16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

93. mál, yfirvinna kennara

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er hv. fyrirspyrjanda alveg sammála um, að kennaraskorturinn, hinn vaxandi kennaraskortur, er mikið vandamál, eitt af alvarlegri vandamálunum, sem við er að etja í íslenzka þjóðfélaginu í dag, og að brýna nauðsyn ber til að taka á því vandamáli af bæði festu og skilningi. Einmitt þess vegna var það, sem ég, eins og ég gat um áðan. á sínum tíma skipaði nefnd sérfróðra manna til þess að taka þetta vandamál til alveg sérstakrar athugunar, gera sér nákvæma grein fyrir því, hversu mikið kvæði að kennaraskortinum, — um það skortir eins fullkomvar upplýsingar og nauðsynlegt er að hafa, — og rekja ástæðurnar fyrir því, að til skorts hefur komið, og gera tillögur til úrbóta. Starfi þessarar nefndar er ekki lokið. Ég hef fylgzt nokkuð með því og veit, að hún telur það vandasamt og umfangsmikið. En ég get fullvissað bæði hann og aðra hv. þm. um, að ríkisstj. hefur augun vel opin fyrir því, að hér er mikið vandamál á ferðinni. og fullan hug á því að greiða úr því með þeim hætti, sem geti verið hinni uppvaxandi kynslóð að sem beztu gagni.

Að því er það snertir, hvers vegna ríkisstj. gefi ekki út reglugerð, nýja reglugerð, breyti ekki áratuga gömlum lögum eða reglugerðum, settum samkv. lögum. sem breyti í grundvallaratriðum greiðslutilhögun á launum kennara, þá er það að segja, að með því að gera slíkt væri verið að gera grundvallarbreytingu á launakjörum einnar stéttar opinberra starfsmanna, eins mjög stórs hóps opinberra starfsmanna. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að slíkt sé a.m.k. mjög torvelt, nema það sé gert sem liður í ráðstöfunum til breytinga á kjörum opinberra starfsmanna yfirleitt. Það er hv. fyrirspyrjanda áreiðanlega jafnljóst og mér, að bilið milli launa, t.d. barnakennara annars vegar og gagnfræðaskólakennara hins vegar, er svo lítið, að ógerningur er að gera nokkra breytingu, sem nokkru mali skiptir, á t.d. kjörum barnakennara, án þess að nauðsynlegt sé að gera alveg sams konar breytingu eða hliðstæða breyt. á kjörum gagnfræðaskólakennara, svo sem við megum báðir minnast, sem fjölluðum um launalögin, þegar þau síðast voru endurskoðuð 1956, í fjhn. hv. Nd. Alþ. Þá voru laun barnakennara hækkuð um einn flokk, þau flutt til um einn flokk og þar með bilið á milli launa barnakennara og gagnfræðaskólakennara minnkað. En það þótti þegar eftir setningu launalaganna svo hæpin ráðstöfun, að gera varð aðra stjórnvaldsráðstöfun til þess að leiðrétta það aukna bil, sem þarna hafði verið skapað.

Þess er enn fremur að geta, að ef kennararnir eru teknir í heild og laun þeirra borin saman við laun annarra hópa opinberra starfsmanna, mjög stórra, t.d. starfsmanna pósts og síma, er bilið á milli launa þessara tveggja mjög stóru hópa opinberra starfsmanna svo lítið, að búast má við því, að hver sú breyting, sem gerð yrði á starfskjörum annars hópsins, yrði talin verða að ná til hins hópsins, og þá er í raun og veru um það að ræða að gera allsherjar breytingu á launakjörum opinberra starfsmanna. Það verður ekki gert, eina og hv. þm. tók fram, með öðrum hætti en þeim að endurskoða sjálf launalögin. Hér er um svo mikið vandamál að ræða, að það er ekki hægt að gera þá breyt., sem þyrfti að gera, eftir þeirri leið einni að breyta reglugerð. Það, sem yrði að gera, er að taka sjálf launalögin til endurskoðunar. og mér er fullljóst, að á því getur ekki orðið langur dráttur, úr því sem komið er, að launamál opinberra starfsmanna verði tekin til nokkurrar endurskoðunar.