23.11.1960
Sameinað þing: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

900. mál, niðursuða sjávarafurða á Siglufirði

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég svara beinlínis þessari fsp., langar mig til þess að fara svo sem eitt ár aftur í tímann.

Árið 1959, 12. maí, var skipuð nefnd til að gera áætlanir um niðursuðuverksmiðju á Akureyri samkv. þál., sem samþ. hafði verið á Alþingi þá skömmu áður. Þessi nefnd var þannig skipuð, að í henni var Sigurður Pétursson gerlafræðingur, formaður, Jakob Jakabsson fiskifræðingur og Albert Sölvason járnsmiður. Þessi nefnd lauk störfum og hafði skilað áliti 11. marz s.l. um sína Akureyrarniðursuðuverksmiðju og hafði þá unnið, eftir því sem ég gat bezt litið til, ágætt starf, rannsakað hráefnið eins og frekast var fært, kynnt sér verksmiðjur erlendis og sölumöguleika á afurðunum, enda varð niðurstaðan sú, að nokkru síðar var þar verksmiðja reist.

Árið 1960, 4. maí s.l., var samþ. á Alþingi svipuð till. varðandi niðursuðuverksmiðju á Siglufirði, eða eins og það var orðað í þáltill.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, hvort hagkvæmt muni vera og líklegt til eflingar niðursuðuiðnaði í landinu að nota heimild laga nr. 47 7. maí 1946 til að reisa verksmiðju á Siglufirði til niðursuðu sjávarafurða.“

Með því að þessi nefnd hafði athug,að niðursuðumálið mjög vandlega og rétt nýlega lokið við að skila áliti um það verkefni, sem henni var falið á árinu 1959, þótti eðlilegt og rétt, að henni væri falið áframhald þessa verkefnis, þ.e.a.s. athugun á verksmiðju á Siglufirði, og 10–11 dögum eftir að þáltill. hafði verið samþ. hér á Alþingi, var þessari nefnd 16. maí s.l. falið að athuga málið viðvíkjandi Siglufirði og gefa rn. umsögn og tillögur sínar með hliðsjón af þeim árangri, sem fengist hafði á Akureyri.

Þessi nefnd hefur síðan haft málið til meðferðar frá 16. maí s.l., að hún var skipuð, og nú aðeins fyrir nokkrum dögum, eða 14. nóv. s.l., hefur mér borizt nál. frá þessari nefnd. Þar sem hér er ekki um sjálft efni málsins að ræða, enda ekki venja að fara út á nál., áður en það hefur verið gaumgæfilega rannsakað, skal ég aðeins láta mér nægja að lesa upp niðurstöðuna af áliti n., sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er álit okkar, að hagkvæmast muni og líklegast til eflingar niðursuðuíðnaði í landinu, að á Siglufirði verði gerðar eftirfarandi ráðstafanir:

1) Fenginn verði til Siglufjarðar maður með góða kunnáttu í niðurlagningu á saltsíld að sænskri fyrirmynd.

2) Að sérfræðingi þessum sé veitt aðstaða til framleiðslu á sýnishornum, er send verði á erlendan markað.

3) Að undirbúin verði byggingaráætlun, verksmiðju á Siglufirði til niðurlagningar á saltsíld, þannig að unnt verði að reisa verksmiðjuna strax og sýnt er orðið að framleiðslu og sölu sýnishornanna, að varan muni vera samkeppnisfær um verð og gæði á erlendum markaði.”

Eins og ég gat um, er þetta nál. alveg nýkomið og ég hef ekki fengið tækifæri til að kynna mér það ofan í kjölinn, en mun gera það mjög fljótlega, því að mér er ljóst, hversu þýðingarmikið málið er.