26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

953. mál, virkjunarrannsóknir á vatnasvæðum Hvítár og Þjórsár

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Um nokkurra ára skeið hafa farið fram viðtækar rannsóknir og mælingar á vatnasvæði Þjórsár og Hvítár. Þetta er kostnaðorsamt og mikið starf og þarf mikla nákvæmni við og nákvæma athugun, áður en ráðizt er í virkjun svo stórra vatna sem Þjórsá og Hvítá eru.

Eftir að þessi fsp. kom fram, sneri ég mér til raforkumálastjóra og bað hann um að taka saman, á hvaða stigi þetta væri, og gefa mér skýrslu um það, og skýrsla raforkumálastjóra, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir nokkurra ára rannsóknir hefur verið sett fram till. að heildarskipulagi fullvirkjana Þjórsár og Hvítár. Rannsóknir þessar hafa mestmegnis verið framkvæmdar af innlendum verkfræðingum og öðrum sérfræðingum. En árið 1959 voru fengnir að auki amerískir verkfræðingar til að líta á staðhætti, yfirfara rannsóknarskýrslur og áætlanir íslenzkra verkfræðinga og gagnrýna hugmyndir þeirra um heildanfyrirkomulag á fullvirkjun þessara tveggja stóráa. Amerísku verkfræðingarnir voru frá Hass Engineering Company, og var ferð þeirra hingað kostuð að verulegu leyti af styrk frá ICA. Amerísku verkfræðingarnir gerðu ekki neinar verulegar brtt. frá hugmyndum íslenzku verkfræðinganna.

Samkvæmt þeirri mynd, sem þannig er fengin af virkjunarmöguleikum í þessum ám, er talið að heppilegt muni vera að virkja Þjórsá og þverár hennar í 11 orkuverum, allt frá Bjallavirkjun í Tungnaá og stíflu við Norðlingaöldu í Þjórsá hið efsta og til Urriðafossvirkjunar neðst, en Hvítá frá virkjun úr Hvítárvatni efst í 7–10 orkuverum og að hugsanlegri virkjun við Selfoss neðst. Talið er, að þessi virkjun í Þjórsá og þverám hennar muni geta gefið um 8000 millj. árskw., en Hvítá um það bil 2700 millj. árskw.

Á undanförnum áratugum hafa verið framkvæmdar miklar landmælingar, vatnamælingar, jarðfræðiathuganir, kortagerð og útreikningar og áætlanir, og á þeim eru þær bráðabirgðatillögur, sem nú liggja fyrir, byggðar. En í ýtarlegri skýrslu, sem hið ameríska verkfræðingafirma hefur tekið saman fyrir okkur eftir athugun verkfræðings þess hér, hefur það gert lauslega áætlun um, hversu mikið muni kosta viðbótarrannsókn, sem gera þarf, áður en þessi heildartillaga, sem þeir nefna á ensku Master Plan, um virkjun ánna getur talizt vera orðin nægjanlega vel rökstudd. Það eru einkum jarðfræðilegar og jarðeðilsfræðilegar rannsóknir ásamt umfangsmiklum jarðborunum, lekamælingum, efnisleit, nákvæmar landmælingar og. síðan frekari útreikningar og áætlanir, sem enn er eftir að framkvæma.

Frumáætlun að þessari rannsókn mun kosta um 40 millj. ísl. kr. Þetta er mikill kostnaður, og mun að sjálfsögðu verða erfitt að koma slíkum rannsóknum í kring á stuttum tíma, en það er því miður svo, að erfitt er og þykir viðsjárvert að hefja virkjanir í stórá, áður en gerð hefur verið nokkurn veginn full grein fyrir heildarskipulagi á fullvirkjun árinnar. Þess vegna er nokkuð aðkallandi að ljúka þessum frumrannsóknum, sem svo mætti nefna.

Nú á undanförnum árum hefur raforkumálastjórnin varið 4 millj. kr. á ári í þessar virkjunarrannsóknir. Æskilegt væri, að rannsóknum þeim, sem hið ameríska firma áætlar að muni kosta um 40 millj. kr., væri hægt að ljúka á næstu fjórum árum, en til þess mundi ekki veita af að verja allt að 10 millj. kr. á ári til virkjunarrannsókna næstu árin.

Í ár hefur sérstök áherzla verið lögð á að ljúka þeim athugunum, sem gera þurfti til þess, að hægt væri að taka ákvörðun um, hvaða orkuver skuli reisa nú næst eftir fullnaðarvirkjun Sogsins. Er talið nauðsynlegt að taka slíka ákvörðun nú þegar á miðjum vetri, til þess að nægur tími verði til undirbúnings og framkvæmda á byggingu þess orkuvers fyrir árslok 1964, sem álitið er að sé sá frestur, sem okkur er til þess gefinn.

Virkjun Hvítár við Hestvatn er talin vera eina vatnsaflsvirkjunin, sem kemur til greina að gera fyrir þann tíma. En til samanburðar við hana er áætluð jarðhitarafstöð í Hveragerði, svo sem kunnugt er, og þess er að vænta, að nauðsynlegar áætlanir liggi fyrir nú fyrir jól til þess að velja á milli þessara tveggja möguleika.

Ef ekki er um að ræða að afla raforku til neins stærri iðnaðar, er gert ráð fyrir, að jarðhitarafstöð, 15 þús. kw., muni endast til ársloka 1967 og ef Hvítárvirkjun við Hestvatn tæki við næst á eftir, mundi hún endast fram yfir árið 1970. Ef hins vegar kemur upp, að stofnað er til einhvers iðnaðar, sem þarf á að halda svo að skiptir tugum þúsunda kw., þarf að reisa orkuver örar en þetta eða fara í stærri virkjunarstaði.

Samtímis öðrum virkjunarrannsóknum er nú unnið að sérstökum áætlunum um stórvirkjun í Þjórsá við Búrfell með það fyrir augum að fá á sama hátt og gert hefur verið við Jökulsá á Fjöllum alláreiðanlegar verðáætlanir um raforku til stóriðnaðar, svo sem t.d. alúminíumvinnslu. Hér er að sjálfsögðu ekki um neina fullnaðaráætlun að ræða, en vonazt til þess að ná þó nægilegri nákvæmni til notkunar við yfirvegun um möguleika þess að koma slíkum iðnaði á fót hér á landi.“

Eins og fram kemur í þessari skýrslu raforkumálastjóra, er að þessum málum unnið svo hratt sem mögulegt er, en undanfarið hefur verið veitt of lítið fjármagn til þessara. framkvæmda. Ég hygg, að allir hv. alþm. vilji ekki bíða í 10 ár eftir því, að fullnaðarrannsókn á þessu vatnasvæði sé fengin, en það tekur 10 ár að rannsaka þetta, ef fjárveiting til rannsóknanna verður ekki aukin frá því, sem verið hefur.

Raforkumálastjóri leggur til, að það verði veittar í þessu skyni 10 millj. kr. á ári og rannsókninni verði lokið á fjórum árum, og virðist það vera sá lengsti tími, sem hægt er að bíða eftir þessum áætlunum, en út í það skal ekki farið hér. Mér er kunnugt um, að ríkisstj. hefur áhuga á því að hraða þessum áætlunum svo sem unnt er, þar sem nauðsynlegt er að geta fengið úr því skorið, hvar hagkvæmast er að virkja, og þar sem um það er hugsað nú fyrst í alvöru að koma upp stóriðju hér á landi.