16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

93. mál, yfirvinna kennara

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það er nú á allra vitorði, að í okkar skólamálum er nokkur vá fyrir dyrum, þar sem erfiðara virðist með ári hverju að fá kennara til starfa til að fullnægja þeirri kennsluskyldu, sem samkvæmt fræðslulögum á að uppfylla gagnnart börnum og unglingum þjóðarinnar. Á s.l. hausti hefur kennaraskorturinn verið langmestur, sem hann nokkru sinni hefur verið, og þykir flestum, sem hugleitt hafa það mál að ekki fari það á milli mála, að kennarar séu ekki nægilega vel launaðir til þess, að auðvelt sé að fá kennarastöður skipaðar hæfum mönnum og mönnum með réttindi til þeirra starfa. Það er til dæmis um þennan kennaraskort, að í einum kaupstað landsins t.d. mun nú vanta fast að því þriðja part af því kennaraliði, sem þyrfti, til þess að fullskipað væri kennaralið þeirrar stofnunar. Víðar mun nokkuð á vanta, að skólar hafi fullskipað kennaralið. En í þeim kaupstað, sem ég hér vitnaði sérstaklega í, var á s.l. hausti reynt að bjarga við kennaraskortinum með því að biðja þá kennara, sem við skólann störfuðu, að leysa af hendi nokkra aukavinnu í starfsgrein sinni til þess að komast sem allra næst því að fullnægja kennsluskyldu samkvæmt fræðslulögum. Þetta var gert í oktábermánuði, enda vissu kennarar þá ekki betur en að þeim yrði greitt yfirvinnuálag á þá tíma, sem þeir tækju að sér að kenna umfram sína kennsluskyldu. En þegar leið á októbermánuð, varð ljóst, að þetta álag neitaði bæði viðkomandi bæjarfélag og einnig ríkið að greiða. Þess vegna var það um s.l. mánaðamót, að í þessu tiltekna skólahéraði varð að umskipuleggja kennsluna, þar sem kennarar undu því ekki að fá ekkert yfirvinnuálag á störf sín, þau sem undir yfirvinnu eiga að falla, svo sem þó tíðkast um svo til allar eða alveg allar aðrar starfsstéttir þjóðfélagsins. Varð þess vegna að endursemja allar stundaskrár viðkomandi skála og draga saman bóklega kennslu um frá 25–50% af kennslunni. Við þetta stendur, að a.m.k. á þessum stað er alls ekki framkvæmd full kennsluskylda. Og þó að þetta sé það dæmið, sem ég veit stærst um skerðingu á því, að þjóðin uppfylli við hina uppvaxandi kynslóð þá fræðsluskyldu, sem lög standa til, þá veit ég og til þess, að í fleiri skólahéruðum skortir einnig á, að hægt sé að uppfylla kennsluskylduna.

Nú er mér það að sjálfsögðu ljóst, að kaup kennara fer eftir launalögum og að það verður ekki gert án lagabreytinga að hreyfa til kaup þeirrar stéttar fremur en kaup annarra ríkisstarfsmanna. Eitt kemur mér hins vegar mjög á óvart, að samtímis því sem ríkisstj. hefur á sínum tíma gefið út reglugerð um það, að ríkisstarfsmenn skuli einmitt rá greitt álag á sína yfirvinnu eftir ákveðnum reglum, eins og fram kemur í reglugerð nr. 79 frá árinu 1955, .þar sem segir, að álag á yfirvinnu skuli greitt 50–100% eftir eðli málsins, eftir því, hve mikil yfirvinnan er, þá verður einnig af þeirri reglugerð ljóst, að hún á ekki við að því er snertir kennara, því að vinnustundafjöldinn, sem viðkomandi ríkisstarfsmönnum er samkv. þeirri reglugerð gert að inna af hendi, áður en til yfirvinnu kemur, er sjáanlega ekki miðaður við vinnustundaskyldu kennara, sem samkv. eðli málsins er nokkru lægri en annarra starfsmanna. En það, sem mér þykir undarlegast, er, að stjórnvöldin skuli ekki gera ráðstafanir til þess, þar sem þau alveg ótvírætt hafa þá heimild í gildandi lögum, að gefa einnig út reglugerð um greiðslu álags á yfirvinnu kennara svo sem annarra eða hliðstæða við það, sem öðrum ríkisstarfsmönnum er greitt, þegar í það óefni er komið, að hætt er að framfylgja fræðslulögum, einmitt vegna þess, að kennarar, ein stétt allra landsmanna, fá enga yfirvinnu greidda á sín laun, enda þótt allir aðrir ríkisstarfsmenn hafi rétt til þess samkv. reglugerð. Í tilefni af þessu hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurn til ríkisstj.: „Hvers vegna lætur ríkisstj. ekki koma til framkvæmda greiðslu álags á laun kennara fyrir yfirvinnu á hliðstæðan nátt og slíkt er veitt öðrum ríkisstarfsmönnum?“