19.10.1960
Sameinað þing: 4. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í D-deild Alþingistíðinda. (3047)

951. mál, lántökur erlendis

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, svo langt sem þau ná. Ég mun ekki, fremur en ég er vanur við sams konar tækifæri, leggja út af þeim, því að ég álit, að það sé aðalatriðið við svona tækifæri að fá upplýsingar. Þó væri mikið tilefni til þess að ræða um þær lántökur, sem þegar hefur verið upplýst um. En ég sakna þess. að hæstv. ráðh. á eftir að svara einum lið fyrirspurnarinnar, og hann er sá, hversu miklar lántökur til vörukaupa nema, þær sem einstaklingar hafa fengið leyfi til þess að framkvæma og sumpart tilkynnt bönkunum um og samið við þá um greiðslu á samkv. auglýsingu hæstv. ríkisstj. Þetta fylgdi ekki með í svörunum, og má vera, að hæstv. ráðh. sé ekki búinn að fá skýrslu um þetta. Vildi ég vonast eftir að fá yfirlýsingu frá honum um það, að ég þyrfti ekki að endurtaka fyrirspurnina, til þess að þetta yrði upplýst einnig. En eins og hæstv. ráðh. hlýtur að vera ljóst, felst í fsp., eins og ég líka upplýsti, þegar ég talaði fyrir henni að það er óskað eftir skýrslu um það, hversu miklu þessar vörukaupalántökur einstaklinga nemi í heild. Þetta hlýtur að vera til í bönkunum, því að það stendur skýrum stöfum í auglýsingunni, að það skuli tilkynna bönkunum um jafnvel þau vörukaup, sem gerð eru með þriggja mánaða fresti ag minna, og fá samninga við þá nm greiðsluna. Enn fremur stendur skýrum stöfum, að leyfi bankanna þarf, sem munu vera veitt í umboði ríkisstj., til þess að taka vörukaupalán, sem eru á milli 3 og 12 mánaða að lengd. Allir sjá, að það er náttúrlega ómögulegt að átta sig nokkurn skapaðan hlut á gjaldeyrisstöðu landsins, nema þessar upplýsingar komi fram.