02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

76. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, að um það sé spurt, hvort þál. þeirri, sem samþ. var s.l. vor, hafi verið gerð þau skil, sem æskilegt væri, þ.e. að verða við vilja hv. Alþ., sem samþykkti þessa till., og tryggja veðdeild Búnaðarbankans viðunandi starfsgrundvöll. En því miður verð ég að segja söguna eins og hún er, að þetta hefur ekki enn tekizt, og veit ég, að hv. alþm. út af fyrir sig undrast það ekki. Þeim er vitanlega vel ljóst, hvaða örðugleikum það er bundið og að veðdeildin hefði ekki starfað undanfarin mörg ár við fjárskort, ef það hefði verið suðið og mjög létt verk að afla henni nægilegs fjár.

Það er rétt, að hagur veðdeildarinnar er mjög bágborinn, því að eins og hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan hefur hún leitazt við að lána umfram getu vegna mikillar eftirspurnar og vegna mikillar þarfar á því að fá fé úr veðdeildinni. Þess vegna er það, að veðdeildin skuldar nú drjúgan skilding. Hún skuldar talsvert yfir 19 millj. kr., eingöngu vegna þess, að látið hefur verið undan þeirri pressu og hinni miklu þörf bændanna á lánsfé. Veðdeildin skuldar Seðlabankanum tæpar 3 millj. kr., atvinnuleysistryggingasjóði rúmar 3 millj., skyldusparnaði 9.7 millj. og sparisjóðsdeild Búnaðarbankans 3.6 millj. Þetta gerir samtals rúmlega 19 millj. Og ef við tökum til athugunar starfsemi veðdeildarinnar s.l. 10 ár, kemur í ljós, að hún hefur lánað frá 1/2 millj. og upp í 7 millj. árlega á þessum áratug. 1950 lávar hún 453 þús., 1951 409 þús., 1952 1 millj. 534 þús., 1953 863 þús., 1954 2 millj. 103 þús., 1955 4 millj. 732 þús., 1956 3 millj. 859 þús., 1957 6 millj. 750 þús., 1958 6 millj. 460 þús., 1959 7 millj. 227 þús. og 1960 til 1. nóv. 2 millj. 988 þús. kr., og hefur verið dregið úr lánum á þessu ári vegna þess, hversu veðdeildin skuldar orðið mikið. Lánin á undanförnum árum hafa verið umfram tekjur, og þess vegna hefur skuldum verið safnað. En í sjálfu sér gæti veðdeildin í ár lánað án þess að auka skuldina 6 millj. kr., því að hún á eftir að fá 3 millj. kr., sem ríkisstj. hefur lofað að greiða og er búið að samþykkja að deildin fái, en hefur eigi að síður dregizt. Vona ég, að það verði ekki lengi héðan af. Það stóð til, að það yrði greitt í september eða október, en verður væntanlega ekki fyrr en nú næstu daga. Þá gæti veðdeildin á árinu 1960 lánað um 6 millj. kr. án þess að hafa aukið skuld sína frá fyrra ári, en það hefur hún gert undanfarin ár. En þetta er, eins og vitanlegt er, allt of lítið, bæði það, að 35 þús. á hvert býli er af lítið, og svo þurfa lánin að vera miklu fleiri, um leið og þau eru nærri. Til þess að gera sér ljóst, hversu fjárþörfin er mikil hjá veðdeildinni, ef við hugsuðum okkur að hækka hvert lán úr 35 þús. upp í 50 þús. og það væru aðeins 200 lán, þá gerir það 10 millj. kr. eða til jafnaðar 10 lán í hverja sýslu. Það sjá allir, að enda þótt deildin gæti lánað 10 millj. kr. á ári, 50 þús. kr. hvert lán, þá er það mjög lítið og fullnægir vitanlega hvergi nærri þörfinni, sem fyrir hendi er.

Það, sem þarf að gera, er að afla deildinni fjár. Spurningin er bara, hvernig á að fara að því. Búnaðarþing gerði samþykkt á siðasta búnaðarþingi. Það var áskorun á ríkisstj. að útvega deildinni a.m.k. 50 millj. kr. erlent lán, og búnaðarþing sá ekki aðra leið en Þá að taka erlent lán, vegna þess að hér á innlenda lánsfjármarkaðinum væri ekki möguleiki til þess að útvega þetta fé. Ég verð að segja það eins og er, að ríkisstj. nefur ekki enn leitað fyrir sér beinlínis um lán erlendis handa veðdeildinni. Enda þótt það hafi verið haft í huga ásamt öðru, þá segi ég, að það hafi ekki verið gert beinlínis vegna veðdeildarinnar enn, enda þótt hún gæti e.t.v. notið góðs af, ef til framkvæmda kæmi lán, sem leitað hefur verið eftir almennt.

Eftir að ráðuneytinu barst þessi till., eins og venja er að senda slíkar tillögur til viðkomandi ráðuneyta, var bankaráði Búnaðarbankans skrifað og bankaráðið, sem er kunnugast um fjárreiður hinna ýmsu deilda bankans, var beðið um að gera tillögur í þessu máli, ef rn. gæti eitthvað stuðzt við það. En bankaráðið hefur ekki enn gert tillögur í þessu máll. vegna þess að það er enn í athugun hjá ráðinu. Það hefur orðið fyrir bankaráðinu eins og ríkisstj. ekki jafnauðvelt og æskilegt væri, og skil ég það vel. En ég vil taka það fram, að um leið og ræktunarsjóður og byggingarsjóður Búnaðarbankans eru í athugun hjá ríkisstj., þá er veðdeildin það að sjálfsögðu líka, og eins og ræktunarsjóður og byggingarsjóður eru nauðsynlegir fyrir landbúnaðinn, svo er það einnig nauðsynlegt, að veðdeildin geti veitt lán og verið aflögufær. Byggingarsjóður lávar aðeins út á byggingu íbúðarhúsa. Ræktunarsjóður lávar aðeins út á nýjar framkvæmdir, ræktun og byggingu peningshúsa. En það er engin deild Búnaðarbankans, sem lávar út á vélakaup, ekkert lánað út á jarðakaup, ef jarðaskipti verða o.s.frv. Af þessu er það ljóst, að veðdeildin hefur í rauninni ekki minna hlutverki að gegna en byggingarsjóður og ræktunarsjóður, og þörfin á því að efla hana jafnhliða er visslega brýn.

Veðdeildin hefur undanfarinn áratug, eins og ég las upp, búið við fjárskort, hefur lánað 19 millj. meira og rúmlega það heldur en hún raunverulega gat, og skal Það sízt lastað, þar sem fjárþörfin var og pressan á bankann. En þannig er vitanlega ekki hægt að halda áfram. Það verður að afla deildinni fjár, ef hún á að gegna hlutverki sínu, og hún þarf að fá miklu meira fé til ráðstöfunar en hún hefur haft. Eins og ég sagði áðan, þó að hún gæti lánað árlega 10 millj., þá er það ekki nema 200 lán. Það er allt of lítið. Og hún þarf vitanlega að borga allar skuldir, sem ég las upp.

Veðdeildin er ásamt ræktunarsjóði og byggingarsjóði í athugun hjá ríkisstj., og ég vona, að það finnist viðunandi lausn á þessum vanda.