20.10.1960
Sameinað þing: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

56. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hér hefur gefið, og einkanlega sé ég sérstaka ástæðu til að fagna því, eða ég tek orð hans svo, — að vænta megi þess, að strengurinn verði lagður næsta sumar. En vissulega höfðum við Vestmanneyingar orðið nokkra ástæðu til að efast um hvert málið stefndi, og stafar það ekki sízt af því, að í flokksblaði ráðh. í Vestmannaeyjum hefur þrívegis verið vikið að þessu máli í sumar og þar gefnar upplýsingar, sem hafa, eftir því sem á leið sumarið, orðið þess eðils, að í rauninni gaf það tilefni til þess að ætla, að málið væri komið á eitthvert alvarlegt stig og mundi frestast út í bláa móðu framtíðarinnar jafnvel. Þessar upplýsingar eru gefnar í vikublaðinu Fylki, sem flokkur ráðh. gefur út í Vestmannaeyjum, og eru allar þess efnis, að þar er talið, að eina von Vestmanneyinga í málinu sé það, hvað Ingólfur Jónsson sé góður ráðh., en síður í hinu, að teknar hafa verið upp áætlanir og nokkur undirbúningur um málið. Ef ráðh. skyldi sjálfur ekki hafa fylgzt með þessu, þá vil ég leyfa mér að lofa honum aðeins að heyra svolitlar glefsur úr þessu, en fyrstu upplýsingarnar, sem við höfðum eftir þessum leiðum, Vestmanneyingar, voru úr grein, sem hv. 3. þm. kjördæmisins gaf í blaðinu að loknu þingi, þar sem hann ræðir nokkuð um vandamál Vestmanneyinga sérstaklega og segir, með leyfi forseta:

„Svo vill til með öll þau mál, sem legið hafa fyrir hjá undanförnum ríkisstjórnum án þess að fá afgreiðslu, að þau heyra nú undir ráðuneyti Ingólfs Jónssonar, og hefur hann sýnt alveg ótvíræðan skilning og velvilja á að bæta úr þeirri vanrækslu, sem þessi hagsmunamál Vestmanneyinga hafa sætt hjá undanförnum ríkisstj. og þó einkanlega meðan vinstri stjórnin sat. En þau eru þessi helzt“ — og síðan er talið upp og það, sem segir þar um þetta rafstrengsmál sérstaklega, er á þessa leið: „Þegar árið 1952 mun Alþ. hafa heimilað ríkisstj. að taka lán allt að 10 millj. kr. til kaupa á sæstreng frá línum Sogsvirkjunarinnar og út í Eyjar. En svo hefur viljað til, að allan þann tíma hafa raforkumálin heyrt undir ráðherra Framsfl., að undanskildu árinu 1959, meðan ríkisstj. Emils Jónssonar sat að völdum. Hefur bæjarstjórn árlega sent viðkomandi ríkisstjórnum áskorun um, að hafizt yrði handa um lagningu strengsins. Hefur strengurinn tvisvar verið tekinn inn á áætlun raforkumálastjóra, en úr framkvæmdum hefur ekki orðið, þar sem samþykki raforkumrh. hefur ekki fengizt“ o.s.frv. Þar er sem sagt gefið til kynna, að allt til þessa hafi lagþing strengsins strandað á því einu, að raforkumrh. hafi ekki samþykkt. En nú var sem sagt kominn góður raforkumrh., og átti ekki að standa á þessu máli.

Næstu upplýsingar, sem við fáum um málið, eftir að búið er að segja margt gott orðið um ráðh., Þá segir í blaði, sem út kom hinn 1. júlí : „Úr þessu ætti ekki að skipta neinu höfuðmáli, hvort lagning strengsins fer fram árið 1961 eða 1962. Aðalatriðið er það, að tryggt er, að verkið verður framkvæmt“. Sem sagt, þarna er kominn ólíkt lengri frestur á lagningunni en áður hafði nokkrum manni dottið í hug.

Síðast er vikið að þessu í sama blaði hinn 9. sept., og segir þar á þessa leið: „.Þegar Ingólfur Jónsson varð raforkumrh. á síðasta hausti, tók hann mál þetta upp og kom því á þann rekspöl að héðan af verður ekki snúið við og ekki hvikað frá framkvæmdum.“ En þar er meira að segja hætt að nefna ártöl svo að við Vestmanneyingar höfðum vissulega ástæðu til þess að efast um, að hér væri allt á réttri braut. Þess vegna fagna ég alveg sérstaklega þeim upplýsingum ráðh., að hægt Nerði að leggja sæstrenginn til Vestmannaeyja á næsta sumri, enda þótt það sé orðið einu ári á eftir áætlun.

Hins vegar þykir mér ástæða til að geta þess, að Vestmannaeyjaveita er nú dálítið meira en sæstrengurinn einn. Það þarf einnig að leggja háspennulínu frá Hvolsvelli og fram í Landeyjasand, og það er nú eins og manni fyndist þrátt fyrir tæknilega örðugleika á lagningu sæstrengs, að það væri hægt að koma málinu áleiðis, þannig að sá hluti veitunnar yrði þó ekki síðastur eða til þess að tefja það, að raforka fengist til Vestmannaeyja.