryggingu. Ég álít hins vegar, að hér hafa staðið allmikið öðruvísi á en allajafna áður. Í þeim tilfellum, þegar veittar hafa verið ábyrgðir, sem nokkru nema, fyrir einstaklinga, hefur þar einvörðungu verið um að ræða ný skip eða ný tæki, sem vitanlega gegnir allt öðru máli um en gömul og mikið notuð skip eða um tíu ára gömul tæki. En hins vegar hefur meginhlutinn af þeim ábyrgðum, sem veittar hafa verið í svona tilfellum, verið til bæjarfélaga, og þar er vitanlega allt öðru máli að gegna en þar sem er um lítið hlutafélag að ræða. Þó að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir togarakaupum til bæjarfélaga eða almenningshlutafélaga, eins og mynduð hafa verið í nokkrum tilfellum, þar sem viðkomandi bæjarfélög hafa verið aðalhluthafarnir, þá gildir þar vitanlega allt annað um. Auðvitað eru ábyrgðir heilla bæjarfélaga eða slíkra almenningshlutafélaga gagnvart ríkissjóði allt annars eðlis, og ríkissjóður hefur þar miklum mun meiri möguleika á því að framfylgja ábyrgðinni, ef ríkissjóður telur ástæðu vera til þess.

Ég þekki ekki eitt einasta dæmi þess og vildi gjarnan fá það þá hér upplýst, ef eitthvert slíkt dæmi væri til, að einstaklingi eða hlutafélagi, sem aðeins hefur á bak við sig 100 þús. kr. tryggingu í hlutafé, hafa verið veitt slík milljónaárbyrgð eins og hér um ræðir til þess að kaupa gamalt tæki, sem meira að segja opinber aðili eins og bæjarútgerðin í Hafnarfirði hafði fallið frá að kaupa. vegna þess að hún taldi það vera ónothæft tæki.

Ég held, að það sé því enginn vafi á því, að í þessu tilfelli hefur ríkisábyrgðin verið veitt undir allt öðrum kringumstæðum en jafnan áður. Það á ekki að draga neina fjöður yfir þetta. Þetta er svona. Hér er um það að ræða að fjmrh. og ríkisstj. hafa ákveðið að veita einstaklingi slíka ábyrgð sem þessa, þó að á bak við væri raunverulega um gervihlutafélag að ræða því að það var ekki svo vel að sá einstaklingur, sem hér átti í hlut, legði fram allt sitt eða hann væri hér skuldbundinn sem einstaklingur. Hér lagði hann aðeins að veði þetta gervihlutafélag, sem hafði verið myndað, því að það sjá allir að það hrekkur skammt til að kaupa heilan togara og efna að nýju til togaraútgerðar, þó að stofnað sé hlutafélag með 100 þús. kr. hlutafé.

Þá verð ég einnig að segja það, að ég tel líka, að það hafi verið farið inn á furðulega vafasama braut, þegar ábyrgð ríkissjóðs, sem er miðuð við 80% í heimild á fjárl., er ekki lengur miðuð við kaupverð skipsins, ekki hið rétta kaupverð skipsins, heldur verðið á skipinu eins og talið er, að það verði, eftir að fram hefur farið á því stórfelld breyting erlendis. Sé almennt farið út á slíka braut sem þessa, er verið að opna fyrir þann möguleika, að aðilar geti fengið 100% ábyrgð eða jafnvel meira, því að það getur verið erfitt að fá það fullsannað, hvað viðgerðarkostnaður á skipum kann að hafa numið miklu, sérstaklega þegar sá viðgerðarkostnaður er farinn að hlaupa á milljónum. Ég tel að í þessu tilfelli hefði varla verið stætt á því að veita hærri ríkisábyrgð en út á sannanlegt kaupverð skipsins. En hér hefur hin leiðin verið farin með vitanlega þeim afleiðingum, sem síðan eru nú öllum kunnar.

Ég held því, að það verði ekki um það deilt, að hér hafa verið tekin upp vinnubrögð, sem eru óvenjuleg. Ríkisábyrgðin hefur verið veitt aðila, sem hefur sett minni tryggingar en allajafna áður, og út á vafasamara tæki en dæmi munu yfirleitt vera til um áður. Það er því augljóst mál að hæstv. fjmrh. hefur ekki gætt þess, sem Alþingi lagði fyrir hann, að hann ætti að reyna að sjá um, að það væru nægilegar tryggingar settar fyrir þessari ríkisábyrgð. Hefði hann í þessu tilfelli gætt skyldu sinnar, þá álít ég, að hann hefði átt að sjá um það a.m.k., að þeir aðilar, sem hér áttu hlut að máli, legðu fram það, sem þeir áttu til sem bakábyrgð gagnvart ríkissjóði, þegar um jafnvafasamt fyrirtæki var að ræða og þetta.

En það var aðallega í sambandi við togara Seyðfirðinga, Brimnes, sem ég ætlaði að gera hér nokkrar aths.

Eins og fram hefur komið í umr. hér fór það svo, að ríkissjóður tók í rauninni í sínar hendur skip þeirra Seyðfirðinga, togarann Brimnes, snemma á árinu 1959, og þá var jafnframt veitt heimild á Alþingi til þess, að ríkissjóður mætti taka að sér rekstur á skipinu fram til 1. sept. 1959. Þegar þessi ábyrgð var veitt í sambandi við afgreiðslu fjárl., benti ég á það, að hér væri, eins og staðið væri að þessu máli af hálfu hæstv. ríkisstj., farið inn á óvenjulega braut, þar sem ráð væri nú gert fyrir því, að einum manni væri fengin í hendur stjórn á þessum togara á ábyrgð ríkissjóðs, og þannig væri í fyrsta skipti efnt til þess, að ríkissjóður tæki á sig ábyrgð á togararekstri og aðeins einn maður settur til þess að hafa á hendi stjórn þessa skips. Þarna var ekki um að ræða neina útgerðarstjórn, eins og er þó um að ræða í sambandi við alla aðra togara. Nei, hér var aðeins einum manni fengið þetta tæki og honum heimilað að reka það á kostnað ríkissjóðs. En helzt mátti afsaka þetta með því, að svona var á málinu haldið, að heimildin var til heldur stutts tíma, til 1. sept., en þá hafði verið gert ráð fyrir því, að fyrir þann tíma yrði komizt að niðurstöðu um að á milli ríkisins annars vegar og Seyðisfjarðarkaupstaður, sem var þá enn formlegur eigandi skipsins hins vegar, hvernig skyldi fara með frambúðarrekstur skipsins. En þessi heimild var notuð á þann hátt, að það var ekki stanzað með rekstur skipsins 1. sept., heldur var haldið áfram a.m.k. fram á mitt árið 1960, án þess að nokkur heimild lægi þá fyrir um það að reka skipið á kostnað ríkissjóðs. Og ég mótmæli því fyrir mitt leyti, að það hafa verið haft samráð við aðra flokka um þennan framhaldandi rekstur skipsins, og mér er vel kunnugt um, að það var ekki að vilja Seyðfirðinga, að haldið var áfram með rekstri skipsins á þennan hátt. Þau loforð höfðu verið veitt Seyðisfjarðarkaupstað í þessum efnum, að skipið skyldi á þessu fyrra tímabili, eða frá því að ríkið tók við skipinu, gert út með sérstöku tilliti til þess að leggja upp aflann á Seyðisfirði, þó bundið því skilyrði, að ekki skyldi gengið svo langt í það að koma aflanum austur á Seyðisfjörð, að rekstri skipsins yrði beinlínis stefnt í hættu af þeim ástæðum, en meginafsökunin fyrir þessari heimild var þó sú, að það yrði reynt að leysa úr atvinnumálum Seyðfirðinga í leiðinni. En skipið kom aldrei austur með afla, og Seyðfirðingar höfðu ekkert af rekstri skipsins að segja, en sátu hins vegar uppi með hið dýra og mikla fiskiðjuver, sem ríkið var þá orðið eigandi að, og það lá þar óstarfrækt að mestu. En þegar hið raunverulega ábyrgðartímabil var útrunnið 1. sept., þá sjá allir, hversu ólíklegt það er, að það hafa verið í samnáði við Seyðfirðinga að halda áfram rekstri skipsins, eftir að allir máttu sjá, að það var raunverulega í framkvæmd orðið eins og einkarekstrarfyrirtæki framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Axels Kristjánssonar, sem þá rak skipið á þann hátt, að hann landaði aflanum í eigin frystihús hér í Reykjavík og naut vitanlega alls þess hagnaðar af skipinu, sem hægt var að njóta af því, í formi þess afla, sem það kom með að landi. En enginn afli kom nokkurn tíma austur á Seyðisfjörð. Það er því alveg augljóst mál að a.m.k. frá 1. sept. að telja og þar til skipið stöðvaðist var skipið rekið á ábyrgð ríkissjóðs, en án formlegar heimildar Alþingis og rekið af þessum eina manni, sem hafði verið falið af ríkisstj. að annast um rekstur þess, og hann rak það sem sitt eigið skip og við hliðina á sínu eigin skipi og fyrir sitt eigið frystihús.

Ég skal ekkert um það segja, hvernig raunveruleg rekstrarafkoma var hjá togaranum Brimnesi árið 1959. Það má vel vera, að það sé svo sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að líklega hafa taprekstur á skipinu ekki verið mikill á þessu ári. Það má vera. En hafa nú svo verið, að það hafi ekki verið um mikinn taprekstur þá að ræða, — en það þykir mér svona almennt séð heldur ólíklegt samt, — þá verð ég að segja, að það er nokkuð undarlegt, að þá skuli skipið hafa verið stöðvað algerlega á miðju ári 1960, þá eftir aðeins hálfs árs erfiðleika og þó eftir aðalvertíð ársins, að þá skuli skipinu hafa verið lagt og það látið liggja í fullkomnu reiðileysi á vegum ríkissjóðs allan tímann síðan, því að á því er enginn vafi, að togarinn Brimnes hefur legið í fullkomnu reiðuleysi allan tímann síðan, og hefur án efa kostað ríkissjóð eða hlýtur að koma til með að kosta ríkissjóð margar milljónir króna að skilja skipið eftir í því ástandi, sem gert hefur verið, — fyrir utan þá fyrirhyggju, að ríkið lætur þennan togara, sem það á, liggja þarna ónotaðan, þó að næg verkefni væru fyrir skipið í almennum þjónustustörfum fyrir togaraflotann.

Ég held því, að það sé fullkomlega eðlilegt, að Alþingi fari í sambandi við rekstur togarans Brimness fram á fullkomna skýrslu um það, hvernig hefur tekizt til með rekstur þessa skips. Reikningarnir fyrir árið 1959 hljóta að vera til. Ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að við höfum, alþm., almennt fengið hér á borðin til akkar reikning sjálfs ríkissjóðs fyrir árið 1959. Reikningar togarans Brimness hljóta að vera til fyrir árið 1959, og reyndar ætti að hafa verið full aðstaða til þess að láta reikningana fyrir árið 1960 liggja fyrir líka. Fyrst raunverulegum rekstri skipsins var lokið á miðju ári, hefði átt að vera hægt að ganga frá reikningunum seinni hluta ársins. Það er því full ástæða til að óska eftir upplýsingum um það. hvernig þessi rekstur hefur gengið á vegum ríkissjóðs, hvert er tapið og hvernig hefur staðið á því, að ríkisstj. aflaði sér ekki heimildar til þess að mega halda áfram rekstri skipsins eftir 1. sept. 1959.

Þá er vitanlega einnig ástæða til þess að vekja athygli ríkisstj. á því, ef hún hefur gersamlega gleymt þessu skipi, að það er auðvitað þörf á því að taka einhverja afstöðu til þess, hvað á að gera við togarann Brimnes. Á hann að liggja hér endalaust í Reykjavíkurhöfn og grotna hér niður, eftir að búið er að leggja í hann þetta fé? Er ekki kominn tími til þess, að ríkið geri ráðstafanir í sambandi við þetta skip, ákveði eitthvað um að nota það, landsmönnum til gagns á einn eða annan hátt, eða þá að selja skipið úr landi ella?

Ég vildi gera þessar aths. við það sem hér hefur komið fram. Ég tel fyrir mitt leyti, að hér hafi verið höfð í frammi mjög ávenjuleg vinnubrögð og þau standist ekki þær heimildir, sem liggja fyrir í þessum efnum, og það sé því þörf á því að fá þær upplýsingar, sem beðið er um í þeirri till., sem hér liggur fyrir.