30.11.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

107. mál, samstarfsnefnd launþega og vinnuveitenda

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað líður framkvæmd þál. frá 1. júní 1960 um rannsókn á starfsgrundvelli samstarfsnefnda launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja?“

Út af þessari þál., sem samþ. var 1. júní 1960. var bréf sent til Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands 16. júní s.l. Jafnframt óskaði ráðuneytið tillagna sambandsins um það, á hvern hátt hagkvæmast verði að framkvæma umrædda rannsókn og tillagnagerð.

Svör bárust frá bæði Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandinu, sem eru ekki lengri en það, að ég held, að ég geti, með leyfi hæstv. forseta, lesið þau upp. Þau eru svo hljóðandi:

Frá Vinnuveitendasambandinu: „Með vísun til bréfs yðar til vor, dags. 16. júní 1960, er fylgir þál. um rannsókn á starfsgrundvelli samstarfsnefnda launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja, þar sem óskað er eftir tillögum vorum um það, á hvern hátt hagkvæmast verði að framkvæma umrædda rannsókn og tillagnagerð, viljum vér taka fram, að vér teljum, að nefnd skipuð fulltrúum frá aðalsamtökum vinnuveitenda og launþega sé eðlilegasti vettvangurinn til að fjalla um málið.“

Og frá Allþýðusambandi Íslands, dags. 6. sept., svo hljóðandi: „Vér höfum móttekið bréf frá félmrn. um rannsókn á starfsgrundvelli samstarfsnefnda launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja, þar sem þess er óskað, að Alþýðusambandið geri tillögur um, á hvern hátt hagkvæmast sé -íð framkvæma umrædda rannsókn og tillagnagerð.

Er umrædd þáltill. var til umr. á Alþingi, létu ýmsir fulltrúar verkalýðssamtakanna í ljós, að þeir væru þess í sjálfu sér fýsandi, að samstarfsnefndum launþega og atvinnurekenda yrði komið á fót, þar sem slíkt samstarf gæti átt við og orðið að gagni, en það er einna helzt í stærri fyrirtækjum með verksmiðjusniði. En eigi þetta að takast, er það nauðsynlegt frumskilyrði, að gagnkvæmur vilji sé fyrir hendi milli aðilanna á vinnumarkaðinum. Veltur þar ekki sízt á vilja atvinnurekenda til að veita verkafólki sínu aðstöðu til slíks samstarfs.“

Bréfið er lengra, en að lokum segir í bréfinu: „Að lokum skal þetta tekið fram: Alþýðusambandið er fyrir sitt leyti hlynnt hugmyndinni um samstarfsnefndir innan stórra atvinnufyrirtækja og vill fúslega taka þátt í að undirbyggja slíkt samstarf, ef það fær hljómgrunn í röðum atvinnurekenda og hjá Vinnuveltendasambandi Íslands.”

Eftir að þessi svör bárust rn, frá samböndunum, Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandinu, sendi ráðuneytið þessar till. til samvinnunefndar atvinnurekenda og verkalýðsfélaga til umsagnar, en sú n. hefur verið starfandi síðan 1955.

Ráðuneytinu barst umsögn með bréfi, dags. 24. okt. s.l., frá samvinnunefndinni. Þar segir, að n. hafi samþ. að leitast við að semja drög að starfsreglum fyrir slíkar samstarfsnefndir, sem síðar yrðu send heildarsamtökum þeim, sem nefndirnar tilnefna, og öðrum þeim er ástæða væri talin til, með tilmælum um, að málið yrði ýtarlega rætt á þeim grundvelli, sem þannig fyndist, og hrundið í framkvæmd ef gerlegt þætti.

Þessi samvinnunefnd atvinnurekenda og verkalýðsfélaga er skipuð þessum mönnum: Björgvin Sigurðssyni framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, Gylfa Þ. Gíslasyni menntmrh., Karli Guðjónssyni alþm. og Þorvarði J. Júlíussyni framkvæmdastjóra, en þessi n. er til orðin, eins og ég sagði, vegna þáltill. hér á Alþingi frá 1955, 20. apríl, og hún hefur starfað síðan og tók þetta verkefni að sér, eins og kemur fram í bréfi hennar 24. okt. s.l., þannig að ég geri ráð fyrir, að hún gangi frá málinu fyrir sitt leyti, semji drög að tillögum, sem síðan verði sendar viðkomandi aðilum til athugunar og til þess að gera athugasemdir, ef þeim þykir rétt, að svo sé.