20.10.1960
Sameinað þing: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í D-deild Alþingistíðinda. (3066)

56. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða fyrir mig að segja öllu meira. Ég heyri, að hv. fyrirspyrjandi er ánægður með mín svör og meira að segja mjög ánægður, þar sem það er enn staðfest, að rafstrengurinn skuli lagður og það með bréfi frá rafmagnsveitustjóra.

Það eru ekki aðeins mín orð, heldur rafmagnsveitustjóra, að það sé ekkert lengur til fyrirstöðu, að strengurinn verði lagður á næsta sumri. En ég skil vel ummæli Fylkis. Það er ekki ritstjóri Fylkis, sem getur ákveðið, hvenær tæknilegum undirbúningi er lokið við svo mikið fyrirtæki sem þetta. Þess vegna er varlegast fyrir hann að fullyrða ekkert um það, hvort möguleikar væru á að gera þetta 1961 eða 1962. En það er rétt, sem stendur í blaðinu, að það verður ekki aftur snúið, úr því að fyrirmæli höfðu verið gefin um það, að verkið skyldi unnið svo fljótt sem möguleikar leyfðu. Og það var staðreynd, að það var gert, eftir að ég kom í rn., og ég veit, að hv. fyrirspyrjandi er alveg sérstaklega ánægður með það, að þm. Sunnl. haft hafi tækifæri til þess að ýta málinu úr vör.