26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í D-deild Alþingistíðinda. (3052)

34. mál, lántökur ríkisins

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. 1. liður fsp. á þskj. 34 hljóðar þannig: „Hve mikið er búið að borga inn til íslenzkra banka af umsömdu 6 millj. doilara láni í Bandaríkjunum, og hve miklu nemur sú fjárhæð í ísl. krónum.” Þessi liður þarfnast ekki neinnar framsögu eða skýringar.

2. liður hljóðar þannig: Hefur ríkisstj. ráðstafað nokkru af lánsfé þessu umfram það, sem heimilað var í 22. gr. fjárl. 1959?“ Það var heimilað í 22. gr. fjári. 1959 að taka lán allt að 6 millj. dollara, og þá var um leið tilgreint, í hvað nokkur hluti lánsins skyldi fara, en ekki um hinn hlutann. Var þá vitanlega gert ráð fyrir, að það yrði lagt fyrir hv. Alþ. síðar, hvernig þeim hluta yrði ráðstafað. Að öðru leyti þarf þessi liður ekki skýringa.

3. liður er þannig: „Er ríkisstj. að leita fyrir sér um nýjar lántökur, og ef svo er, þá hverjar og í hvaða skyni” Það er tilefni þessa liðs, að þegar efnahagslöggjöfin var sett á s.l. vetri, var það greinilega tekið fram, að það yrði að hafa hana svo stórfellda vegna þess, að Íslendingar yrðu að hætta erlendum lántökum og gætu ekki búizt við að hafa til ráðstöfunar á næstu missirum eða árum nema sínar eigin útflutningstekjur. En nú hefur gengið orðrómur um, að hæstv. ríkisstj. væri að leita fyrir sér um nýjar lántökur umfram það, sem heimilað var á þinginu í fyrra og ákveðið var í sambandi við sjálfa efnahagslöggjöfina, og þess vegna er þessi fsp. komin fram.